Kjarninn hefur undanfarna daga birt fréttaskýringaröð um hlutabréfaeign áhrifafólks innan starfsstétta sem geta, starfs síns vegna, haft áhrif á gengi skráðra verðbréfa.
Tilefnið var að ný lög, byggð á frumvarpi sem samið var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við forsætisráðuráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti, gerðu það að verkum að heildarhluthafalistar skráðra félaga voru birtir opinberlega. Lögin eru liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að auka gagnsæi og traust á íslensku atvinnulífi.
Með birtingu hluthafalistana gafst í fyrsta sinn tækifæri til að rannsaka hvort þeir sem reglur um hagsmunaárekstra gilda um í samfélaginu væru að fylgja þeim reglum.
„Athugunarleysi“ og eign í umfjöllunarefnum
Eftir umræður var ákveðið að skoða fólk innan fimm stétta: Alþingis, sveitarstjórna, embættismannakerfisins, dómstóla og fjölmiðla. Greining á öllum hluthafalistunum skilaði svo því að eftir stóð nokkur fjöldi einstaklinga. Ákveðið var að byggja umfjöllun á reglum um hagsmunaskráningum þar sem slíkar eru til staðar, eða eftir atvikum öðrum reglum um hagsmunaárekstra, eins og siðareglum.
Í ljós kom að þingmenn hafa ekki fylgt þeim reglum sem eru um hagsmunaskráningu þeirra. Forseti Alþingis bar fyrir sig „athugunarleysi“ þegar upp komst að hann hefði verið sjö árum of seinn að tilkynna um að hlutabréfaeign hans væri komin yfir tilgreind viðmið sem kalla á skráningu. Aðrir þingmenn sem eiga hlutabréf skráðu ekki eign sína fyrr en eftir umleitanir fjölmiðla.
Ráðuneytisstjóri tilgreindi eign sína í hlutabréfum ekki í samræmi við reglur í hagsmunaskrá og áhrifamiklir embættismenn, sem gegna lykilhlutverkum bak við tjöldin í stjórnsýslunni, eiga umfangsmikla hlutabréfaeign.
Þá greindi Kjarninn frá því að viðskiptaritstjóri ætti hlut í þrettán skráðum félögum og að hann fjallaði reglulega um sum þessara félaga.
Upp úr krafsinu kom líka að dómarar, að minnsta kosti við Landsrétt og Hæstarétt, eiga engin hlutabréf í eigin nafni.
Okkar mat var að þessar upplýsingar – sem eru nú opinberar i fyrsta sinn – ættu fullt erindi við almenning.
Í ljós kom að sumir kollegar okkar eru ósammála því.
Látið Hörð vera!
Einu hörðu viðbrögðin vegna þessarar fréttaskýringaraðar sem bárust voru vegna þeirrar sem fjallaði um hlutabréfaeign Harðar Ægissonar, viðskiptaritstjóra Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í stöðuuppfærslu á Facebook líkti hann hlutabréfaeign sinni við eign ritstjóra Kjarnans í þeim miðli og að umfjöllun hans um t.d. Arion banka, sem Hörður á tæplega sex milljón króna hlut í og hefur skrifað 19 fréttir um á hálfu ári, væri á pari við umfjöllun Kjarnans um rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Sömuleiðis væri engin munur á hlutabréfaeign og fjárfestingu í húsnæði. Tilgangur fréttaskrifa Kjarnans væri að gera hann tortryggilegan.
Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, varði kollega sinn á Facebook, sagði Kjarnann vera að ráðast á hann og gera hann tortryggilegan fyrir að eiga hlutabréf. Stefáni Einari fannst hlutabréfaeign Harðar ekki gera hann vanhæfan til að fjalla um félög sem hann á fyrir milljónir króna. Meiri hagsmunaárekstrar væru fólgnir í því að ritstjóri Kjarnans ynni sem verktaki hjá RÚV við að fara yfir stöðu mála í viðskiptum og efnahagsmálum í útvarpi einu sinni í viku. Stefán Einar velti því fyrir sér hvort slíkt gerði einstakling vanhæfan til að fjalla um RÚV?
Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins sem er með margra ára reynslu sem viðskiptablaðamaður, sagði á Facebook að „dylgjur Kjarnans um heiðarleika og starfshætti blaðamanns á öðrum miðli hitta Kjarnann sjálfan fyrir“.
Það tekur líklega allt sæmilega læst fólk eftir því að í gagnrýni þessara manna, sem tala nær alltaf í sama tóni um allt gangverk samfélagsins, er ekki ein efnisleg athugasemd um innihald fréttaskýringar Kjarnans. Þær snúast um að skúrkurinn sé sá sem segir frá. Að það ætti frekar að fjalla um eitthvað annað en það sem sé verið að fjalla um. Festast í aukaatriðum og hliðarsýningum, ekki ræða aðalatriði.
Oft með innherjaupplýsingar
Það er vandræðalegt að þurfa að útskýra muninn á skráðum verðbréfum og eignarhaldi í litlu fjölmiðlafyrirtæki sem viðkomandi starfar hjá fyrir viðskiptablaðamönnum. Það er ekki að ástæðulausu að þeir sem búa mögulega yfir verðmyndandi upplýsingum um skráð félög er gert að skrá sig sem innherja og þurfa fyrir vikið að lúta sérstökum reglum um kaup og sölur. Það er ekki að ástæðulausu að Fjármálaeftirlitið segi að það gæti tekið hlutabréfaeign blaðamanna til skoðunar ef umfjöllun þeirra um skráð félög væri með „einhverjum hætti röng eða misvísandi“.
Það er heldur ekki að ástæðulausu að í þeim löndum sem við sækjum fyrirmyndir að okkar fjölmiðlalandslagi – Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndunum – séu strangar reglur, og bönn, gegn því að blaðamenn eigi hlutabréf í skráðum félögum sem þeir fjalla um. Og jafnvel allsherjarbann á slíkri fjárfestingu. Slík bönn gilda ekki um hluti í fyrirtækjunum sem viðkomandi starfar fyrir.
Sá sem þetta skrifar telur sig oft vera með upplýsingar undir höndum í sinni vinnu sem gætu verið verðmyndandi fyrir skráð félög. Þess vegna á hann ekki hlutabréf í skráðum félögum. Hagsmunaárekstrarnir eru augljósir.
Þess má geta að á þessu ári, á meðan að Hörður skrifaði 19 fréttir um Arion banka, hefur virði eignar hans í bankanum, sem hann kallar óverulega, hækkað um 62 prósent. Markaðsvirði hlutar hans hefur hækkað úr 3,6 milljónum króna í 5,8 milljónir króna. Það eru um 370 þúsund krónur á mánuði, rúmlega lágmarkslaun á Íslandi.
Seljanleiki skiptir öllu máli
Það eru auk þess fjölmörg dæmi um að ritstjórar fjölmiðla eigi hlut í þeim í Íslandssögunni. Það á við ýmsa smærri miðla þar sem starfsmenn eru fáir. Af þeim sem fjalla dagbundið um samfélagsmál háttar málum þannig að auk ritstjóra Kjarnans eru að minnsta kosti þrír aðrir ritstjórar í eigendahópi þess miðils sem þeir stýra, þar á meðal Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins og yfirmaður Harðar. Þeir hafa allir fjallað um rekstrarumhverfi fjölmiðla í skrifum sínum.
Það að líkja beinni hlutabréfaeign við það að eiga í lífeyrissjóði, sem viðkomandi hefur enga stjórn yfir hvernig fjárfestir, er lítið annað en léleg afvegaleiðing.
Það að líkja síðan hlutabréfaeign við húsnæðiskaup er svo eiginlega bara fyndið. Fasteign er ekki áhættufjárfesting í hugum flestra með eðlilegt gildismat, heldur heimili.
Það má alls ekki segja hvað felst í siðareglum
Það fór mjög fyrir brjóstið á skyttunum þremur að formaður Blaðamannafélags Íslands hafi bent á, í fréttaskýringu Kjarnans, að fimmta grein siðareglna félagsins ætti við um hlutabréfaeign blaðamanna og að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir ættu til að svo væri. Hún hljómar svona: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.“
Hörður sagðist undrast þá túlkun formanns Blaðamannafélags Íslands á siðareglum félagsins, þar sem segir að blaðamaður skuli varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir af fyrirtækjum sem hann eigi sjálfur aðild, að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir eigi.
Stefán Einar sagði formanninn taka „á sig stökk enn á ný til þess að berja á þeim fjölmiðlum og fjölmiðlamönnum sem henni er sérstaklega í nöp við“ og ásakaði hana um að brjóta með því sjálf siðareglur Blaðamannafélagsins.
Andrés sakaði formanninn um að „taka undir delluna að óskoðuðu máli“.
Þess ber að geta að formaðurinn, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, hafði enga hugmynd um hverjir yrðu til umfjöllunar í skýringum Kjarnans þegar fyrirspurn var send á hana, heldur svaraði henni almennt. Það er því ekki hægt að væna hana um samsæri eða persónuárásir, enda hafði hún engan til að ráðast á. Eina sem hún gerði var að svara spurningu um hvernig hagsmunaárekstrarákvæði siðareglna sé túlkað.
Ótrúlegt þolgæði
Afstaða þessara þriggja manna til frétta um mögulega hagsmunaárekstra, sem byggja á upplýsingum sem stjórnvöld hafa nýverið beitt sér fyrir að verði gerðar opinberar til að auka gagnsæi í samfélagi og vonandi auka traust, er að segja að umfjöllunin sé til þess fallin að gera andlag hennar tortryggilegt. Að verið sé að ráðast á hann. Að sannleikur séu dylgjur.
Ekki ein athugasemd þeirra snýst um að eitthvað sé efnislega rangt. Þeir vilja bara ekki að fréttir af hlutabréfaeign viðskiptaritstjóra sem fjallar ítrekað um félögin sem hann á hlutabréf í séu sagðar. Þær koma lesendum þeirra eða almenningi yfir höfuð ekki við. Það er almennt truflandi að svo áhrifamiklir menn innan stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins sýni af sér slíkt viðmót til frétta. Margir leikendur úr atvinnulífinu, lobbíistahópunum og stjórnmálum eru svo sammála þessari afstöðu.
Það sem kristallast í afstöðu þeirra er að á Íslandi er ótrúlegt þolgæði fyrir tækifærismennsku, valdabaráttu og prinsippleysi. Í forgrunni eru engar hugsjónir, engar stórar hugmyndir um betra samfélag eða fagleg heilindi, bara hagsmunabarátta þar sem allt má til að græða meiri peninga eða ná til sín meiri áhrifum. Engin önnur viðmið eru viðurkennd eða umborin.
Þeir sem nálgast lífið og samfélagið með öðrum hætti eru úrtölumenn. Öfundarfólk. Dragbítar. Kommúnistar.
Það er kannski tímabært að við, fólkið sem þeir þola ekki, sameinumst um að hætta að sætta okkur við þessa stöðu. Gerum meiri kröfur. Byggjum betra samfélag.
Slökkvum á gaslýsingunni og kveikjum þess í stað ljósin.
Segjum svo upphátt hvað það er sem við sjáum.