Mynd: Pexels

Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum

Saga Ölmu íbúðafélags teygir sig aftur til ársins 2011 og skýrslu sem meðal annars var unnin af núverandi seðlabankastjóra. Félagið, sem var einu sinni í eigu sjóðs í stýringu hjá hinu sáluga GAMMA og hét um tíma Almenna leigufélagið, hefur oft verið ásakað um að okra á leigjendum. Nú síðast þegar 65 ára gömul einstæð kona fékk tilkynningu um 78 þúsund króna hækkun á leigu, upp í 328 þúsund krónur á mánuði.

Á þriðju­dags­kvöld greindi Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR, frá því á Face­book-­síðu sinni að hann hefði fengið tölvu­póst frá leigu­taka á almennum leigu­mark­aði. Póst­ur­inn var frá konu sem heit­ir Brynja Bjarna­dótt­ir, er 65 ára ein­stæð kona og sjúk­lingur sem leigir hjá Ölmu íbúða­fé­lagi. „Alma býður henni nýj­an 12 mán­aða leig­u­­samn­ing sem mun taka gildi frá byrj­­un fe­brú­ar á næsta ári með hækk­­un upp á 75.247 kr. á mán­uði miðað við vísi­­tölu í nóv­­em­ber, sem var 555,6 en er kom­in 560,9. Það þýðir að hækk­­un­in sem henni stend­ur til boða verður 78.347 kr. á mán­uði frá og með fe­brú­ar næst­kom­andi en fer að öll­um lík­­ind­um hækk­­andi fram að þeim tíma.“ Leiga Brynju myndi sam­kvæmt þessu hækka upp í 328 þús­und krónur á mán­uði.

Þessi tíð­indi vöktu hörð við­brögð víða. Rætt var um þau á þingi þar sem Ást­hildur Lóa Þórs­dótt­ir, þing­maður Flokks fólks­ins, fór fram á að sett yrðu neyð­ar­lög til að verja heim­ili lands­ins fyrir hækk­unum eins og þess­um. Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, tók undir gagn­rýn­ina og sagði hækk­un­ina „ófor­svar­an­lega“. Ekki væri hægt að þola hvaða fram­komu sem er gagn­vart leigj­end­um. 

Fram­kvæmda­stjóri Ölmu leigu­fé­lags, Ingólfur Árni Gunn­ars­son, hefur enn sem komið er neitað að koma í við­töl vegna máls­ins en sendi frá sér yfir­lýs­ingu á fimmtu­dags­kvöld þar sem sagði meðal ann­ars að Alma væri „nauð­beygð til að hækka leigu­verð.“ 

Áthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.
Mynd: Eyþór Árnason

Ekki minnk­aði óró­inn þegar greint var frá því að hagn­aður Ölmu hafi verið 12,4 millj­arðar króna í fyrra. Ofan á það nam hagn­aður félags­ins á fyrstu sex mán­uðum árs­ins 2022 4,7 millj­örðum króna. Sam­an­lagt hagn­að­ist félagið því um 17,1 millj­arð króna á 18 mán­uð­um, eða um 950 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uði. Í áður­nefndri yfir­lýs­ingu Ing­ólfs sagði að hagn­að­ur­inn væri að mestu til­kom­inn vegna mats­breyt­inga á eignum og hækkun á virði hluta­bréfa sem Alma á í. Þar er um að ræða hluti í fast­eigna­fé­lög­unum Eik, Reitum og Reg­inn sem öll eru skráð á mark­að. Þeir hlutir eru í gegnum dótt­ur­fé­lagið Brim­garða, sem er stærsti ein­staki eig­andi Eikar með 16,5 pró­sent hlut, stærsti einka­fjár­festir­inn í Reitum með 5,6 pró­sent hlut og í Reg­inn með 3,9 pró­sent hlut. Þessi þrjú fast­eigna­fé­lög eru langstærstu slíku félögin á Íslandi. Sam­eig­in­legt heild­ar­mark­aðsvirði þeirra er um 159 millj­arðar króna.

Í eigu fjög­urra systk­ina og fjöl­skyldna þeirra

Undir Ölmu íbúða­fé­lag heyra níu dótt­ur­fé­lög. Auk Brim­garða eru það Alma lang­tíma­leiga ehf., Alma hót­el­í­búðir ehf., FS Glað­heimar ehf., Glað­smíði ehf., Höf­uð­borgin okkar ehf., U26 ehf., Ylma ehf. og 14. júní ehf.

Eig­andi Ölmu er fjár­fest­inga­fé­lagið Langisjór. Það er stór­tækt í mat­væla­fram­leiðslu og á meðal ann­ars Mata hf., Mat­fugl ehf. Sal­at­húsið ehf. og Síld og fisk ehf. Langisjór hagn­að­ist alls um 13,7 millj­arða króna í fyrra og eigið fé þess var 23 millj­arðar króna. Félagið er að í eigu fjög­urra systk­ina: Egg­erts, Guð­nýjar Eddu, Gunn­ars Þórs og Hall­dórs Páls Gísla­sona og fjöl­skyldna þeirra. Á sam­fé­lags­miðlum síð­ustu daga hafa margir hvatt til þess að allar vörur sem fyr­ir­tæki í eigu Langa­sjávar selja verði snið­gengn­ar. Á meðal þeirra er Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­stjórnar Sós­í­alista­flokks Íslands. Færslu hans hefur verið deilt yfir 1.200 sinn­um. 

Hér eru vöru­merki sem fólk ætti að snið­ganga ef því blöskrar 30% hækkun leigu hjá Ölmu leigu­fé­lagi. Systk­inin sem eiga...

Posted by Gunnar Smári Egils­son on Thurs­day, Decem­ber 8, 2022

Langisjór stóð frammi fyrir fleiri vand­ræðum í síð­ustu viku. Á föstu­dag stað­festi Lands­réttur dóm Hér­aðs­dóms Reykja­víkur í máli sem sner­ist um við­skipti með skulda­bréf milli tengdra félaga í sam­stæð­unni sem mynd­uðu skatta­legt tap. Áður hafði rík­is­skatt­stjóri og yfir­skatta­nefnd kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að um sýnd­ar­gjörn­ing hafi verið að ræða til að skapa afföll upp á skulda­bréf­un­um. Þau afföll voru svo nýtt til að lækka skatt­stofn og borga lægri skatta. Annað félagið innan sam­stæð­unn­ar, 14. júní ehf., skap­aði afföll með skulda­bréfa­sölu innan sam­stæðu upp á 859 millj­ónir króna sem nýtt voru til að draga verð­bæt­ur og af­­föll upp á 306 millj­­ón­ir króna frá tekj­um félags­ins um margra ára skeið. Hitt félag­ið, Brim­garð­ar, skap­aði afföll með skulda­bréfa­sölu upp á 1,26 millj­arða króna og dró verð­bæt­ur og af­­föll upp á 940 millj­­ón­ir frá tekj­um fé­lags­ins.

Nú hefur verið stað­fest af rík­is­skatt­stjóra, yfir­skatta­nefnd, Hér­aðs­dómi og Lands­rétti að þetta hafi verið ólög­legt.

Skýrsla gerð árið 2011 af seðla­banka­stjóra og frægum trommara

Ljóst má vera að ofan­greindu að Alma Íbúða­fé­lag er sú ein­ing sem skilar þorra hagn­að­ar­ins í til Langa­sjáv­ar. Félagið rekur á og rekur tæp­lega 1.200 íbúðir sem stað­settar eru á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og víðs­vegar um land­ið. 

Langisjór keypti Ölmu í febr­úar í fyrra á um ell­efu millj­arða króna. Alma, sem hafði áður verið í eigu GAMMA, á sér hins vegar lengri sögu, sem teygir sig aftur til árs­ins 2011.

Það ár var Sölvi Blön­dal, hag­fræð­ingur sem var þekkt­astur fyrir að hafa verið trommari og drif­­fjöður hljóm­­sveit­­ar­innar Quaras­hi, og Ásgeir Jóns­­son, þá efna­hags­ráð­gjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands en í dag seðla­­banka­­stjóri, beðnir um að skrifa skýrslu um fast­­eigna­­mark­að­inn á Íslandi. Þar kom fram að hús­næð­is­verð hefði lækkað mikið árið 2009 og hefði ekki náð sér eftir það. Lítið sem ekk­ert hafði þá verið byggt af nýju hús­næði á Íslandi frá hruni og von var á risa­stórum árgöngum á mark­að­inn. Leig­u­verð hefði söm­u­­leiðis lækkað eftir hrunið og leiga væri 20 til 30 pró­­sent lægri að raun­virði en hún hafði verið árið 2007. Nið­­ur­­staða skýrsl­unnar var að fyr­ir­­sjá­an­­legur skortur væri á hús­næði og að það væri tæki­­færi að mynd­­ast til að fjár­­­festa í íbúð­­ar­hús­næð­i. 

Keyptu upp hús­næði í mið­borg­inni og grónum hverfum

Skýrslan var kynnt fyrir hópi fjár­­­festa á lok­uðum fundi í lok árs 2011. Þeir sáu tæki­­færin söm­u­­leiðis og tveir fag­fjár­­­festa­­sjóð­ir, GAMMA: Centrum og GAMMA: Eclip­se, voru settir á lagg­­irnar til að kaupa upp lítið og með­­al­stórt íbúð­­ar­hús­næði í mið­­borg Reykja­víkur og grónum hverfum í kringum hana. Það var gert án þess að mikið færi fyrir því. Það lá á að ná að kaupa eins mikið og hægt væri áður en að aðrir rynnu á lykt­ina. Það tókst vel. 

Tveimur árum síðar var eft­ir­­spurnin eftir leig­u­hús­næði orðin marg­falt fram­­boðið á slíku. Búið var að stofna leigu­fé­lag, sem síðar fékk nafnið Almenna leig­u­­fé­lag­ið, utan um útleigu íbúð­anna sem sjóð­irnir sem GAMMA stýrðu höfðu keypt, sem voru þá nokkur hund­ruð. Ljóst var á þróun íbúða- og leig­u­verðs að grein­ingin sem sett hafði verið fram í lok árs 2011 hafði verið hár­rétt. Og hækk­­­anir meira að segja meiri en menn reikn­uðu með. Fjár­­­fest­­ar, sem voru meðal ann­­ars líf­eyr­is­­sjóð­ir, högn­uð­ust vel.

„Búa til bólu sem springur eins og graft­ar­kýli á ung­lingi“

Fjár­­­fest­ing í íbúð­­ar­hús­næði er þó ekki eins og að fjár­­­festa í verð­bréfum eða atvinn­u­hús­næði. Hún getur haft bein áhrif á dag­­legt líf fólks. Fyrir því fékk GAMMA og Almenna leigu­fé­lagið að finna.

Forsíða Kjarnans 30. janúar 2014 þar sem fjallað var um stórtæk uppkaup sjóða á vegum GAMMA á íbúðarhúsnæði.

Fyr­ir­tækið var gagn­rýnt fyrir að hafa skrúfað upp leig­u­verð, fyrir að beita þrýst­ingi á íbúð­­ar­eig­endum í fjöl­býl­is­húsum sem sjóðir þess höfðu keypt sig inn í til að selja og fyrir að vera erfitt í sam­­starfi við aðra íbúð­­ar­eig­endur þegar kom að við­haldi.

Í við­tali við Frétta­­tím­ann sál­uga sem birt var 22. mars 2013 sagði Svanur Guð­­munds­­son, þá for­­maður Félags lög­­giltra leig­u­mið­l­­ara:„ „Þeir eru að búa til bólu sem springur eins og graft­­ar­kýli á ung­l­ingi. Þeir eru líka eins og ung­l­ingar á þessum mark­aði. Þetta eru bara verð­bréfa­mið­l­­arar sem eru í öðrum heimi. Það kæmi mér ekk­ert á óvart að leig­u­verðið þyrfti að hækka um fimm­­tíu pró­­sent til að standa undir verði eign­anna. Þessir menn eru ekki tengdir inn á hinn almenna borg­­ara.“

For­svar­s­­menn GAMMA tóku gagn­rýn­inni illa og töldu hana ómak­­lega. Þeir bentu á að þeir hefðu hvorki verið ráð­andi á leig­u­­mark­aði og að stór­­aukin útleiga á íbúð­­ar­hús­næði til ferða­­manna í gegnum Air­BnB hefði miklu meiri áhrif til hækk­­unar á leig­u­verði en umsvif sjóða GAMMA.

„Óþekkt hús­næð­is­ör­yggi“

Árið 2018 var GAMMA komið í mik­inn rekstr­ar­vanda og greint var frá því að Kvika banki væri að kaupa félag­ið. Þegar þau kaup gengu eftir færð­ist sjóð­ur­inn sem hélt á Almenna leigu­fé­lag­inu til bank­ans, en raun­veru­legir eig­endur þess voru þó fjár­fest­arnir í þeim sjóð­i. 

Vorið 2019 var Almenna leigu­fé­lag­inu breytt í Ölmu. Í til­kynn­ingu vegna þessa sagði að Alma myndi bjóða áður „óþekkt hús­næð­is­ör­yggi“ á íslenskum leig­u­­mark­aði. Til stæði að gefa leigj­endum kostur á að leigja til allt sjö ára á föstu leig­u­verði sem væri ein­ungis tengt vísi­­tölu neyslu­verðs. Allir leigu­samn­ing­ar yrðu gerðir til árs í senn en að ári liðnu hefði leigj­and­inn ein­hliða rétt á að fram­­lengja samn­ing­inn um annað ár. „Þegar samn­ing­ur er fram­­­lengd­ur kem­ur ekki til neinn­ar hækk­­­un­ar á leig­u­verði um­fram breyt­ing­ar á vísi­­­tölu neyslu­verðs og er því leig­u­verð tryggt til allt að sjö ára,“ sagði í til­­kynn­ing­unn­i.

Skömmu áður hafði Ragnar Þór, for­maður VR, mót­mælt fyr­ir­hug­uðum hækk­­unum á leigu hjá Almenna leig­u­­fé­lag­inu með því að hóta að taka út rúma fjóra millj­­arða króna sem VR á í stýr­ingu hjá Kviku. Í bréfi sem stjórn VR birti sagði meðal ann­ars: „„VR hafa borist gögn með sam­­skiptum Almenna leig­u­­fé­lags­ins við nokkra leigj­endur sína þar sem enn á ný er án fyr­ir­vara, eða nokk­­urra hald­­bærra raka, kraf­ist tug­­þús­unda hækk­­unar leigu og leigj­endum settir þeir afar­­kostir að sam­­þykkja hækk­­un­ina ellegar vera hent á göt­una án húsa­­skjóls. Umhugs­un­­ar­frestur sem leigj­endum er gef­inn til að sam­­þykkja eða hafna til­­­boð­inu er ein­ungis fjórir dag­­ar. Ljóst er að tug­­þús­unda hækkun á leigu gerir væntar hækk­­­anir sem VR er nú að semja um við Sam­tök atvinn­u­lífs­ins að eng­u,“ segir í bréf­in­u.“

Eftir fundi milli for­­manns VR­ og fram­­kvæmda­­stjóra Almenna leig­u­­fé­lags­ins var ákveðið að falla frá hækk­­un­inn­i. 

Langisjór keypt svo, líkt og áður sagði, Ölmu í febr­úar í fyrra. Kaupin voru fjár­mögnuð af Arion banka. 

Margir búa við íþyngj­andi leigu­kostnað

Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun (HMS) fær mark­aðs­rann­sókn­ar­fyr­ir­tækið Pró­sent árlega til að gera leigu­kann­anir fyrir sig. 

Í þeirri síðustu, sem var gerð 10. júní til 14. sept­­­em­ber síð­­­ast­lið­inn, að 44 pró­­­sent leigj­enda hjá einka­reknum leigu­fé­lögum á borð við Ölmu greiddu yfir 50 pró­­­sent af ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjum sínum í leigu. Til sam­an­­burðar greiddu 26 pró­­sent þeirra sem leigðu af óhagn­að­­ar­drifnu leigu­fé­lagi meira en helm­ing ráð­­stöf­un­­ar­­tekna sinna í leig­u. Um 13 pró­­­sent leigj­enda einka­rek­inna leigu­fé­laga eða á almenna mark­aðnum greiða yfir 70 pró­­­sent af ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjum sínum í leigu en átta pró­­sent þeirra sem leigja af óhagn­að­­ar­drifnum félög­­um. 

Í könn­un­inni kom fram að 84 pró­­sent þeirra sem leigja íbúð af óhagn­að­­­ar­drifnum leigu­fé­lög­um, á borð við Bjarg eða Brí­et, voru ánægðir með hús­næðið sem þeir leigja. Þeir eru ánægð­­­astir allra á leig­u­­­mark­að­i og hjá þeim mælist mesta hús­næð­is­ör­ygg­ið. 

Í könnun sem Öryrkja­banda­lagið (ÖBÍ) lét Félags­vís­inda­stofnun Háskóla Íslands gera nýverið kom fram að fatlað fólk væri mun lík­lega til að vera á leig­u­­mark­aði og borga stærri hluta tekna sinna í hús­næð­is­­kostnað en aðrir á Íslandi. Alls sögð­ust 64 pró­sent svar­enda sem búa í leigu­hús­næði eða við ann­­ars konar búset­u­skil­yrði húsa­­leigu eða afborg­­anir af hús­næð­is­lánum vera þunga eða nokkra byrði.

Í síð­ustu mán­að­ar­skýrslu HMS kom fram að um 28 pró­sent af ráð­stöf­un­ar­tekjum leigj­enda fari að jafn­aði í leigu sem er fjórða hæsta hlut­fallið í löndum OECD. Það er þó mjög svipað hlut­fall og á hinum Norð­ur­lönd­unum enda eru aðstæður hér að mörgu leyti svip­að­ar. Þetta eru til að mynda allt þjóðir þar sem tekjur eru háar og tekju­jöfn­uður mik­ill í sam­an­burði við önnur lönd.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar