Staðreyndavakt Kjarnans var endurvakin núna í aðdraganda kosninga, enda sjaldan sem freistnin til þess að teygja á sannleikanum er meiri en þegar stjórnmálamenn reyna að afla sér hylli kjósenda.
Undanfarnar vikur hefur ritstjórn Kjarnans fylgst með formönnum og öðrum talsmönnum stjórnmálaflokkanna tíu sem bjóða fram á landsvísu mæta í Forystusætið á RÚV, einn af öðrum og rýnt í orð þeirra á þeim vettvangi.
Fleipur
Bjarni Benediktsson var fyrstur í heimsókn í þáttinn og fór með fleipur er hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki fengið stig í mati Ungra umhverfissinna fyrir að stefna að því að hætta að brenna olíu fyrst þjóða.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór sömuleiðis með fleipur er hann hélt því fram að íslenska bankakerfið væri nú „enn og aftur að færast í hendur erlendra vogunarsjóða“.
Guðmundur Franklín Jónsson fór líka með fleipur er hann sagði að stöðugleikaframlögin hefðu öll farið í hækkun á kostnaði við rekstur embættis- og þingmanna.
Halldóra Mogensen fulltrúi Pírata fór með fleipur er hún sagði að kosningaloforð Pírata væru fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum. Því höfðu Píratar reyndar ekki áttað sig á þegar Halldóra mætti í viðtalið og þeir uppfærðu tekjuöflunarleiðir sínar í kjölfarið.
Hálfsannleikur
Sigurður Ingi Jóhannsson setti fram hálfsannleik er hann lét að því liggja að Joe Biden Bandaríkjaforseti væri með svipaðar áherslur í skattamálum og Framsóknarflokkurinn.
Gunnar Smári Egilsson fullyrti að íslenskt samfélag væri gjörspillt og setti þar fram hálfsannleik. Samkvæmt viðurkenndustu mælingu spillingar á alþjóðavísu er Ísland 17. minnst spillta land í heimi, en vísbendingar eru þó til staðar um að íslenskur almenningur virðist upplifa töluverða spillingu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setti einnig fram hálfsannleik er að hún sagði mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru. Raunin er sú að það liggur ekkert fyrir um hvort það væri mögulegt eða ekki.
Logi Einarsson setti fram hálfsannleik er hann fullyrti að tekjuhæsta 1 prósent þjóðarinnar borgi „minna en allur almenningur í landinu, allur fjöldinn“ í skatta. Hann var þó ekki langt frá því að vera á réttri leið, en skattbyrði þeirra tekjuhæstu er ekki mikið mun hærri en íslensks almennings að meðaltali.
Á réttri leið
Katrín Jakobsdóttir var á réttri leið þegar hún tjáði sig um barnabótakerfið og sagði að ríkisstjórn hennar hefði aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði er stjórnin tak við. Raunvirði bóta hefur þó nánast ekkert hækkað.
Inga Sæland var sömuleiðis á réttri leið þegar hún sagði að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.