Þolendur kynfæralimlestinga, nauðgana, ofbeldis og fordóma sendir til baka til Grikklands
Tvær sómalskar konur standa nú frammi fyrir því að verða sendar til Grikklands af íslenskum stjórnvöldum og bíða þær brottfarardags. Þær eru báðar þolendur grimmilegs ofbeldis og þarfnast sárlega aðstoðar fagfólks til að vinna í sínum málum. Kjarninn hitti konurnar tvær til að ræða aðstæður þeirra og reynslu þeirra af yfirvöldum í Grikklandi.
Margir hælisleitendur eru í þeirri aðstöðu hér á landi að hafa verið synjað um efnislega meðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd á grundvelli þess að hafa fengið vernd í öðru landi. Tvær konur sem komu til Íslands fyrr á þessu ári eru í þeim hóp. Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar í málum þeirra beggja og bíða þær því þess að vera vísað úr landi.
Lögmaður þeirra, Claudia Ashanie Wilson, hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa og endurupptöku á máli þeirra en báðar eiga þær tíma hjá þvagfæraskurðlæknum vegna alvarlegra fylgikvilla limlestinga á kynfærum sem þær hafa orðið fyrir og gæti verið búið að senda þær báðar úr landi áður en þær fá þá nauðsynlegu hjálp.
Claudia segir að niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar endurspegli annars vegar enn harðari stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem hún fullyrðir að eigi bara eftir að versna, nema Íslendingar breyti viðeigandi lögum og framkvæmd þeirra með mannúð að leiðarljósi. Hins vegar endurspegli niðurstaðan afleiðingar þess að kynjajafnrétti og kynjasjónarmið nái ekki til málefna kvenna á flótta hér á landi.
Blaðamaður Kjarnans hitti konurnar tvær og með hjálp túlks sögðu þær sögu sína og hvernig þeim líður með það að vera sendar til baka til Grikklands. Ekki verður notast við raunveruleg nöfn þeirra heldur dulnöfnin Idil og Sahra.
Fékk ekki börnin til sín í Grikklandi
Idil fæddist í Sómalíu árið 1988 en flúði til Jemen eftir að henni var nauðgað af hópi manna þegar hún var við vinnu sína sem húshjálp árið 2005. Idil segir að í Jemen hafi hún gift sig og átt börnin sín þar. „Ég fór seinna til Íraks og síðan til Grikklands og að lokum til Íslands. Ég dvaldi í Írak í um ár og var það mjög erfitt. Það sama var upp á teningnum í Grikklandi en ég dvaldi þar í tvö ár,“ útskýrir hún.
Börn Idil búa enn í Jemen hjá fjölskylduvini. Þau eru 7, 10 og 12 ára en faðir þeirra hvarf í stríðinu þar. Hún segir að hún þrái ekkert heitar en að fá börn sín hingað til lands. „Dag og nótt gráta börnin mín – sérstaklega eldri drengurinn minn. Ég hef miklar áhyggjur af honum vegna þess að ég óttast að hann gangi í her uppreisnarmanna í Jemen vegna þess að hann fer ekki í skóla og fær þar af leiðandi enga menntun. Svo mig langar mikið að börnin mín komi hingað til mín,“ segir hún og á erfitt með að halda aftur af tárunum.
„Mestar áhyggjurnar sem ég hef varðandi börnin mín núna er líka að það er erfitt að nálgast vatn í Jemen og það er iðulega rafmagnslaust þar. Ég á, eins og ég sagði áðan, dreng sem er oft úti og hann hefur ekki talað við mig alla vikuna.“
Hvernig hefur dvöl þín verið hér á landi síðan þú komst í júní?
„Félagslega hefur Ísland reynst mér vel en ég á náttúrulega ekkert hér. Stend slipp og snauð – og hef ekki fengið nein leyfi til að vera hér frá stjórnvöldum.“
Hún segir að dvölin í Grikklandi hafi verið gríðarlega erfið. „Ég gekk í gegnum erfiða hluti þar, ég fékk engin tækifæri. Ég gat ekki fengið vinnu og mér var neitað um það að fá börnin mín til mín. Mér var sagt að það væri ekki möguleiki. Það var mjög erfitt. Ég þekkti engan á þessum slóðum sem gæti hjálpað mér,“ segir hún.
Þá útskýrir hún að Ísland sé mjög ólíkt Grikklandi, til dæmis hafi hún fengið tækifæri hér á landi til að fá þak yfir höfuðið og smá framfærslu til þess að komast af. „Ég tel að ef ég fengi vernd á Íslandi þá gæti ég fengið börnin mín til mín.“
Viltu lýsa þessum aðstæðum í Grikklandi aðeins nánar?
„Þegar ég kom fyrst til Grikklands var ég færð í flóttamannabúðir í tjald með 10 öðrum. Þegar þú sefur í þannig aðstæðum þá getur þú ekki einu sinni snúið þér við, það er svo þröngt. Það er ekki mögulegt að fara á klósettið á nóttunni af ótta við að vera rænt. Það kom einu sinni fyrir mig en ég fékk óvænta hjálp svo mér tókst að sleppa.“
Idil segir að hún hafi hræðst Afgana sem dvöldu í búðunum og óttaðist hún slagsmál og íkveikjur. „Ég var einu sinni lamin með flösku í hálsinn og það leið yfir mig.“
Matur stóð til boða en þá þurfti hún að standa í röð frá klukkan 10 um morguninn og stundum langt fram á dag. „Þá fékk ég kannski smá skammt af mat en stundum kláraðist maturinn áður en röðin kláraðist og þá fékk ég ekkert.“
Varð fyrir miklum fordómum á götum úti
Þegar Idil fékk vernd í Grikklandi og leyfi til að vera þar þá segir hún að hún hafi misst öll réttindi, til dæmis bæði tjaldið og alla framfærslu eða aðstoð. „Þetta var hræðilegt reynsla,“ segir hún og útskýrir að hún hafi orðið fyrir miklum fordómum á götum úti.
Henni var til að mynda neitað að koma inn í sumar verslanir. „Eigandinn bannaði mér þá að koma inn um dyrnar ef ég ætlaði að versla eitthvað. Ég lenti líka í því að krakkar hentu steinum í mig á götum úti og grísk manneskja neitaði að standa við hliðina á mér. Það þurfti alltaf að vera ákveðið bil á milli okkar. Þegar ég talaði við embættismenn þá hleyptu þeir mér ekki inn heldur heimtuðu að ég stæði fyrir utan dyrnar og að við myndum tala þannig saman.“
Þannig fékk hún sem hælisleitandi eilítið skjól og mat en eftir að hún fékk vernd þá fékk hún hvorugt. Þannig verða aðstæður Idil þegar hún verður send til baka af íslenskum stjórnvöldum.
Mig langar að þetta land, Ísland, verði síðasta landið þar sem ég sæki um vernd.
Glímir við líkamleg eftirköst eftir ofbeldi
Idil er þolandi kynfæralimlestinga og kynferðisofbeldis. Samkvæmt sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna er nauðsynlegt að hún fái frekari stuðning og meðferð en ljóst þykir að það muni reynast henni útilokað að fá slíka hjálp í Grikklandi. Idil telur það ljóst að henni sé það ómögulegt að afla sér nauðsynlegra skráninga í Grikklandi til að fá aðgengi að viðeigandi þjónustu og að henni standi ekki til boða raunhæf úrræði til verndar í Grikklandi vegna fordóma og ofbeldis í landinu. Einnig telur hún ljóst að hún muni ekki geta fengið börnin sín til sín í Grikklandi enda hafi henni verið synjað um slíkt áður þar í landi.
Í umsögn sálfræðings hjá Göngudeild sóttvarna kemur jafnframt fram að kærandi glími við mikla andlega erfiðleika í kjölfar þeirra áfalla og erfiðleika sem hún hafi orðið fyrir. Hún lýsi einkennum áfallastreituröskunar og glími við líkamleg eftirköst eftir ofbeldi. Idil þurfi frekari andlegan stuðning og meðferð og telji sálfræðingur nauðsynlegt að hún fái slíkan stuðning.
Í úrskurði kærunefndar sem birt ef á vefsíðu nefndarinnar kemur fram að Idil hafi greint frá því að hún hafi verið umskorin sem barn, skurðarsvæðið hafi rofnað þegar henni hafi verið nauðgað og hún verið saumuð aftur. Þá hafi einnig þurft að skera hana upp þegar hún hafi fætt börn sín. Hún hafi greint frá því að hún ætti við þvagvandamál að stríða og fengi mikla verki við tíðablæðingar.
Fram kom að hún hefði þörf fyrir tilvísun til þvagfæraskurðdeildar Landspítala eða sérfræðings. Idil bíður nú eftir tíma hjá slíkum lækni hér á landi en gæti verið vísað úr landi áður en hún kemst í hann.
Hvað vonast þú til að gerist í framtíðinni?
„Mig langar að mennta mig og ég vil að börnin mín fái tækifæri til að mennta sig. Mig langar að fá þau hingað til mín, það er mín helsta ósk. Mig langar að þetta land, Ísland, verði síðasta landið þar sem ég sæki um vernd.“
Börnin eru foreldralaus í Jemen eins og stendur, þar sem faðir þeirra er horfinn. Idil segir að hún hafi allt sitt líf þurft að treysta á sjálfa sig og hafi hún unnið fyrir sér. „Þegar stríðið braust út þá hvarf faðir barnanna og ég hreinlega veit ekki hvort hann sé lífs eða liðinn. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það er.“
Hún sá börnin sín síðast fyrir tveimur árum en það er enginn sími á heimilinu þar sem þau búa – og veldur það miklum vandræðum í samskiptum þeirra á milli og fær hún fá tækifæri til að heyra í þeim. „Það er helsta vandamálið varðandi elsta son minn. Hann fer mikið út sjálfur enda foreldralaus. Og það er enginn sími á heimilinu fyrir mig til að ná í hann og tala við hann.“
Mikið er um að uppreisnarmenn í Jemen þvingi barnunga drengi til að ganga til liðs við sig. Idil staðfestir þetta og segir að þeir noti iðulega mjög unga pilta í hernaði sínum og hefur hún þar af leiðandi miklar áhyggjur af syni sínum.
„Þannig að ég þrái ekkert heitar en að vera hér og fá börnin mín til mín.“
Var á götunni á Grikklandi við mjög erfiðar aðstæður
Sahra fæddist árið 1999 í Sómalíu og er því einungis 22 ára á þessu ári. Hún ákvað að yfirgefa heimalandið sitt í september 2019 vegna þess að þar átti að þvinga hana í hjónaband með meðlimi Al-Shabaab en hún er einnig þolandi kynfæralimlestinga. „Maðurinn var mikið eldri og ég vildi alls ekki giftast honum,“ segir hún í samtali við Kjarnann. „Mér fannst ég aldrei vera örugg og óttaðist ég um líf mitt.“
Leiðin lá til Grikklands þar sem hún dvaldi í eitt ár og sjö mánuði. „Þann tíma sem ég bjó í flóttamannabúðum, áður en ég fékk vernd lenti ég í miklum erfiðleikum. Það var eitthvað um Sómali í búðunum og stundum brutust út slagsmál milli þeirra og Afgana eða Arabanna. Stundum var kveikt í tjöldum og mér leið ekki vel þarna.“
Í úrskurði kærunefndar kemur fram að eftir að Sahra fékk alþjóðlega vernd hafi henni verið hent út úr búðunum, hún hafi misst framfærslu sína og eftir það hafist við á götunni við afar erfiðar aðstæður. Henni hafi verið boðinn peningur eða aðstoð í skiptum fyrir „kynlíf“. Þá hafi hún ítrekað óskað eftir aðstoð grískra stjórnvalda en ávallt verið synjað. Hún hafi reynt að finna atvinnu og verða sér úti um nauðsynlegar skráningar í Grikklandi en án árangurs. Hún hafi þurft að greiða fyrir skattnúmer og kennitölu auk þess sem hún hafi engar upplýsingar eða leiðbeiningar fengið frá grískum stjórnvöldum.
Þá kemur enn fremur fram að Sahra hafi ekki fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Grikklandi en hún hafi sjálf þurft að draga úr sér tönn. Þá hafi hún upplifað mikla fordóma í Grikklandi frá almenningi og lögreglan hafi ekki veitt henni aðstoð.
Ég fékk engan stuðning eftir ég fékk þessa vernd. Yfirvöld sögðu mér að ég væri á eigin vegum og þyrfti að finna út úr hlutunum sjálf.
Nauðgað daglega í mánuð
Sahra segir í samtali við Kjarnann að hún hafi í raun verið þvinguð í hjónaband í Grikklandi. Maðurinn hafi sagst vera breskur ferðamaður sem lofaði henni betra lífi en yfirgaf hana eftir einn mánuð. Hún segir að sá tími hafi verið hræðilegur.
Samkvæmt Söhru var henni stranglega bannað af manninum að fara út fyrir veggi hótelsins á þeim tíma. Hann hafi nauðgað henni daglega í mánuð – sem sagt allt „kynlífið“ hafi verið án hennar samþykkis. Hún greinir frá því að hann hafi bundið hendur hennar og gert það sem honum sýndist og oftar en einu sinni hafi hún liðið út af vegna sársauka og blóðtaps.
Til viðbótar við það að hafa beitt hana grófu kynferðislegu ofbeldi í mánuð, segir hún hann hafa beitt hana grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi og meðal annars sagt henni að hún væri einskis virði og hafi alltaf kvartað um að „kynlíf“ með henni væri ekki nógu gott. Samkvæmt Söhru sýndi maðurinn ekki neina miskunn þrátt fyrir ákall hennar þar um þegar hann stundaði „kynlíf“ með henni. Hún segir að maðurinn hafi notfært sér aðstæður hennar, það er heimilis- og matarleysið og hafi platað hana í þessar aðstæður áður en hún vissi af. Hún telur að hún hafi verið fórnarlamb mansals og gerð að kynlífsþræl.
Sahra segist ekki vita hvar maðurinn sé nú niðurkominn. „Hann sagði við mig að hann væri ekki fullnægður vegna þess að kynfæri hennar væru lemstruð eftir umskurð,“ segir hún.
Finnur fyrir miklum vonbrigðum og svekkelsi eftir Grikklandsdvölina
Sahra kom til Íslands í júní síðastliðnum. „Fyrst þegar ég kom hingað var vel tekið á móti mér og ég var ánægð. Síðan ég fékk neitunina hef ég aftur á móti ekki sofið almennilega og ég er mjög áhyggjufull varðandi framtíðina. Ég bjóst við betra lífi. Ég er kona og þarf mikinn stuðning og ég get ekki farið til baka til Sómalíu vegna þeirra erfiðleika sem ég stóð frammi fyrir þar.“
Hún segir að hennar helsta ósk sé að búa og vinna á Íslandi. „Ég hafði miklar væntingar varðandi framtíð mína en eftir að ég kom til Grikklands þá lenti ég í ömurlegum atburðum. Mig hefur alltaf langað til að líf mitt sé á einhverri leið áfram en eftir Grikkland þá finn ég fyrir miklum vonbrigðum og svekkelsi og mér líður ekki vel núna.“
Fékkst einhverja hjálp eftir að þú fékkst vernd í Grikklandi frá þarlendum yfirvöldum?
„Nei, ég fékk engan stuðning eftir ég fékk þessa vernd. Yfirvöld sögðu mér að ég væri á eigin vegum og þyrfti að finna út úr hlutunum sjálf. Ég vissi aldrei hvert ég ætti að leita og ég svaf oft á götunni með öðru heimilislausu fólki. Suma daga gat ég fundið eitthvað að borða, aðra ekki. Svo nei, ég fékk engan stuðning frá grískum yfirvöldum,“ segir hún.
Hún bendir á að sá sem á ekkert, er ekki með nauðsynlegt auðkennisnúmer og hefur engan stuðning eigi erfitt með að leita sér að vinnu.
Eins og Idil er Sahra þolandi kynfæralimlestinga og hefur hún þurft að ganga í gegnum líkamlegar þjáningar vegna þessa. Hún telur að hún geti ekki fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Hún á, eins og Idil, tíma hjá þvagfæraskurðlækni til þess að fá bót meina sinna en Útlendingastofnun hafði áður synjað þeim um þessa þjónustu. Hún bíður nú en tíminn mun leiða í ljós hvort hún komist til læknis og eftir atvikum í lífsnauðsynlega skurðaðgerð hér áður en hún verður send úr landi.
Þessar tvær konur í sérstaklega viðkvæmri stöðu
Claudia Ashanie Wilson, lögmaður kvennanna, segir í samtali við Kjarnann að þessi tvö mál eigi það sameiginlegt að þau varði konur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem orðið hafa fyrir fjölmörgum mannréttindabrotum og kynbundnu ofbeldi í heimaríki, á leið til Grikklands og ekki síður í Grikklandi.
„Þær eru fórnarlömb mansals, kynfæralimlestingar, nauðgana, þar með talið hópnauðgana, ýmiss andlegs og líkamlegs ofbeldis, jafnvel frá lögreglu í Grikklandi. Þær þurfa að lifa við afleiðingar þessa ofbeldis, meðal annars þurfa báðar á skurðaðgerð að halda, sem var hafnað af stjórnvöldum þótt það sé mat sérfróðs læknis að þessar aðgerðir séu þeim nauðsynlegar,“ bendir hún á.
Hvað telur þú að muni gerast fyrir þessar tvær konur þegar þær verða sendar til Grikklands?
„Þrátt fyrir sérstaklega viðkvæma stöðu þeirra, hina óumdeildu staðreynd að þær verði við endurkomu til Grikklands aftur sendar út á götuna án viðunandi húsnæðis og berskjaldaðar – enda hafa íslensk stjórnvöld ekki dregið trúverðugleika frásagna þeirra í efa – telja stjórnvöld að það sé öruggt fyrir þær að snúa aftur til Grikklands,“ segir hún.
Claudia telur að sú niðurstaða endurspegli annars vegar enn harðari stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem hún fullyrðir að eigi bara eftir að versna, nema Íslendingar breyti viðeigandi lögum og framkvæmd þeirra. Hins vegar endurspegli sú niðurstaða afleiðingu þess að kynjajafnrétti og kynjasjónarmið nái ekki til málefna kvenna á flótta.
Þrátt fyrir sérstaklega viðkvæma stöðu þeirra, hina óumdeildu staðreynd að þær verði við endurkomu til Grikklands aftur sendar út á götuna án viðunandi húsnæðis og berskjaldaðar [...] telja stjórnvöld að það sé öruggt fyrir þær að snúa aftur til Grikklands.
Hvað ert þú núna að gera til að sporna við því að þær verði sendar úr landi?
„Ég hef starfað á þessu sviði í mörg ára en hef aldrei séð stjórnvöld leggja mat á umsóknir viðkvæmra kvenna þar sem tekið er tilliti til ákvæða kvennasáttmálans, evrópuráðssamnings um aðgerðir gegn mansali eða hins nýja Istanbúl-samnings, sem hefur verið fullgiltur hér á landi sem ég tel að kunni að hafa áhrif á niðurstöðu máls kvennanna.“
Hún bendi á grein í Istanbúl-samningnum sem segir að:
„Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að virða þá meginreglu í samræmi við skyldur þjóðaréttar að vísa hælisleitanda ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.
Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að konur sem verða fyrir ofbeldi og þarfnast verndar skuli, óháð stöðu þeirra eða búsetu, ekki undir neinum kringumstæðum vera sendar úr landi til nokkurs lands þar sem líf þeirra kann að vera í hættu eða þar sem þær gætu átt á hættu að sæta pyntingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“
Claudia segir að það virðist sem að stjórnvöld líti ekki svo á að ákvæði þessa samninga nái einnig til kvenna á flótta líkt og umbjóðendum hennar og taki aldrei tilliti til þeirra við afgreiðslu umsóknar þessa hóps kvenna.
„Þetta er algjör misskilningur. Markmið mitt er fyrst og fremst að bjarga þessum konum. Ekki síst er það mitt markmið að varpa ljósi á þetta vandamál og að sjá til þess að stjórnvöld breyti núverandi framkvæmd og geri sér grein fyrir því að kvenréttindi eru mannréttindi sem ná einnig til kvenna á flótta.“
Kynjamisrétti gerist einnig á meðal fólks á flótta
Af hverju er þessi kvennavinkill mikilvægur?
„Það er grundvallaratriði að stjórnvöld geri sér grein fyrir því sem aðgreinir konur á flótta frá körlum á flótta, en staðreyndin er sú að kynjamisrétti gerist ekki bara hjá sínum samfélagsþegnum heldur einnig á meðal fólks á flótta.“
Vísar Claudia í yfirlýsingu frá UN WOMEN, KFRI, Amnesty Íslandsdeildar, SOLARIS, NO-BORDERS og Samtök kvenna af erlendum uppruna sem hún tekur heilsusamlega undir en í henni kemur fram að kyn og kyngervi skipti miklu máli þegar fjallað eru málefni flóttafólks. Það sé staðreynd að staða kvenna á flótta sé sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem hættunni á kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi.
„Mál umbjóðenda minna eru skýr dæmi um þetta,“ segir hún.
„Þessi mál einfaldlega fylltu mælinn“
Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, var talsmaður Idil og Söhru og þekkir þær og mál þeirra vel.
„Þessi mál einfaldlega fylltu mælinn,“ segir hann í samtali við Kjarnann þegar hann er spurður út í það hvað sé sérstakt við mál þessara tveggja kvenna.
Hann bendir á að almennar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Grikklandi séu í einu orði sagt hræðilegar. Íslensk stjórnvöld viðurkenni það fúslega en í úrskurðum kærunefndarinnar komi meðal annars fram að þær hafi báðar lifað á jaðri grísks samfélags. Það sé ekkert húsnæði sérstaklega ætlað fyrir þær eða aðrar konur eða karla í þeirra stöðu og nær ómögulegt að nálgast framfærslu og aðra félagslega aðstoð. Það sé kannski ekki ómögulegt, en næstum því, að fá þar nauðsynlegar skráningar. Einnig sé gríðarlegt atvinnuleysi í Grikklandi og þeir sem tali ekki stakt orð í grísku eða ensku hafi nær enga möguleika til að finna atvinnu þar vegna fordóma.
Hann segir að þetta almenna ástand gildi fyrir alla en að í þessum tveimur málum séu það þær kynbundnu ástæður og ofsóknir sem þær hafi orðið fyrir sem geri þær enn viðkvæmari. „Þær eru einstæðar og þær koma úr menningu þar sem konur verða að treysta á karlkyns ættingja eða eiginmann. Þær hafa ekkert slíkt. Þær hafa báðar lent í mjög grófum kynbundnum ofsóknum – sem dæmi nauðgunum, þvinguðum hjónaböndum og kynfæralimlestingum – og það er verið að senda þær aftur á götuna í Grikklandi þar sem þeim voru ítrekað boðnir greiðar eða peningar í staðinn fyrir kynlíf.“
Vilji íslenskra stjórnvalda að gera þetta eins hratt og þau komast upp með
Telur Albert skorta heildarmat hjá Útlendingastofnun og kærunefndinni á stöðu þeirra og segir hann að ekki hafi verið tekið tillit til persónulegra aðstæðna þessara kvenna.
„Það þarf að líta á stöðu þeirra í heild sinni,“ segir hann.
Af hverju er það ekki gert?
„Sennilega vegna þess að stjórnvöldum finnst þeim ekki bera skylda til þess og því líta þau ekki til þessara þátta. Þau segjast gera það, sérstaklega kærunefnd útlendingamála, en þegar maður les úrskurðina er alveg augljóst að það er ekki litið til þeirra lögbundnu aðstæðna sem þarf að líta til og þetta lögbundna heildarmat er ekki unnið.“
Hann segir að beiðnum um frestun réttaráhrifa sé nánast undantekningarlaust hafnað þannig að í raun og veru gætu þessar tvær konur verið fluttar til Grikklands á morgun.
„Stoðdeild lögreglunnar hamast við að reyna að senda fólk til Grikklands. Það er engin töf á því af hálfu yfirvalda en það fer alltaf aðeins eftir samvinnu einstaklinganna og það eru ýmsar kröfur gerðar núna á borð við COVID-sýnatöku þannig að af þeim ástæðum getur brottvísun til Grikklands frestast – en það er vilji íslenskra stjórnvalda að gera þetta eins hratt og þau komast upp með.“
Hvað telur þú að gerist fyrir þessar tvær konur þegar og ef þær verða senda til Grikklands?
„Þær munu enda á götunni. Það eru engar ýkjur. Ég hef verið með fjölskyldur sem hefur verið brottvísað frá öðrum Evrópuríkjum til Grikklands þar sem þær höfðu vernd þar, til dæmis eina sex manna fjölskyldu og þau höfðust við í tjaldi í almenningsgarði þegar þeim var snúið aftur til Grikklands. Það er mjög algengt – og þetta vita íslensk stjórnvöld enda er fullt til af heimildum sem fjalla um stöðuna í Grikklandi.“
Telur hann að íslensk stjórnvöld líti svo á að aðstæður í Grikklandi séu bara ekki „nógu“ slæmar þrátt fyrir allt.
Hvað þarf að breytast að þínu mati hér á landi í þessum málum?
„Það þarf að fylgja lögunum sem voru sett árið 2016 og anda þeirra. Það sem hefur breyst er að þegar lögin voru sett þá fylgdu þeim ákveðnar vonir um mannúðlega meðferð en það hefur skolast hratt undan þeim grunni í meðförum framkvæmdavaldsins.“
Albert segir að til dæmis hafi átt að taka tillit til sérstaklegrar viðkvæmrar stöðu sem þessar konur sem hér er fjallað um falli augljóslega undir. „En með framkvæmd kærunefndar útlendingamála og Útlendingastofnunar og með nýlegri reglugerð sem ráðherra hefur sett hefur kvarnast mjög hratt úr þeim áætlunum og þeim grunni sem hefur verið lagður undir þessi lög. Og það er mjög miður.“
Bendir hann á að þetta eigi ekki einungis við um einstæðar konur sem hingað koma heldur um sendingar barna og barnafjölskyldna til Grikklands en margar fjölskyldur bíða nú brottflutnings, að hans sögn.
Þarf að kortleggja áföllin faglega
Albert tekur undir með núverandi lögmanni kvennanna að Íslendingar séu ekki að fylgja eftir Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann segir að í aðgerðaáætlun sem íslensk stjórnvöld hafi sett sér komi fram að það þurfi að upplýsa konur um þá sérfræðiaðstoð sem þeim standi til boða.
„Þetta á meðal annars við um Söhru og Idil sem og konur sem lent hafa í mansali en það eru dæmi um að hingað leiti konur frá Nígeríu sem hafi stoppað á Ítalíu og verið þar þvingaðar í vændi og lent í raun í mjög grófu ofbeldi. En jafnvel þrátt fyrir þessa aðgerðaáætlun þá fylgja íslensk stjórnvöld hvorki þeim fyrirheitum að greina mansalið né að veita fólki nauðsynlega aðstoð.“
Hann segir að þegar fólk er í þessari óvissu, sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eru iðulega í, þá sé erfitt að fara að vinna úr þeim áföllum sem dunið hafa yfir það. „Það sem þarf hins vegar að gera er að kortleggja þessi áföll faglega svo stjórnvöld geti metið stöðu þeirra rétt við meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi.“
Fyrirséð að flóttafólk fái enga aðstoð í Grikklandi
Varðandi mál þessara tveggja kvenna sem hér er fjallað um þá segir Albert að ótti þeirra sé ekki aðeins huglægur – hann sé líka hlutlægur og mjög raunverulegur.
„Þrá Söhru er aðeins eftir einhverju normi og stöðugleika, öryggi. Allir hælisleitendur sem ég hef hjálpað byrja mjög fljótt að vinna ef þeir fá hér vernd. Þeir eru duglegir að sækja um störf og bjarga sér. Ég er búin að vera hjá Rauða krossinum í fimm ár og það er mjög oft sem maður hittir þá í verslun eða einhvers staðar. Það er það sem fólk þráir mest; öryggi, stöðugleika og að byggja upp líf sitt.“
Hann segir að honum finnist auðvitað alltaf erfitt þegar fólk er sent til Grikklands en honum finnist það sérstaklega erfitt þegar fólk kemur svona brotið hingað til lands. „Það getur ekki einu sinni tryggt öryggi sitt á Grikklandi og það er erfitt að horfa upp á það.“
Albert bendir jafnframt á að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd koma fyrst til Grikklands og neytt til að sækja þar um alþjóðlega vernd þá taki við þeim kerfi sem rekið sé af Sameinuðu þjóðunum í flestum tilfellum.
„Fólkið er í ömurlegum aðstæðum en fær þó eitthvað skjól, fær smá mat og í sumum tilfellum einhverja framfærslu. Þegar fólkinu er veitt vernd þá dettur það hins vegar út úr þessu kerfi algjörlega og þarf þá að fara að treysta á gríska kerfið og það er bara ekki til staðar. Sérstaklega ekki þegar það talar hvorki grísku né ensku enda engin tungumálakennsla í boði. Útlendingastofnun dregur það til að mynda ekki í efa í málum Idil og Söhru að þær hafi verið án húsnæðis, framfærslu og atvinnu í Grikklandi áður en þær flúðu til Íslands.“
Hann segir að fólk í þessari aðstöðu hafi ekki heldur aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu í Grikklandi, sérstaklega ekki sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Að lokum verði að minnast á þá fordóma sem flóttafólk verði fyrir í Grikklandi, jafnvel ofbeldi – það meira að segja af hálfu grísku lögreglunnar og embættismanna. „Það segja þetta svo margir – að maður veit að þetta er satt – að þegar fólki er afhent dvalarleyfin og ferðaskilríkin í Grikklandi þá er þeim bent á að það geti nú ferðast um alla Evrópu og það fái enga aðstoð í Grikklandi.“
Vegna alls þessa – vegna ömurlegra aðstæðna í Grikklandi og áfallasögu þessara kvenna – þá hefði Albert viljað sjá aðra niðurstöðu í málum þeirra Idil og Söhru. „Já, ég viðurkenni það, þetta er ömurlegt,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi