Sóttvarnaráðstafanir eru til að bjarga mannslífum og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Í vopnabúri aðgerða við heimsfaraldri eru einfaldlega engar góðar leiðir í boði, heldur mismunandi vondar. Hérlendis hafa yfirvöld fylgt ráðleggingum sóttvarnalæknis og valið oftast nær þann kost sem honum hefur þótt skástur, að takmarka sem mest sýkingar.
Því fylgja fjölmargar neikvæðar afleiðingar, bæði efnahagslegar og heilsufarslegar utan COVID-19 veikinda. Þúsundir hafa misst vinnuna vegar efnahagssamdráttar, fjölmargir sjá á eftir lífsviðurværi sínum eða fyrirtækjum í geirum sem verða fyrir miklum tekjusamdrætti og heildaráhrif á andlega líðan eða geðheilsu eru víðtæk.
Á Íslandi hefur verið lögð áhersla á samvinnu milli almennings, fyrirtækja og yfirvalda um að framfylgja þeim takmörkunum sem settar hafa verið til að vinna á fjölgun smita. Það hefur gengið vel og um 83 prósent landsmanna hefur breytt venjum sínum til að forðast smit. Svo vel að þríeykið svokallaða var hafið upp til skýjanna eftir fyrstu bylgju faraldursins sem nokkurs konar bjargvættir þjóðar, og verðlaunuð með Fálkaorðu forsetaembættisins fyrir þeirra framlag.
Þar skipti traust milli þeirra og fólksins sem þau sögðu fyrir verkum öllu máli. Þótt mörgum hafi þótt nóg um þessa upphafningu, og verið ljóst að venjulegar manneskjur standi ekki undir henni, þá gengust yfirvöld upp í þessu ástandi. „Hlýðum Víði“ var viðkvæðið, með vísun í vinsæl hvatningarskilaboð sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra, flutti í lok þríeykisfunda í fyrstu bylgju. Frasinn var formfestur þegar yfirmaður Víðis, Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, lauk máli sínu á einum fundinum með eftirfarandi orðum: „Þetta er ekki búið, við þökkum fyrir þessa samheldni og samstöðu, þetta snýst um að hlýða Víði.“
Víðir sjálfur sagði í viðtali við Morgunblaðið í byrjun apríl að það væri fínt að „Hlýðum Víði“ væri orðið slagorð verkefnisins. Það væri auðvelt fyrir fólk „að hlýða“ þar sem hann væri með trúverðugan málstað, væri heiðarlegur og sannur og með góð rök.
Einstaklingshyggjan
Síðan eru liðnir margir mánuðir og þreyta fólks á yfirstandandi ástandi er orðin sýnilegri. Áþreifanlegri. Þrýstihópar hafa myndast sem vilja hætta öllum almennum aðgerðum og setja frelsi einstaklinga til athafna ofar þeim ávinningi sem fylgir lágmörkun smita. Það fólk vill lífsstílinn sinn aftur og klæðir þann vilja jafnvel í hugmyndafræðilegan búning til að gefa honum aukið vægi.
Þau hafa fullan rétt á því að viðra þessa skoðun og öll umræða um takmarkanir á athafnafrelsi sem lagðar eru til á grundvelli almannahagsmuna er af hinu góða. Það á að hugsa gagnrýnið um allt valdboð stjórnvalda.
En það þýðir ekki að sú gagnrýna hugsun eigi að skila manni stystu leið á þann jaðar einstaklingshyggju sem þingmennirnir tveir hafa staðsett sig á. Þótt fólk, eftir yfirlegu og með vísun í staðreyndir, sé enn ósammála þeim og segi það upphátt þá felst ekki í því takmörkun á tjáningarfrelsi þingmannanna tveggja og skoðanasystkina þeirra. Það er beinlínis þreytandi að hlusta á harmakvein um að umræða með umferð í báðar áttir feli í sér einhverskonar þöggun.
Prófsteinn á siðferði
Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki og stjórnarformann Siðfræðistofnunar, var í mjög áhugaverðu viðtali við Kjarnann um helgina um þær siðferðislegu spurningar sem vakna vegna þeirra ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið við fordæmalausar aðstæður á þessu ári. Vilhjálmur er meðal annars höfundur bókarinnar Siðfræði lífs og dauða en í henni fjallar hann um öll helstu siðferðilegu álitamál í heilbrigðisþjónustu, og veit því hvað hann er að tala um. Líkast til eru fáir Íslendingar sem hafa velt þessum hlutum jafn ítarlega fyrir sér og hann.
Í viðtalinu benti Vilhjálmur á að við Íslendingar höfum almennt notið mikilla forréttinda en að ástandið sé miserfitt fyrir fólk. Hann minntist á hópanna sem fjallað er um hér að ofan, sem kvarta yfir því að frelsi þeirra sé skert. Hann talaði um fólk í framvarðarsveitum sem hafi iðulega stigið fram og biðlað til fólks að sýna samstöðu. Um heilbrigðisstéttir ýmsar sem þurft hafa að takmarka ferðir sínar um samfélagið mikið meira en gengur og gerist vegna hættu á smiti hjá viðkvæmum hópum. Allar þessar sögur sýni að sýn okkar er mismunandi eftir því hvar við erum stödd. „Þetta kallar á það enn meira en áður að reyna að setja okkur í annarra spor. Þetta er prófsteinn á siðferði okkar í svo mörgu tilliti.“
Að standa með þeim verst settu
Með þessari litlu setningu hittir Vilhjálmur naglann á höfuðið. Aðstæður sem þessar reyna á hversu sterkt samfélagslegt lím okkar er. Ef flestir geta sett heildarhagsmuni, og hagsmuni annarra hópa, fram yfir eigin vilja og sértæka hagsmuni, þá erum við að sýna okkur sem siðlegt samfélag. Ef okkur tekst það ekki þá eru önnur gildi, birtingarmyndir einstaklingshyggju, orðin ráðandi, og samfélagið ekki lengur réttu megin við siðferðilegu línuna.
Vilhjálmur sagði í viðtalinu það aldrei réttlætanlegt að fórna einstaklingum og að horfast verði í augu við það að fórnarkostnaður af hörðum aðgerðum sé óhjákvæmilegur vegna afleiðinga fyrir lýðheilsu síðar meir. „Spurningin er hvernig hægt er að standa mannúðlega að þessu og í samræmi við þau gildi sem viljum vernda. Það er þessi samstaða sem liggur siðferði okkar mikið til grundvallar, að standa með þeim sem geta ekki varið hagsmuni sína sjálfir. Það reynir á okkur í svona ástandi að standa með þeim verst settu.“
Samstaðan byggir á trausti
Allar kannanir benda til þess að við höfum verið á réttum stað. Samstaðan hefur hingað til verið til staðar.
Í nýjustu könnun Gallup, sem hefur kannað afstöðu almennings til ýmissa þátta heimsfaraldursins frá því í mars, kemur til að mynda fram að 93 prósent landsmanna treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum til að takast á við COVID-19. Þegar spurt er að hvort almannavarnir séu að gera nægilega mikið til að takast á við faraldurinn segja 91 prósent landsmanna að þær séu að gera hæfilega mikið eða að þær ættu að gera meira. Einungis níu prósent telja að það ætti að gera minna. Vert er að taka fram að þessar tölur mæla ekki hversu margir fylgi fyrirmælum heldur hvað fólki finnst um þá sem setja þau. Aukin fjöldi fólks í t.d. verslunum og upptaktur í fjölda smita nýverið benda til þess að fleiri séu að slaka verulega á.
Til þess að samstaðan haldi þarf að vernda traust milli þeirra sem aðgerðunum er beint að, og þeirra sem setja þær. Það þarf að vera skýrt að við séum öll í þessu saman og að sérreglur gildi ekki um suma.
Þess vegna er það grafalvarlegt mál þegar valdafólkið bregst og hegðar sér öðruvísi en það er að biðja allan almenning um að gera.
„Cummings-áhrifin“
Bretum hefur gengið illa að takast á við COVID-19 og efnahagsleg áhrif á ríkið verða ein þau alvarlegustu í vestrænum heimi. Ein ástæða þess að illa hefur tekist til eru kölluð „Cummings-áhrifin“.
Þann 23. mars ávarpaði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bresku þjóðina og tilkynnti um nær algjört útgöngubann. Fólk í Bretlandi átti vera heima, með örfáum undantekningum. Einungis tveir máttu koma saman á almannafæri, nema þeir byggju á sama heimili. „Þið verðið að vera heima,“ sagði forsætisráðherrann.
„Þú átt ekki að hitta vini. Ef vinir þínir biðja þig um að hitta sig, þá ættir þú að segja nei,“ sagði Johnson og bætti við að ef fólk færi ekki að reglum hefði lögregla heimild til þess að beita sektum eða til þess að leysa upp samkomur.
Nokkrum dögum eftir ávarp Johnson ákvað Dominic Cummings, þá helsti pólitíski ráðgjafi forsætisráðherrans, að ferðast rúmlega 400 kílómetra, frá London til Durham þar sem foreldrar hans búa, með eiginkonu sinni og ungu barni. Þetta gerði hann þrátt fyrir að hjónin væru bæði með einkenni sem svipaði til COVID-19 sjúkdómsins.
Síðar gáfu vitni sig fram og sögðust hafa séð Cummings og eiginkonu hans tvívegis utan heimilis foreldra hans í apríl.
Jóhnson varði Cummings og hann var ekki rekinn vegna þessa.
En rannsókn The University College London, sem birt var í hinu virta tímariti The Lancet, sýndi að áhrifin af atferli Cummings voru gríðarleg. Traust á aðgerðum stjórnvalda dróst mikið saman eftir að í ljós kom að ekki voru gerðar sömu kröfur til eftirfylgni á þeim til efsta lagsins í valdastiganum og allra hinna.
Taktlaus mistök sem leiddu af sér skaða
Á Íslandi þá höfum við upplifað nokkur atvik þar sem áhrifafólk hefur ekki hegðað sér í samræmi við það sem stjórnvöld hafa krafist af venjulegu fólki. Fyrsta skýra dæmið átti sér stað um miðjan ágúst, þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fór í vinkonuhitting. Af þeim hittingi voru birtar myndir af vinkonunum, sem komu úr mismunandi sveitarfélögum og hittast ekki reglulega, í einum hnapp, og ekki að virða hina svokölluðu tveggja metra reglu.
Ríkisstjórnin, sem Þórdís Kolbrún situr í, hafði nokkrum vikum áður hert reglur vegna þess að önnur bylgja kórónuveirusmita var að gera vart við sig. Þórdís Kolbrún hafði auk þess skrifað grein um aðgerðirnar í Morgunblaðið með fyrirsögninni: „Þetta veltur á okkur“. Föstudaginn 15. ágúst ákváðu stjórnvöld að herða verulega takmarkanir á landamærum Íslands, sem í reynd lokuðu landinu að mestu fyrir komu ferðamanna. Við það tækifæri skrifaði Þórdís Kolbrún í stöðuuppfærslu á Facebook að áfram væru „persónubundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja þessa veiru niður og hertari aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það. Við búum í góðu samfélagi. Sterku samfélagi. Og við erum heppin með það teymi sem ráðleggur okkur í gegnum þann þátt þessa risa stóra verkefnis.“
Vinkonuhittingurinn átti sér svo stað daginn eftir, laugardaginn 16. ágúst. Þórdís hefur síðar sagt að myndatakan í hittingnum hafi verið „taktlaus og mistök“ en að einn helsti lærdómurinn af honum væri fyrir hana persónulega. „Gleymum því ekki að það er stór hluti þess að vera manneskja, að gera mistök, vera taktlaus, hafa ekki alltaf hugsað hlutina til enda.“
Skaðinn var þó líkast til skeður. Bersýnilegt var að margir hugsuðu að þeir ættu ekki að fórna sínum lífsgæðum fyrst ráðamennirnir sem voru að skipa þeim fyrir fylgdu ekki eigin fyrirmælum.
Stjórnmálaleiðtogi fer í golf
Í byrjun október voru takmarkanir hertar á ný, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, vegna mikillar aukningar á smitum. Á meðal þess sem þetta fól í sér var að golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu var lokað. Golfsambands Íslands (GSÍ) sendi auk þess út tilmæli um að kylfingar á höfuðborgarsvæðinu leituðu ekki til golfvalla utan þess til að svala fýsn sinni.
Þótt Þorgerður Katrín sé ekki í ríkisstjórn þá er hún formaður stjórnmálaflokks, sem tekur þátt í umræðu, stuðningi við og gagnrýni á aðgerðir stjórnvalda. Þegar hún fer ekki eftir settum reglum þá hefur það áhrif.
Skilaboðin eru þau sömu og hjá Þórdísi Kolbrúnu, að aðrar reglur gildi um stjórnmálaelítuna en almúgann, algjörlega óháð því hvort þær ætluðu að senda þau skilaboð eða ekki.
Víðir fer út fyrir valdsvið sitt
Um miðjan október fóru fram landsleikir í fótbolta. Í aðdraganda eins leiksins greindist starfsmaður Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) með COVID-19 og samkvæmt öllu áttu þjálfarar liðsins, og ýmsir aðrir því tengdu, að vera í sóttkví, en starfsmenn sambandsins höfðu orðið uppvísir af því að virða hvorki nálægðarmörk né grímuskyldu í sjónvarpinu fyrir framan alþjóð.
Víðir Reynisson, sem hefur starfað fyrir KSÍ sem öryggisfulltrúi, ákvað hins vegar að veita þjálfurum liðsins undanþágu til að fylgjast með leik sem fór fram eftir að smitið greindist í gegnum gler á efri hæðum Laugardalsvallarins. Með því fór Víðir að eigin sögn út fyrir valdsvið sitt, enda sóttvarnalæknis, ekki lögreglumanns, að gefa út slíkar undanþágur.
Víðir viðurkenndi á upplýsingafundi í kjölfar leiksins að hann hefði gert mistök og sett afskaplega slæmt fordæmi með ákvörðun sinni. Hún hafi litið sérstaklega illa út miðað við fyrri störf hans fyrir KSÍ. Þjálfararnir áttu aldrei að fá horfa á leikinn úr glerbúrinu. Það var sérmeðferð sem Víðir veitti þeim.
Víðir tilkynnti að hann myndi ekki koma frekar að ákvörðunum um íþróttamál í kórónuveirufaraldrinum.
Fólk kemur í heimsókn
Um miðja síðustu viku var greint frá því að Víðir væri með COVID-19. Það er ekki einungis alvarlegt út frá persónulegu heilbrigði Víðis og hans nánustu, heldur líka vegna þess að hann starfar á hverjum degi með því fólki sem er hjartað í öllum aðgerðum yfirvalda til að takast á við faraldurinn.
Á laugardag greindi Víðir frá því að alls hefðu tólf manns orðið útsett fyrir smiti vegna kórónuveirusmits eiginkonu hans, að honum meðtöldum. Ekki hefur tekist að rekja uppruna smitsins.
Um er að ræða fjölskyldumeðlimi og vinafólk sem var gestkomandi á heimili þeirra hjóna laugardaginn 21. nóvember, alls um tíu manns. Fimm þeirra sem komu í heimsókn smituðust af veirunni. Þeirra á meðal er vinafólk hjónanna, sem býr á landsbyggðinni en komu til höfuðborgarsvæðisins síðasta laugardag og dvelja tímabundið á heimili Víðis sökum þess að þau þurftu að sækja læknisþjónustu í borgina. „Dætur [vinafólksins utan af landi] kíktu stutt í kaffi á sunnudeginum. Vinkona okkar kom stutt við í kaffi líka. Börn okkar, tengdadóttir og barnabarn komu einnig við og um kvöldið komu til okkar vinahjón sem stoppuðu stutt,“ skrifaði Víðir á Facebook.
Hann sagði að þau hjónin væru búin að fara vel yfir öll samskiptin og höfðu fundið út að fjarlægð sem var haldin var um eða yfir tveir metra við alla. „Hins vegar er ljóst að við pössuðum ekki upp á alla sameiginlega snertifleti. Vatnsskanna, kaffibollar og glös hafa sennilega verið sameiginlegir snertifletir sem hafa dugað til að smita.“
Dómgreindarbrestur hefur afleiðingar
Um þetta þarf ekkert að deila mikið. Skilaboð yfirvalda, sem Víðir hefur oft séð um að koma á framfæri, eru að takmarka öll samskipti við þá sem deila ekki með þér heimili. Setja hagsmuni heildarinnar framar eigin vilja til samneytis. Ekki halda upp á afmæli. Ekki fara í jarðarfarir. Ekki bjóða vinafólki í mat. Ekki vera með fólk úr öðrum sveitarfélögum í gistingu. Eða börnin þeirra í kaffi. Verið með mjög þrönga „búbblu“. Og svo framvegis.
Eftir að upp komst um ferðalag Dominic Cummings í Bretlandi í vor sagði á forsíðu Daily Mail: „Á hvaða plánetu eru þeir?“ Þar var átt við Cummings og forsætisráðherrann sem varði hann. Í tilvísun í leiðaraskrif blaðsins á forsíðunni sagði að Cummings hafi á mjög skýran hátt brotið gegn þeim reglum sem yfirvöld voru að fara fram á að almenningur fylgi. „Með því að gera það þá hefur hann gefið hverri einustu sjálfselsku manneskju leyfi til að leika sér að heilsu almennings.“
Hegðun Víðis er ekki í samræmi við það sem hann hefur verið að boða, sem ein helsta rödd aðgerða sem krefjast mikilla fórna frá fullt af fólki. Fórna sem fela í sér fjarvistir frá ástvinum. Félagslega einangrun, tapað lífsviðurværi og oft á tíðum bæði líkamlega og andlega erfiðleika.
Það gera flestir mistök í þessum málum, enda flókin í framkvæmd. Sá sem þetta skrifar er ekki undantekning þar á. Víðir er mannlegur eins og við hin, hefur staðið sig feikilega vel við fordæmalausar aðstæður og honum eru sendar batakveðjur. En það verður að gera ríkari kröfur til þeirra sem sinna valdboðinu að vera fyrirmyndir. Sérstaklega þar sem yfirvöld hafa gengist upp í því að fá fólk til að „Hlýða Víði“.
Eftir höfðinu dansa limirnir.
Þegar fólkið í framlínunni sýnir af sér dómgreindarbrest þá hefur það afleiðingar, á Íslandi eins og í Bretlandi. Fleiri hætta að reyna að setja sig í spor annarra, og einbeita sér frekar að eigin sporum.
Samstaðan gæti liðast í sundur. Og líkurnar á því að við föllum á siðferðisprófinu aukast til muna.
Vonandi gerist það ekki. Það er undir okkur sjálfum komið.