Á þessu ári hef ég sent frá mér 18 Eikonomics pistla hér á Kjarnanum. Þar sem ég þjáist af algjörri ritstíflu þessa dagana, en langar þó að koma út einum pistli áður en árið er á enda, ætla ég að þessu sinni að rifja upp árið og deila með ykkur því sem stóð upp úr.
Vinsælasti pistillinn
Reyndar veit ég ekki nákvæmlega hver vinsælasti pistill ársins var. Ef Facebook Like mæla vinsældir þá hefur pistillinn um hvatavandamálin í eldhúsinu vinninginn. Pistillinn, sem kallast Sá sem eldar á líka að vaska upp gengur út á það sýna fram á það að skilvirkast sé að sá sem eldi matinn vaski einnig upp eftir hann. Allavega samkvæmt hugmyndum hagfræðinnar.
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.
Óvinsælasti pistillinn
Óvinsælasti pistillinn, samkvæmt Facebook Like-um, er pistill sem ég skrifaði um hvalveiðiskýrslu Hagfræðistofnunar HÍ. Það muna kannski einhverjir eftir tryllta hvalveiðiskýrsluinternetóveðrinu sem setti rafræna-Ísland á hliðina, í u.þ.b. fimm mínútur áður en næsta internet-hamför reið yfir og allir gleymdu skýrslunni. Mér þótti heldur þrengt að hinni ágætu Hagfræðistofnun HÍ og gaf út einhverskonar samantekt á þessari skýrslu, á hálfgerðu mannamáli.
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.
Furðulegasti pistillinn minn
Stundum þegar ég sendi pistil á Kjarnann og hugsa með mér: „Nú fæ ég svarið: Kæri Eiríkur, þakka þér fyrir pistilinn. Við skulum láta þennan verða þann síðasta.“
Í Júlí skilaði af mér pistli um meðaltöl. Bókstaflega. Hann er um ekkert annað en meðaltöl, hvernig þau eru reiknuð. Og ekkert annað. Þegar ég skilaði honum var ég viss um að ég fengi svarið að ofan, eða kannski bara: „Takk og bless.“
En svo var ekki. Það voru meira að segja þrisvar sinnum fleiri sem setu Like á hann heldur en settu Like á hvalveiðigreinina.
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.
Uppáhalds greinin mín
Í Mars skrifaði ég grein þar sem ég loksins kom því í orð af hverju í ósköpunum ég er að hafa fyrir því að skrifa þessa pistla yfir höfuð. Pistillinn, sem ber heitið Máttur leiðindanna, fjallar um það hvernig mikilvæg málefni, sem hafa gríðarleg áhrif á daglegt líf okkar allra, eru oft klædd – viljandi og óviljandi – i gríðarljóta (og leiðinlega) búninga. Þessir forljótu, hallærisbúningar, sem málefnin koma í gera það að verkum að almenningur hefur ekki sömu tækifæri til að taka þátt í umræðunni og skilja stór málefni. Allt skilar þetta sér í því að þeir sem hagsmuni hafa og skilja málefnin (sem oft er sama fólkið og klæðir þau í ömurlega búninga) komast upp með meira – á kostnað þeirra sem, eðlilega, ekki skilja hlutina eins vel.
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.
Uppáhalds grafíkin mín
Ef Eikonomics væri kaka þá væri hún þýsk Stollen. Tölfræði væri marsípanið, sem liggur í gegnum hana alla.
Þar sem er tölfræði er oft líka grafík. Oft er grafíkin mín frekar tæknileg, en markmið mitt er venjulega að lesendur geti lesið og skilið pistlana mína án þess að þurfa á grafíkinni að halda. Grafíkin eru rommmaríneraðar rúsínur, sem lúðarnir geta étið en aðrir sleppt.
Uppáhalds grafíkin mín í ár er laus við alla samkeppni. Því þegar ég skoðaði verðbólgugögn, frá árinu 2004 til 2018, bregður nefnilega verðbólgudraugnum fyrir. Það er að segja verðbólguskotin þrjú, í kringum bankaruglið á fyrsta áratug þessara aldar, taka á sig form draugs – verðbólgudraugs. Þetta þótti mér fyndið. Kannski er ég einn um það.
Verðbólgudraugurinn má finna í gögnum Hagstofu Íslands
Pistilinn, þar sem verðbólgudraugnum bregður fyrir, má lesa í heild sinni hér.
Tak fyrir mig og gleðilega hátíð
Annars þakka ég öllum sem þeim sem lásu pistlana mína í ár. Vonandi höfðu þið eitthvað gagn og gaman af lestrinum. Og vonandi haldið þið áfram að lesa á næsta ári.