Í huga flestra eru grunnlífsgæði þau að eiga öruggt húsaskjól. Mikil ábyrgð hvílir á hinu opinbera, ríkinu og sveitarfélögum, að uppfylla þá frumþörf íbúa landsins.
Í ljósi þess að neyðarástand ríkir enn á húsnæðismarkaði hjá stórum hópi fólks sem hér býr þá verður að teljast staðfest að hið opinbera hafi brugðist þessum hópi með margvíslegum hætti.
Það sem borgin gerði ekki
Skorturinn er mestur í höfuðborginni. Þar vantar þúsundir íbúða og þótt að aldrei hafi verið fleiri íbúðir í byggingu en nú þá var brugðist við ástandinu of seint. Það þurfti að mæta uppsöfnuðum skorti frá árunum eftir hrun, takast á við að stærstu árgangar Íslandssögunnar sem fæddust snemma á tíunda áratugnum voru að verða fullorðnir og bregðast við þeirri staðreynd að erlendum ríkisborgurum í Reykjavík hefur fjölgað um 70 prósent frá byrjun árs 2012 og til síðustu áramóta. Þeir voru þá orðnir 15.640 og fjölgaði um 3.140 á árinu 2017 einu saman.
Borgin hefur líka brugðist þegar kemur að viðbrögðum við þeim fjölda íbúða sem horfið hafa út af almennum markaði og inn á útleigumarkað til ferðamanna, sérstaklega í gegnum Airbnb og sambærilega vettvanga. Nú stendur yfir vinna til að taka á þessu máli sem lofar góðu en allt of seint var brugðist við. Afleiðing er sú, samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs, að yfir sex þúsund gistieiningar eru nú til leigu á Airbnb á Íslandi og stærsti hluti þeirra er í Reykjavík. Fjöldinn hefur rúmlega tvöfaldast á rúmlega tveimur árum. Reykjavík er nú sú höfuðborg í Vestur Evrópu sem er með næstflestar Airbnb-skráningar miðað við höfðatölu, á eftir Lissabon í Portúgal.
Stór hluti þessara íbúða eru ekki hluti af hinu svokallaða deilihagkerfi, þar sem íbúar leigja út íbúðir sínar sem þeir sannarlega búa í endrum og sinnum. Þvert á móti er talið að um 1500-2000 íbúðir eða herbergi í landinu séu í umfangsmikilli útleigu í gegnum Airbnb. Það þýðir á mannamáli að um viðskipti braskara og spákaupmanna er að ræða. Þeir hafa grætt feikilega vel á þessum viðskiptum. Vergar tekjur af útleigu Airbnb jukust um 110 prósent milli áranna 2016 og 2017 og voru 19,7 milljarðar króna í fyrra.
Til að gera málið enn verra þá eru þessir braskarar að starfa í andstöðu við reglur. Útgefnum leyfum fyrir skammtímaleigu, sem skylt er að sækja um fyrir útleigu íbúða í gegnum Airbnb, hefur ekki fjölgað nærri því eins mikið og fjöldi þeirra íbúða sem lögð eru undir starfsemina. Samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs voru um 60 prósent íbúða í umfangsmikilli útleigu ekki skráð sem atvinnuhúsnæði í nóvember síðastliðnum þrátt fyrir að reglur segi að svo eigi að vera. Það er verið að svindla og komast upp með það.
Það sem ríkið gerði
Ríkið hefur ekki látið sitt eftir liggja í því að stuðla að verri aðstæðum á húsnæðismarkaði. Ólíkt borginni þá eru það aðgerðir ríkisins, ekki aðgerðarleysi, sem hafa gert ástandið verra fyrir marga landsmenn.
Stærsta einstaka ríkisaðgerðin var auðvitað Leiðréttingin upp á 72,2 milljarða króna, sem hefðu til dæmis geta nýst í að hjálpa þeim sem eru verst staddir á húsnæðismarkaði með millifærslum eða uppbyggingu húsnæðis, að mestu til tekjuhærri og eignameiri hluta þjóðarinnar í skaðabætur vegna verðbólguskots á árunum 2008 og 2009. Það verður seint endurtekið nógu oft hversu mikil þjóðarskömm sú aðgerð var. Til að bæta gráu ofan á svart virðist blasa við að Leiðréttingin leiddi af sér ruðningsáhrif á húsnæðisverð sem hefur orsakað að húsnæðisvandi tekjulægri einstaklinga í landinu er orðinn enn verri.
Heimild til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána hefur heldur ekki skilað sér eins og til var ætlast. Upphaflega var gert ráð fyrir því að 70 milljarðar króna myndu fara í að lækka skuldir landsmanna með leiðinni en einungis 44 milljarðar króna höfðu verið nýttir í mars síðastliðnum. Þegar kemur að úrræðinu „Fyrsta fasteign“ er staðan enn daprari. Í lok apríl síðastliðins höfðu 105 manns nýtt sér útgreiðslur vegna húsnæðiskaupa undir hatti úrræðisins og 13 einstaklingar nýtt sér það í formi greiðslna inn á lán í hverjum mánuði. Samtals höfðu 57 milljónir króna farið á höfuðstól lána fyrstu fasteignakaupenda eða í að lækka afborganir þeirra. Þá ber þess að geta að flestum ber saman um að það séu fyrst og síðast einstaklingar með hærri tekjur, eða börn foreldra með hærri tekjur, sem eru að safna séreignarsparnaði. Þeir sem verr standa í samfélaginu telja sig einfaldlega ekki hafa efni á því.
Aðeins um helmingur leigjenda er með séreignarsparnað, samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs. Eftir því sem tekjur leigjenda eru lægri, minnka líkur á því að viðkomandi sé að safna séreignarsparnaði.
Þá hefur hið opinbera varið lægra hlutfalli af landsframleiðslu í húsnæðisstuðning handa þeim sem þurfa á slíkum að halda en það hefur gert að meðaltali síðastliðin 15 ár. Til að ná meðaltalinu vantar um fimm milljarða króna árlega upp á. Og ofan á það fóru 90 prósent þeirra vaxtabóta sem greiddar voru út á árinu 2016 til efnameiri helmings þjóðarinnar.
Það sem ríkið gerði enn fremur
Íslenska ríkið var með í höndunum þúsundir íbúða, í gegnum Íbúðalánasjóð og Kadeco, sem gætu hafa nýst til að byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi í stað þess sem var sundurliðað árið 1998 af stjórnmálamönnum með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum hefur fækkað um helming.
Ríkið ákvað að gera það ekki þess í stað seldi Kadeco þúsundir íbúða á Miðnesheiði til fasteignabraskara, meðal annars félags sem síðar myndaði grunninn að Heimavöllum, stærsta almenna leigufélagi á landinu. Félagið hefur líka keypt umtalsvert magn af íbúðum af Íbúðalánasjóði.
Í dag eiga Heimavellir um tvö þúsund íbúðir og starfsemi félagsins er stór breyta í því að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á átta árum. Alls hefur leiguverð hækkað um 40 prósent frá því að Heimavellir voru stofnaðir snemma árs 2015.
Til að bíta höfuðið af skömminni þá greindiKjarninn nýverið frá því að Íbúðalánasjóður er stærsti lánveitandi Heimavalla. Félagið hefur nýtt sér lán frá Íbúðalánasjóði sem áttu að fara til félaga sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni til að fjármagna uppbyggingu sína. Í dag er rúmlega helmingur allra vaxtaberandi skulda Heimavalla við Íbúðalánasjóð. Félagið stefnir nú að því að endurfjármagna þær skuldir svo að það komist fram hjá kvöðum sem koma í veg fyrir arðgreiðslur, og ætlar síðan að greiða hluthöfum sínum út arð.
Íbúðalánasjóður hefur líka selt Almenna leigufélaginu, öðru stóru leigufélagi á almennum leigumarkaði, fjölda eigna. Á árinu 2017 tók það við rekstri tveggja stórra eignasafna sem samsett voru af eignum sem voru að stærstum hluta í eigu Íbúðarlánasjóðs. Annars vegar leigufélagið Klett og hins vegar félagið BK eignir. Síðan þá hafa leigusamningar félagsins hækkað mikið. Í nýlegu svari Almenna leigufélagsins við fyrirspurn Kjarnans um þær hækkanir sagði að síðan félagið tók yfir eignirnar hafi það „þurft að ganga í það að aðlaga þessa leigusamninga að markaðsverði og höfum við verið að gera það í skrefum til að leigjendur fái svigrúm til aðlögunar.“
Aukin stéttaskipting
Afleiðingarnar eru stéttaskipting og yfirstandandi stéttarátök, sem endurspeglast best í þeim átökum sem eiga sér stað á vinnumarkaði. Fjármagnseigendur hafa grætt gríðarlega á fasteignabraski, bæði vegna þess að húsnæðisverð hefur tvöfaldast frá árinu 2011 og vegna þess að leiguverð hefur gert það líka á átta árum. Ríkið hefur aðstoðað þennan hóp með því að selja honum eignir, lána honum pening og í einhverjum tilvikum greiða honum fé úr ríkissjóði í formi Leiðréttingar.
Millistéttin sem hefur getað keypt eigin húsnæði hefur aukið eigið fé sitt vegna mikilla hækkana á húsnæðisverði á sama tíma og verðbólga hefur verið lág og lánskjör hafa batnað mikið.
Sá hópur sem hefur litla eða enga hjálp fengið, og hefur eiginlega verið jaðarsettur, er lægsta tekjulag samfélagsins.
Það kemst ekki inn á eignamarkað eða í leiguhúsnæði sem hentar greiðslugetu þeirra og sitja því eftir í súpunni. Það fólk þarf að fara á almennan leigumarkað sem lýtur óhóflegum arðsemiskröfum fjármagnseigenda.
Ástandið hefur gert það að verkum að leigjendum hefur fjölgað um tíu þúsund á sjö árum og fjöldi þeirra er nú áætlaður yfir 50 þúsund. Meirihluti leigjenda, alls 57 prósent, er á leigumarkaðnum af nauðsyn og 80 prósent leigjenda vilja kaupa sér íbúð, en geta það ekki. Einungis 14 prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir leigjendur geta safnað sér sparifé, samkvæmt könnun sem Íbúðalánasjóður lét gera fyrr á árinu.
Allt þetta er í boði hins opinbera, þeirra sem eiga að bera hag allra landsmanna fyrir brjósti. En gera það augljóslega ekki.