Á miðvikudag kom fram frumvarp um að lækka veiðigjöld á útgerðir um 1,7 milljarða króna í ár. Frumvarpið var lagt fram þegar örfáir dagar eru eftir af þinginu. Það var ekki lagt fram af ráðherra og samþykkt í ríkisstjórn. Af hverju það var ekki gert hefur ekki verið skýrt. Þess í stað var meirihluti atvinnuveganefndar látinn leggja það fram. Hann mynda þingmenn stjórnarflokka, meðal annars Vinstri grænna, og þingmaður Miðflokks, sem á líka útgerðarfyrirtæki og hagnast persónulega beint af breytingunni.
Ástæðan sem gefin var fyrir þessari lækkun var að afkoma útgerða landsins væri orðin svo léleg. Þessu er haldið fram í alvöru þrátt fyrir að hagur sjávarútvegsfyrirtækja – vöxtur eigin fjár og arðgreiðslur – hafi vænkast um 366 milljarða króna frá hruni og til loka árs 2016. Bara arðgreiðslur til eigenda námu 66 milljörðum króna frá 2010 og út árið 2016. Á sama tíma greiddu þessir illa settu útgerðareigendur alls 45,2 milljarða króna í veiðigjöld.
Sama dag og flokkarnir sem standa að ríkisstjórnarsamstarfinu, og eigandi útgerðar, ákváðu að lækka álögur á atvinnuveg sem hefur haft fordæmalausar tekjur af nýtingu náttúruauðlindar á undanförnum árum, birti ríkisskattstjóri lista yfir þá 40 einstaklinga sem greiða hæsta skatta á Íslandi, og hafa þar af leiðandi hæstar tekjur. Nær allir sem raða sér þar í efstu sætin eru fólk sem tilheyrir fjölskyldum sem selt hafa hluti sína í útgerðarfyrirtækjum að undanförnu fyrir marga milljarða króna. Útgerðarfyrirtækja sem fengu á sínum tíma gefins kvóta.
Þrotamennska gefur vel
Aðrir sem eru fyrirferðamiklir á listanum eru karlar sem vinna við að selja eignir þrotabúa fallinna banka. Þeir sem eru þar eftir á blaði voru með 56 milljónir króna í laun á mánuði á síðasta ári. Það eru 187 sinnum lögbundin lágmarkslaun á Íslandi, sem eru 300 þúsund krónur á mánuði. Árslaun þessara tveggja manna, sem vinna hjá Glitni HoldCo, eru samanlagt 1.344 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi þá væri t.d. hægt að reka Kjarnann í um 19 ára fyrir það sem þeir tveir þéna á ári fyrir að sinna þrotastarfsemi.
Þar eru hundruð starfsmanna, meðal annars ríkisbanka, með laun sem eru frá 1,5 milljón krónum á mánuði og upp í 7,6 milljónir króna á mánuði.
Sjálftaka opinberra starfsmanna
Forstjórar einkafyrirtækja, sem sum hver eru skráð á ofsalega grunnum markaði þar sem lífeyrissjóðir eru uppistaðan í eignarhaldinu, og starfa mörg á fákeppnismarkaði innanlands, hafa það líka ágætt. Í tekjublaði Frjálsrar verslunar kemur til að mynda fram að 50 launahæstu forstjórarnir séu með laun frá 3,5 milljónum króna á mánuði til 25,8 milljón króna á mánuði. Það eru 12 til 86föld lögbundin lágmarkslaun. Viðmælendur Kjarnans úr þessum heimi segja að búið sé að skapa nokkurs konar sjálþjónandi eilífðarvél. Forstjóri A er hækkaður í launum og forstjóri B notar þá hækkun til að kalla eftir sambærileika við kollega í launakjörum. Og svo koll af kolli.
Forstjórar ríkisfyrirtækja fengu margir hverjir tugprósenta hækkanir í fyrra þegar ákvörðun um laun þeirra var færð frá kjararáði og til pólitískt skipaðra stjórna þeirra. Laun forstjóra tíu ríkisfyrirtækja eða stórra stofnana voru að meðaltali á mánuði í fyrra á bilinu 1,3 til 2,4 milljónir króna. Mánaðarlaun þeirra í dag eru þó í flestum tilfellum hærri, þar sem launahækkanir flestra komu til framkvæmda um mitt síðasta ár.
Þá hafa auðvitað dómarar, ráðherrar, þingmenn, aðstoðarmenn ráðherra, skrifstofustjórar, prestar og ýmsir aðrir opinberir starfsmenn fengið óskiljanlegar launahækkanir frá kjararáði á skömmum tíma. Þingmenn hækkuðu til að mynda um 44,3 prósent í launum á kjördag 2016. Í staðinn voru laun kjararáðs svo hækkuð af stjórnmálamönnum.
Nokkur bólga er líka í launum bæjarstjóra í landinu. Sá hæst launaði er t.d. með 2,6 milljónir króna á mánuði, fyrir að stýra um 16 þúsund manna sveitarfélagi, sem eru hærri laun er borgarstjórar þekktustu stórborga heims eru með á mánuði.
Vel borguð sérhagsmunagæsla
Afleit starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla endurspeglast ágætlega í samantekt á launum þeirra sem starfa í geiranum. Ef frá er taldir ritstjórar og útgefendur sem vinna fyrir sérhagsmunaöfl eða ráku fyrirtækin sín fyrir ólögleg lán frá skattgreiðendum, og eru með allt að 5,9 milljónir króna á mánuði, þá eru laun fjölmiðlafólks ekki nálægt því samkeppnishæf við flestar aðrar atvinnugreinar.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni að þeir sem stýra hagsmunagæslusamtökum, svokallaðir lobbíistar, geti slagað upp í fimm milljónir króna í launum á mánuði. Nær enginn sem vinnur í efstu lögum lobbíista-arma atvinnuvega á Íslandi er með laun undir 1,6 milljón króna á mánuði og flestir með töluvert umfram það.
Á sama tíma eru laun þeirra sem eiga að gæta almannahagsmuna, að greina hvað er satt og rétt fyrir lesendur og áhorfendur og veita stjórnvöldum aðhald, brotabrot af launum þeirra sem vinna við að gæta þröngra sérhagsmuna.
Þetta er ójafn leikur sem gerir það að verkum að alvarlegur spekileki er úr stétt fjölmiðlamanna sem leiðir af sér að nær ómögulegt er að byggja upp sérhæfingu innan geirans. Þessi staða veikir verulega stoðir lýðræðisins á Íslandi.
Firrt ástand
Ofangreint launaskrið hópa sem vinna hjá hinu opinbera, sem starfa á fákeppnismörkuðum innanlands, sem hafa laun sín af því að hirða of háar þóknanir fyrir tilfærslu á fé í allt of dýrum en greinilega sjálfþjónandi fjármálaheimi, sem vinna við að gera upp þrotabú, að ná fram þröngum sérhagsmunum eða hafa bara selt kvóta fyrir milljarða króna sem þeir hafa fengið gefins sýnir svart á hvítu hversu firrt þjóð við erum orðin.
Þessar upplýsingar koma ofan í það að ríkið sé að lækka gjaldtöku á eina atvinnugrein, sjávarútveg, sem nýtir sameiginlegar auðlindir okkar og að því hefur gjörsamlega mistekist að taka sanngjarnt gjald af annarri sem gerir slíkt hið sama, ferðaþjónustu, þrátt fyrir að vöxtur hennar gangi verulega á sameiginlega innviði okkar.
Og fyrir liggur auðvitað að frá 2011 og út árið 2016 jókst eigið fé ríkasta prósents landsmanna um 69,4 milljarðar króna. Á árinu 2016 einu saman jókst auður þeirra um 53,1 milljarð króna og var 612,6 milljarðar króna. Í lok þess árs áttu 218 fjölskyldur, sem mynda ríkasta 0,1 prósent landsmanna, 201,3 milljarða króna í hreinni eign og jók eignir sínar um 14 milljarða króna á einu ári.
Það getur varla nokkur maður haldið því fram að þorri landsmanna, launafólk sem margt hvert lifir mánuði til mánaðar, muni sætta sig við að bera ábyrgð á stöðugleika á landinu með hóflegum launakröfum í komandi kjarasamningum þegar þessi hróplega misskipting á sér stað beint fyrir framan nefið á því. Þau nýju og róttæku öfl sem náð hafa forystu í verkalýðshreyfingunni og boða stríðsátök eru ekki orsök þeirrar stöðu sem blasir við, heldur afleiðing þess sem lýst er hér að ofan.
Ef við ætlum að ná stöðugleika, viðhalda því vestræna lýðræðiskerfi frelsis, velferðar, mannréttinda og hagsældar sem við höfum komið upp hér, og forðast það að popúlískir tækifærissinnar nýti sér óánægju þeirra Íslendinga sem hafa ekkert boð fengið í veisluna og horfa á hana utan frá, þá verða þessir sjálfskipuðu náttúrutalentar sem verðleggja sig án innistæðu með ofangreindum hætti að sjá að sér. Vinda ofan af ástandinu.
Það eru engar forsendur fyrir þessu. Og engin þolinmæði eftir til að kyngja því.