Nokkrir hlutir voru opinberaðir í liðinni viku. Þeir eiga það allir sameiginlegt að sýna það sem er að í okkar annars góða samfélagi. Þau samfélagsmein sem þarf að taka á til að hér skapist sátt.
Fyrst ber að nefna að 62 einstaklingar sem rökstuddur grunur er um að hafi svikið undan skatti munu sleppa við ákæru. Ekki vegna þess að þeir séu saklausir, vegna þess að rannsóknaraðilar telja að svo sé ekki. Undandreginn skattstofn þeirra er 9,7 milljarðar króna. Alls eru 90 mál í viðbót, sem snúast samtals um undandregin skattstofn upp á 20 milljarða króna, líka í hættu á að verða að engu.
Ástæðan fyrir þessu er rof í málsmeðferð vegna þess að beðið var niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, sem töldu illa á sér brotið vegna þess að þeir sviku undan skatti og þurftu bæði að borga álag og sæta refsimeðferð. Niðurfelling skattsvikamálanna sem minnst er á hér að ofan er því afleiðing af málarekstri þessara tveggja manna.
Það er nauðsynlegt að átta sig á því hvað um er að ræða hér. Sá hópur sem nú sleppur við að þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum í samræmi við lög sveikst undan því að greiða það til samneyslunnar sem honum bar. Þetta eru aðilar sem komu t.d. fram í Panamaskjölunum. Einstaklingar sem sýndu einbeittan brotavilja til að græða með ólögmætum hætti með stórtækum fjármagnstilfærslum. Menn sem eiga þegar milljarða króna en fannst það ekki nóg, og vildu líka komast hjá því að greiða skatta.
Skilaboðin út frá jafnræði og varnaðaráhrifum eru ömurleg. En þau eru þessi: ef þú ert mjög ríkur, og hefur tæki og tól til að fela peninganna þína í aflandsfélagi, þá sleppurðu við afleiðingar vegna gjörða þinna. Þetta er hópur sem lifir í öðrum efnahagslegum veruleika en þorri þjóðarinnar. Sem forðaði peningum í aðra gjaldmiðla áður en krónan hrundi haustið 2008, sem kom með sömu peninga heim í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands með virðisaukningu til að kaupa upp eignir á brunaútsöluverði og sem getur nú innleyst þann ágóða og farið með hann aftur í aflandið. Þetta er þröngur hópur fjármagnseigenda, mest megnis ríkasta prósent landsmanna, sem hefur hagnast mikið á íslensku samfélagi og nýtur stórkostlegs aðstöðumunar. Og nú liggur fyrir að lög og reglur gilda ekki um þennan hóp með sama hætti og þau gilda um aðra landsmenn.
Lög brotin, en ekkert gert
Þetta er nú ekki neitt nýtt hér á landi. Það virðast gilda aðrar reglur um áhrifafólk með góð tengsl við valda- og peningamenn en aðra borgara landsins. Það sást til að mynda ágætlega þegar fjölmiðlafyrirtækið Pressan fékk að taka mörg hundruð milljóna króna ólögmæt lán í opinberum gjöldum, lífeyrissjóðs-, stéttarfélags- og meðlagsgreiðslum starfsmanna sinna og nota til að reka sig árum saman í ólögmætri samkeppni við hina sem hlíta lögum og reglum.
Undir eðlilegum kringumstæðum hefði fyrirtæki, sama í hvaða geira það starfar, sem sýnir af sér svona athæfi verið lokað samstundis af tollyfirvöldum og sakamál höfðað gagnvart þeim sem báru ábyrgð á hinum ólögmæta rekstri. Hvorugt hefur gerst. Þess í stað fór samsteypan í kennitöluflakk í trássi við vilja meirihlutaeigenda og er nú fjármögnuð með hundruð milljóna króna fyrirgreiðslu frá huldumönnum.
Þess ber líka að geta að umrædd fjölmiðlasamsteypa hefur rekið linnulausan áróður fyrir hönd ákveðinna stjórnmálamanna og dæmdra hvítflibbaafbrotamanna á undanförnum árum.
Ofangreint eru atriði sem ansi margar stofnanir hins opinbera ættu að vera með rannsóknar. Tollstjóri, skattrannsóknarstjóri, héraðssaksóknari, samkeppniseftirlit og fjölmiðlanefnd, svo þær augljósustu séu nefndar.
Vanhæfur maður reynir að hafa áhrif á niðurstöðu
Annað mál sem kom upp í vikunni snýr að dómskerfinu. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur skrifað bók sem er málsvörn fyrir dæmda hvítflibbaafbrotamenn. Niðurstaða hans er að dómskerfið hafi dæmt eftir stemmningu samfélagsins, ekki lögum, og að framið hafi verið dómsmorð á vini hans. Það er sannarlega ekkert athugavert við að Jón Steinar riti slíka bók til að skapa umræðu. Og raunar hið besta mál. Um efnisatriði þeirra mála sem hann tekur til umfjöllunar hefur svo verið fjallað fram og til baka í fjölmiðlum og víðar á undanförnum árum. Jóni Steinari finnst reyndar ekki gert nógu mikið úr hans málflutningi í fjölmiðlum og kvartar sáran undan því að skoðunum hans sé ekki gert hærra undir höfði. Hann er líka í fullum rétti til að bera fram þær umkvartanir.
En það sem er ekki í lagi er að hæstaréttardómari sem hefur lýst sig vanhæfan í dómsmáli sökum þess að sakborningurinn er vinur hans, sé að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu sama máls með því að þrýsta á dómaranna sem dæma í því. Það er ekki í lagi að gera það munnlega með því að vera sífellt að koma inn á skrifstofur þeirra til að ræða málið eftir að málflutningi lýkur og þeir eru að rita dóm í málinu, og það er sannarlega ekki í lagi að gera það í formi minnisblaðs þar sem viðkomandi dómara er leiðbeint um hvernig megi sýkna við hins vanhæfa hæstaréttardómara.
Óheiðarleiki hefur engar afleiðingar
Við höfum líka fengið að sjá skuggahlið viðskiptalífsins á undanförnum dögum. Arion banki og lífeyrissjóðir landsins seldu hlut sinn í Bakkavör til bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, stofnenda Bakkavarar, í byrjun árs 2016. Þá var miðað við að verðið á félaginu væri um 43 milljarðar króna. Í dag verður Bakkavör skráð á markað í Bretlandi. Virði félagsins er nú 143 milljarðar króna, eða rúmlega þrisvar sinnum hærra en það verð sem lífeyrissjóðirnir og bankinn, sem er að hluta í eigu íslenska ríkisins, seldi bræðrunum sinn hlut á. Þessi hópur hefði fengið 66 milljarða króna fyrir 46 prósenta hlutinn sinn í dag, en seldi á 20 milljarða króna í fyrra.
Þetta er sérstaklega áhugavert vegna þess að í úttekt sem gerð var á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins, og kynnt var í apríl 2012, kom fram að sjóðirnir hefðu tapað samtals 170,9 milljörðum króna á hlutabréfum og skuldabréfum sem útgefin voru af félögum tengdum bræðrunum. Hlutdeild þessara aðila, sem voru aðallega Kaupþing, Exista og Bakkavör, í heildartapi lífeyrissjóðanna vegna slíkra bréfa var 44 prósent.
Samt héldu lífeyrissjóðirnir og Arion banki áfram að eiga viðskipti við þá.
Liðkað var fyrir þessum viðskiptum af Seðlabanka Íslands, en Ágúst og Lýður fluttu milljarða króna í gegnum fjárfestingaleið hans til að kaupa upp hluti í Bakkavör á sínum tíma. Þeir milljarðar komu frá erlendum félögum þeirra bræðra sem voru troðfull af peningum, en í Panamaskjölunum var opinberað að þeir áttu fjölda aflandsfélaga í þekktum skattaskjólum.
Þá voru bræðurnir auðvitað í lykilhlutverki í Hauck & Aufhäuser-fléttunni, þegar þeir ásamt hópi annarra viðskiptamanna komust yfir Búnaðarbankann með feikilega óheiðarlegum hætti. Og með afleiðingum sem leiddu af sér gríðarlegar hamfarir fyrir íslenskt samfélag.
Eitthvað verður að gera, því annars lagast ekki neitt
Það mætti telja fleira til. EFTA-dómstóllinn benti til að mynda á hið augljósa í vikunni, að sérreglur Íslendinga vegna innflutnings á fersku kjöti og ostum, standast ekki EES-samninginn. Þessar sérreglur eru settar til að vernda niðurgreidda og ósjálfbæra innlenda matvælaframleiðslu og stuðlar að hærra vöruverði og minna framboði fyrir neytendur.
Það mætti líka benda á að Arion banki hefur afskrifað samtals 4,8 milljarða króna af lánum sínum til United Silicon verksmiðjunnar. Enn á bankinn útistandandi 5,4 milljarða króna á verksmiðjuna, en veruleg óvissa er um að hún verði nokkurn tímann starfhæf með þeim hætti að hún geti lifað í sátt og samlyndi við nærumhverfi sitt. Raunar útilokaði bankastjóri Arion banka það ekki í kvöldfréttunum í gær að United Silicon gæti verið sett í þrot.
Bankinn var ekki einn um að taka þátt í þessari feigðarför. Þrír lífeyrissjóðir lögðu milljarða í verkefnið líka. Tveimur þeirra er stýrt af starfsmanni Arion banka og ákvörðun sjóðanna um að taka þátt í fjárfestingunni var tekin að undangenginni greiningu starfsmanna Arion banka. Enginn hefur þurft að sæta ábyrgð vegna þessa.
Hér að ofan er farið yfir nokkur mál sem opinbera íslensk þjóðarmein. Flest þeirra eiga það sameiginlegt að hafa ratað í fréttir á allra síðustu dögum. Öll eru þau risastór mál sem eru ekki að vekja nein sérstök viðbrögð. Við virðumst vera orðin nokkuð ónæm fyrir rugli eftir það hringleikahús fáránleikans sem okkur hefur verið boðið upp á undanfarin ár.
Ekkert þeirra mála sem hér eru til umfjöllunar eru í lagi. Það er ekki í lagi að efsta lag þjóðarinnar megi svíkja undan skatti án afleiðinga, að fjölmiðlasamsteypur geti rekið áróðursstarfsemi með ólögmætum hætti, að vanhæfir dómarar reyna að hafa áhrif á niðurstöður í máli vina sinna eða að menn sem hafa kostað samfélagið hundruð milljarða króna fái tækifæri á silfurfati frá lífeyrissjóðum og íslenskum bönkum til að græða ævintýralega á þeirra kostnað.
Allt eru þetta mein sem þarf að laga. Í þeirri viðgerð þarf næsta ríkisstjórn að leika ráðandi hlutverk. Hún hefur tækin og tólin til þess að gera það. Það mun ekki nægja henni að ná bara saman um „breiðu línurnar“ í því hvernig eigi að eyða peningum. Hún þarf líka að sýna það í verki að henni sé alvara um að auka traust og jafnræði og draga úr tortryggni í samfélaginu. Það verður hennar helsta verkefni.