Kristinn Ingvarsson/HÍ

Ástandið kallar á að við setjum okkur í spor annarra – og er prófsteinn á siðferði okkar

Samfélagið stendur nú frammi fyrir stærstu áskorunum þessarar aldar vegna tilkomu illvígrar farsóttar og hafa þjóðir heimsins átt í vök að verjast gegn henni og þeim gríðarlega alvarlegu afleiðingum á heilsu fólks og efnahagslíf sem fylgt hafa í kjölfarið. Í öllu þessu umróti getur verið erfitt að meta ákvarðanir sem stjórnvöld taka – enda fordæmalausar aðstæður – og þess vegna hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að staldra við og íhuga stöðuna. Við það vaknar fjöldi siðferðislegra spurninga og ræddi Kjarninn við heimspekinginn Vilhjálm Árnason til þess að komast nær svörum í flóknum aðstæðum.

Í byrjun faraldurs fyrr á árinu mátti greina mikla samstöðu meðal Íslendinga varðandi aðgerðir stjórnvalda. Fólk var tilbúið að fórna ákveðnum réttindum fyrir heildarhagsmuni – og þá sérstaklega með það í huga að COVID-19 getur verið banvænn sjúkdómur og herjað sérstaklega á eldra fólk og fólk í áhættuhóp.

Þegar leið á árið fór þetta viðhorf smám saman að breytast. Fólk passaði sig ekki eins mikið varðandi sóttvarnir og þegar haustið var gengið í garð vaknaði veiran á ný og breiddist hratt út. Þá kom annað hljóð í strokkinn. Einstaklingar létu meira í sér heyra og sumir mótmæltu nýjum aðgerðum. Sumum fannst þær herja um of á einstaklingsfrelsi þeirra; hvað þeir mættu og mættu ekki. Jafnframt kom fram hávær krafa frá atvinnulífinu um að horfa bæri til heildarmyndarinnar en ekki einungis til sóttvarnaþátta. Þá hefur hin svokallaða „sænska leið“ verið rædd, sem og möguleikinn á að þjóðin gæti myndað með sér hjarðónæmi.

Allar þessar vangaveltur kalla á umræðu sem er nauðsynleg og þörf og nú er svo komið að við sem samfélag stöndum frammi fyrir mjög mikilvægum siðferðilegum spurningum og hafði Kjarninn samband við Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki og stjórnarformann Siðfræðistofnunar, til þess að ræða þessi flóknu mál. Vilhjálmur er einnig höfundur bókarinnar Siðfræði lífs og dauða en í henni fjallar hann um öll helstu siðferðileg álitamál í heilbrigðisþjónustu á ítarlegan hátt.

Auglýsing

Er einhvern tíma réttlætanlegt að „fórna“ þeim sem láta lífið vegna veirunnar til þess að höggið á atvinnulífið verði minna, með því að hafa aðgerðir stjórnvalda vægar, þrátt fyrir að það komi þúsundum karla og kvenna betur – til að mynda hvað atvinnu varðar, geðheilsu og svo framvegis?

„Það er aldrei réttlætanlegt að fórna einstaklingum en við verðum að horfast augu við það að fórnarkostnaður af hörðum aðgerðum er óhjákvæmilegur vegna afleiðinga fyrir lýðheilsu síðar meir. Spurningin er hvernig hægt er að standa mannúðlega að þessu og í samræmi við þau gildi sem viljum vernda. Það er þessi samstaða sem liggur siðferði okkar mikið til grundvallar, að standa með þeim sem geta ekki varið hagsmuni sína sjálfir. 

Það reynir á okkur í svona ástandi að standa með þeim verst settu. Mikil óvissa er um framvinduna en réttmæti núverandi aðgerða helgast meðal annars af því að ætla má að ástandið sé tímabundið. Þess vegna skipta slíkar staðreyndir miklu máli við siðferðilegt mat á réttmæti aðgerða. Við höfum farið í gegnum þetta með það í huga að ástandið yrði tímabundið, þetta yrði átak, ekki síst í ljósi vonar um að áhrifarík bólusetning sé handan við hornið. Þá tækju allir á sig ákveðnar byrðar um tíma en við setjum það í forgang að verja þá sem eru í mestri hættu á að veikjast illa af veirunni,“ segir Vilhjálmur. 

Hann bendir á að fljótt hafi komið hafi í ljós að sú leið að stefna að hjarðónæmi hefði keyrt okkar innviði algjörlega um koll. „Heilbrigðiskerfið myndi ekki þola það og þá væri ástandið farið að bitna á okkur öllum. Svo var rætt um þá útfærslu að slaka mjög á hömlum en verja sérstaklega þá sem eru í áhættuhópum en það er svo erfitt að sigta það út – þetta er ákveðinn framkvæmdarvandi. Sænska leiðin svokallaða hefur líka alvarlega siðferðilega ágalla því að hún hefur bitnað hvað verst á íbúum hjúkrunarheimila.

En þetta að fórna, að leyfa fólki að deyja eins og maður sér í röksemdum um að meta eigi „quality of life years“ – lífsgæðaár séu þá færri eftir hjá þeim eldri – er siðferðilega vafasöm. Út frá mannúðarsjónarmiði verðum við að haga aðgerðum okkar í samræmi við gildi sem við viljum vernda og getum horfst í augu við síðar meir. Samstaða með þeim sem minnst mega sín er prófsteinn á siðferði okkar.“

Ýmsir í jaðarhópum hafa gagnrýnt orðræðu í kringum COVID-19 faraldurinn og þá fordóma sem opinberast í ástandinu. Freyja Haraldsdóttir, baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks, doktorsnemi og háskólakennari, benti til að mynda í samtali við Kjarnann í byrjun apríl að óþægilega umræðu um að COVID-19 snerti einungis gamalt fólk og fólk í áhættuhópum. „Ef það er bara gamalt fólk eða við, fatlað fólk, sem veikjumst eða deyjum þá skipti það ekki máli. Við heyrum alveg hvað fólk er að segja og auðvitað skiptir það máli. Mitt líf er alveg jafn mikilvægt og annarra – og okkar allra,“ sagði hún.

Vilhjálmur segir í þessu sambandi að þessi umræða um fórn hafi helst komið upp þegar staðið er frammi fyrir erfiðu vali um hverjir komist að í heilbrigðiskerfinu, í öndunarvélar eða gjörgæslumeðferð? Hvaða viðmiðanir á þá að hafa?

„Þá kemur þessi hugmynd upp, sem er svo sem ekki einstök fyrir þetta, um viðmiðanir um heildarástand og hrumleika sem gefi vísbendingar um hversu vel aðgerðin gagnist sjúklingum, og þá auðvitað skiptir aldur eða fötlun ekki máli – eða á ekki að gera það út frá siðferðilegu sjónarmiði. En heildarástand sjúklings getur skipt máli við mat á forgangsröðun þegar skortur er á úrræðum en sem betur fer held ég að við höfum ekki staðið frammi fyrir því hér. 

Við þurfum sérstaklega að standa með þeim einstaklingum sem af einhverjum ástæðum eru ófærir um að verja eigin hagsmuni eða standa hallari fæti gagnvart ógn en við flest hver. Það er ákveðin siðferðileg krafa að gæta þeirra hagsmuna. Og ég held að viðbrögðin hér á landi hafi tekið mið af því.“

Mikilvægt að geta horfst í augu við það sem við gerum hér og nú

Vilhjálmur bendir á að ein ástæðan fyrir rökunum framan af varðandi það að fletja kúrfuna væri að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir þessum hörmulegu ákvörðunum. „Þá kemur alltaf þetta að við þurfum að forðast það að lenda í einhverjum fórnarkostnaði í aðstæðunum en það er annar fórnarkostnaður sem er mikið óljósari.“

Þetta með hugsanlegar afleiðingar; aukin sjálfsvíg, heimilisofbeldi og fleira sem aukið atvinnuleysi hefur tölfræðilega alltaf í för með sér. Hann segir að siðfræðingar bendi á að okkur finnist sálfræðilega auðveldara að horfast í augu við ónafngreindan fjölda síðar meir en þá sem við þurfum að horfast í augu við í aðstæðunum hér og nú. 

„Það er auðvitað líka ákveðin mannúðarhugsun, því að við getum ekki horfst í augu við samborgara okkar – ég tala nú ekki um þá sem höllustum fæti standa – ef þeir deyja vegna ákvarðana sem við tökum í þessum aðstæðum. Þótt okkur sé bent á að það sé einhver fórnarkostnaður framundan þá vitum við aldrei hver hann verður. Heimurinn veltist á alla vegu og það er bara ekkert ljóst, jafnvel þótt tölfræðin segi að það verði fórnarkostnaður þá geta orðið einhverjar sveiflur í efnahag, tækni eða samfélagi sem hafa áhrif á það og við getum ekki haft áhrif á með ákvörðunum okkar nú.“

Þess vegna telur Vilhjálmur mikilvægt að við sem samfélag leggjum áherslu á hvað við getum horfst í augu við að við séum að gera hér og nú – andspænis því fólki sem við erum með í aðstæðunum núna. Það sé mannúðleg afstaða. 

Við þurfum sérstaklega að standa með þeim einstaklingum sem af einhverjum ástæðum eru ófærir um að verja eigin hagsmuni eða standa hallari fæti gagnvart ógn en við flest hver.
Vilhjálmur telur mikilvægt að við sem samfélag leggjum áherslu á hvað við getum horfst í augu við að við séum að gera hér og nú – andspænis því fólki sem við erum með í aðstæðunum núna. Það sé mannúðleg afstaða.
Kristinn Ingvarsson/HÍ

Hvernig væru aðstæðurnar aftur á móti ef ekkert bóluefni væri fyrirsjáanlegt í framtíðinni? 

Vilhjálmur segir að þá væri allt önnur staða uppi. „Þá gæti þuft að taka annars konar ákvarðanir. Siðfræðilegt mat tekur alltaf mið af þessum staðreyndum. Það er eitt sem gerir þetta mál svo erfitt, það er svo mikil óvissa og erfitt að byggja á fordæmum. Við erum í allt annarri stöðu en til dæmis í fyrri faröldrum.“

Varðandi fórnarkostnaðinn þá er mikilvægt, samkvæmt Vilhjálmi, að taka mið af öðrum fórnarkostnaði en við gerum það meðal annars með því að fara hófsamlega í að skerða frelsi. 

„Það er almenn viðmiðun að skerða frelsi eins lítið og þörf krefur miðað við vandann sem steðjar að. Eitt sem til dæmis var ekki gert hér var að loka skólum á yngsta stigi. Því meira sem fólk er lokað inn á heimilum þá kemur annar fórnarkostnaður með tilliti til lýðheilsu. Þannig að það þarf líka að taka þetta með í reikninginn og það er eitthvað sem við getum metið hér og nú. Það eru ekki framtíðarhugmyndir um lýðheilsu heldur er hreinlega hægt að sjá hvaða hliðarafleiðingar það hefur að fólk lokist inni á heimilum sínum,“ segir hann. 

Auglýsing

Vill að talað sé við okkur borgarana sem vitsmunaverur sem skiljum röksemdirnar

Sumir kennarar hafa þó ekki verið sáttir við að vera settir í framlínuna. Vilhjálmur segir að þarna séu ákveðnir hagsmunir sem þau taka þátt í að verja. „Þá taka kennarar ákveðna áhættu sjálf eins og aðrar framlínustéttir. En áhættan er að sjálfsögðu metin með hliðsjón af því að börn smiti minna, fyrir utan ávinninginn af því að börnin fari í skólann. Það er mikill ávinningur af því fyrir börnin sem einstaklinga að vera í sínu skólaumhverfi og því miður er heimilið ekki alltaf griðastaður. 

Sumir hafa vissulega val um að fara í vinnuna, enda hafa margir vinnuveitendur komið því þannig í kring að fólk geti unnið heima. Það á þó ekki við um til dæmis kennara og hefði hugsanlega verið betra að hafa meira samtal við stéttina. Það mætti biðja fólk sem er ósátt að hugsa þetta út frá fagmennsku og stolti yfir því að vera þátttakandi í því að stuðla að ákveðinni vernd.“

Vilhjálmur segir að nauðsynlegt sé að hafa lýðræðislega málsmeðferð, það er að segja að ekki komi einungis boð að ofan heldur sé fólk laðað til fylgilags við aðgerðir með samtali og skilningi. „Það er þessi leið sem við verðum að temja okkur til að stuðla að sátt og samkomulagi. Þá finnur fólk meira til ábyrgðar sinnar vegna þess að það hefur skilning á ákveðnum röksemdum, en ekki vegna þess eins að því sé gert að gera það af einhverri ytri kröfu.“

Hann bætir því við að þetta sé ekki „diplómatísk“ leið til að fá fólk til að hlýða – eða til að stjórna fólki með því að láta það halda að það sé með í samtalinu þótt það hafi ekkert um málin að segja. „Ég vil að það sé talað við okkur borgarana sem vitsmunaverur sem skiljum röksemdirnar og föllumst á þær vegna þess að við sjáum vægi þeirra. Viljum við vera þátttakendur í því að leggja okkar ábyrga skerf fram til samfélagsins sem við erum hluti af?“

En hvað með þá sem samþykkja ekki rökin og neita að fara að þessum fyrirmælum? 

„Fólk getur auðvitað haft réttmætar ástæður. Það getur farið fram á undantekningu vegna þess að sé í áhættuhópi en þá þarf maður að vita meira um viðkomandi einstakling til að meta það. Sumir gætu neitað að fara að fyrirmælum af einhverri þversku eða ábyrgðarleysi en það er ekki hægt að meta nema skoða hvert tilvik fyrir sig,“ svarar hann. 

Samfélagið samanstendur af fólki í ólíkri stöðu með mismunandi hagsmuni. Hvernig er hægt að sætta sem flesta í þessu ástandi?
Bára Huld Beck

Það ástand sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag er flókið og erfitt. Fólk er ringlað og skiptist iðulega í fylkingar. Eru tól og tæki innan siðfræðinnar sem gætu hjálpað okkur með þetta vandamál? Þ.e. hvernig metum við hvað er rétt að gera í þessum erfiðu aðstæðum? Hvað getur siðfræðin gert til að hjálpa þar til?

Vilhjálmur segir að hún geti tvímælalaust hjálpað til. „Siðfræði byggir á röksemdafærslum og hugtakagreiningu sem koma að gagni í svona aðstæðum við að meta réttmæti aðgerða. Á undanförnum árum hefur líka þróast undirgrein hagnýtrar siðfræði sem kallast siðfræði lýðheilsu. Meginviðmiðanir í siðfræði lýðheilsu varða rök fyrir helstu siðferðisverðmætum sem eru í húfi, eins og frelsi, velferð, sanngirni eða réttlæti, samstöðu. Þetta er allt saman almennt orðuð siðferðileg verðmæti sem við erum almennt sammála um að skipti máli og við viljum helst vernda. En lýðheilsusiðfræðin fæst einkum við að meta vægi þessara verðmæti við aðstæður sem krefjast þess að við veljum á milli þeirra, og þá reynir oft sérstaklega á annars vegar frelsið og hins vegar velferðina. 

Auðvitað er einnig löng reynsla af sóttvarnasiðfræði þar sem eru klassísk rök fyrir takmörkunum á frelsisréttindum til að forða skaða, svo sem með því að skylda sýkta einstaklinga í sóttkví. Það er löng hefð í siðfræði að vega og meta réttmæti þess að takmarka frelsi einstaklinga í tilteknum aðstæðum. Þar er frægust svokölluð skaðsemisregla: Að hver og einn eigi rétt á að lifa eins og hann sjálfur kýs svo lengi sem hann skaðar ekki aðra eða veldur öðrum til dæmis heilsutjóni.“ 

Vilhjálmur segir lýðheilsusiðfræðina líka varða rök fyrir áhrifaríkri og lýðræðislegri málsmeðferð sem við víkjum að á eftir.

Auglýsing

Á tímum samfélagsmiðla og aragrúa upplýsinga sem hver og einn fær á hverjum einasta degi í símann sinn eða tölvu er mikið um upplýsingaóreiðu. Ef einhver ákveður til dæmis að grímur hafi skaðleg áhrif á heilsu, þrátt fyrir það sem heilbrigðisyfirvöld segja, og virki jafnvel ekki, hver er siðferðisleg staða hennar?

„Eitt af því sem siðferðilega ábyrgum borgara ber að gera er að hlusta á reynslurök. Það er mjög athyglisvert að það voru miklar efasemdir af hálfu sóttvarnayfirvalda framan af um gagnsemi grímunnar og svo hefur það breyst. Við höfum verið svo heppin að vera með fagfólk í þessu sem breytir skoðunum sínum í ljósi reynslu og röksemda og það er þá eitt sem við borgararnir getum litið til. Þetta snýst ekki bara um okkar skoðun, heldur verðum við að leita röksemda fyrir þeirri skoðun á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja,“ segir Vilhjálmur.

Í grímu-dæminu þá bendir hann á að – þrátt fyrir að fólk hafi efasemdir um gagnsemi grímunnar – þá snúist þetta líka um tillitssemi vegna þess ef aðrir sem maður umgengst séu felmtri slegnir yfir því að maður sé ekki með grímu þá sýni maður tillitsleysi og vanvirðingu fyrir öðrum sem eru kannski í áhættuhópi eða kvíðnir. 

„Þannig að þetta getur líka oltið á því hvernig við temjum okkur að umgangast samborgarana af virðingu. Stundum þarf maður að temja sér ákveðna umgengnissiði sem maður sjálfur telur ómerkilega en lætur sig hafa það. Hvað þá þegar það eru ákveðnar líkur á að það geti valdið skaða að gera það ekki.

Almennt er þetta spurning um að temja sér sjónarhorn borgarans frekar en að hvíla í sínum einstaklingsheimi. Það er það sem við verðum að gera ef við ætlum að lifa saman á ábyrgan hátt og deila lífinu með öðrum – þá þýðir ekki bara að hvíla í sinni sérvisku.“

Lýðræðisleg málsmeðferð er áhrifaríkari leið en boð og bönn að ofan – og leið til þess að fá samþykki okkar sem heildar

Varðandi tól og tæki siðfræðinnar þá segir Vilhjálmur að það sé ekki einungis þessi greining siðfræðinnar á hvað skipti máli við að meta verðmæti og hvenær réttmætt sé að víkja frá þeim við ákveðnar aðstæður heldur líka hvernig staðið sé að því að fá borgarana til að hlíta fyrirmælum. Þar skiptir sanngjörn, lýðræðisleg málsmeðferð miklu máli. 

„Í siðfræði lýðheilsunnar er mikil áhersla lögð á slíka málsmeðferð. Í siðfræði lífs og heilsu er lagt upp úr því að afla samþykkis einstaklinga, til dæmis fyrir læknismeðferð eða þátttöku í rannsókn, en það er mjög erfitt þegar öll þjóðin er undir og allir borgararnir,“ segir hann og spyr hvernig rétt sé að standa að málum við þær aðstæður. Væri það gert bara með tilmælum og reglusetningu? Beita ríkisvaldinu í krafti þess eins að hætta steðjar að? Eða á að reyna að laða borgarana til fylgilags þannig að talað sé við okkur sem skynsemisverur sem hlustum á rök, reynum að meta þau og verðum þannig sjálf samábyrgir þátttakendur í að takast á við stöðuna?

„Þarna held ég að við höfum verið heppin með málflutning þríeykisins vegna þess að þau hafa leitast við að vera í virku samtali við þjóðina, höfðað til skynseminnar og að við séum öll í þessu saman. Við tökum þátt í sóttvörnum vegna þess að við skiljum og föllumst á rökin fyrir þeim og það er megineinkenni þess sem ég kalla lýðræðislega málsmeðferð. Það er áhrifaríkari leið en boð og bönn að ofan og hún er leið til þess að fá samþykki okkar sem heildar.“

Þess vegna hafi fundir almannavarna verið svo mikilvægir en mikið áhorf var á þá. „Við erum líka mjög heppin í okkar fámenni og gagnsæi en víða í öðrum löndum þurfti meiri valdbeitingu ofan frá,“ segir Vilhjálmur og tekur sem dæmi svokallað „lockdown“ í hinum ýmsu löndum þar sem fólk mátti ekki fara út úr húsi. Sums staðar passaði herinn upp á að fólk fylgdi reglunum og segir Vilhjálmur að í þeim aðstæðum hafi fólk það síður á tilfinningunni að það sjálft taki ákvörðunina heldur vegna þess að stjórnvöld skipa þeim það. „Málsmeðferðin hérlendis höfðar til okkar sem samborgara,“ segir hann. 

Við tökum þátt í sóttvörnum vegna þess að við skiljum og föllumst á rökin fyrir þeim.
Vilhjálmur telur að Íslendingar hafi verið heppnir með málflutning þríeykisins vegna þess að þau hafa leitast við að vera í virku samtali við þjóðina.
Almannavarnir

Þegar kemur að þessu klassíska vandamáli um togstreitu milli hagsmuna einstaklingsins annars vegar og heildarinnar hins vegar er hægt að meta hvorir séu mikilvægari? Eða eru hagsmunir heildarinnar hagsmunir einstaklingsins?

Vilhjálmur segir að þessir hagsmunir séu samofnir í aðstæðum sem þessum og því ættum við ekki að velja á milli. Í núverandi stöðu komi þetta til dæmis skýrt fram í því að verja heilbrigðisstofnanir til að þær geti gegnt hlutverki sínu. Það varði hagsmuni sérhvers okkar sem einstaklinga eða borgara, hvort sem við þörfnumst sjúkraþjónustu eða ekki.

„Það sem miðlar heildinni eru alls konar stofnanir eins og menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem við höfum komið okkur saman um til að gæta okkar sameiginlegu hagsmuna og þá hvers okkar sem væri. Það er mikilvægt að við högum aðgerðum og samfélaginu þannig að hvert okkar sem væri sé ekki skilið eftir eða þurfi að gjalda á einhvern ósanngjarnan hátt fyrir það sem kemur upp. Þess vegna finnst mér það svo skýrt dæmi að verja heilbrigðisstofnanir til þess að þær geti gegnt hlutverki sínu. Við megum alls ekki sjá heilbrigðisstofnanir eingöngu sem þjónustukerfi fyrir þá sem eru veikir eða slasaðir hverju sinni heldur þjóna þær hagsmunum okkar allra, því ekkert okkar fer í gegnum lífið án þess að þurfa á þeim að halda. Og hvert okkar sem væri gæti lent í þeirri stöðu að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda,“ segir hann. 

Maður er aldrei bara einstaklingur

Vilhjálmur áréttar að við séum einmitt að gæta hagsmuna heildarinnar með því að horfa á þetta með heilbrigðisstofnanirnar. „Maður er aldrei bara einstaklingur. Ég held að við þurfum að temja okkur að hugsa sem borgarar. Ég er hluti af samfélagi sem ég þigg af margvísleg réttindi og hef líka margvíslegar skyldur sem ríkisborgari. Þannig að ef ég lít eingöngu á mig sem prívat manneskju andspænis heildinni þá horfi ég fram hjá svo mörgum hlutum sem ég vil samt sem áður njóta góðs af þegar á hólminn er komið.“

Þetta þýði ekki að maður sé persónulega sáttur við þær ákvarðanir sem teknar eru til dæmis til að skerða frelsi. „Maður getur verið ósáttur á rauðu ljósi, ferlega pirraður yfir því að komast ekki leiðar sinnar – en svo lyftir maður sér yfir þær aðstæður og er bara sáttur við að það séu yfirleitt umferðarljós í borginni sem vonandi komi í veg fyrir ringulreið í umferðinni, dragi úr slysahættu og þjóni þannig hagsmunum okkar allra. Maður þarf þannig alltaf að horfa út fyrir sinn persónulega hring og sjá sig sem borgara sem vill að ákveðnir hlutir gangi og virki.“

Vilhjálmur segist auðvitað ekki vilja gera lítið úr því að öll séum við einstaklingar en við séum einstaklingar í samfélagi. „Það er svo ótrúlega margt sem við þiggjum af samfélaginu og leggjum af mörkum til þess sem við leiðum ekki hugann að þegar við erum búin að strípa okkur af öllu hinu samfélagslega og sjáum okkur sem einstaklinga á berangri. Þá er komin mjög villandi mynd. Faraldurinn hefur reynst okkur góð áminning um mikilvægi traustra samfélagsstofnana sem vernda almannahagsmuni og þar með hagsmuni okkar hvers og eins.“

Það er svo ótrúlega margt sem við þiggjum af samfélaginu og leggjum af mörkum til þess sem við leiðum ekki hugann að þegar við erum búin að strípa okkur af öllu hinu samfélagslega og sjáum okkur sem einstaklinga á berangri.
Vilhjálmur segir að faraldurinn hafi reynst okkur góð áminning um mikilvægi traustra samfélagsstofnana sem vernda almannahagsmuni og þar með hagsmuni okkar hvers og eins.
Bára Huld Beck

Þú segir í Siðfræði lífs og dauða að siðadómar séu ekki smekksatriði. Sérðu fyrir þér að hægt sé að komast að niðurstöðu sem flestir í íslensku samfélagi eru sáttir við? Hvernig er hægt að komast á þann stað?

„Þetta tengist málsmeðferð í faraldri sem við ræddum áðan. Siðadóma þarf að rökræða og rökstyðja. Höfða til skilnings á þeim verðmætum og hagsmunum sem eru í húfi. Samtalið gegnir lykilhlutverki í þessu tilliti,“ segir Vilhjálmur. 

Hann bendir á að þarna séu ákveðin verðmæti sem við sjáum við ígrundun að skipti máli og göngum út frá í athöfnum okkar og kennum börnum okkar. Þarna er hægt að nefna frelsi og velferð einstaklinga, líf fólks og heilsu, sanngjörn samskipti og réttlæti. „Þetta eru ekki bara smekksatriði heldur eru margvísleg reynslurök fyrir því að vernda þessi gildi, rök sem varða hagsmuni okkar sem einstaklinga og sem borgara sem deila lífinu saman. 

Við þurfum að geta rökstutt þessa dóma okkar, ekki síst þegar ágreiningur rís. Það er alltaf matsatriði hvað við eigum að ganga langt í því til dæmis að skerða frelsi til þess að verja velferð og svo framvegis. Það er eðlilegur ágreiningur og þá er leiðin að takast á við slíkan ágreining með rökræðum; að við tölum saman og reynum að höfða til skilnings á þeim verðmætum og hagsmunum sem eru í húfi og að aðstæðurnar knýja okkur til að komast að einhvers konar samkomulagi. Þetta er eina leiðin sem við höfum því að hin leiðin er að búa við einhvers konar upplausnarástand eða þá lögregluríki þar sem okkur er sagt hvernig hlutirnir eigi að vera.“

Þannig hafi fólk innan samfélagsins leiðir til þess að komast að niðurstöðu og á endanum er óhjákvæmilegt að ekki allir verði sáttir. „Við verðum bara að vera sátt við leiðina sem farin er að niðurstöðunni frekar en endilega sátt við niðurstöðuna. Það er mjög mikilvægur greinarmunur í þessu samhengi,“ segir hann. 

Auglýsing

Nú hafa jafnframt sprottið upp umræður um hver virkilega ráði, þríeykið eða stjórnvöld. Vilhjálmur gefur ekki mikið fyrir þá gagnrýni að ríkisstjórnin hafi „útvistað“ ábyrgðinni á meðhöndlun faraldursins til embættismanna, þar á meðal þríeykisins til þess að forðast ábyrgð. 

„Vegna þess að þarna erum við með fólk sem virðist byggja fyrst og fremst á reynslurökum og málefnalegum og faglegum niðurstöðum. Það er líka reiðubúið að endurskoða afstöðu sína í ljósi betri röksemda, sem stjórnmálamenn eru þekktir fyrir að gera ekki. Þarna held ég að sé ákveðinn lykill að trausti og traustið er auðvitað meginatriðið að svona gangi vel fyrir sig. Stjórnmálamenn verða eftir sem áður að svara fyrir þær ákvarðanir sem teknar eru.

Önnur forsenda trausts er að talað sé við okkur sem skynsemisverur sem höfðar til okkar sem samábyrgra borgara til að láta þetta virka vegna þess að við skiljum mikilvægi aðgerðanna. Þannig að þetta snýst alltaf á endanum um það hvernig samtalinu er hagað,“ segir hann. 

Þurfum að nota okkar eigin dómgreind

Slagorðið „hlýðum Víði“ var gagnrýnt fyrir það að vera of mikið valdboð af ofan en Vilhjálmur hefur efasemdir um þann skilning. Það geti vel verið að margir einfaldlega „hlýði“ en málflutningur þríeykisins hafi ekki verið þannig: „Hlýðið okkur af því að við segjum það.“ Frekar hafi þau reynt að höfða til þess að við skiljum hvað er í húfi. 

„Við þurfum að nota okkar eigin dómgreind: „Við berum öll ábyrgð.“ Hér hefur verið forðast að setja harðar reglur með ströngum viðurlögum, frekar verið reynt að laða okkur til fylgilags með skilningi á röksemdum. Mér finnst það hafa verið gríðarlega heppilegt,“ segir hann.

Vilhjálmur skrifaði grein í Kjarnann í ágúst síðastliðnum sem bar nafnið „Reglur og dómgreind“. „Stundum kallar fólk eftir rosalega kassalaga fyrirmælum. Það vill nánast láta mæla það út fyrir sig í öllum aðstæðum hvar það á að standa til að halda réttri fjarlægð, en það er ekki leiðin. Við þurfum að geta hugsað sjálf, metið aðstæður og beitt okkar eigin dómgreind. Við erum ekki eins og hundur að bíða eftir skipun húsbónda síns. Við eigum að vera eins og skapandi leikmenn sem eru innan ramma leikreglnanna að finna sína leið.“

Ákveðin COVID-þreyta hefur látið á sér kræla í þessari bylgju sem nú gengur yfir. Vilhjálmur segir að vegna þess sé viljinn til að vera ábyrgur þátttakandi orðinn minni en áður. „Þá er það orðið hluti af stöðunni sem taka þarf tillit til og kallar þá jafnvel á meiri viðurlög. Sé það ekki gert þá kann það að leiða til stöðu sem ekkert okkar vill lenda í, það er að segja að heilbrigðiskerfið ráði ekki við ástandið. Ef reynslan hefði sýnt fram á að það gerðist ekki þá myndi það auðvitað breyta stöðunni og þar með réttmæti aðgerðanna.“

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum – en hann fór á neyðarstig í lok október.
Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Þessi tími gæti orðið góður skóli fyrir samábyrgðarkennd og samstöðu

Það getur verið erfitt að meta hvað er best í hverri stöðu fyrir sig og öll stöndum við frammi fyrir vali á hverjum einasta degi. Það getur einnig verið krefjandi að meta hvað sé best þegar um langtímahagsmuni er að ræða því að uppskeran af hegðun okkar í dag lætur ekki sjá sig fyrr en síðar. Varðandi þetta er eðlilegt að líta til þess hvernig þetta ástand reynir mismunandi á fólk, því við erum á ólíkum stað í lífinu með misjafnar væntingar til lífsins. 

Vilhjálmur segist í þessu samhengi hafa samúð með ungmennum. „Sérstaklega á menntaskóla- og háskólaaldri. Ég myndi segja að þetta ástand væri erfiðast fyrir þetta unga fólk því að þessi tími er svo mikilvægur í félagslegu tilliti. Það er svo mikil eftirvænting í loftinu og þau fara hlutfallslega á mis við langmest. Þá getur þessi tími orðið góður skóli fyrir samábyrgðarkennd þeirra og samstöðu ef ungmennin sjá að þau eru leggja mikið af mörkum til samfélagsins. 

Ég held að það sé alls ekki rétt að vitsmunalega skilji ungt fólk ekki fyrirmæli heldur eru þau að fórna meiru persónulega sem hefur áhrif á áhugann. Það verður að sýna því ákveðið umburðarlyndi.“

Hann bendir á að við höfum almennt notið mikilla forréttinda en að ástandið sé miserfitt fyrir fólk. Sumir hafa kvartað á samfélagsmiðlum að frelsi þeirra sé skert, til dæmis með lokunum sundlauga og líkamsræktarstöðva. Fólk í framvarðasveitum hefur iðulega stigið fram og biðlað til fólks að sýna samstöðu. Heilbrigðisstéttir ýmsar þurfa til að mynda að takmarka ferðir sínar um samfélagið mikið meira en gengur og gerist vegna hættu á smiti hjá viðkvæmum hópum. Þannig er reynsla og sýn okkar mismunandi eftir því hvar við erum stödd. 

„Þetta kallar á það enn meira en áður að reyna að setja okkur í annarra spor. Þetta er prófsteinn á siðferði okkar í svo mörgu tilliti,“ segir hann. 

Auglýsing

Eitt sem viðkemur gagnrýninni hugsun: Í krísuástandi er stundum talað um að „aðhafast fyrst“ og „spyrja svo“. Það þýðir að við bregðumst við frekar gagnrýnislaust og treystum stjórnvöldum til að taka ákvarðanir. Í umræðunni núna skiptist fólk iðulega í tvo hópa. Sumir vilja treysta áfram stjórnvöldum með sama hætti og í vor en aðrir vilja meiri umræðu og rökstuðning fyrir aðgerðum. Hver er þín skoðun á því hvenær pláss sé fyrir gagnrýni eða djúpar samræður út frá heimspekilegu sjónarhorni?

Vilhjálmi finnst mjög mikilvægt að umræðan sé alltaf opin og gagnrýnin. „Það á aldrei að halda aftur af henni. Þetta er ekki þannig ástand, ríkisleyndarmál eða slíkt. Það er allt upp á borðinu og mikil áhersla á gagnsæi og röksemdir – og í forsvari er fólk sem kallar eftir gagnrýni og fagnar henni og vill að allir taki mið af bestu fáanlegu upplýsingum og rökum. Þannig að mér finnst bara mjög eðlileg þessi krafa um frekari umræðu og rökstuðning.

Traustið á ekki að vera blint og hlýðni sem byggir á blindu trausti er óáreiðanleg og brothætt. Ef við viljum að fólk breyti með ákveðnum hætti þá er best að það byggi á skilningi og rökum – og þeirri hugsun að við séum að nota eigin dómgreind og virkja eigin ábyrgð.“

Að mati Vilhjálms skiptir líka miklu hvernig gagnrýni er sett fram í svona aðstæðum. Ekki sé gagnlegt að setja hana fram í skætingi eða til þess að sýna hvað maður sé klár, heldur að hún sé málefnalegt  framlag til þess að auka skilning á því sem um er að ræða. Og til að skerpa vitund okkar um verðmæti sem viðkomandi finnst vera sniðgengið eins og einstaklings- og athafnafrelsi. 

„Það er þá mjög mikilvægt að halda því fram og færa rök fyrir því og kalla fram í umræðunni hin gagnstæðu rök sem efla á endanum skilning okkar á því hvers vegna við erum í þessari stöðu. Þannig að mér finnst að svona ástand og aðgerðir eigi aldrei að vera á kostnað gagnrýninnar hugsunar, hún þarf að vera mjög lifandi,“ segir hann. 

Traustið á ekki að vera blint og hlýðni sem byggir á blindu trausti er óáreiðanleg og brothætt.
Vilhjálmur segir að þegar við ræðum um alvarleg mál eins og frelsisréttindi, sem eru afrakstur sögulegrar baráttu og við teljum meðal hornsteina okkar samfélags, þá sé ekki gott að þeim sé ýtt til hliðar án umræðu eða gagnrýni.
Kristinn Ingvarsson/HÍ

En finnst þér við hafa farið svona í gegnum þetta ferli? Hefur okkur tekist að eiga í uppbyggilegum gagnrýnum samræðum? 

„Ég get alveg séð að það hefði þurft að ræða málið betur í þinginu til dæmis en ekki þó þannig að bíða hefði þurft með einhverjar aðgerðir. Ég held að við höfum mjög góð rök fyrir því að gripið hefði verið til aðgerða með tiltölulega litlum fyrirvara og þá verður maður að hafa það í huga að þær aðgerðir eiga sér vel ígrundaðan aðdraganda – því áður hefur verið tekist á við faraldra og sóttir. Þó að þessi sé sérstök og ný, þá eru leiðir sóttvarnayfirvalda þekktar og byggja á reynslurökum. Síðan þarf að læra inn á hegðun þessarar veiru og bregðast við sérstöðu hennar. Þetta hefur einkennt málflutning sóttvarnayfirvalda. Að vera opinn fyrir nýjum upplýsingum,“ svarar hann. 

Þá telur Vilhjálmur að sóttvarnayfirvöld hafi boðið upp á samtal og ekki tekið gagnrýni illa. Frekar finnst honum að ýmsum öðrum í samfélaginu líki illa við gagnrýni og hafi sálfræðilega þörf fyrir því að allir séu sammála. „Ég held að það sé brothættara. Það er betra að hafa umræðuna lifandi og gagnrýna þó að ósætti komi frekar upp á yfirborðið. Það til lengri tíma litið heilbrigðara.“

Miklu skiptir að athuga ef um þöggun er að ræða hverjar rætur hennar séu

Sumir upplifa aftur á móti ákveðna þöggun varðandi alla umræðu um aðgerðir stjórnvalda og veiruna. Að ekki sé hægt að gagnrýna án þess að fá yfir sig fúkyrðaflauminn. Hvað segir þú við því?

Vilhjálmur segir að miklu skipti að athuga ef um þöggun sé að ræða hverjar rætur hennar séu. 

„Kemur hún að einhverju leyti að ofan í krafti valdbeitingar og ritskoðunar? Mér finnst reyndar mjög hæpið að það hafi gerst núna og hef ekki orðið var við slíkt. Mér finnst málflutningur þeirra sem eru í forsvari fyrir aðgerðum hér á landi vissulega ekki vera í anda þöggunar. En hins vegar getur í samfélaginu myndast stemning sem hefur þöggunaráhrif. Ísland er ofboðslegt stemningssamfélag og síðan er spurningin bara um hver sú stemning verður,“ segir hann, og bætir því við að heppilegt hafi verið að stemningin núna væri að „hlýða Víði“. 

Hann notar orðið „stemning“ um andrúmsloft sem knúið sé áfram af einhvers konar tilfinningum og húrrahrópum um að allir eigi að stökkva á sama vagninn. „Ef stemningin hvílir fyrst og fremst á einhverri múgsefjun þá eru allar gagnrýnisraddir óþægilegar. Þá er það orðin einhvers konar samfélagsleg þöggun en mér sýnist hún vera algeng í íslensku samfélagi. Það er erfitt hér að skera sig úr eða synda á móti straumnum og ég held að það sé ekkert sérstakt við þetta mál.“

Vilhjálmur endar mál sitt á að árétta að við eigum ekki að vera hrædd við mótrök – mun sterkara sé að taka allar raddir með og sýna öllum ákveðna sanngirni. „Mér hefur fundist gott að jafnvel ákveðnir stjórnarþingmenn hafi orðað efasemdir um aðgerðir. Mér finnst það mjög skiljanlegt og í rauninni fyndist mér það vera veikt samfélag sem hefði ekki slíkar raddir. Svo er annað mál hvort maður sé sammála þeim. Þegar við ræðum um alvarleg mál eins og frelsisréttindi, sem eru afrakstur sögulegrar baráttu og við teljum meðal hornsteina okkar samfélags, þá er ekki gott að þeim sé ýtt til hliðar án umræðu eða gagnrýni.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal