Eldsvoðar eru ekki náttúruhamfarir. Þeir eru afleiðingar af ákvörðunum. Til dæmis ákvörðun einhvers sem kveikti í. Eða ákvörðun húseiganda sem taldi ekki þörf á viðeigandi brunavörnum. Eða ákvörðun samfélags sem ákveður að koma þannig fram við erlent verkafólk, sem hingað flytur til að leggja sitt að mörkum við að auka velmegun Íslendinga, að það sé látið búa við óboðlegar og óöruggar aðstæður.
Kjarninn birti á sunnudag afrakstur stærsta rannsóknarverkefnis síns frá upphafi. Umfjöllun um mannskæðasta eldsvoða sem orðið hefur í höfuðborg landsins. Umfjöllunin snertir alla fleti málsins í fjölmörgum fréttaskýringum og viðtölum. Hún lýsir mannlegum harmleik, kerfislegri jaðarsetningu erlendra verkamanna á Íslandi og því hvernig við sem samfélag samþykkjum að græðgi sé æðri mennsku og reisn allra.
Þrír dóu í brunanum. Þótt fólkið sem lést sé ekki nefnt á nafn í umfjöllun Kjarnans, af virðingu við óskir aðstandenda þeirra sem eiga um mjög sárt að binda, þá er hvatinn á bakvið hana sá að sýna að þarna dóu raunverulegar manneskjur. Þær voru ekki bara tölur sem hurfu úr kennitölusafni Þjóðskrár.
Andstæðir veruleikar
Atburður sem þessi sýnir fram á andstæða veruleika sem fyrirfinnast á Íslandi.
Hér eru til að mynda lögfestar kröfur um aðgengi fyrir alla í byggingaregluverki. Í því felst meðal annars að nýtt húsnæði sem inniheldur lyftur þarf að lúta reglum um svokallaða algilda hönnun. Þær tryggja að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, til dæmis í eldsvoða.
Þegar kemur að því húsnæði sem við bjóðum erlendum ríkisborgurum upp á, sem hingað flytja til að leggja gríðarlega mikið til samfélagsins, þá gilda færri reglur, og þær reglur sem eru til staðar virðist auðvelt að sniðganga.
Þeir mega búa á stöðum þar sem eru engar svalir, engir brunastigar, takmarkaðar flóttaleiðir, of lítil opnanleg fög á gluggum, engir hamrar til að brjóta glugga og með slökkvitækjum sem hafa ekki verið tekin út svo lengi að engin vissa er um hvort þau virki eða ekki. Þeir mega búa margir saman, við óþrifnað og kulda, í gömlum iðnaðarhúsnæðum eða hjöllum í niðurníðslu, svo eigendur slíkra geti haft af þeim prýðilegan hagnað.
Þegar á þetta er bent virðist lítið að gert til að bæta úr. Viðkvæðið er mun frekar: „Er þetta fólk betur sett á götunni?“
Vélaraflið
Þetta er sérstaklega bíræfið þegar haft er í huga að við sem samfélag græðum á útlendingum. Það er töluleg staðreynd. Hér var ekki til nægilega mikið af fólki, sérstaklega ungu fólki, til að manna þau störf sem síðasta góðæri kallaði á í ferðaþjónustu og byggingaiðnaði. Þau störf voru mönnuð af erlendum ríkisborgurum. Þeim fjölgaði úr 21 þúsund í 51 þúsund á nokkrum árum.
Þessari fjölgun útlendinga fylgdi mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Verg landsframleiðsla okkar fór úr því að vera 1.758 milljarðar króna árið 2011 í að vera 2.970 milljarðar króna í fyrra. Það er aukning um 68 prósent í sameiginlegum tekjum okkar.
Kaupmáttur launa almennt jókst um 26 prósent hérlendis frá árslokum 2014 til ársloka 2019 og var mestur hérlendis af öllum OECD-ríkjunum.
Útlendingarnir sáu líka um að fóðra ríkissjóð. Níu af hverjum tíu nýjum skattgreiðendum sem bæst hafa við hérlendis á undanförnum árum voru erlendir ríkisborgarar. Árið 2018 greiddu alls 52.489 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi, sem gerir þá að 17,1 prósent allra framteljenda á skattgrunnskrá. Tæplega tveir þriðju þessara útlendinga, eða 65,3 prósent, voru á milli tvítugs og fertugs.
Þessi hópur hefur sannarlega ekki lagst eins og mara á félagslega kerfið okkar. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands þá var meðaltal „annarra tekna“ hjá innlendum íbúum Íslands um 1,3 milljónir króna á árinu 2017. Á sama tíma var það 626 þúsund krónur hjá innflytjendum, eða rúmlega 50 prósent lægra. „Aðrar tekjur“ eru samtala ýmissa félagslegra greiðsla, svo sem lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og aðrar bótagreiðslur á borð við atvinnuleysisbætur, vaxta- og barnabætur.
Útlendingarnir sem hafa gert svo mikið fyrir okkur efnahagslega eru líka þeir fyrstu til að taka skellinn þegar harðnar í ári. Það hefur líkast til aldrei verið jafn sýnilegt og síðustu mánuði, þegar þeir voru nær undantekningarlaust fyrstir til að missa vinnuna þegar heimsfaraldur kórónuveiru skall á. Í dag er atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara um 25 prósent og þeir eru 41 prósent allra atvinnulausa, þrátt fyrir að vera 14 prósent íbúa landsins.
Fólkið sem er hægt að „losa sig“ við
Samt er komið fram við þennan hóp eins og þau séu ekki fullgildar manneskjur. Við jaðarsetjum hann. Nýtum þegar þarf, en hunsum og afmennskum þess á milli. Látum eins og hann sé hagtala, ekki hold og blóð.
Sú afstaða birtist til að mynda skýrt í orðum ráðuneytisstjóra í félags- og barnamálaráðuneytinu, á málstofu sem fór fram fyrir um ári síðan, þar sem hann var staðgengill ráðherrans. Þar sagði ráðuneytisstjórinn, Gissur Pétursson, að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að „losa sig“ við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Það hefði enginn beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti.
Ráðuneytisstjórinn hefur ekki gert nokkra tilraun til að draga þessi orð til baka. Þau höfðu engar afleiðingar fyrir hann.
Sú afstaða birtist líka í þeim ömurlega aðbúnaði sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar á vegum þeirra líta framhjá að erlent verkafólk þarf margt hvert að búa við í íslensku samfélagi. Þann óboðlega húsakost sem hópnum er boðið upp á. Þá vanvirðingu sem fylgir því að vera aðallega meðhöndlað sem „vörur“. Þau augljósu vinnuréttarbrot og þann launaþjófnað sem margoft hefur verið opinberað að eigi sér stað gagnvart þessum viðkvæma hópi. Það virðist vera einhverskonar pólitískur ómöguleiki að gera slíkt refsivert.
Það er mikilvægara að græða
Í hvert einasta sinn sem þessi meinsemd er opinberuð þá skapast mikil umræða um að nú þurfi að breyta málunum. Auka aðgengi að ódýru og öruggu húsnæði. Bæta eftirlit og heimildir þeirra sem sinna því eftirliti til inngripa. Bæta fræðslu og upplýsingagjöf svo að fólk sem er ekki með vald á íslenskri tungu eða bakland til að hjálpa sér geti sótt rétt sinn og fengið þá þjónustu sem það á rétt á. Svo koðnar umræðan niður og athygli fólks færist á næsta mál. Ekkert gerist.
En það er val að gera ekkert. Ástæðan er augljós og einföld: Það er fólk sem græðir á fyrirkomulaginu. Hagsmunir þess fólks eru teknir fram yfir hagsmuni erlenda verkafólksins. Meira að segja þegar það verður eldsvoði.
Þegar Bræðraborgarstígur 1 brann varð margskonar tjón. Fyrst ber að nefna manntjón. Þrír dóu. Fólk með drauma og væntingar, hingað komið til að safna sér fyrir framtíð sem aldrei varð. Tjón hinna látnu og aðstandenda þeirra er algjört. Það verður ekki bætt.
Aðrir íbúar á Bræðraborgarstíg urðu líka fyrir tjóni. Sumir líkamlegu, aðrir sálrænu. Þessi atburður mun aldrei yfirgefa það. Fólk eins og Vasile Tibor Andor, sem vaknar enn upp á nóttunni og finnst hann finna brunalykt og heyra öskur. Eða Alisher Rahimi, sem heyrði aldrei í reykskynjaranum, efast um að slíkur hafi verið í íbúðinni sem hann bjó í og fær enn martraðir um að kviknað sé í. Eða ungi Pólverjinn sem skarst mikið á bæði höndum og fótum. Sem hlaut mörg höfuðkúpubrot, fékk blóðtappa í slagæð í lunga, staðbundna heilaáverka og reykeitrun. Eftir að hafa stokkið út um glugga í örvæntingu vegna þess að hann hélt að hann væri að fara að deyja í eldhafi.
Tjóni þeirra var mætt með því að eigandi hússins sendi þeim rukkun um leigu næstu mánaða eftir að húsið brann til kaldra kola.
Samfélagið í Vesturbænum varð líka fyrir tjóni. Fólk sem reyndi að gera gagn, en gat það ekki. En horfir upp á, og finnur lyktina af, minningunni um atburðinn í götunni sinni á hverjum degi þegar það gengur fram hjá brunarústunum. Börnin sem sváfu í fötunum vikum saman svo þau gætu verið tilbúin til að hlaupa út ef það kviknaði í.
Eina tjónið sem er bætt er það fjárhagslega tjón sem eigandi hússins varð fyrir. Hann stendur nú í deilum við tryggingafélag um hversu mikið af peningum hann eigi að fá fyrir það tjón og mun í framtíðinni geta byggt nýja eign á einum verðmætasta byggingarstað borgarinnar. Eða selt réttinn til þess. Samhliða berst hann gegn því að „sönnunargagnið“, brunarústirnar þar sem fólk dó, verði rifið. Því stendur það sem minnisvarði um gildismat okkar kerfis. Þar sem peningar eru mikilvægari en sumt fólk.
Erum við öll jafn mikilvægar manneskjur?
Í umfjöllun Kjarnans var greint frá pappaspjaldi sem fest var á járngirðinguna sem umlykur leifarnar af Bræðraborgarstíg 1. Þar segir: „Við erum öll manneskjur.“ Þar segir líka: Ís-lendingur, út-lendingur – „tveggja stafa munur.“ Og „Við höfum nafn, eigum okkur menningu, tónlist, ljóð, fortíð, fjölskyldur, drauma og réttindi. Við erum brothætt. Við höfum hæfileika, sögur að segja. Við höfum þarfir. Við erum einstök.“
Þetta eru falleg orð, en þau virðast ekki eiga sér heimastað í íslenskum kerfum. Ætlar einhver að halda því fram að viðbrögðin við þessum harmleik hefðu ekki verið önnur ef þar hefðu látist þrír ungir Íslendingar, með tengslanet og bakland hérlendis, en ekki þrír ungir Pólverjar?
Benjamin Julian, starfsmaður stéttarfélagsins Eflingar, sagði í einni af fréttaskýringum Kjarnans að harmleikurinn á Bræðraborgarstíg gæti farið á tvo vegu: „Hann getur orðið harkaleg lexía fyrir okkur um að taka á rót vandans eða að við yppum öxlum og segjum: Það er aldrei hægt að stoppa íkveikjur.“
Eins og er þá er hann að fara á síðari veginn.
Af því er skömm fyrir íslenskt samfélag.