Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
Saga Ölmu íbúðafélags teygir sig aftur til ársins 2011 og skýrslu sem meðal annars var unnin af núverandi seðlabankastjóra. Félagið, sem var einu sinni í eigu sjóðs í stýringu hjá hinu sáluga GAMMA og hét um tíma Almenna leigufélagið, hefur oft verið ásakað um að okra á leigjendum. Nú síðast þegar 65 ára gömul einstæð kona fékk tilkynningu um 78 þúsund króna hækkun á leigu, upp í 328 þúsund krónur á mánuði.
Á þriðjudagskvöld greindi Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, frá því á Facebook-síðu sinni að hann hefði fengið tölvupóst frá leigutaka á almennum leigumarkaði. Pósturinn var frá konu sem heitir Brynja Bjarnadóttir, er 65 ára einstæð kona og sjúklingur sem leigir hjá Ölmu íbúðafélagi. „Alma býður henni nýjan 12 mánaða leigusamning sem mun taka gildi frá byrjun febrúar á næsta ári með hækkun upp á 75.247 kr. á mánuði miðað við vísitölu í nóvember, sem var 555,6 en er komin 560,9. Það þýðir að hækkunin sem henni stendur til boða verður 78.347 kr. á mánuði frá og með febrúar næstkomandi en fer að öllum líkindum hækkandi fram að þeim tíma.“ Leiga Brynju myndi samkvæmt þessu hækka upp í 328 þúsund krónur á mánuði.
Þessi tíðindi vöktu hörð viðbrögð víða. Rætt var um þau á þingi þar sem Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, fór fram á að sett yrðu neyðarlög til að verja heimili landsins fyrir hækkunum eins og þessum. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók undir gagnrýnina og sagði hækkunina „óforsvaranlega“. Ekki væri hægt að þola hvaða framkomu sem er gagnvart leigjendum.
Framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags, Ingólfur Árni Gunnarsson, hefur enn sem komið er neitað að koma í viðtöl vegna málsins en sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudagskvöld þar sem sagði meðal annars að Alma væri „nauðbeygð til að hækka leiguverð.“
Ekki minnkaði óróinn þegar greint var frá því að hagnaður Ölmu hafi verið 12,4 milljarðar króna í fyrra. Ofan á það nam hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 4,7 milljörðum króna. Samanlagt hagnaðist félagið því um 17,1 milljarð króna á 18 mánuðum, eða um 950 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Í áðurnefndri yfirlýsingu Ingólfs sagði að hagnaðurinn væri að mestu tilkominn vegna matsbreytinga á eignum og hækkun á virði hlutabréfa sem Alma á í. Þar er um að ræða hluti í fasteignafélögunum Eik, Reitum og Reginn sem öll eru skráð á markað. Þeir hlutir eru í gegnum dótturfélagið Brimgarða, sem er stærsti einstaki eigandi Eikar með 16,5 prósent hlut, stærsti einkafjárfestirinn í Reitum með 5,6 prósent hlut og í Reginn með 3,9 prósent hlut. Þessi þrjú fasteignafélög eru langstærstu slíku félögin á Íslandi. Sameiginlegt heildarmarkaðsvirði þeirra er um 159 milljarðar króna.
Í eigu fjögurra systkina og fjölskyldna þeirra
Undir Ölmu íbúðafélag heyra níu dótturfélög. Auk Brimgarða eru það Alma langtímaleiga ehf., Alma hótelíbúðir ehf., FS Glaðheimar ehf., Glaðsmíði ehf., Höfuðborgin okkar ehf., U26 ehf., Ylma ehf. og 14. júní ehf.
Eigandi Ölmu er fjárfestingafélagið Langisjór. Það er stórtækt í matvælaframleiðslu og á meðal annars Mata hf., Matfugl ehf. Salathúsið ehf. og Síld og fisk ehf. Langisjór hagnaðist alls um 13,7 milljarða króna í fyrra og eigið fé þess var 23 milljarðar króna. Félagið er að í eigu fjögurra systkina: Eggerts, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslasona og fjölskyldna þeirra. Á samfélagsmiðlum síðustu daga hafa margir hvatt til þess að allar vörur sem fyrirtæki í eigu Langasjávar selja verði sniðgengnar. Á meðal þeirra er Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Færslu hans hefur verið deilt yfir 1.200 sinnum.
Hér eru vörumerki sem fólk ætti að sniðganga ef því blöskrar 30% hækkun leigu hjá Ölmu leigufélagi. Systkinin sem eiga...
Posted by Gunnar Smári Egilsson on Thursday, December 8, 2022
Langisjór stóð frammi fyrir fleiri vandræðum í síðustu viku. Á föstudag staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem snerist um viðskipti með skuldabréf milli tengdra félaga í samstæðunni sem mynduðu skattalegt tap. Áður hafði ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd komist að þeirri niðurstöðu að um sýndargjörning hafi verið að ræða til að skapa afföll upp á skuldabréfunum. Þau afföll voru svo nýtt til að lækka skattstofn og borga lægri skatta. Annað félagið innan samstæðunnar, 14. júní ehf., skapaði afföll með skuldabréfasölu innan samstæðu upp á 859 milljónir króna sem nýtt voru til að draga verðbætur og afföll upp á 306 milljónir króna frá tekjum félagsins um margra ára skeið. Hitt félagið, Brimgarðar, skapaði afföll með skuldabréfasölu upp á 1,26 milljarða króna og dró verðbætur og afföll upp á 940 milljónir frá tekjum félagsins.
Nú hefur verið staðfest af ríkisskattstjóra, yfirskattanefnd, Héraðsdómi og Landsrétti að þetta hafi verið ólöglegt.
Skýrsla gerð árið 2011 af seðlabankastjóra og frægum trommara
Ljóst má vera að ofangreindu að Alma Íbúðafélag er sú eining sem skilar þorra hagnaðarins í til Langasjávar. Félagið rekur á og rekur tæplega 1.200 íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar um landið.
Langisjór keypti Ölmu í febrúar í fyrra á um ellefu milljarða króna. Alma, sem hafði áður verið í eigu GAMMA, á sér hins vegar lengri sögu, sem teygir sig aftur til ársins 2011.
Það ár var Sölvi Blöndal, hagfræðingur sem var þekktastur fyrir að hafa verið trommari og driffjöður hljómsveitarinnar Quarashi, og Ásgeir Jónsson, þá efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands en í dag seðlabankastjóri, beðnir um að skrifa skýrslu um fasteignamarkaðinn á Íslandi. Þar kom fram að húsnæðisverð hefði lækkað mikið árið 2009 og hefði ekki náð sér eftir það. Lítið sem ekkert hafði þá verið byggt af nýju húsnæði á Íslandi frá hruni og von var á risastórum árgöngum á markaðinn. Leiguverð hefði sömuleiðis lækkað eftir hrunið og leiga væri 20 til 30 prósent lægri að raunvirði en hún hafði verið árið 2007. Niðurstaða skýrslunnar var að fyrirsjáanlegur skortur væri á húsnæði og að það væri tækifæri að myndast til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði.
Keyptu upp húsnæði í miðborginni og grónum hverfum
Skýrslan var kynnt fyrir hópi fjárfesta á lokuðum fundi í lok árs 2011. Þeir sáu tækifærin sömuleiðis og tveir fagfjárfestasjóðir, GAMMA: Centrum og GAMMA: Eclipse, voru settir á laggirnar til að kaupa upp lítið og meðalstórt íbúðarhúsnæði í miðborg Reykjavíkur og grónum hverfum í kringum hana. Það var gert án þess að mikið færi fyrir því. Það lá á að ná að kaupa eins mikið og hægt væri áður en að aðrir rynnu á lyktina. Það tókst vel.
Tveimur árum síðar var eftirspurnin eftir leiguhúsnæði orðin margfalt framboðið á slíku. Búið var að stofna leigufélag, sem síðar fékk nafnið Almenna leigufélagið, utan um útleigu íbúðanna sem sjóðirnir sem GAMMA stýrðu höfðu keypt, sem voru þá nokkur hundruð. Ljóst var á þróun íbúða- og leiguverðs að greiningin sem sett hafði verið fram í lok árs 2011 hafði verið hárrétt. Og hækkanir meira að segja meiri en menn reiknuðu með. Fjárfestar, sem voru meðal annars lífeyrissjóðir, högnuðust vel.
„Búa til bólu sem springur eins og graftarkýli á unglingi“
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er þó ekki eins og að fjárfesta í verðbréfum eða atvinnuhúsnæði. Hún getur haft bein áhrif á daglegt líf fólks. Fyrir því fékk GAMMA og Almenna leigufélagið að finna.
Fyrirtækið var gagnrýnt fyrir að hafa skrúfað upp leiguverð, fyrir að beita þrýstingi á íbúðareigendum í fjölbýlishúsum sem sjóðir þess höfðu keypt sig inn í til að selja og fyrir að vera erfitt í samstarfi við aðra íbúðareigendur þegar kom að viðhaldi.
Í viðtali við Fréttatímann sáluga sem birt var 22. mars 2013 sagði Svanur Guðmundsson, þá formaður Félags löggiltra leigumiðlara:„ „Þeir eru að búa til bólu sem springur eins og graftarkýli á unglingi. Þeir eru líka eins og unglingar á þessum markaði. Þetta eru bara verðbréfamiðlarar sem eru í öðrum heimi. Það kæmi mér ekkert á óvart að leiguverðið þyrfti að hækka um fimmtíu prósent til að standa undir verði eignanna. Þessir menn eru ekki tengdir inn á hinn almenna borgara.“
Forsvarsmenn GAMMA tóku gagnrýninni illa og töldu hana ómaklega. Þeir bentu á að þeir hefðu hvorki verið ráðandi á leigumarkaði og að stóraukin útleiga á íbúðarhúsnæði til ferðamanna í gegnum AirBnB hefði miklu meiri áhrif til hækkunar á leiguverði en umsvif sjóða GAMMA.
„Óþekkt húsnæðisöryggi“
Árið 2018 var GAMMA komið í mikinn rekstrarvanda og greint var frá því að Kvika banki væri að kaupa félagið. Þegar þau kaup gengu eftir færðist sjóðurinn sem hélt á Almenna leigufélaginu til bankans, en raunverulegir eigendur þess voru þó fjárfestarnir í þeim sjóði.
Vorið 2019 var Almenna leigufélaginu breytt í Ölmu. Í tilkynningu vegna þessa sagði að Alma myndi bjóða áður „óþekkt húsnæðisöryggi“ á íslenskum leigumarkaði. Til stæði að gefa leigjendum kostur á að leigja til allt sjö ára á föstu leiguverði sem væri einungis tengt vísitölu neysluverðs. Allir leigusamningar yrðu gerðir til árs í senn en að ári liðnu hefði leigjandinn einhliða rétt á að framlengja samninginn um annað ár. „Þegar samningur er framlengdur kemur ekki til neinnar hækkunar á leiguverði umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og er því leiguverð tryggt til allt að sjö ára,“ sagði í tilkynningunni.
Skömmu áður hafði Ragnar Þór, formaður VR, mótmælt fyrirhuguðum hækkunum á leigu hjá Almenna leigufélaginu með því að hóta að taka út rúma fjóra milljarða króna sem VR á í stýringu hjá Kviku. Í bréfi sem stjórn VR birti sagði meðal annars: „„VR hafa borist gögn með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur sína þar sem enn á ný er án fyrirvara, eða nokkurra haldbærra raka, krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina ellegar vera hent á götuna án húsaskjóls. Umhugsunarfrestur sem leigjendum er gefinn til að samþykkja eða hafna tilboðinu er einungis fjórir dagar. Ljóst er að tugþúsunda hækkun á leigu gerir væntar hækkanir sem VR er nú að semja um við Samtök atvinnulífsins að engu,“ segir í bréfinu.“
Eftir fundi milli formanns VR og framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins var ákveðið að falla frá hækkuninni.
Langisjór keypt svo, líkt og áður sagði, Ölmu í febrúar í fyrra. Kaupin voru fjármögnuð af Arion banka.
Margir búa við íþyngjandi leigukostnað
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) fær markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent árlega til að gera leigukannanir fyrir sig.
Í þeirri síðustu, sem var gerð 10. júní til 14. september síðastliðinn, að 44 prósent leigjenda hjá einkareknum leigufélögum á borð við Ölmu greiddu yfir 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Til samanburðar greiddu 26 prósent þeirra sem leigðu af óhagnaðardrifnu leigufélagi meira en helming ráðstöfunartekna sinna í leigu. Um 13 prósent leigjenda einkarekinna leigufélaga eða á almenna markaðnum greiða yfir 70 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu en átta prósent þeirra sem leigja af óhagnaðardrifnum félögum.
Í könnuninni kom fram að 84 prósent þeirra sem leigja íbúð af óhagnaðardrifnum leigufélögum, á borð við Bjarg eða Bríet, voru ánægðir með húsnæðið sem þeir leigja. Þeir eru ánægðastir allra á leigumarkaði og hjá þeim mælist mesta húsnæðisöryggið.
Í könnun sem Öryrkjabandalagið (ÖBÍ) lét Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gera nýverið kom fram að fatlað fólk væri mun líklega til að vera á leigumarkaði og borga stærri hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað en aðrir á Íslandi. Alls sögðust 64 prósent svarenda sem búa í leiguhúsnæði eða við annars konar búsetuskilyrði húsaleigu eða afborganir af húsnæðislánum vera þunga eða nokkra byrði.
Í síðustu mánaðarskýrslu HMS kom fram að um 28 prósent af ráðstöfunartekjum leigjenda fari að jafnaði í leigu sem er fjórða hæsta hlutfallið í löndum OECD. Það er þó mjög svipað hlutfall og á hinum Norðurlöndunum enda eru aðstæður hér að mörgu leyti svipaðar. Þetta eru til að mynda allt þjóðir þar sem tekjur eru háar og tekjujöfnuður mikill í samanburði við önnur lönd.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember