Það að upplýsa þýðir að afla eða miðla vitneskju um eitthvað ákveðið. Þegar um er að ræða upplýsingar um til dæmis verk stjórnvalda, sem samansett eru úr stjórnmálamönnum sem hafa mikinn hag af því hvernig upplýsingarnar eru framsettar, þá skiptir miklu máli hvaða viðmið eru höfð til hliðsjónar. Sama er að segja um þær upplýsingar sem settar eru fram úr atvinnulífinu. Í báðum tilvikum eru ekki hagsmunir almennings af því að fá sem sannasta mynd af því sem er að gerast í fyrirrúmi, heldur það sem kemur stjórnmálamönnunum eða viðkomandi fyrirtæki best.
Tilgangur upplýsingafulltrúa og spunameistara er ekkert endilega að segja að segja satt og rétt frá, heldur að gleðja yfirmenn sína. Það blasir enda við að ef sú vinna sem miðlunarhópurinn, sem er bæði sýnilegur og starfar á bakvið tjöldin, setur fram er í andstöðu við hagsmuni yfirboðara þeirra þá verður hann ekki langvinnur í starfi.
Meðal annars vegna þessa liggur ljóst fyrir að lýðræði í frjálsu og opnu samfélagi þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla sem vinna eftir því hátimbraða hlutverki að segja satt, upplýsa almenning og veita valdhöfum og öðrum fyrirferðamiklum leikendur á samfélagssviðinu aðhald. Til þess að ná því markmiði þurfa fjölmiðlar að vinna eftir grunngildum blaðamennsku, vera fjölbreyttir og í eigu ólíkra aðila. Þannig veita þeir hvorum öðrum líka aðhald þegar þörf er á. Ef einn fjölmiðill fer að haga sér meira eins og upplýsingafulltrúi eða spunameistari geta hinir bent á það og almenningur stendur þá frammi fyrir upplýstri ákvörðun um það hvort hann treysti hinum afvegaleidda lengur.
Umbreytingin
Staða fjölmiðla hefur veikst gríðarlega undanfarin rúman áratug. Það er alþjóðleg þróun, ekki séríslensk. Heilt yfir er ástæðan tækni- og upplýsingabylting. Henni hafa fylgt kostir fyrir fjölmiðla, til dæmis nýjar, skilvirkari og ódýrari dreifileiðir í stafrænum heimi.
En vankantarnir eru miklu fleiri. Þeirra helstir eru að tilurð samfélagsmiðla sem tekjusækinna fyrirtækja hefur eyðilagt hefðbundin tekjumódel fjölmiðla og gert það að verkum að hægt er með lítilli fyrirhöfn en miklum árangri að koma á framfæri bjöguðum eða röngum upplýsingum til að skapa umræðum eða afleiðingar sem eiga sér ekki staðreyndamiðaðan tilverurétt í raunheimum. Ef þvæla er endurtekin nægilega oft þá öðlast hún sjálfstætt líf sem valkvæð staðreynd.
Hliðarafurð af þessari þróun eru svo fyrirbæri sem kalla sig fjölmiðla en eru fyrst og síðast smellubeitur og skaðræði sem til að mynda býr til efni úr minningargreinum fólks sem á um sárt að binda í leit að aukinni netumferð.
Ákvörðun um að veikja fjölmiðla kerfisbundið
Ef við horfum einungis á Ísland þá liggur fyrir að stjórnvöld hér, sem hafa teygt sig frá villtasta vinstri og í argasta íhald á þessu tímabili, hafa ekki gert neitt til að takast á við þessa stöðu. Ekki ein ákvörðun hefur verið tekin til að laga rekstrarumhverfi fjölmiðla landsins þrátt fyrir að sýndarferli þess efnis hafi staðið yfir árum saman.
Við blasir að það þurfi að gera margháttaðar breytingar. Það þarf að taka á skattfrjálsri tekjusókn samfélagsmiðlarisa eins og Ástralar eru nú að gera með mikilli prýði. Það þarf að breyta umfangi ríkismiðilsins á auglýsingamarkaði til að búa til aukið súrefni, aðallega fyrir stærstu fjölmiðlahús landsins. Það þarf að setja upp styrkjakerfi til að styðja við litla og meðalstóra fjölmiðla út um allt land til að tryggja fjölbreytta flóru svo allt fjölmiðlalandslagið geti sinnt sínu mikilvæga lýðræðislega hlutverki. Það þarf að afnema samkeppnisbjögun sem fellst meðal annars í því að hið opinbera niðurgreiðir urðun prentmiðla og þar með starfsemi hluta fjölmiðla.
Fagleg hnignun
Afleiðingar þess að gera ekkert í að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla eru aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi tapast mikil fagmennska úr greininni. Frábært fagfólk flýr í önnur betri launuð störf sem fylgja minni áreiti. Það ákveður, eðlilega, að brenna frekar út í frítíma sínum með vinum og fjölskyldu en í vinnu sem stjórnmálamenn virðast telja að eigi, sé hún unnin rétt, að mestu að vera unnin af hugsjón. Hin afleiðingin er sú að fólk sem hefur áhuga á að ná tökum á umræðunni í samfélaginu býðst til að borga fyrir milljarða króna taprekstur fjölmiðla í skiptum fyrir að þeir reyni sitt besta til að tryggja þau tök.
Við sáum dæmi um báðar þessar afleiðingar í vikunni þegar Fréttablaðið birti forsíðufrétt um að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR – og maður sem allir helstu skríbentar, stjórnendur og eigendur blaðsins leggja opinbera fæð á – væri veiðiþjófur þrátt fyrir að hann neitaði allri aðkomu að málinu. Í frétt blaðsins stóð: „Hópur þriggja manna stóð að netalögninni og hefur Fréttablaðið eftir áreiðanlegum heimildum að Ragnar Þór hafi verið á meðal þeirra. Óheimilt er að leggja net í ána.“
Með fylgdi mynd af formanni VR, sem nú stendur í formannsslag í félaginu gegn frambjóðanda sem er stigveldi Fréttablaðsins mun þóknanlegri.
Alveg sama þótt frétt sé ósönn
Daginn eftir var birt staðfesting lögreglu að Ragnar væri hvorki grunaður í málinu né hefði stöðu vitnis. Þrátt fyrir það hefur Fréttablaðið ekki dregið fréttina til baka né birt leiðréttingu. Þess í stað birti blaðið í gærmorgun yfirlýsingu frá Ragnari og festi við athugasemd Jóns Þórissonar, ritstjóra Fréttablaðsins. Í henni segir: „Frétt blaðsins sem um ræðir er byggð á frásögnum tveggja manna sem voru á vettvangi. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir til lögreglu við vinnslu fréttarinnar varðandi hugsanlega aðild Ragnars Þórs Ingólfssonar að meintu veiðibroti fengust ekki upplýsingar um það atriði. Í samtali við Fréttablaðið sagðist Ragnar Þór hvergi hafa komið nærri ólöglegri netalögn og var því skilmerkilega haldið til haga í fréttinni.“
Ef þetta er þýtt á mannamál þá er ritstjóri Fréttablaðsins að segja að það sé forsvaranlegt að segja frétt um formann stéttarfélags, þar sem hann er ásakaður um lögbrot, eftir tveimur ónafngreindum heimildarmönnum þrátt fyrir að hann neiti fyrir alla aðkomu að málinu. Hann er líka að segja að það sé forsvaranlegt að halda þeim fréttaflutningi til streitu, og draga fréttina ekki til baka, þótt fyrir liggi staðfesting frá lögreglu að Ragnar Þór sé hvorki „skráður sem sakborningur né vitni í tengslum við þetta mál.“
Tilgangurinn helgar meðalið
Fréttablaðinu, í því ástandi sem það er í dag, er alveg sama þótt það hafi sagt ósatt um mann á forsíðu sinni. Tilgangurinn, að koma höggi á þennan mann sem er illa liðinn af eiganda og stjórnendum blaðsins, helgar meðalið.
Þetta er svokölluð alslemma afleiðinga þess ástands sem við höfum skapað fjölmiðlum. Öll fagleg viðmið eru horfin, allur vilji til að segja almenningi satt er settur til hliðar og blaðið orðið tær leiksoppur í valdabrölti hagsmunaaðila innan stigsveldis þess.
Morgunblaðið hefur auðvitað verið á þessum stað árum saman, eða frá því að sjávarútvegsfyrirtæki keyptu útgáfuna 2009 með yfirlýst markmið um það sem eigendur þeirra vildu ná fram. Um það allt saman má lesa hér.
Slagkraftur þess hefur þó dvínað verulega, enda er nú svo komið að einungis tíu prósent fullorðinna landsmanna undir fimmtugu lesa Morgunblaðið, þrátt fyrir að því hafi að hluta verið breytt í fríblað.
Veikja fjölmiðla en styrkja hagsmunagæslu
Samhliða hinni kerfisbundnu veikingu fjölmiðlaumhverfisins hefur valdafólk eflt verulega alla aðra upplýsingamiðlun, oft á tíðum með skattfé. Varla er til stofnun eða fyrirtæki í landinu sem heldur ekki út hlaðvarpi. Flest þeirra birta reglulega eitthvað sem þau kalla fréttir en eru efni sem eiga ekkert skylt við fréttir fjölmiðla, enda fyrst og síðast efni til að kynna starfsemi eða mála ákvörðun í ljósum litum.
Það hefur hins vegar verið rifist um það á þingi, enn án niðurstöðu, nú árum saman hvort tilhlýðilegt sé að greiða 400 milljónir króna í rekstrarstyrki til á þriðja tug fjölmiðla árlega. Sumir sem hæst hafa látið í andstöðu hafa borið fyrir sig að það yrði ógn við lýðræðið ef einkareknir fjölmiðlar yrðu styrktir. Sem er auðvitað hlægilegt þegar allt ofangreint er talið saman og þegar horft er til annarra Norðurlanda, þar sem rekstrarstyrkir hafa tíðkast áratugum saman. Þau sitja nefnilega á toppnum á listum sem teknir eru saman um fjölmiðlafrelsi í heiminum. Í fyrra sat Ísland í 15. sæti á slíkum lista.
Stjórnmálaflokkar og fyrirtæki segja fréttir
Stjórnmálaflokkar hafa líka verið duglegir að skammta sjálfum sér aukið rekstrarfé á þessu kjörtímabili, sem þeir hafa meðal annars getað nýtt til að ráða fleira fólk til að hafa áhrif á umræðu og framleiða hlaðvörp eða netþætti þar sem starfsmennirnir spyrja yfirmenn sína um hvað það sé helst sem geri þá að yfirburðarfólki. Á þessu kjörtímabili munu stjórnmálaflokkarnir átta sem eiga sæti á Alþingi fá samtals rúmlega 2,8 milljarða króna til að reka sig. Ef framlagið hefði haldist eins og það átti að vera fyrir breytinguna þá hefðu flokkarnir átta skipt með sér rúmlega 1,1 milljarði króna á kjörtímabilinu. Ákvörðun þeirra um að hækka framlag til sín skilaði því 1,7 milljarði króna umfram það sem áður stóð til í rekstur þeirra á yfirstandandi kjörtímabili. Árleg hækkun á framlagi, miðað við áætlun 2021 og því sem átti að vera 2018, er um 155 prósent.
Það eru því til nægir peningar í ríkissjóði til að hjálpa framkvæmdavaldinu að upplýsa, til að hjálpa ríkisstofnunum að réttlæta sig og til að fjármagna kosningabaráttu stjórnmálaflokka.
Þá er ótalið að stórfyrirtækið Samherji, sem á yfir 100 milljarða króna í eigið fé og er meðal annars til rannsóknar vegna gruns um að hafa greitt mútur, þvættað peninga og svikið undan skatti, hefur rekið sína eigin „fréttastofu“ undanfarin ár. Í gegnum hana hefur fyrirtækið stundað stríðsekstur gegn nafngreindu fólki og gagnrýnum fjölmiðlum í þeim tilgangi að gaslýsa almenning. Í þessari vegferð hafa helstu stjórnendur fyrirtækisins, og málaliðarnir sem þeir hafa keypt í skítverkin, sýnt að þeir eru tilbúnir að ganga mjög langt til að hafa æruna og lífsviðurværið af þeim sem þeir telja að ógni sér.
Viljið þið frjálsa fjölmiðla?
Við lifum í draumaheimi lobbýista og spunameistara. Það er draumur þeirra að geta verið að mestu óhindrað í hlutverki sögumannsins í samfélaginu. Þess sem ræður því hvernig atburðir eru túlkaðir í samtíma og hvernig sagan geymir þá. Ef sterkir frjálsir, fjölbreyttir og sjálfstæðir fjölmiðlar, í ólíku eignarhaldi með sterkar og fyrirsjáanlegar rekstrarforsendur, eru ekki til staðar þá fá slíkir aðilar það hlutverk endanlega. Við erum ekki komin á þann stað, en stefnan er sannarlega þangað að óbreyttu.
Aðgerðir hins opinbera á ögurstundu fjölmiðla benda allar til þess að ofangreind lýsing sé það sem stjórnvöld vilja. Kerfisbundið hefur rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verið veikt svo að aðstæður skapist fyrir fjársterka aðila til að kaupa þá og vinna hagsmunum sínum frekari framgang. Samhliða hefur geta þeirra valdastofnana sem fjölmiðlarnir eiga að veita aðhald til að reka sína eigin upplýsingaþjónustu verið styrkt verulega, með miklum opinberum tilkostnaði. Stjórnmálaflokkarnir sem fjölmiðlarnir eiga að veita aðhald hafa líka stóraukið getu sína til upplýsingamiðlunar og spuna, með enn meiri opinberum tilkostnaði. Og stórfyrirtæki í umfangsmikilli rannsókn sem veit vart aura sinna tal hefur gert fréttatilbúning og persónuárásir gegn blaðamönnum að sýnilegasta hluta starfsemi sinnar.
Sama fólk og tók ákvarðanirnar sem leiddu af sér ofangreinda stöðu heldur því fram að það megi ekki grípa til hóflegra aðgerða til að laga rekstrarumhverfi fjölmiðla vegna þess að þá muni fjölmiðlar skirrast við að bíta í hendina sem fóðrar þá.
Í þessari afstöðu felst þó augljós hugsunarvilla. Stjórnmálamenn eiga ekki ríkissjóð, almenningur á hann. Frjálsir fjölmiðlar eiga að vinna fyrir almenning og þurfa að standa skuldaskil gagnvart honum. Á þessu ætti allt hugsandi fólk að átta sig.
En fyrst og síðast þurfa stjórnmálamenn spyrja sig: Skipta fjölmiðlar máli? Ef svarið er já þá þurfa þeirra að gera eitthvað stórtækt, hratt.
Hingað til hefur svarið, miðað við verk þeirra þvert á flokka, hins vegar verið nei.
Því er sem er.