Frá því að WOW air fékk Jónu Lovísu Jónsdóttur, prest og fitnessmeistara, til að opna miðasöluvef sinn seint í nóvember 2011 hefur vegferð fyrirtækisins virst vera ein samfelld sigurganga. Skúli Mogensen: stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air var til að mynda samstundis valinn viðskiptamaður ársins 2011 í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti.
Það var eðlilegt að Íslendingar fögnuðu þessu nýja fyrirtæki og héldu með því. Við búum á eyju og keyrum ekkert eða tökum lestir til annarra landa. Fýsilegasta leiðin til þess að komast héðan er með flugi. Og aukin samkeppni á þeim vettvangi var gríðarleg búbót fyrir neytendur. Tilkoma WOW air var líka mikilvæg fyrir efnahagskerfið í heild. Fjöldi ferðamanna sem hafa komið til landsins, aðallega með vélum frá Icelandair og WOW air, hefur enda margfaldast á undanförnum árum og ferðaþjónustan er orðin stærsta og mikilvægasta stoðin undir efnahagskerfinu okkar.
Þannig hefur þorri umfjöllunar fjölmiðla um WOW air verið. Jákvæðar fréttir af framgangi fyrirtækisins og miklum vexti. Og Skúli hefur samhliða verið duglegur við að hvetja fólk til að vera bara hresst og jákvætt. Það sé miklum meira gaman.
Allt á uppleið
Á yfirborðinu var veisla. Skúli var aftur valinn viðskiptamaður ársins 2016. Hann hafði lent í öðrum sæti árið 2015.
Í byrjun árs í fyrra var send út fréttatilkynning um að hagnaður WOW air hefði verið 4,3 milljarðar króna árið 2016. Þar var haft eftir Skúla Mogensen að árið 2016 hefði verið magnað í alla staði þótt samkeppnin væri enn hörð. „Við höfum aldrei verið jafn vel í stakk búin að takast á við þessar áskoranir og munum halda áfram að lækka fargjöld öllum til hagsbóta.“
Í lok síðasta árs var Skúli svo valinn markaðsmaður ársins. Í tilkynningu sagði: „„Skúli hefur stýrt félaginu með hugrekki, krafti og sterkri markaðsnálgun að leiðarljósi.“ Á svipuðum tíma var Skúli í viðhafnarviðtali við Áramót þar sem hann sagði að hann væri að vinna „með öflugum erlendum fjárfestingarbönkum og reiknum með að klára hlutafjáraukningu seinni hluta ársins 2018.“
Mótvindur
Auðvitað heyrðust áhyggjuraddir á þessum tíma. Pískrað var um það að WOW air, sem er í einkaeigu og laut ekki sömu upplýsingaskyldu og skráð félög, væri nokkurs konar „Black box“ sem birti bara þær upplýsingar sem hentuðu fyrirtækinu. Og oftast nær væru þær upplýsingar jákvæðs eðlis.
Á árinu 2017 varð ljóst að áskoranir sem WOW air var að mæta í rekstri sínum voru mun stærri en þær sem tilgreindar voru í tilkynningum frá fyrirtækinu. Ein þeirra voru vandræði færsluhirðingarfyrirtækisins Kortaþjónustunnar haustið 2017.
Það fyrirtæki hafði meðal annars byggt rekstur sinn upp á því þjónusta flugfélög með því að greiða þeim um leið og greiðsla barst frá viðskiptavinum vegna ferða sem voru ófarnar. Flest önnur færsluhirðingarfyrirtæki eru með mun lengri afhendingartíma á slíkum greiðslum. Eitt þeirra fyrirtækja sem Kortaþjónustan var með í viðskiptum var breska flugfélagið Monarch. Það fór í greiðslustöðvun í byrjun október 2017 og við það bakfærðust kaup viðskiptavina þess.
Engan bilbug var þó að finna á fyrirtækinu. Það sendi frá sér tilkynningu í byrjun nóvember 2017 um að rekstur þess væri fullfjármagnaður út árið 2019.
Breytt flæði upplýsinga
Þegar leið á árið 2018 varð staðan í flugbransanum sífellt erfiðari. Verð á flugvélaeldsneyti, einum stærsta kostnaðarlið flugfélaga, hækkaði til að mynda um 36 prósent á fyrri hluta árs. Vegna samkeppnisaðstæðna gátu íslensku flugfélögin ekki mætt þessum mikla aukna kostnaði með hækkun flugfargjalda. Á sama tíma styrktist krónan umtalsvert sem hækkaði þar með launakostnað fyrirtækja sem höfðu tekjur í erlendum gjaldmiðlum en borguðu laun í íslenskum krónum.
Líkt og áður sagði þá þarf WOW air ekki að birta fjárhagslegar upplýsingar opinberlega fyrr en í lok ágúst á hverju ári, við skil á ársreikningum. Þegar fyrirtækið skilaði hagnaði, vegna áranna 2015 og 2016, var þó send út fréttatilkynning í febrúar árið eftir til að greina frá honum. Slík kom ekki í febrúar 2018.
Þess í stað voru sendar tólf fréttatilkynningar á alla fjölmiðla sem allar áttu það sameiginlegt að fjalla ekkert um fjárhagsstöðu WOW air en segja frá jákvæðri þróun í starfsemi fyrirtækisins á borð við mikla sætanýtingu, styrkjum sem það veitti félagasamtökum, fjölgun farþega og nýjum flugleiðum.
Um miðjan júlí 2018 var loks send út tilkynning frá WOW air um að fyrirtækið hefði tapað 2,3 milljörðum króna á árinu 2017. Horfur voru þó sagðar ágætar. Allar viðvörunarbjöllur fóru á fullt.
Vandræðin verða opinber
Í byrjun ágúst var greint frá því að Skúli Mogensen hefði aukið hlutafé sitt í félaginu með því að leggja 60 eignarhlut sinn í fraktflutningarfélaginu Cargo Express inn í WOW air og breyta um tveggja milljarða króna kröfu sem hann átti á félagið í nýtt hlutafé. Við þessa breytingu jókst hlutaféð í WOW air um 51 prósent. En eiginlegt lausafé jókst ekkert, skuldir lækkuðu bara.
Þann 15. ágúst birtist svo forsíðufrétt á Fréttablaðinu þess efnis að WOW air ætlaði að sækja sér allt að 12 milljarða króna í gegnum skuldabréfaútboð. WOW hafði þá samið við norska ráðgjafarfyrirtækið Pareto Securities um að hafa umsjón með útboðinu og fyrir lá að það þyrfti að klárast á næstu vikum.
Þar kom meðal annars fram að eiginfjárhlutfall WOW air hefði verið komið niður í 4,5 prósent í júní 2018 þrátt fyrir ofangreinda hlutafjáraukningu og að það hafi fengið 28 milljónir dala í endurgreiðslu vegna innborgana á vélar sem WOW air ætlaði að kaupa.
Rekstrartap félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og tekjuskatt frá miðju ári 2017 og til júníloka 2018 var 26 milljónir dala, um 2,8 milljarðar króna.
WOW air ætlaði að takast á við stöðu sína með því að ráðast í skuldabréfaútgáfu og safna á bilinu 6,5 til 13 milljarða króna. Þetta átti að sækja til erlendra fjárfesta.
Tilboðsbókin var opnuð miðvikudaginn 29. ágúst og upphaflega átti að loka henni á tveimur dögum. Þegar þeir voru liðnir var skilmálunum breytt. Nú voru ekki einungis í boði níu prósent vextir heldur líka afsláttur á hlutafé í framtíðinni. Þetta dugði ekki til að lágmarksþátttöku yrði náð. Þá var leitað til innlendra aðila um að taka þátt, meðal annars lífeyrissjóða og ríkisbanka.
Stjórnvöld voru á þessum tíma komin á fullt við að greina stöðuna og áhrif þess ef WOW air færi í greiðslustöðvun á hagkerfið. Fyrir lá að mögulega var fyrirtækið of stórt til að falla. Niðurstaðan af þeirri greiningu var þó að svo væri ekki. Skammtímaáhrifin yrðu mikil, enda vel yfir þúsund manns sem vinna hjá WOW air, félagið flytur um 37 prósent allra farþega sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll og afleidd áhrif yrðu umtalsvert. En til lengri tíma myndi íslenskt efnahagskerfi standa þetta áfall af sér.
Að geta ekki orða bundist
Næstu daganna bárust mjög misvísandi tíðindi af skuldabréfaútboðinu. Þjóðin beið með öndina í hálsinum. Myndi WOW air komast fyrir vind? Ljóst er að flestir vonuðu að svo yrði. Bæði vegna þeirra áhrifa sem greiðslustöðvun fyrirtækisins myndi hafa og vegna hag neytenda af því að hafa sterkan aðila í samkeppni við Icelandair í flugi frá landinu.
Greint var frá því að mjög erfiðlega gengi að safna fjárfestum og að íslenskir aðilar, aðrir en þeir sem þegar höfðu lánað WOW air peninga, sýndu aðkomu að fjármögnun lítinn áhuga. Það þótti einfaldlega of áhættusamt.
Ýmis hliðaráhrif birtust. Krónan veiktist skarpt og sú sveifla endaði með því að Seðlabankinn greip inn í til að draga úr henni með því að selja gjaldeyri. Það var í fyrsta sinn í tíu mánuði sem hann hafði gert slíkt. Hlutabréfamarkaðurinn fór líka að haga sér eftir því sem var að gerast í skuldabréfaútboði WOW air. Það birtist skýrast 11. september þegar að hlutabréf í Icelandair ruku upp en nær öll önnur hlutabréf lækkuðu mikið. Mest var lækkunin hjá N1, eldsneytissala WOW air.
Skuldabréfaútboðinu lauk á endanum ekki fyrr en þriðjudaginn 18. september, tæpum þremur vikum eftir að upphaflega stóð til að loka tilboðsbókinni. Þá hafði náðst að safna upp að neðri mörkum þess sem til þurfti með aðkomu ótilgreindra innlendra og erlendra aðila. Engar upplýsingar fylgdu með um áhrif fjármögnunarinnar á stöðu WOW air.
Skömmu áður hafði Morgunblaðið birt frétt þess efnis að WOW air skuldaði ríkisfyrirtækinu Isavia um tvo milljarða króna í lendingargjöld. Í fréttinni kom fram að innlendar viðskiptakröfur Isavia hefðu hækkað um 1.220 milljónir króna frá áramótum.
Skúli Mogensen brást við í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagðist ekki geta orða bundist yfir fréttaflutningnum. „Ég hreinlega trúi ekki að nokkur blaðamaður eða fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins.“ Í kjölfarið neitaði hann því að WOW air skuldaði Isavia tvo milljarða króna og því væri frétt Morgunblaðsins röng. Í stöðuuppfærslunni var því hins vegar ekki neitað að WOW air skuldaði Isavia lendingargjöld. Og Morgunblaðið hefur ekki dregið frétt sína til baka.
Hlutverk fjölmiðla
Færslu Skúla var deilt mjög víða á samfélagsmiðlum. Ýmsir sögðu hana, og þá staðreynd að tekist hefði að loka skuldabréfaútboði WOW air, vera skýrt og greinargott andsvar við furðulegri neikvæðni, þórðargleði og úrtölum um WOW air sem ætti engan rétt á sér. Þetta var síðan af mörgum sett í samhengi við umfjöllun fjölmiðla um WOW air frá því í ágúst.
Nú skal rifjaður upp dómur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið haustið 2008 um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda þess: „Fjölmiðlar ræktu illa það hlutverk sitt að upplýsa almenning um stöðu mála og veita stjórnvöldum og einkaaðilum gagnrýnið aðhald. Fjölmiðlar áttu stóran þátt í að móta og viðhalda ríkjandi orðræðu um velgengni íslensks fjármálalífs.“
Á síðustu vikum hefur komið fram að WOW air væri í umtalsverðum lausafjárvanda. Fjölmiðlar greindu frá því. WOW air fór í skuldabréfaútboð og það gekk illa að fá fjárfesta til að kaupa útgáfuna. Fjölmiðlar greindu frá því. Í fjárfestakynningu sem lak á netið komu fram ítarlegri fjárhagsupplýsingar um WOW air en nokkru sinni áður hafa komið fram. Fjölmiðlar greindu frá því. Stjórnvöld höfðu fylgst með stöðu WOW air frá því í vor og voru að kortleggja afleiðingar þess að fyrirtækið lenti í vandræðum á nánast daglegum fundum. Fjölmiðlar greindu frá því. Skuldabréfaútboðinu var lokað, með aðkomu skammtímasjóða og innlendra fjárfesta sem hafa ekki viljað opinbera sig, og á vöxtum sem eru þeir hæstu sem evrópskt flugfélag hefur samþykkt að greiða vegna skuldabréfaútboðs. Fjölmiðlar greindu frá því. Opinberar yfirlýsingar stjórnanda WOW air um fjármögnun fyrirtækisins hafa sumar hverjar ekki staðist. Fjölmiðlar greindu frá því. Orðrómur var um að WOW air skuldaði Isavia stórfé. Flestir fjölmiðlar reyndu að sannreyna þá frétt en fengu ekki þá staðfestingu, og sögðu því eðlilega ekki frá, þar til að Morgunblaðið gerði það í frétt sem forstjóri WOW air hefur sagt að innihaldi ranga skuldatölu.
Það er hlutverk fjölmiðla að segja frá því sem er að gerast, ekki því sem WOW air eða Skúli Mogensen vill að þeir segi að sé að gerast. Ef frétt Morgunblaðsins um skuldina við Isavia, sem hefur að hluta til verið mótmælt, er undanskilin þá hafa ekki verið gerðar efnislegar athugasemdir við fréttaflutning af þessu gríðarlega þjóðhagslega mikilvæga máli.
Fjölmiðlar eiga að segja almenningi satt, ekki þann sannleika sem forstjórar fyrirtækja vilja að þeir segi. Það er ekki svartsýnisraus eða þórðargleði. Það er tilgangur þeirra. Þeim tilgangi brugðust þeir einu sinni og það ætla þeir ekki að gera aftur.
Því ber að fagna.