Stundum virðist sem að Reykjavík, höfuðborg landsins, eigi enga þingmenn. Samt eru þeir 22 talsins, rúmlega þriðjungur allra sem sitja á þingi.
Ástæða þess er sú að það virðist enginn tala máli íbúa hennar á Alþingi þegar kemur að málum þar sem viðbótar skattbyrði er velt af íbúum nágrannasveitarfélaga og yfir á íbúa höfuðborgarinnar. Ekki einu sinni stjórnmálamenn, kosnir af Reykvíkingum, í flokkum sem gefa sig út fyrir að vera flokkar lægri skatta og einfaldara skattkerfis, láta í sér heyra vegna þessara mála.
Þess í stað umturnast þeir og taka oftar en ekki hinn pólinn í hæðina. Velja að þegja eða tala jafnvel fyrir hagsmunum annarra en skjólstæðinga sinna.
Reykvíkingar borga meira fyrir veitta félagsþjónustu
Kjarninn hefur undanfarið fjallað um nokkur dæmi þar sem skattbyrði er velt yfir á íbúa Reykvíkinga. Sá aukni kostnaður leiðir til þess að borgarbúar greiða hærri skatta og verða fyrir þjónustuskerðingu, þar sem framlög í aðra málaflokka dragast saman.
Fyrst skal nefna þá staðreynd, studda gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa komist upp með það árum og áratugum saman að láta íbúa Reykjavíkur greiða hærri skatta svo þau geti sloppið við að halda úti viðunandi félagsþjónustu. Í umfjöllun Kjarnans kom fram að á árinu 2019 fóru 26 prósent af þeim skatttekjum sem Reykjavíkurborg innheimti í að standa undir ýmiskonar félagsþjónustu. Ekkert hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu kemst nálægt því að nota jafn mikið af innheimtum skatttekjum sínum í þann málaflokk. Í Kópavogi (14 prósent) og Garðabæ (15 prósent) var hlutfallið lægst.
Þar kom einnig fram að hver íbúi í Reykjavík greiddi 256 þúsund krónur í fyrra í kostnað vegna félagsþjónustu sem borginn veitti. Um er að ræða fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við fatlað fólk og aldraða og ýmislegt annað sem fellur undir málaflokkinn. Hver íbúi í Kópavogi borgar um helming þess sem íbúi í Reykjavík borgar í félagsþjónustuna, eða 130 þúsund krónur á ári. Íbúi í Garðabæ borgar litlu meira, eða 136 þúsund krónur.
Reykvíkingar borga þorra þess sem fer í fjárhagsaðstoð
Það er ekkert val að halda úti kostnaðarsamri þjónustu fyrir viðkvæmustu hópa samfélagsins. Annað hvort er það gert, eða þeir eru skildir eftir til að visna upp og deyja. Siðlegt samfélag gerir það ekki. Íbúar Reykjavíkur sjá að mestu til þess að það sé gert á höfuðborgarsvæðinu með sköttunum sínum. Það sést til að mynda á því að smáhýsabyggð fyrir utangarðsfólk og ýmis önnur úrræði fyrir þá sem lifa í útjaðri tilverunnar eru að uppistöðu í Reykjavík. Varla ætla nágrannasveitarfélögin að halda því fram að það séu einungis Reykvíkingar sem lendi á þvílíkum glapstigum í lífinu að þeir þurfi að sækja sér slíka þjónustu?
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar, 14,52 prósent. Það þýðir á mannamáli að íbúar í Reykjavík borga hærra hlutfall af launum sínum í skatta til að standa undir rekstri sveitarfélagsins en þeir sem búa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Hinir íbúarnir á svæðinu fá að borga lægri skatta og geta beint meiri fjármunum í ýmiskonar aðra þjónustu en félagslega, vitandi það að höfuðborgarbúarnir borga fyrir þá. Þessu er leyft að viðgangast ár eftir ár.
Reykvíkingar borga fyrir húsnæði fyrir lágtekjuhópa
Annað dæmi sem Kjarninn hefur nýverið fjallað um er uppbygging almenna íbúðakerfisins. Það kerfi hefur verið í uppbyggingu frá árinu 2016 og markmið þess er að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig á að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra. Fyrir voru þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík.
Kjarninn greindi frá því í byrjun nóvember að íslenska ríkið hafi alls úthlutað 15,3 milljörðum króna í stofnframlög vegna almennra íbúða á landinu öllu frá árinu 2016, þegar lög um slík framlög voru sett.
Þar af hafa 11,2 milljarðar króna farið í framlög vegna uppbyggingar á íbúðum í Reykjavík sem nýtt hafa verið til annað hvort að kaupa eða byggja alls 1.923 íbúðir.
Allt í allt þá hafa verið veitt stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja 2.625 íbúðir á landinu öllu, sem þýðir að 73 prósent af almennu íbúðunum sem hafa annað hvort verið keyptar, byggðar eða eru í byggingu á Íslandi öllu, eru í Reykjavík. Íbúar hér fá að borga þessa uppbyggingu líka.
Með öðrum orðum þá draga íbúar Reykjavíkur nánast einir vagninn þegar kemur að því að byggja upp húsnæði fyrir lágtekjuhópa á landinu.
Reykvíkingar borga milljarða í Jöfnunarsjóð
Í lok síðasta mánaðar var líka greint frá því að Reykjavíkurborg sé að skoða að höfða mál á hendur íslenska ríkinu. Ástæðan er sú að dómur sem féll í Hæstarétti í fyrra sýnir, að mati borgarlögmanns, að borgin hafi verið útilokuð með ólögmætum hætti frá því að eiga möguleika á að fá ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem borgin fær ekki í dag.
Um er að ræða tekjujöfnunarframlög, jöfnunarframlög vegna reksturs grunnskóla og framlög til nýbúafræðslu. Deilurnar snúa að uppistöðu að reglum sem útiloka borgina frá framlögum í skólamálum, t.d. vegna barna af erlendum uppruna, en þau eru langflest í Reykjavík (43,4 prósent erlendra ríkisborgara á Íslandi búa í Reykjavík).
Samanlagt metur borgin þá upphæð sem hún inni á 8,7 milljarða króna auk vaxta vegna tímabilsins 2015-2019. Borgin er ekki að biðja um sérreglur, heldur að það sama gildi fyrir hana og um önnur sveitarfélög.
Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins og greiðir langmest allra sveitarfélaga í Jöfnunarsjóðinn, en um 12 prósent af útsvari borgarinnar fer í hann árlega. Það gera rúmlega ellefu milljarðar króna. Borgin fær til baka um átta milljarða króna. Því greiða íbúar Reykjavíkur þrjá milljarða króna á ári til að „jafna“ stöðu annarra sveitarfélaga.
Sérreglur fyrir Reykjavík
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og ráðherra sveitarstjórnarmála, tók málið upp í ávarpi sínu á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga seint í nóvember. Þar sagði hann kröfu Reykjavíkur vera vera fráleita og hélt því fram að krafa Reykjavíkur yrði á Jöfnunarsjóðinn, og þar með þau sveitarfélög sem fá úr honum. Þessu hefur borgin hafnað og sagt að krafan sé gerð á ríkissjóð.
Eftir að áðurnefndur dómur í Hæstarétti féll í fyrra lagði Sigurður Ingi fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum, og sérstaklega um forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði.
Í því fólst meðal annars að úthlutunarreglum var breytt þannig að bætt var við sérstökum viðmiðunarflokki fyrir sveitarfélög sem hafa 70.000 íbúa eða fleiri, sem hægt væri að skerða jöfnunarframlag til. Eitt sveitarfélag er nægilega stórt til að falla í þann flokk, Reykjavíkurborg.
Þessi málflutningur á ekki að koma mikið á óvart. Sigurður Ingi er þingmaður landsbyggðarkjördæmis fyrir flokk sem sækir fylgi sitt að mestu út fyrir höfuðborgarsvæðið og er þekktur fyrir að beita sér á stundum fyrir sérhagsmunum heimasveita með harðari hætti en heildarhagsmunum.
Einn þingmaður steig upp
Það sem kom hins vegar á óvart var hversu fáir þingmenn Reykjavíkur tóku upp hanskann fyrir sína skjólstæðinga. Eini þingmaður borgarinnar sem það gerði með eftirtektarverðum hætti var Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. Hún sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku það liti „út fyrir að á vakt þessarar ríkisstjórnar og allt þar til lögunum var breytt að gefnu tilefni á síðasta ári hafi Reykjavíkurborg verið útilokuð með ólögmætum hætti frá framangreindum jöfnunarsjóðsgreiðslum.“ Hanna Katrín fór líka yfir að óumdeilt væri að Reykjavík drægi vagninn þegar kemur að málefnum félagsþjónustu ýmiss konar, líkt og rakið var hér að ofan.
Hún spurði Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, varaformann Framsóknarflokksins og eina þingmanns hans úr Reykjavík, um afstöðu hennar til þessara. Lilja vildi ekki gera þá afstöðu ljósa og sagðist ekki kunna að meta málflutning sem aðgreindi fólk í Reykjavík frá íbúum landsbyggðarinnar. Við værum öll í þessu saman.
Þess í stað talaði ráðherrann í löngu máli um framlög til menntamála, sem komu fyrirspurn Hönnu Katrínar lítið við.
Borgarfulltrúar sem gæta ekki hagsmuna borgarbúa
Þótt þingmenn Reykvíkinga stígi flestir ekki upp og gæti hagsmuna þeirra sem kusu þá til starfa, þá ætti að vera einboðið þeir fulltrúar sem sitja í borgarstjórn geri það í máli þar sem skattgreiðendur í Reykjavík eru taldir hafa verið sniðgengnir um 8,7 milljarða króna. Þannig hefur staðan verið í meginatriðum, að minnsta kosti opinberlega og samkvæmt fundargerðum borgarráðs. Með einni skýrri undantekningu.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, setti stöðuuppfærslu á Facebook á fullveldisdaginn 1. desember þar sem sagði eftirfarandi: „Undir stjórn borgarstjóra er Reykjavíkurborg komin í stríð við önnur sveitarfélög í landinu
Ekki einasta í flugvallarmálinu - heldur boðar borgin málaferli upp á marga milljarða gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem myndi rústa sjóðnum eins og ráðherra hefur marg oft farið yfir.“
Borgarfulltrúi Reykjavíkur kallar það stríð þegar borgaryfirvöld eru að reyna að sækja fé sem þau telja að með réttu tilheyri borgarbúum, með vísun í dóm Hæstaréttar og lögfræðiálit sem unnin voru í kjölfarið. Það er ekki hægt að skilja málflutning hennar á annan hátt en að borgarfulltrúi Miðflokksins sé að gæta hagsmuna annarra en íbúa Reykjavíkur í störfum sínum.
Og vaknar þá sú spurning: hvað er hún eiginlega að gera í borgarstjórn?
Þingmenn Reykvíkinga vilja svipta borgina skipulagsvaldi
Í stöðuuppfærslu Vigdísar er líka minnst á Reykjavíkurflugvöll. Nú liggur fyrir, enn og aftur, þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hans. Vart er til meira lýðskrumsmál en þetta, enda snýst það um að ráðast í ráðgefandi atkvæðagreiðslu til að svipta höfuðborg landsins skipulagsvaldi yfir landsvæði innan hennar, sem er þó varið í stjórnarskrá.
Flutningsmenn þessarar fjarstæðukenndu tillögu eru alls 25 þingmenn. Þar af nokkrir þingmenn Reykjavíkur. Þau eru: Inga Sæland frá Flokki fólksins, Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Ísleifsson úr Miðflokknum og Brynjar Níelsson úr Sjálfstæðisflokki. Þessir fjórir þingmenn vilja að skipulagsvaldið verði tekið af því stjórnvaldi sem íbúarnir sem kusu þau á þing, kusu til að taka ákvarðanir fyrir sig í skipulagsmálum.
Sá síðastnefndi, Brynjar Níelsson, hefur reyndar lýst algjörlega öndverðri skoðun í öðru máli, sem er þó gríðarlega mikilvægt mál fyrir skjólstæðinga hans í Reykjavík: lögþvinguð sameining sveitarfélaga.
Í atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga á þingi í janúar á þessu ári fór Brynjar í pontu til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Megininntak áætlunarinnar var að þvinga sveitarfélög til að sameinast og að frá árinu 2026 verði ekkert sveitarfélag með færri en eitt þúsund íbúa. Í ræðu Brynjars sagði hann meðal annars að lögþvingunin vefðist fyrir sér. „Í prinsippinu vefst þetta mjög mikið fyrir mér og þess vegna greiði ég ekki atkvæði.“
Þingmaðurinn átti erfitt með að lögþvinga sveitarfélög til að sameinast en hann er ekki í neinum vandræðum með að styðja tillögu um atkvæðagreiðslu um hvort það eigi að svipta borgina sem kaus hann á þing skipulagsvaldi.
Gætið hagsmuna ykkar skjólstæðinga
Þingmenn ýmissa kjördæma hittast reglulega, þvert á flokka, til að ræða hagsmuni sinna heimabyggða. Þeir ferðast líka saman um þau í kjördæmavikum. Þannig hefur málum verið háttað lengi. Fyrir vikið eru þeir eru vel inn í hagsmunum íbúa kjördæma sinna. Og gæta hagsmuna þeirra, jafnvel á kostnað annarra íbúa landsins, með stundum allt að óskammfeilnum hætti.
Sama má segja um sveitarstjórnarfulltrúa víðsvegar um landið. Á meðan að hér eru 68 sveitarfélög fyrir 368 þúsund manna þjóð þá munu þeir sem njóta kerfisins berjast fyrir áframhaldandi tilvist þess. Langtímalausnin á þessum vanda er að gera landið að einu kjördæmi og fækka sveitarfélögum i um tíu prósent af þeim fjölda sem þau eru í dag.
Afleiðing þess yrði milljarða króna sparnaður í yfirbyggingu á ári, minna karp um bitlinga milli svæða, meira gegnsæi, miklu betri nýting fjármuna og stórbætt geta nær-stjórnsýslunnar til að veita íbúum sínum skaplega þjónustu.
Þangað til að þetta gerist mun það tíðkast áfram að láta íbúa í stærstu þéttbýliskjörnum landsins á hverju svæði (t.d. Ísafjörður, Skagafjörður, Akureyri, Fljótsdalshérað/Norðurþing og Reykjavík) borgi hærri skatta hver til að viðhalda félagslegri þjónustu sem íbúar í nágrannasveitarfélögum þeirra vilja ekki taka þátt í að borga.
Og þangað til að þessi risastóru sanngirnis- og réttlætismál ná fram að ganga eiga Reykvíkingar að gera þá kröfu á þingmenn sína og borgarfulltrúa að þeir gæti hagsmuna sinna, líkt og kjörnir fulltrúar annarra svæða gera miskunnarlaust.