Kristinn Ingvarsson/HÍ

Ástandið kallar á að við setjum okkur í spor annarra – og er prófsteinn á siðferði okkar

Samfélagið stendur nú frammi fyrir stærstu áskorunum þessarar aldar vegna tilkomu illvígrar farsóttar og hafa þjóðir heimsins átt í vök að verjast gegn henni og þeim gríðarlega alvarlegu afleiðingum á heilsu fólks og efnahagslíf sem fylgt hafa í kjölfarið. Í öllu þessu umróti getur verið erfitt að meta ákvarðanir sem stjórnvöld taka – enda fordæmalausar aðstæður – og þess vegna hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að staldra við og íhuga stöðuna. Við það vaknar fjöldi siðferðislegra spurninga og ræddi Kjarninn við heimspekinginn Vilhjálm Árnason til þess að komast nær svörum í flóknum aðstæðum.

Í byrjun far­ald­urs fyrr á árinu mátti greina mikla sam­stöðu meðal Íslend­inga varð­andi aðgerðir stjórn­valda. Fólk var til­búið að fórna ákveðnum rétt­indum fyrir heild­ar­hags­muni – og þá sér­stak­lega með það í huga að COVID-19 getur verið ban­vænn sjúk­dómur og herjað sér­stak­lega á eldra fólk og fólk í áhættu­hóp.

Þegar leið á árið fór þetta við­horf smám saman að breyt­ast. Fólk pass­aði sig ekki eins mikið varð­andi sótt­varnir og þegar haustið var gengið í garð vakn­aði veiran á ný og breidd­ist hratt út. Þá kom annað hljóð í strokk­inn. Ein­stak­lingar létu meira í sér heyra og sumir mót­mæltu nýjum aðgerð­um. Sumum fannst þær herja um of á ein­stak­lings­frelsi þeirra; hvað þeir mættu og mættu ekki. ­Jafn­framt kom fram hávær krafa frá atvinnu­líf­inu um að horfa bæri til heild­ar­mynd­ar­innar en ekki ein­ungis til sótt­varna­þátta. Þá hefur hin svo­kall­aða „sænska leið“ verið rædd, sem og mögu­leik­inn á að þjóðin gæti myndað með sér hjarð­ó­næmi.

Allar þessar vanga­veltur kalla á umræðu sem er nauð­syn­leg og þörf og nú er svo komið að við sem sam­fé­lag stöndum frammi fyrir mjög mik­il­vægum sið­ferði­legum spurn­ingum og hafði Kjarn­inn sam­band við Vil­hjálm Árna­son, pró­fessor í heim­speki og stjórn­ar­for­mann Sið­fræði­stofn­un­ar, til þess að ræða þessi flóknu mál. Vil­hjálmur er einnig höf­undur bók­ar­innar Sið­fræði lífs og dauða en í henni fjallar hann um öll helstu sið­ferði­leg álita­mál í heil­brigð­is­þjón­ustu á ítar­legan hátt.

Auglýsing

Er ein­hvern tíma rétt­læt­an­legt að „fórna“ þeim sem láta lífið vegna veirunnar til þess að höggið á atvinnu­lífið verði minna, með því að hafa aðgerðir stjórn­valda væg­ar, þrátt fyrir að það komi þús­undum karla og kvenna betur – til að mynda hvað atvinnu varð­ar, geð­heilsu og svo fram­veg­is?

„Það er aldrei rétt­læt­an­legt að fórna ein­stak­lingum en við verðum að horfast augu við það að fórn­ar­kostn­aður af hörðum aðgerðum er óhjá­kvæmi­legur vegna afleið­inga fyrir lýð­heilsu síðar meir. Spurn­ingin er hvernig hægt er að standa mann­úð­lega að þessu og í sam­ræmi við þau gildi sem viljum vernda. Það er þessi sam­staða sem liggur sið­ferði okkar mikið til grund­vall­ar, að standa með þeim sem geta ekki varið hags­muni sína sjálf­ir. 

Það reynir á okkur í svona ástandi að standa með þeim verst settu. Mikil óvissa er um fram­vind­una en rétt­mæti núver­andi aðgerða helg­ast meðal ann­ars af því að ætla má að ástandið sé tíma­bund­ið. Þess vegna skipta slíkar stað­reyndir miklu máli við sið­ferði­legt mat á rétt­mæti aðgerða. Við höfum farið í gegnum þetta með það í huga að ástandið yrði tíma­bund­ið, þetta yrði átak, ekki síst í ljósi vonar um að áhrifa­rík bólu­setn­ing sé handan við horn­ið. Þá tækju allir á sig ákveðnar byrðar um tíma en við setjum það í for­gang að verja þá sem eru í mestri hættu á að veikj­ast illa af veirunn­i,“ segir Vil­hjálm­ur. 

Hann bendir á að fljótt hafi komið hafi í ljós að sú leið að stefna að hjarð­ó­næmi hefði keyrt okkar inn­viði algjör­lega um koll. „Heil­brigð­is­kerfið myndi ekki þola það og þá væri ástandið farið að bitna á okkur öll­um. Svo var rætt um þá útfærslu að slaka mjög á hömlum en verja sér­stak­lega þá sem eru í áhættu­hópum en það er svo erfitt að sigta það út – þetta er ákveð­inn fram­kvæmd­ar­vandi. Sænska leiðin svo­kall­aða hefur líka alvar­lega sið­ferði­lega ágalla því að hún hefur bitnað hvað verst á íbúum hjúkr­un­ar­heim­ila.

En þetta að fórna, að leyfa fólki að deyja eins og maður sér í rök­semdum um að meta eigi „qu­ality of life years“ – lífs­gæðaár séu þá færri eftir hjá þeim eldri – er sið­ferði­lega vafasöm. Út frá mann­úð­ar­sjón­ar­miði verðum við að haga aðgerðum okkar í sam­ræmi við gildi sem við viljum vernda og getum horfst í augu við síðar meir. Sam­staða með þeim sem minnst mega sín er próf­steinn á sið­ferði okk­ar.“

Ýmsir í jað­ar­hópum hafa gagn­rýnt orð­ræðu í kringum COVID-19 far­ald­ur­inn og þá for­dóma sem opin­ber­ast í ástand­inu. Freyja Har­alds­dótt­ir, bar­áttu­kona fyrir rétt­indum fatl­aðs fólks, dokt­or­snemi og háskóla­kenn­ari, benti til að mynda í sam­tali við Kjarn­ann í byrjun apríl að óþægi­lega umræðu um að COVID-19 snerti ein­ungis gam­alt fólk og fólk í áhættu­hóp­um. „Ef það er bara gam­alt fólk eða við, fatlað fólk, sem veikj­umst eða deyjum þá skipti það ekki máli. Við heyrum alveg hvað fólk er að segja og auð­vitað skiptir það máli. Mitt líf er alveg jafn mik­il­vægt og ann­arra – og okkar allra,“ sagði hún.

Vil­hjálmur segir í þessu sam­bandi að þessi umræða um fórn hafi helst komið upp þegar staðið er frammi fyrir erf­iðu vali um hverjir kom­ist að í heil­brigð­is­kerf­inu, í önd­un­ar­vélar eða gjör­gæslu­með­ferð? Hvaða við­mið­anir á þá að hafa?

„Þá kemur þessi hug­mynd upp, sem er svo sem ekki ein­stök fyrir þetta, um við­mið­anir um heild­ar­á­stand og hrum­leika sem gefi vís­bend­ingar um hversu vel aðgerðin gagn­ist sjúk­ling­um, og þá auð­vitað skiptir aldur eða fötlun ekki máli – eða á ekki að gera það út frá sið­ferði­legu sjón­ar­miði. En heild­ar­á­stand sjúk­lings getur skipt máli við mat á for­gangs­röðun þegar skortur er á úrræðum en sem betur fer held ég að við höfum ekki staðið frammi fyrir því hér. 

Við þurfum sér­stak­lega að standa með þeim ein­stak­lingum sem af ein­hverjum ástæðum eru ófærir um að verja eigin hags­muni eða standa hall­ari fæti gagn­vart ógn en við flest hver. Það er ákveðin sið­ferði­leg krafa að gæta þeirra hags­muna. Og ég held að við­brögðin hér á landi hafi tekið mið af því.“

Mik­il­vægt að geta horfst í augu við það sem við gerum hér og nú

Vil­hjálmur bendir á að ein ástæðan fyrir rök­unum framan af varð­andi það að fletja kúr­f­una væri að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir þessum hörmu­legu ákvörð­un­um. „Þá kemur alltaf þetta að við þurfum að forð­ast það að lenda í ein­hverjum fórn­ar­kostn­aði í aðstæð­unum en það er annar fórn­ar­kostn­aður sem er mikið óljós­ari.“

Þetta með hugs­an­legar afleið­ing­ar; aukin sjálfs­víg, heim­il­is­of­beldi og fleira sem aukið atvinnu­leysi hefur töl­fræði­lega alltaf í för með sér. Hann segir að sið­fræð­ingar bendi á að okkur finn­ist sál­fræði­lega auð­veld­ara að horfast í augu við ónafn­greindan fjölda síðar meir en þá sem við þurfum að horfast í augu við í aðstæð­unum hér og nú. 

„Það er auð­vitað líka ákveðin mann­úð­ar­hugs­un, því að við getum ekki horfst í augu við sam­borg­ara okkar – ég tala nú ekki um þá sem höllustum fæti standa – ef þeir deyja vegna ákvarð­ana sem við tökum í þessum aðstæð­um. Þótt okkur sé bent á að það sé ein­hver fórn­ar­kostn­aður framundan þá vitum við aldrei hver hann verð­ur. Heim­ur­inn velt­ist á alla vegu og það er bara ekk­ert ljóst, jafn­vel þótt töl­fræðin segi að það verði fórn­ar­kostn­aður þá geta orðið ein­hverjar sveiflur í efna­hag, tækni eða sam­fé­lagi sem hafa áhrif á það og við getum ekki haft áhrif á með ákvörð­unum okkar nú.“

Þess vegna telur Vil­hjálmur mik­il­vægt að við sem sam­fé­lag leggjum áherslu á hvað við getum horfst í augu við að við séum að gera hér og nú – and­spænis því fólki sem við erum með í aðstæð­unum núna. Það sé mann­úð­leg afstaða. 

Við þurfum sérstaklega að standa með þeim einstaklingum sem af einhverjum ástæðum eru ófærir um að verja eigin hagsmuni eða standa hallari fæti gagnvart ógn en við flest hver.
Vilhjálmur telur mikilvægt að við sem samfélag leggjum áherslu á hvað við getum horfst í augu við að við séum að gera hér og nú – andspænis því fólki sem við erum með í aðstæðunum núna. Það sé mannúðleg afstaða.
Kristinn Ingvarsson/HÍ

Hvernig væru aðstæð­urnar aftur á móti ef ekk­ert bólu­efni væri fyr­ir­sjá­an­legt í fram­tíð­inn­i? 

Vil­hjálmur segir að þá væri allt önnur staða uppi. „Þá gæti þuft að taka ann­ars konar ákvarð­an­ir. Sið­fræði­legt mat tekur alltaf mið af þessum stað­reynd­um. Það er eitt sem gerir þetta mál svo erfitt, það er svo mikil óvissa og erfitt að byggja á for­dæm­um. Við erum í allt annarri stöðu en til dæmis í fyrri far­öldr­um.“

Varð­andi fórn­ar­kostn­að­inn þá er mik­il­vægt, sam­kvæmt Vil­hjálmi, að taka mið af öðrum fórn­ar­kostn­aði en við gerum það meðal ann­ars með því að fara hóf­sam­lega í að skerða frelsi. 

„Það er almenn við­miðun að skerða frelsi eins lítið og þörf krefur miðað við vand­ann sem steðjar að. Eitt sem til dæmis var ekki gert hér var að loka skólum á yngsta stigi. Því meira sem fólk er lokað inn á heim­ilum þá kemur annar fórn­ar­kostn­aður með til­liti til lýð­heilsu. Þannig að það þarf líka að taka þetta með í reikn­ing­inn og það er eitt­hvað sem við getum metið hér og nú. Það eru ekki fram­tíð­ar­hug­myndir um lýð­heilsu heldur er hrein­lega hægt að sjá hvaða hlið­ar­afleið­ingar það hefur að fólk lok­ist inni á heim­ilum sín­um,“ segir hann. 

Auglýsing

Vill að talað sé við okkur borg­ar­ana sem vits­muna­verur sem skiljum rök­semd­irnar

Sumir kenn­arar hafa þó ekki verið sáttir við að vera settir í fram­lín­una. Vil­hjálmur segir að þarna séu ákveðnir hags­munir sem þau taka þátt í að verja. „Þá taka kenn­arar ákveðna áhættu sjálf eins og aðrar fram­línu­stétt­ir. En áhættan er að sjálf­sögðu metin með hlið­sjón af því að börn smiti minna, fyrir utan ávinn­ing­inn af því að börnin fari í skól­ann. Það er mik­ill ávinn­ingur af því fyrir börnin sem ein­stak­linga að vera í sínu skólaum­hverfi og því miður er heim­ilið ekki alltaf griða­stað­ur. 

Sumir hafa vissu­lega val um að fara í vinn­una, enda hafa margir vinnu­veit­endur komið því þannig í kring að fólk geti unnið heima. Það á þó ekki við um til dæmis kenn­ara og hefði hugs­an­lega verið betra að hafa meira sam­tal við stétt­ina. Það mætti biðja fólk sem er ósátt að hugsa þetta út frá fag­mennsku og stolti yfir því að vera þátt­tak­andi í því að stuðla að ákveð­inni vernd.“

Vil­hjálmur segir að nauð­syn­legt sé að hafa lýð­ræð­is­lega máls­með­ferð, það er að segja að ekki komi ein­ungis boð að ofan heldur sé fólk laðað til fylgilags við aðgerðir með sam­tali og skiln­ingi. „Það er þessi leið sem við verðum að temja okkur til að stuðla að sátt og sam­komu­lagi. Þá finnur fólk meira til ábyrgðar sinnar vegna þess að það hefur skiln­ing á ákveðnum rök­semd­um, en ekki vegna þess eins að því sé gert að gera það af ein­hverri ytri kröf­u.“

Hann bætir því við að þetta sé ekki „diplómat­ísk“ leið til að fá fólk til að hlýða – eða til að stjórna fólki með því að láta það halda að það sé með í sam­tal­inu þótt það hafi ekk­ert um málin að segja. „Ég vil að það sé talað við okkur borg­ar­ana sem vits­muna­verur sem skiljum rök­semd­irnar og föll­umst á þær vegna þess að við sjáum vægi þeirra. Viljum við vera þátt­tak­endur í því að leggja okkar ábyrga skerf fram til sam­fé­lags­ins sem við erum hluti af?“

En hvað með þá sem sam­þykkja ekki rökin og neita að fara að þessum fyr­ir­mæl­u­m? 

„Fólk getur auð­vitað haft rétt­mætar ástæð­ur. Það getur farið fram á und­an­tekn­ingu vegna þess að sé í áhættu­hópi en þá þarf maður að vita meira um við­kom­andi ein­stak­ling til að meta það. Sumir gætu neitað að fara að fyr­ir­mælum af ein­hverri þversku eða ábyrgð­ar­leysi en það er ekki hægt að meta nema skoða hvert til­vik fyrir sig,“ svarar hann. 

Samfélagið samanstendur af fólki í ólíkri stöðu með mismunandi hagsmuni. Hvernig er hægt að sætta sem flesta í þessu ástandi?
Bára Huld Beck

Það ástand sem við stöndum frammi fyrir sem sam­fé­lag er flókið og erfitt. Fólk er ringlað og skipt­ist iðu­lega í fylk­ing­ar. Eru tól og tæki innan sið­fræð­innar sem gætu hjálpað okkur með þetta vanda­mál? Þ.e. hvernig metum við hvað er rétt að gera í þessum erf­iðu aðstæð­um? Hvað getur sið­fræðin gert til að hjálpa þar til?

Vil­hjálmur segir að hún geti tví­mæla­laust hjálpað til. „Sið­fræði byggir á rök­semda­færslum og hug­taka­grein­ingu sem koma að gagni í svona aðstæðum við að meta rétt­mæti aðgerða. Á und­an­förnum árum hefur líka þró­ast und­ir­grein hag­nýtrar sið­fræði sem kall­ast sið­fræði lýð­heilsu. Meg­in­við­mið­anir í sið­fræði lýð­heilsu varða rök fyrir helstu sið­ferð­is­verð­mætum sem eru í húfi, eins og frelsi, vel­ferð, sann­girni eða rétt­læti, sam­stöðu. Þetta er allt saman almennt orðuð sið­ferði­leg verð­mæti sem við erum almennt sam­mála um að skipti máli og við viljum helst vernda. En lýð­heilsusið­fræðin fæst einkum við að meta vægi þess­ara verð­mæti við aðstæður sem krefj­ast þess að við veljum á milli þeirra, og þá reynir oft sér­stak­lega á ann­ars vegar frelsið og hins vegar vel­ferð­ina. 

Auð­vitað er einnig löng reynsla af sótt­varnasið­fræði þar sem eru klass­ísk rök fyrir tak­mörk­unum á frels­is­rétt­indum til að forða skaða, svo sem með því að skylda sýkta ein­stak­linga í sótt­kví. Það er löng hefð í sið­fræði að vega og meta rétt­mæti þess að tak­marka frelsi ein­stak­linga í til­teknum aðstæð­um. Þar er fræg­ust svokölluð skað­sem­is­regla: Að hver og einn eigi rétt á að lifa eins og hann sjálfur kýs svo lengi sem hann skaðar ekki aðra eða veldur öðrum til dæmis heilsutjón­i.“ 

Vil­hjálmur segir lýð­heilsusið­fræð­ina líka varða rök fyrir áhrifa­ríkri og lýð­ræð­is­legri máls­með­ferð sem við víkjum að á eft­ir.

Auglýsing

Á tímum sam­fé­lags­miðla og ara­grúa upp­lýs­inga sem hver og einn fær á hverjum ein­asta degi í sím­ann sinn eða tölvu er mikið um upp­lýs­inga­óreiðu. Ef ein­hver ákveður til dæmis að grímur hafi skað­leg áhrif á heilsu, þrátt fyrir það sem heil­brigð­is­yf­ir­völd segja, og virki jafn­vel ekki, hver er sið­ferð­is­leg staða henn­ar?

„Eitt af því sem sið­ferði­lega ábyrgum borg­ara ber að gera er að hlusta á reynslurök. Það er mjög athygl­is­vert að það voru miklar efa­semdir af hálfu sótt­varna­yf­ir­valda framan af um gagn­semi grímunnar og svo hefur það breyst. Við höfum verið svo heppin að vera með fag­fólk í þessu sem breytir skoð­unum sínum í ljósi reynslu og rök­semda og það er þá eitt sem við borg­ar­arnir getum litið til. Þetta snýst ekki bara um okkar skoð­un, heldur verðum við að leita rök­semda fyrir þeirri skoðun á grund­velli þeirra gagna sem fyrir liggja,“ segir Vil­hjálm­ur.

Í grímu-­dæm­inu þá bendir hann á að – þrátt fyrir að fólk hafi efa­semdir um gagn­semi grímunnar – þá snú­ist þetta líka um til­lits­semi vegna þess ef aðrir sem maður umgengst séu felmtri slegnir yfir því að maður sé ekki með grímu þá sýni maður til­lits­leysi og van­virð­ingu fyrir öðrum sem eru kannski í áhættu­hópi eða kvíðn­ir. 

„Þannig að þetta getur líka oltið á því hvernig við temjum okkur að umgang­ast sam­borg­ar­ana af virð­ingu. Stundum þarf maður að temja sér ákveðna umgengn­issiði sem maður sjálfur telur ómerki­lega en lætur sig hafa það. Hvað þá þegar það eru ákveðnar líkur á að það geti valdið skaða að gera það ekki.

Almennt er þetta spurn­ing um að temja sér sjón­ar­horn borg­ar­ans frekar en að hvíla í sínum ein­stak­lings­heimi. Það er það sem við verðum að gera ef við ætlum að lifa saman á ábyrgan hátt og deila líf­inu með öðrum – þá þýðir ekki bara að hvíla í sinni sér­visku.“

Lýð­ræð­is­leg máls­með­ferð er áhrifa­rík­ari leið en boð og bönn að ofan – og leið til þess að fá sam­þykki okkar sem heildar

Varð­andi tól og tæki sið­fræð­innar þá segir Vil­hjálmur að það sé ekki ein­ungis þessi grein­ing sið­fræð­innar á hvað skipti máli við að meta verð­mæti og hvenær rétt­mætt sé að víkja frá þeim við ákveðnar aðstæður heldur líka hvernig staðið sé að því að fá borg­ar­ana til að hlíta fyr­ir­mæl­um. Þar skiptir sann­gjörn, lýð­ræð­is­leg máls­með­ferð miklu máli. 

„Í sið­fræði lýð­heils­unnar er mikil áhersla lögð á slíka máls­með­ferð. Í sið­fræði lífs og heilsu er lagt upp úr því að afla sam­þykkis ein­stak­linga, til dæmis fyrir lækn­is­með­ferð eða þátt­töku í rann­sókn, en það er mjög erfitt þegar öll þjóðin er undir og allir borg­ar­arn­ir,“ segir hann og spyr hvernig rétt sé að standa að málum við þær aðstæð­ur. Væri það gert bara með til­mælum og reglu­setn­ingu? Beita rík­is­vald­inu í krafti þess eins að hætta steðjar að? Eða á að reyna að laða borg­ar­ana til fylgilags þannig að talað sé við okkur sem skyn­sem­is­verur sem hlustum á rök, reynum að meta þau og verðum þannig sjálf sam­á­byrgir þátt­tak­endur í að takast á við stöð­una?

„Þarna held ég að við höfum verið heppin með mál­flutn­ing þrí­eyk­is­ins vegna þess að þau hafa leit­ast við að vera í virku sam­tali við þjóð­ina, höfðað til skyn­sem­innar og að við séum öll í þessu sam­an. Við tökum þátt í sótt­vörnum vegna þess að við skiljum og föll­umst á rökin fyrir þeim og það er meg­in­ein­kenni þess sem ég kalla lýð­ræð­is­lega máls­með­ferð. Það er áhrifa­rík­ari leið en boð og bönn að ofan og hún er leið til þess að fá sam­þykki okkar sem heild­ar.“

Þess vegna hafi fundir almanna­varna verið svo mik­il­vægir en mikið áhorf var á þá. „Við erum líka mjög heppin í okkar fámenni og gagn­sæi en víða í öðrum löndum þurfti meiri vald­beit­ingu ofan frá,“ segir Vil­hjálmur og tekur sem dæmi svo­kallað „lock­down“ í hinum ýmsu löndum þar sem fólk mátti ekki fara út úr húsi. Sums staðar pass­aði her­inn upp á að fólk fylgdi regl­unum og segir Vil­hjálmur að í þeim aðstæðum hafi fólk það síður á til­finn­ing­unni að það sjálft taki ákvörð­un­ina heldur vegna þess að stjórn­völd skipa þeim það. „Máls­með­ferðin hér­lendis höfðar til okkar sem sam­borg­ara,“ segir hann. 

Við tökum þátt í sóttvörnum vegna þess að við skiljum og föllumst á rökin fyrir þeim.
Vilhjálmur telur að Íslendingar hafi verið heppnir með málflutning þríeykisins vegna þess að þau hafa leitast við að vera í virku samtali við þjóðina.
Almannavarnir

Þegar kemur að þessu klass­íska vanda­máli um tog­streitu milli hags­muna ein­stak­lings­ins ann­ars vegar og heild­ar­innar hins vegar er hægt að meta hvorir séu mik­il­væg­ari? Eða eru hags­munir heild­ar­innar hags­munir ein­stak­lings­ins?

Vil­hjálmur segir að þessir hags­munir séu sam­ofnir í aðstæðum sem þessum og því ættum við ekki að velja á milli. Í núver­andi stöðu komi þetta til dæmis skýrt fram í því að verja heil­brigð­is­stofn­anir til að þær geti gegnt hlut­verki sínu. Það varði hags­muni sér­hvers okkar sem ein­stak­linga eða borg­ara, hvort sem við þörfn­umst sjúkra­þjón­ustu eða ekki.

„Það sem miðlar heild­inni eru alls konar stofn­anir eins og mennta­kerfi og heil­brigð­is­kerfi sem við höfum komið okkur saman um til að gæta okkar sam­eig­in­legu hags­muna og þá hvers okkar sem væri. Það er mik­il­vægt að við högum aðgerðum og sam­fé­lag­inu þannig að hvert okkar sem væri sé ekki skilið eftir eða þurfi að gjalda á ein­hvern ósann­gjarnan hátt fyrir það sem kemur upp. Þess vegna finnst mér það svo skýrt dæmi að verja heil­brigð­is­stofn­anir til þess að þær geti gegnt hlut­verki sínu. Við megum alls ekki sjá heil­brigð­is­stofn­anir ein­göngu sem þjón­ustu­kerfi fyrir þá sem eru veikir eða slas­aðir hverju sinni heldur þjóna þær hags­munum okkar allra, því ekk­ert okkar fer í gegnum lífið án þess að þurfa á þeim að halda. Og hvert okkar sem væri gæti lent í þeirri stöðu að þurfa á heil­brigð­is­þjón­ustu að halda,“ segir hann. 

Maður er aldrei bara ein­stak­lingur

Vil­hjálmur áréttar að við séum einmitt að gæta hags­muna heild­ar­innar með því að horfa á þetta með heil­brigð­is­stofn­an­irn­ar. „Maður er aldrei bara ein­stak­ling­ur. Ég held að við þurfum að temja okkur að hugsa sem borg­ar­ar. Ég er hluti af sam­fé­lagi sem ég þigg af marg­vís­leg rétt­indi og hef líka marg­vís­legar skyldur sem rík­is­borg­ari. Þannig að ef ég lít ein­göngu á mig sem prí­vat mann­eskju and­spænis heild­inni þá horfi ég fram hjá svo mörgum hlutum sem ég vil samt sem áður njóta góðs af þegar á hólm­inn er kom­ið.“

Þetta þýði ekki að maður sé per­sónu­lega sáttur við þær ákvarð­anir sem teknar eru til dæmis til að skerða frelsi. „Maður getur verið ósáttur á rauðu ljósi, fer­lega pirr­aður yfir því að kom­ast ekki leiðar sinnar – en svo lyftir maður sér yfir þær aðstæður og er bara sáttur við að það séu yfir­leitt umferð­ar­ljós í borg­inni sem von­andi komi í veg fyrir ringul­reið í umferð­inni, dragi úr slysa­hættu og þjóni þannig hags­munum okkar allra. Maður þarf þannig alltaf að horfa út fyrir sinn per­sónu­lega hring og sjá sig sem borg­ara sem vill að ákveðnir hlutir gangi og virki.“

Vil­hjálmur seg­ist auð­vitað ekki vilja gera lítið úr því að öll séum við ein­stak­lingar en við séum ein­stak­lingar í sam­fé­lagi. „Það er svo ótrú­lega margt sem við þiggjum af sam­fé­lag­inu og leggjum af mörkum til þess sem við leiðum ekki hug­ann að þegar við erum búin að strípa okkur af öllu hinu sam­fé­lags­lega og sjáum okkur sem ein­stak­linga á ber­angri. Þá er komin mjög vill­andi mynd. Far­ald­ur­inn hefur reynst okkur góð áminn­ing um mik­il­vægi traustra sam­fé­lags­stofn­ana sem vernda almanna­hags­muni og þar með hags­muni okkar hvers og eins.“

Það er svo ótrúlega margt sem við þiggjum af samfélaginu og leggjum af mörkum til þess sem við leiðum ekki hugann að þegar við erum búin að strípa okkur af öllu hinu samfélagslega og sjáum okkur sem einstaklinga á berangri.
Vilhjálmur segir að faraldurinn hafi reynst okkur góð áminning um mikilvægi traustra samfélagsstofnana sem vernda almannahagsmuni og þar með hagsmuni okkar hvers og eins.
Bára Huld Beck

Þú segir í Sið­fræði lífs og dauða að siða­dómar séu ekki smekks­at­riði. Sérðu fyrir þér að hægt sé að kom­ast að nið­ur­stöðu sem flestir í íslensku sam­fé­lagi eru sáttir við? Hvernig er hægt að kom­ast á þann stað?

„Þetta teng­ist máls­með­ferð í far­aldri sem við ræddum áðan. Siða­dóma þarf að rök­ræða og rök­styðja. Höfða til skiln­ings á þeim verð­mætum og hags­munum sem eru í húfi. Sam­talið gegnir lyk­il­hlut­verki í þessu til­lit­i,“ segir Vil­hjálm­ur. 

Hann bendir á að þarna séu ákveðin verð­mæti sem við sjáum við ígrundun að skipti máli og göngum út frá í athöfnum okkar og kennum börnum okk­ar. Þarna er hægt að nefna frelsi og vel­ferð ein­stak­linga, líf fólks og heilsu, sann­gjörn sam­skipti og rétt­læti. „Þetta eru ekki bara smekks­at­riði heldur eru marg­vís­leg reynslurök fyrir því að vernda þessi gildi, rök sem varða hags­muni okkar sem ein­stak­linga og sem borg­ara sem deila líf­inu sam­an. 

Við þurfum að geta rök­stutt þessa dóma okk­ar, ekki síst þegar ágrein­ingur rís. Það er alltaf mats­at­riði hvað við eigum að ganga langt í því til dæmis að skerða frelsi til þess að verja vel­ferð og svo fram­veg­is. Það er eðli­legur ágrein­ingur og þá er leiðin að takast á við slíkan ágrein­ing með rök­ræð­um; að við tölum saman og reynum að höfða til skiln­ings á þeim verð­mætum og hags­munum sem eru í húfi og að aðstæð­urnar knýja okkur til að kom­ast að ein­hvers konar sam­komu­lagi. Þetta er eina leiðin sem við höfum því að hin leiðin er að búa við ein­hvers konar upp­lausn­ar­á­stand eða þá lög­reglu­ríki þar sem okkur er sagt hvernig hlut­irnir eigi að ver­a.“

Þannig hafi fólk innan sam­fé­lags­ins leiðir til þess að kom­ast að nið­ur­stöðu og á end­anum er óhjá­kvæmi­legt að ekki allir verði sátt­ir. „Við verðum bara að vera sátt við leið­ina sem farin er að nið­ur­stöð­unni frekar en endi­lega sátt við nið­ur­stöð­una. Það er mjög mik­il­vægur grein­ar­munur í þessu sam­heng­i,“ segir hann. 

Auglýsing

Nú hafa jafn­framt sprottið upp umræður um hver virki­lega ráði, þrí­eykið eða stjórn­völd. Vil­hjálmur gefur ekki mikið fyrir þá gagn­rýni að rík­is­stjórnin hafi „út­vi­stað“ ábyrgð­inni á með­höndlun far­ald­urs­ins til emb­ætt­is­manna, þar á meðal þrí­eyk­is­ins til þess að forð­ast ábyrgð. 

„Vegna þess að þarna erum við með fólk sem virð­ist byggja fyrst og fremst á reynslurökum og mál­efna­legum og fag­legum nið­ur­stöð­um. Það er líka reiðu­búið að end­ur­skoða afstöðu sína í ljósi betri rök­semda, sem stjórn­mála­menn eru þekktir fyrir að gera ekki. Þarna held ég að sé ákveð­inn lyk­ill að trausti og traustið er auð­vitað meg­in­at­riðið að svona gangi vel fyrir sig. Stjórn­mála­menn verða eftir sem áður að svara fyrir þær ákvarð­anir sem teknar eru.

Önnur for­senda trausts er að talað sé við okkur sem skyn­sem­is­verur sem höfðar til okkar sem sam­á­byrgra borg­ara til að láta þetta virka vegna þess að við skiljum mik­il­vægi aðgerð­anna. Þannig að þetta snýst alltaf á end­anum um það hvernig sam­tal­inu er hag­að,“ segir hann. 

Þurfum að nota okkar eigin dóm­greind

Slag­orðið „hlýðum Víði“ var gagn­rýnt fyrir það að vera of mikið vald­boð af ofan en Vil­hjálmur hefur efa­semdir um þann skiln­ing. Það geti vel verið að margir ein­fald­lega „hlýði“ en mál­flutn­ingur þrí­eyk­is­ins hafi ekki verið þannig: „Hlýðið okkur af því að við segjum það.“ Frekar hafi þau reynt að höfða til þess að við skiljum hvað er í húfi. 

„Við þurfum að nota okkar eigin dóm­greind: „Við berum öll ábyrgð.“ Hér hefur verið forð­ast að setja harðar reglur með ströngum við­ur­lög­um, frekar verið reynt að laða okkur til fylgilags með skiln­ingi á rök­semd­um. Mér finnst það hafa verið gríð­ar­lega heppi­leg­t,“ segir hann.

Vil­hjálmur skrif­aði grein í Kjarn­ann í ágúst síð­ast­liðnum sem bar nafnið „Reglur og dóm­greind“. „Stundum kallar fólk eftir rosa­lega kassa­laga fyr­ir­mæl­um. Það vill nán­ast láta mæla það út fyrir sig í öllum aðstæðum hvar það á að standa til að halda réttri fjar­lægð, en það er ekki leið­in. Við þurfum að geta hugsað sjálf, metið aðstæður og beitt okkar eigin dóm­greind. Við erum ekki eins og hundur að bíða eftir skipun hús­bónda síns. Við eigum að vera eins og skap­andi leik­menn sem eru innan ramma leik­regln­anna að finna sína leið.“

Ákveðin COVID-­þreyta hefur látið á sér kræla í þess­ari bylgju sem nú gengur yfir. Vil­hjálmur segir að vegna þess sé vilj­inn til að vera ábyrgur þátt­tak­andi orð­inn minni en áður. „Þá er það orðið hluti af stöð­unni sem taka þarf til­lit til og kallar þá jafn­vel á meiri við­ur­lög. Sé það ekki gert þá kann það að leiða til stöðu sem ekk­ert okkar vill lenda í, það er að segja að heil­brigð­is­kerfið ráði ekki við ástand­ið. Ef reynslan hefði sýnt fram á að það gerð­ist ekki þá myndi það auð­vitað breyta stöð­unni og þar með rétt­mæti aðgerð­anna.“

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum – en hann fór á neyðarstig í lok október.
Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Þessi tími gæti orðið góður skóli fyrir sam­á­byrgð­ar­kennd og sam­stöðu

Það getur verið erfitt að meta hvað er best í hverri stöðu fyrir sig og öll stöndum við frammi fyrir vali á hverjum ein­asta degi. Það getur einnig verið krefj­andi að meta hvað sé best þegar um lang­tíma­hags­muni er að ræða því að upp­skeran af hegðun okkar í dag lætur ekki sjá sig fyrr en síð­ar. Varð­andi þetta er eðli­legt að líta til þess hvernig þetta ástand reynir mis­mun­andi á fólk, því við erum á ólíkum stað í líf­inu með mis­jafnar vænt­ingar til lífs­ins. 

Vil­hjálmur seg­ist í þessu sam­hengi hafa samúð með ung­menn­um. „Sér­stak­lega á mennta­skóla- og háskóla­aldri. Ég myndi segja að þetta ástand væri erf­ið­ast fyrir þetta unga fólk því að þessi tími er svo mik­il­vægur í félags­legu til­liti. Það er svo mikil eft­ir­vænt­ing í loft­inu og þau fara hlut­falls­lega á mis við lang­mest. Þá getur þessi tími orðið góður skóli fyrir sam­á­byrgð­ar­kennd þeirra og sam­stöðu ef ung­mennin sjá að þau eru leggja mikið af mörkum til sam­fé­lags­ins. 

Ég held að það sé alls ekki rétt að vits­muna­lega skilji ungt fólk ekki fyr­ir­mæli heldur eru þau að fórna meiru per­sónu­lega sem hefur áhrif á áhug­ann. Það verður að sýna því ákveðið umburð­ar­lynd­i.“

Hann bendir á að við höfum almennt notið mik­illa for­rétt­inda en að ástandið sé mis­erfitt fyrir fólk. Sumir hafa kvartað á sam­fé­lags­miðlum að frelsi þeirra sé skert, til dæmis með lok­unum sund­lauga og lík­ams­rækt­ar­stöðva. Fólk í fram­varða­sveitum hefur iðu­lega stigið fram og biðlað til fólks að sýna sam­stöðu. Heil­brigð­is­stéttir ýmsar þurfa til að mynda að tak­marka ferðir sínar um sam­fé­lagið mikið meira en gengur og ger­ist vegna hættu á smiti hjá við­kvæmum hóp­um. Þannig er reynsla og sýn okkar mis­mun­andi eftir því hvar við erum stödd. 

„Þetta kallar á það enn meira en áður að reyna að setja okkur í ann­arra spor. Þetta er próf­steinn á sið­ferði okkar í svo mörgu til­lit­i,“ segir hann. 

Auglýsing

Eitt sem við­kemur gagn­rýn­inni hugs­un: Í krísu­á­standi er stundum talað um að „að­haf­ast fyrst“ og „spyrja svo“. Það þýðir að við bregð­umst við frekar gagn­rýn­is­laust og treystum stjórn­völdum til að taka ákvarð­an­ir. Í umræð­unni núna skipt­ist fólk iðu­lega í tvo hópa. Sumir vilja treysta áfram stjórn­völdum með sama hætti og í vor en aðrir vilja meiri umræðu og rök­stuðn­ing fyrir aðgerð­um. Hver er þín skoðun á því hvenær pláss sé fyrir gagn­rýni eða djúpar sam­ræður út frá heim­speki­legu sjón­ar­horni?

Vil­hjálmi finnst mjög mik­il­vægt að umræðan sé alltaf opin og gagn­rýn­in. „Það á aldrei að halda aftur af henni. Þetta er ekki þannig ástand, rík­is­leynd­ar­mál eða slíkt. Það er allt upp á borð­inu og mikil áhersla á gagn­sæi og rök­semdir – og í for­svari er fólk sem kallar eftir gagn­rýni og fagnar henni og vill að allir taki mið af bestu fáan­legu upp­lýs­ingum og rök­um. Þannig að mér finnst bara mjög eðli­leg þessi krafa um frek­ari umræðu og rök­stuðn­ing.

Traustið á ekki að vera blint og hlýðni sem byggir á blindu trausti er óáreið­an­leg og brot­hætt. Ef við viljum að fólk breyti með ákveðnum hætti þá er best að það byggi á skiln­ingi og rökum – og þeirri hugsun að við séum að nota eigin dóm­greind og virkja eigin ábyrgð.“

Að mati Vil­hjálms skiptir líka miklu hvernig gagn­rýni er sett fram í svona aðstæð­um. Ekki sé gagn­legt að setja hana fram í skæt­ingi eða til þess að sýna hvað maður sé klár, heldur að hún sé mál­efna­legt  fram­lag til þess að auka skiln­ing á því sem um er að ræða. Og til að skerpa vit­und okkar um verð­mæti sem við­kom­andi finnst vera snið­gengið eins og ein­stak­lings- og athafna­frelsi. 

„Það er þá mjög mik­il­vægt að halda því fram og færa rök fyrir því og kalla fram í umræð­unni hin gagn­stæðu rök sem efla á end­anum skiln­ing okkar á því hvers vegna við erum í þess­ari stöðu. Þannig að mér finnst að svona ástand og aðgerðir eigi aldrei að vera á kostnað gagn­rýn­innar hugs­un­ar, hún þarf að vera mjög lif­and­i,“ segir hann. 

Traustið á ekki að vera blint og hlýðni sem byggir á blindu trausti er óáreiðanleg og brothætt.
Vilhjálmur segir að þegar við ræðum um alvarleg mál eins og frelsisréttindi, sem eru afrakstur sögulegrar baráttu og við teljum meðal hornsteina okkar samfélags, þá sé ekki gott að þeim sé ýtt til hliðar án umræðu eða gagnrýni.
Kristinn Ingvarsson/HÍ

En finnst þér við hafa farið svona í gegnum þetta ferli? Hefur okkur tek­ist að eiga í upp­byggi­legum gagn­rýnum sam­ræð­u­m? 

„Ég get alveg séð að það hefði þurft að ræða málið betur í þing­inu til dæmis en ekki þó þannig að bíða hefði þurft með ein­hverjar aðgerð­ir. Ég held að við höfum mjög góð rök fyrir því að gripið hefði verið til aðgerða með til­tölu­lega litlum fyr­ir­vara og þá verður maður að hafa það í huga að þær aðgerðir eiga sér vel ígrund­aðan aðdrag­anda – því áður hefur verið tek­ist á við far­aldra og sótt­ir. Þó að þessi sé sér­stök og ný, þá eru leiðir sótt­varna­yf­ir­valda þekktar og byggja á reynslurök­um. Síðan þarf að læra inn á hegðun þess­arar veiru og bregð­ast við sér­stöðu henn­ar. Þetta hefur ein­kennt mál­flutn­ing sótt­varna­yf­ir­valda. Að vera opinn fyrir nýjum upp­lýs­ing­um,“ svarar hann. 

Þá telur Vil­hjálmur að sótt­varna­yf­ir­völd hafi boðið upp á sam­tal og ekki tekið gagn­rýni illa. Frekar finnst honum að ýmsum öðrum í sam­fé­lag­inu líki illa við gagn­rýni og hafi sál­fræði­lega þörf fyrir því að allir séu sam­mála. „Ég held að það sé brot­hætt­ara. Það er betra að hafa umræð­una lif­andi og gagn­rýna þó að ósætti komi frekar upp á yfir­borð­ið. Það til lengri tíma litið heil­brigð­ar­a.“

Miklu skiptir að athuga ef um þöggun er að ræða hverjar rætur hennar séu

Sumir upp­lifa aftur á móti ákveðna þöggun varð­andi alla umræðu um aðgerðir stjórn­valda og veiruna. Að ekki sé hægt að gagn­rýna án þess að fá yfir sig fúk­yrða­flaum­inn. Hvað segir þú við því?

Vil­hjálmur segir að miklu skipti að athuga ef um þöggun sé að ræða hverjar rætur hennar séu. 

„Kemur hún að ein­hverju leyti að ofan í krafti vald­beit­ingar og rit­skoð­un­ar? Mér finnst reyndar mjög hæpið að það hafi gerst núna og hef ekki orðið var við slíkt. Mér finnst mál­flutn­ingur þeirra sem eru í for­svari fyrir aðgerðum hér á landi vissu­lega ekki vera í anda þögg­un­ar. En hins vegar getur í sam­fé­lag­inu mynd­ast stemn­ing sem hefur þögg­un­ar­á­hrif. Ísland er ofboðs­legt stemn­ings­sam­fé­lag og síðan er spurn­ingin bara um hver sú stemn­ing verð­ur,“ segir hann, og bætir því við að heppi­legt hafi verið að stemn­ingin núna væri að „hlýða Víð­i“. 

Hann notar orðið „stemn­ing“ um and­rúms­loft sem knúið sé áfram af ein­hvers konar til­finn­ingum og húrra­hrópum um að allir eigi að stökkva á sama vagn­inn. „Ef stemn­ingin hvílir fyrst og fremst á ein­hverri múgsefjun þá eru allar gagn­rýn­is­raddir óþægi­leg­ar. Þá er það orðin ein­hvers konar sam­fé­lags­leg þöggun en mér sýn­ist hún vera algeng í íslensku sam­fé­lagi. Það er erfitt hér að skera sig úr eða synda á móti straumnum og ég held að það sé ekk­ert sér­stakt við þetta mál.“

Vil­hjálmur endar mál sitt á að árétta að við eigum ekki að vera hrædd við mótrök – mun sterkara sé að taka allar raddir með og sýna öllum ákveðna sann­girni. „Mér hefur fund­ist gott að jafn­vel ákveðnir stjórn­ar­þing­menn hafi orðað efa­semdir um aðgerð­ir. Mér finnst það mjög skilj­an­legt og í raun­inni fynd­ist mér það vera veikt sam­fé­lag sem hefði ekki slíkar radd­ir. Svo er annað mál hvort maður sé sam­mála þeim. Þegar við ræðum um alvar­leg mál eins og frels­is­rétt­indi, sem eru afrakstur sögu­legrar bar­áttu og við teljum meðal horn­steina okkar sam­fé­lags, þá er ekki gott að þeim sé ýtt til hliðar án umræðu eða gagn­rýn­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal