„Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu[...]en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu.“ Þetta sagði stjórnarandstöðuþingmaður í pontu Alþingis 14. desember 2012. Í kjölfarið spurði hann: „Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“
Þremur dögum áður hafði MMR birt könnun sem sýndi að einungis 28,9 prósent þjóðarinnar studdu þá ríkisstjórn sem sat að völdum á þeim tímapunkti, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Miðað við stuðninginn var það rétt mat hjá þingmanninum að ríkisstjórninni væri að mistakast að leiða saman þjóðina.
Sú ríkisstjórn hafði þá setið að völdum í þrjú og hálft ár og kosningar voru fram undan, í apríl 2013. Það skipti því ekki öllu máli hvort að ríkisstjórnin myndi „skila lyklunum“ þarna í desember 2012. Kjósendur létu hana skila þeim í kosningunum þar sem stjórnarflokkarnir biðu afhroð.
Fordæmalausar aðstæður en augljós mistök
Til að gæta sanngirni verður að segja að verkefnið sem ríkisstjórn Jóhönnu fékk var líkast til það erfiðasta sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið í fangið; tiltekt eftir hrunið. Félagshyggjuríkisstjórnin þurfti að lækka greiðslur til aldraðra og öryrkja, draga úr greiðslum í fæðingarorlofssjóð, skera blóðugt niður í ríkisrekstri á sama tíma og auka þurfti álögur á alla þegnanna, ekki til að byggja upp aukna þjónustu heldur til að halda í horfinu.
En ríkisstjórn Jóhönnu gerði líka fjöldamörg afdrifarík mistök. Hún hélt mjög illa á Icesave-málinu til að byrja með, leyndi upplýsingum og leyfði því að heltaka þjóðina. Sú leið sem var farin við endurskipulagningu atvinnulífsins leyfði fyrirtækjum að hanga uppi lifandi dauðum og ganga þannig frá samkeppnisaðilum sem höfðu lifað af hrunið. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu, án þess að vera með meirihluta fyrir aðild á Alþingi né á meðal þjóðarinnar, ofan í tiltektarstarfið var afleit hugmynd og skaðaði alla framtíðarmöguleika Íslands á því að ganga inn. Hin pólitíska akvörðun um að heimila Sparisjóðnum í Keflavík að starfa áfram, þrátt fyrir að fyrir lægi að hann ætti enga raunhæfa möguleika á því að lifa af, var forkastanleg og jók skaðann sem af honum hlaust umtalsvert. Aðkoma ríkisins að tryggingafélaginu Sjóvá, sem leiddi af sér fjögurra milljarða króna tap fyrir skattgreiðendur, var sömuleiðis ámælisverð.
Þá var óskiljanlegt að samþykkja að starfsmenn Landsbankans, ríkisbanka, myndu frá greidda bónusa sem eru milljarða virði fyrir að vera duglegir við að rukka inn tvö lánasöfn fyrir kröfuhafa gamla bankans. Og kjördæmapotið hvarf auðvitað ekkert með tilkomu vinstristjórnar. Vaðlaheiðargöngum var til að mynda svindlað fram fyrir önnur verkefni á samgönguáætlun með þvi að dulbúa framkvæmdina sem einkaframkvæmd, þegar hún var, og er, það augljóslega ekki.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu hafði setið í sjö mánuði mældist stuðningur við hana 43,9 prósent. Hann fór hratt lækkandi næstu mánuði og ár og sveiflaðist til. Þegar ríkisstjórnin fór frá í apríl 2013 studdu 31,5 prósent hana.
Panamaskjöl létu Leiðréttingarstjórn skila lyklunum
Við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hún byrjaði í miklum meðbyr sem að mörgu leyti var sóttur til þess leiks Framsóknarflokksins að taka 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði og millifæra til hluta þjóðarinnar – að stærstum hluta þeirra sem áttu eða þénuðu mest – í stað þess að notast í samneysluna. Tilgangurinn var að borga fyrir kosningasigur Framsóknarflokksins vorið 2013 og upp á það kvittaði Sjálfstæðisflokkur, gegn betri vitund, til að komast í ríkisstjórn.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs þurfti líka að takast á við mjög erfiðar aðstæður, til að mynda skref í átt að losun hafta og lausn á málefnum þrotabúa föllnu bankanna. Efnahagsaðstæður höfðu hins vegar snúist og mikill hagvöxtur var allt það tímabilið sem hún sat við stjórnvölinn, aðallega vegna makrílveiða, ferðamannastraums og jákvæðra áhrifa gengishruns á viðskiptajöfnuð.
Þrátt fyrir það missti ríkisstjórnin fljótt flugið og stuðning þjóðarinnar. Haugur af ívilnunarsamningum við stóriðjufyrirtæki, flest í heimasveit og kjördæmi þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lækkun á veiðigjöldum, hugmyndir um áburðarverksmiðju og stanslaus afskipti forsætisráðherrans af skipulagsmálum sem áttu ekkert að koma honum við spiluðu þar ugglaust inn í.
Ríkisstjórnin brotlenti síðan í apríl 2016, þegar Panamaskjölin opinberuðu að forsætisráðherrann og formaður Framsóknar var kröfuhafi sem hafði átt milljarða í aflandsfélagi og laug þegar hann var spurður út í það í nú heimsfrægu viðtali, og að fjármálaráðherrann og formaður Sjálfstæðisflokksins hefði átt félag á Seychelles-eyjum utan um eign í Dubai þrátt fyrir að hann hefði sagt í Kastljósi ári áður að hann ætti engin aflandsfélög.
Þá mældist stuðningur við ríkisstjórn þeirra 26 prósent. Það leiddi til þess að forsætisráðherrann sagði af sér og kosningar voru boðaðar um haustið. Aðstæður voru metnar þannig að ekkert annað væri í stöðunni en að skila lyklunum til þjóðarinnar. Og reyna að ná þeim aftur í haustkosningum.
Óánægja að innan og utan
Nú hefur ríkisstjórn setið í rúma sjö mánuði. Hún tók við eftir einar lengstu stjórnarmyndunarviðræður Íslandssögunnar þar sem allir mátuðu sig við alla, nema Framsókn. Niðurstaðan varð þriggja flokka bræðingur Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar með minnihluta atkvæða á bak við sig og minnsta mögulega þingmeirihluta.
Í fyrstu skoðanakönnun eftir valdaskipti mældist stuðningur við ríkisstjórnina 35 prósent. Það er erfitt að halda því fram að hún hafi þurft að glíma við neinar áskoranir sem komast í hálfkvisti við þær sem fyrri tvær ríkisstjórnir þurftu að takast á við. Svo virðist raunar sem að flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa séu ekki sammála um neitt annað en að vera í ríkisstjórn og því er stefnuyfirlýsing hennar moðgrautur af viljayfirlýsingum sem soðin var til að friða sem flesta kjósendur flokkanna þriggja. Lykilmaður innan Viðreisnar sagði í grein sem birt var á Kjarnanum í sumar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einungis farið fram á skattalækkanir og annars óbreytt ástand í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Þessi óvinsæla ríkisstjórn er ósammála um hvernig eigi að breyta landbúnaðarkerfi landsmanna, hvernig eigi að haga gjaldtöku í sjávarútvegi og hvort það sé raunverulega gott eða slæmt að ríkið beiti sér fyrir því að laun kvenna séu þau sömu og laun karla. Stjórnarþingmenn eru ósammála um hvort að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni, hvort hækka eigi virðisaukaskatt á ferðaþjónustu (sem er lykilbreyta í fjármálaáætlun stjórnarinnar), hvort selja eigi áfengi í búðum, hverjir eigi að fá að endurskoða búvörusamninga, um aukningu á einkarekstri í heilbrigðis- og menntakerfinu og hvaða gjaldmiðill eigi að vera í landinu.
Það virðast líka vera sýnilegar sprungur í baklandi stjórnarflokkanna og stuðningi þess við ríkisstjórnina. Í könnun sem gerð var mánuði eftir að hún tók við völdum kom í ljós að einungis 14 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar voru ánægðir með ríkisstjórnina. Áður hafði rúmur fjórðungur stjórnar flokksins greitt atkvæði gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Innan Viðreisnar virðist sem margir helstu fjármögnunaraðilar stjórnmálaflokksins séu í herferð gegn Benedikt Jóhannessyni og vilji setja hann af sem formann, meðal annars vegna áforma hans um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.
Innan Sjálfstæðisflokksins er líka megn óánægja með ríkisstjórnina. Nokkrir þingmenn flokksins hafa alla tíð viljað aðra kosti fyrir flokk sinn. Helsti gagnrýnandi hennar er þó fyrrverandi formaður flokksins, andlegur leiðtogi sérhagsmunaaflanna innan hans og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson. Í leiðara sem birtist um síðustu mánaðamót, skrifaði Davíð: „Íslenska ríkisstjórnin hefur setið í hálft ár og þegar misst allt álit þótt hún hafi ekki gert neitt sem öllum almenningi mislíkar. Hún stendur ekki fyrir neitt. Málefnasamningur hennar hrópar það framan í fólk. Þar er ekkert handfast nema helst langur kafli sem virðist undirstrika að nauðsynlegt sé að fjölga innflytjendum. Sú nauðsyn var ekki orðuð í kosningunum.“
Hann endurtók sömu orð að mestu í Reykjavíkurbréfi 4. ágúst. Og bætti svo við: „Einhverjir eru í spyrja sig og aðra, með hliðsjón af fallandi stuðningi, hvort þessi ríkisstjórn sé við það að falla. En það er með öllu óvíst að hún sé fær um það. Ríkisstjórn, sem samkvæmt sameiginlegum sáttmála sínum stendur ekki fyrir neitt, á ekki auðvelt að finna sér mál til að falla á.“
Davíð Oddsson styður því ekki ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins. Sem hlýtur að vera einsdæmi.
Sameinar ríkisstjórn með fjórðungs stuðning?
Þrátt fyrir að koma sárafáum stefnumálum á alvöru rekspöl, og taka sér gríðarlega langt sumarfrí frá ríkisstjórnarfundum, vaxa óvinsældir ríkisstjórnarinnar á meðal almennings nánast daglega. Nú þegar styttist í að þing hefjist að nýju segjast einungis 24,5 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sex prósent Viðreisn og 3,6 prósent Bjarta framtíð. Það þýðir að flokkarnir myndu samanlagt einungis fá um þriðjungsfylgi ef kosið yrði í dag og væru með sambærilegt hlutfall þingmanna.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aldrei mælst minni. 27,2 prósent þjóðarinnar segist styðja hana. Eftir sjö mánaða starfstíma. Það er vart hægt að halda því fram að ríkisstjórn sem einungis rétt rúmlega fjórði hver landsmaður styður sé að leiða þjóðina saman. Skapi sátt í samfélaginu. Komi í veg fyrir átök og sundrungu.
Stuðningurinn er minni en hann var við hina veðurbörðu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í desember 2012, tæpu hálfu ári fyrir boðaðar kosningar, þegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins bað hana að skila lyklunum.
Sá þingmaður er nú forsætisráðherra og heitir Bjarni Benediktsson. Það verður áhugavert að sjá hvort hann telji það sama eiga við um sína ríkisstjórn.