Því fylgir mikil ábyrgð og vald að vera treyst fyrir opinberu fé. Þá ábyrgð á að taka alvarlega. Ýmislegt sem opinberað hefur verið síðustu vikur sýnir að því miður er mjög misfarið með það vald.
Kjarninn hefur undanfarna daga greint frá því að stjórnir fyrirtækja í eigu ríkisins hafi hækkað laun æðstu stjórnenda sinna um tugi prósenta á seinni hluta síðasta árs. Sömu stjórnir hækkuðu líka eigin laun, í sumum tilvikum um allt að 70 prósent.
Það gerðist eftir að ný lög um kjararáð tóku gildi um mitt ár í fyrra. Við þá breytingu færðist ákvörðun um launakjör stjórnenda fyrirtækja í eigu ríkisins frá kjararáði til stjórna fyrirtækjanna.
Kjarninn greindi frá því á fimmtudag að fjármála- og efnahagsráðuneytið, í aðdraganda þess að breytingin tók gildi, hafi ítrekað beint tilmælum til stjórna helstu fyrirtækja í eigu ríkisins að stilla öllum launahækkunum í hóf. Tvær mjög góðar ástæður voru fyrir því. Í fyrsta lagi þá er eðlilegt að sýnd sé ráðdeild þegar um fé í almannaeigu er að ræða. Í öðru lagi blasti við að miklar launahækkanir forstjóra sem þegar voru með mjög há laun á alla íslenska mælikvarða myndi setja kjarasamninga í enn frekara uppnám.
Þau tilmæli voru algjörlega hunsuð og laun þess í stað keyrð upp um tugi prósenta.
Úr öllum takti
Launavísitala Hagstofu Íslands hækkaði um 6,8 prósent í fyrra. Hún hefur hækkað um 27,5 prósent á fjórum árum. Í samhengi við þær tölur er augljóst að launahækkanir ríkisforstjóra upp á tugi prósenta um mitt síðasta ára, og enn hærri hækkanir stjórnarmanna sem sitja fyrir hönd ríkisins í stjórnum ríkisfyrirtækja, eru úr öllum takti.
En fólk borðar ekki hlutföll. Hækkanirnar verða enn óboðlegri þegar þær eru skoðaðar í beinhörðum krónum.
Forstjóri Íslandspósts fékk 300 þúsund króna mánaðarlega launahækkun á ársgrundvelli, sem er hækkun um 17,6 prósent. Mánaðarlaun hans eru nú 1,7 milljónir króna. Forstjóri Landsnets fékk hækkun upp um 170 þúsund krónur á mánuði, eða tíu prósent. Hann fær nú 1,8 milljón króna í mánaðarlaun.
Dæmum sem þessum á eftir að fjölga umtalsvert á næstu vikum því enn eiga stór ríkisfyrirtæki sem færð voru undan kjararáði eftir að skila ársreikningum sínum. Þar má m.a. nefna RÚV, Isavia, RARIK og Matís.
Há laun fyrir aukavinnu
Íslenska ríkið á líka tvo banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Kjararáð hafði úrskurðað að laun bankastjóra Íslandsbanka ættu að vera tvær milljónir króna á mánuði. Samkvæmt ákvörðun stjórnar bankans voru þau hins vegar aldrei lækkuð í þá tölu. Þess í stað fékk bankastjóri ríkisbankans 4,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Það eru rúmlega 17 lágmarkslaun.
Hinn ríkisbankastjórinn fær 500 þúsund krónum meira á mánuði en sá sem sat í stólnum á undan henni. Mánaðarlaun hennar eru 2,8 milljónir króna og bankastjóralaunin hækkuðu um 21,7 prósent í fyrra.
En versta sjálftakan á sér stað í stjórnum þessara banka. Nú skal það tekið fram að seta í stjórn fjármálafyrirtækis er aukastarf. Nær allir sem þar sitja hafa annað aðalstarf eða aðra tekjuuppsprettu. Um er að ræða starf sem felur í sér setu á nokkrum stjórnarfundum á ári og svo setu í einhverjum undirnefndum, meðal annars starfskjaranefndum sem ákveða laun stjórnarmanna.
Hjá Íslandsbanka fær stjórnarformaðurinn 883 þúsund krónur mánaðarlega í laun. Þau hækkuðu um tæp 14 prósent í fyrra. Varaformaður stjórnar hækkaði um 22,4 prósent í fyrra og fær nú 683 þúsund krónur á mánuði. Aðrir stjórnarmenn hækkuðu um 217 þúsund krónur á mánuði í launum, eða um 59 prósent milli ára. Þeir fá nú 583 þúsund krónur í mánaðarlaun fyrir almenna stjórnarsetu í aukastarfi, sem er meira en helmingur þjóðarinnar er með í heildarlaun á mánuði samkvæmt áðurnefndu miðgildi heildarlauna.
Í bankaráði Landsbankans er sú að þar hækkaði starfskjaranefnd eigin laun umtalsvert og langt umfram almenna launaþróun. Þannig fóru mánaðarlaun bankaráðsformannsins í 925 þúsund krónur á mánuði, sem er hækkun um 15,6 prósent. Varaformaðurinn hlaut 12 prósenta launahækkun og þiggur nú 700 þúsund krónur á mánuði. Aðrir bankaráðsmenn hækkuðu laun sín um níu prósent og upp í 600 þúsund krónur á mánuði. Því eru allir sem sitja í bankaráðinu með laun sem eru hærri en miðgildi heildarlauna. Fyrir aukavinnu.*
Ofan á allt hitt
Við höfum þegar séð pólitísk skipaða fulltrúa ráðamanna í kjararáði hækka laun skrifstofustjóra í ráðuneytum og aðstoðarmanna ráðherra um 35 prósent. Þeir fá nú 1,2 milljónir króna á mánuði. Grunnlaun þingmanna voru hækkuð um 44,3 prósent og eru nú um 1,1 milljón krónur á mánuði. Ofan á það hafa fá flestir nokkur hundruð þúsund krónur í álag og aðrar fastar mánaðarlegar greiðslur. Við sáum laun ráðherra hækka upp í rúmlega 1,8 milljónir króna og langt umfram almenna launaþróun. Laun forsætisráðherra í rúmar tvær milljónir og forseta Íslands í tæpar þrjár milljónir, þótt hann hafi ákveðið að gefa hluta þeirra til góðra málefna. Við sáum kjararáð hækka laun biskups um tugi prósenta upp í rúmlega eina og hálfa milljón króna á mánuði, og afturvirkt um eitt ár. Svo fátt eitt sé nefnt.
Það var opinberað að þingmenn hafa fengið óheyrilegar endurgreiðslur fyrir akstur sem er augljóslega svo mikill að hann getur ekki allur tengst þingmannastarfinu. Einn fékk til að mynda 385 þúsund krónur mánaðarlega, 105 þúsund krónur yfir lágmarkslaunum, í viðbótargreiðslur á síðasta ári vegna aksturs. Skattfrjálst. Hann viðurkenndi að hluti akstursins hafi verið vegna þátttöku hans í prófkjörum og vegna upptöku á þætti fyrir sjónvarpsstöð sem skoðanabræður hans ráku.
Og á milli jóla og nýárs, þegar þjóðin var upptekin við annað en stjórnmál, samþykktu flestir stjórnmálaflokkar að hækka framlög til sín um 362 milljónir króna. Það var „launahækkun“ upp á 127 prósent.
Það er hægt að bregðast við
Hópur einstaklinga hefur skammtað sér og örfáum öðrum tugprósenta launahækkunum á innan við ári. Laun þeirra hafa hækkað með slíkum hætti að oft er hækkunin sjálf hærri en laun stórs hluta Íslendinga. Þessir einstaklingar eru skipaðir af ráðamönnum og þeir eru að skammta sér almannafé. Þeir hafa hunsað tilmæli yfirboðara sinna, umræðuna í samfélaginu, almenna skynsemi og litið fram hjá heildarhagsmunum, til að bæta eigin fjárhagslegan hag.
Afleiðingarnar eru meðal annars þær að kjarasamningar eru í uppnámi, miklu harðari stéttabarátta – eiginlega stéttastríð — er að formgerast og allt stefnir í verkfallshrinu um næstu áramót. Flest skynsamlegt fólk sér að efnahagslegur stöðugleiki og kaupmáttaraukning eru eftirsóknarverðir kostir. En það er ekki hægt að krefjast þess að fólkið með lægstu launin axli byrðarnar af þeim kostum með því að halda launakröfum sínum í lágmarki á meðan að efsta lagið er í yfirgengilegri sjálftöku, og er leiðandi í launaþróun.
Allar stjórnir opinberra fyrirtækja eru skipaðar af ráðamönnum eða stofnunum sem heyra undir þá. Þegar þær fara ekki eftir tilmælum um að hækka ekki laun forstjóra sinna og sín eigin upp úr öllu valdi, með ofangreindum afleiðingum, þá er einungis eitt að gera.
Kveðja alla umrædda stjórnarmenn og skipa nýja í staðinn.