Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
Kona sem segir prest innan þjóðkirkjunnar hafa beitt sig kynferðisofbeldi fyrir ellefu árum síðan leitaði til teymis kirkjunnar vegna þess í nóvember í fyrra. Presturinn var sendur í leyfi í kjölfarið. Í sumar óskaði hún eftir því að könnun á málinu yrði hætt þar sem hún teldi teymið ekki óháð og að hún bæri ekki traust til þess.
Teymi þjóðkirkjunnar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar hefur hætt könnun á máli konu sem segir prest hafa beitt sig kynferðisofbeldi árið 2011 þegar hún var starfsmaður í sókn hans um tíma. Í kjölfar þess að konan tilkynnti málið til teymisins var presturinn leystur tímabundið frá störfum á meðan að það var til skoðunar hjá teyminu. Hann er enn í leyfi samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þeirrar kirkju sem hann starfar hjá.
Ástæða þess að teymið hætti könnun málsins er sú að konan bað um það. Hún telur teymið ekki vera óháð í störfum sínum og treystir því ekki. Í tölvupósti sem hún sendi á teymið í sumar segir að hún muni „ekki hafa samband meira og lít á vinnu ykkar sem lokna af minni hálfu. Ég læt ykkur ekki koma fram við mig eins og ykkur sýnist ég er búin að fá nóg af því frá hendi kirkjunnar fólki og þið eruð algjörlega framlenging af kirkjunnar fólki og ekkert annað.“
Sagði fyrst frá í byrjun árs 2019
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í desember í fyrra. Konan, sem vill ekki koma fram undir nafni, var kölluð Anna í umfjölluninni.
Þar kom fram að hún hafi fyrst sagt frá hinu meinta kynferðisofbeldi í byrjun árs 2019. Þá leitaði hún til annars prests og djákna sem hún treysti. Mannauðsstjóri var í kjölfarið kallaður til og sagt að það þyrfti að láta Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, vita af málinu.
Anna treysti sér ekki til að fara sjálf á fund Agnesar biskups. Hún treysti því ekki að biskup myndi trúa henni eða taka orð hennar alvarlega. Presturinn og djákninn sem hún leitaði til virtu þá ósk hennar og fóru þau á fund biskups fyrir hennar hönd í byrjun árs 2019 til þess að láta biskup vita af ásökununum. Anna fékk afhent ábyrgðarbréf frá biskupi í lok apríl sama ár.
Árið 2019 tók teymi þjóðkirkjunnar við umsjón og aðgæslu „fagráðs“ sem var ábyrgt fyrir málefninu frá árinu 1998. Um er að ræða teymi sem á að vera óháð kirkjunni og hefur það yfirlýsta hlutverk að stuðla að aðgerðum gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og veita stuðning og ráðgjöf við meðferð kynferðisbrota er kunna að koma upp innan þjóðkirkjunnar.
Teymi þjóðkirkjunnar er einungis skipað fagfólki og engum fulltrúa kirkjunnar – enda er teymið sjálfstæður vettvangur utan kirkjunnar, samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu. Starfsfólk þjóðkirkjunnar, þar með biskup, hafi ekki annað aðgengi að teyminu en að vísa málum þangað í ferlið.
Anna treysti ekki fagráðinu áður en því var breytt af þeirri ástæðu að í því sat alltaf prestur og vegna fyrri reynslu treysti hún ekki presti til að taka faglega á hennar máli.
Viðtal fékk hana til að leyta til teymisins
Þjóðkirkjan hefur sætt gagnrýni í gegnum tíðina fyrir að taka illa á kynferðisafbrotamálum innan kirkjunnar.
Pétur Georg Markan samskiptastjóri Biskupsstofu sagði í samtali við Kjarnann þann 22. október í fyrra að það væri skylda kirkjunnar að læra af þeirri sögu. Í viðtalinu greindi Pétur einnig frá því að eitt mál hefði borist inn á borð biskups sem Agnes hefði beint í formlegt ferli. Mál Önnu.
Viðtalið við Pétur fékk Önnu til að leita til hins nýja teymis þjóðkirkjunnar og hún fundaði með því 29. nóvember í fyrra.
Anna var svo kölluð á ný á fund teymisins 27. janúar í ár þar sem hún veitti frekari upplýsingar um atvik málsins. Í kjölfarið hófst formleg meðferð þess hjá teyminu og var stefnt að því að ljúka gerð álits um málið fyrir 1. maí. Í samræmi við verklagsreglur boðaði það umræddan prest á fund sinn til að bera ásakanir konunnar undir hann. Á meðan að á könnun málsins stóð sendi Anna líka tugi tölvupósta á teymið með viðbótarupplýsingum um málið. Þar gagnrýndi hún líka störf teymisins og setti fram efasemdir um að það bæri hag hennar fyrir brjósti.
Þegar leið á vorið varð teyminu ljóst að það myndi ekki ná að ljúka vinnunni fyrir tilsett tímamörk og 25. apríl óskaði það eftir því við Biskupsstofu að leyfi prestsins frá störfum yrði framlengt til 1. júlí.
Við þeirri beiðni var orðið.
Telur teymið ekki óháð og treystir því ekki
Í pósti sem formaður teymis þjóðkirkjunnar, lögmaðurinn Bragi Björnsson, sendi konunni snemma í sumar segir að í því viðtali sem tekið hafi verið við prestinn sem hún sakar um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi fyrir ellefu árum síðan hafi komið fram upplýsingar sem teymið taldi rétt að fá viðbrögð hennar við. Í viðtalinu sagði presturinn meðal annars að hann og konan hefðu átt í kynferðissambandi um nokkurt skeið fyrir mörgum árum síðan en neitaði því staðfastlega að hafa beitt hana ofbeldi og ásakaði konuna þess í stað um að beita sig andlegu ofbeldi með ýmsum hætti.
Konan sendi síðan tölvupóst á teymið 2. júní síðastliðinn og tilkynnti þeim þar að hún vildi að það hætti vinnu við hennar mál. Hún teldi það ekki óháð í störfum sínum og að traust hennar á teyminu væri ekkert. Þá sagði konan að hún teldi framkomu formanns teymisins í sinn garð óforsvaranlega „Ég mun ekki hafa samband meira og lít á vinnu ykkar sem lokna af minni hálfu. Ég læt ykkur ekki koma fram við mig eins og ykkur sýnist ég er búin að fá nóg af því frá hendi kirkjunnar fólki og þið eruð algjörlega framlenging af kirkjunnar fólki og ekkert annað.“
Í tölvupósti sem formaður teymisins sendi henni degi síðar sagði hann að teymið hefði staðið í þeirri trú að Anna vildi ekki koma til viðtals til að veita andsvör við þeim upplýsingum sem presturinn hefði veitt í viðtali sínu og því ynni það að áliti í málinu sem byggði á fyrirliggjandi upplýsingum. Það stæði þó til boða að konan kæmi til viðtals ef hún kysi svo.
Ekki á færi teymisins að taka afstöðu
Þann 9. júní tilkynnti teymið konunni að það hefði, í samræmi við beiðni hennar, hætt könnun málsins og lokið því formlega með ritun bréfs þar sem tilkynnt yrði um málalok og ástæður þeirra.
Í lokasamantekt um málið sem konan fékk senda, og er dagsett 28. júní, segir það liggi fyrir að það væri ekki á færi teymisins að taka afstöðu til ásakana konunnar um að umræddur prestur hafi beitt hana kynferðisofbeldi þar sem slík háttsemi varðaði við hegningarlög og rannsókn slíkra sakamála væri í höndum lögreglu. Þá yrði ekki séð að aðrar ávirðingar hennar á hendur prestinum „er varða slæma framkomu hans í hennar garð og hunsun séu þess eðlis að þær falli undir starfssvið teymisins“. Var þar vísað í að ávirðingar konunanar ættu rætur í „persónulegum samskiptum þeirra á milli í einkalífi en snúa ekki að hegðun X í starfi sem prests“.
Við það lauk könnun teymisins á erindi konunnar. Umræddur prestur er enn í leyfi samkvæmt upplýsingar á heimasíðu þeirrar kirkju sem hann starfar hjá.
Lestu meira:
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“