„Ísland,“ segir hann allt að því hvíslandi og verður dreyminn til augnanna áður en hann spyr varfærnislega: „Er eitthvað svart fólk þar?“
Ég svara játandi og segi honum meðal annars frá kunningja mínum sem þar býr og er einmitt frá sama landi og hann – Úganda. Það lifnar yfir honum og bjart og breitt bros færist yfir fíngert andlitið. En svo dofnar neistinn sem kviknaði hafði í dökkum augunum. „En það er erfitt að komast þangað fyrir fólk frá Afríku,“ segir hann. „Eiginlega ómögulegt.“ Hann lítur niður. Spyr svo lágt hvort það sé ekki rétt ályktun hjá sér.
Ég get ekki annað en samsinnt því, þekkjandi þess mörg dæmi, sum sem standa mér mjög nærri. Ég verð vandræðaleg og það hellist einhver óþægileg tilfinning yfir mig.
Er það sorg? Eða er það skömm? Vegna þess að Peter, ungi og harðduglegi maðurinn sem situr fyrir framan mig, getur ekki líkt og ég farið nánast hvert í heimi sem er – fyrst og fremst vegna þess hann hann fæddist við miðbaug en ég við heimskautsbaug?
Á meðan þessar tilfinningar flæða um huga minn tekur Peter blíðlega um hendur mínar. „Er allt í lagi með þig?“ spyr hann í einlægni. Það hefur líklega þyngst á mér brúnin og það er auðvitað engum til gagns nema síður sé.
Ég fullvissa hann um að það sé sannarlega í lagi með mig og hann tekur þá til við að raða tækjum sínum og tólum í kringum mig.
Og stinga fótunum á mér í fótanuddtæki sem ég hef ekki séð síðan á níunda áratugnum.
Peter er hand- og fótsnyrtir. Hann er líka nuddari og hárgreiðslumaður. Því hér í Úganda borgar sig að hafa sem flest bjargráð. Til að lifa af.
Ylvolgt vatnið í fótanuddtækinu freyðir um fæturna. Fætur sem eru orðnir rauðlitir eftir gönguferðir í opnum skóm um moldarstíga. „Þetta gengur ekki manneskja,“ hafði kunningakona mín sagt daginn áður og hrist hausinn yfir brotnum og illa hirtum nöglum mínum. „Þú hringir í Peter. Hann hefur lítið að gera og þarf viðskipti. Þetta er win-win fyrir ykkur bæði.“
Peter nam snyrtingu og hágreiðslu hjá YMCA, kristilegu félagi ungra manna (KFUM), í höfuðborginni Kampala. Fyrir rúmlega tveimur árum hafði hann komið sér upp góðum og traustum kúnnahópi í borginni Entebbe við Viktoríuvatn. Var kominn með aðstöðu á stofu en fór svo einnig milli hótela og heim til viðskiptavina, ef því var að skipta. Keypti sér sín eigin verkfæri til starfans og úrval af naglalakki í öllum regnbogans litum. Það má minna vera hér í hitabeltinu þar sem litskrúð náttúrunnar er þvílík að skilningarvitin truflast nánast af allri örvuninni.
Djúprauð blóm á toppi hárra trjáa. Fagurbláir og skærgulir fuglar. Appelsínugular eðlur. Sægræn fiðrildi. Fjólubláir ávextir.
Peter nuddar heimalöguðum húðskrúbbi á hendur mínar. Ólífuolíu blandaðri í hrásykur. Við sitjum í skugga í gróskumiklum garði hótels skammt frá Viktoríuvatninu. Hægur andvari strýkur sólkysstar kinnar undir hvellu kvaki fugla. Kvaki sem eitt sinn var mér svo framandi en er orðið notalega kunnuglegt.
„Þú ert fyrsti viðskiptavinur minn í langan tíma,“ segir Peter er hann tekur til við að næra tætt naglaböndin með feitu smyrsli. Ekki sá fyrsti í tvö ár en því sem næst. Loksins, loksins er Úganda komið undan útgöngubanni sem var algjört fyrstu mánuði heimsfaraldursins. Lengsta útgöngubanni vegna farsóttarinnar sem dæmi fara af.
Enginn mátti vera á kreiki nema fótgangandi. Engir bílar óku um götur nema í undantekningar tilvikum. Bodaboda, skellinöðrurnar sem milljónir manna nota daglega til að komast á milli, voru lagðar undir trjám. Alþjóðaflugvellinum var lokað að mestu. Forvitnir apar hófu að heimsækja hótelgarðana í stað mannfólks. Ferðaþjónustan lognaðist út af. Í landi þar sem ekkert félagslegt kerfi grípur þig ef þú missir vinnuna. Milljónir enduðu einmitt í þeim sporum á örskömmum tíma. Og Peter var þeirra á meðal.
„Ég hafði ekkert. Alls ekkert.“ Hann varð að selja allt, öll áhöld og naglalakkasafnið. Líkt og á Íslandi var þeim sem unnu í mikilli nánd við viðskiptavini bannað að starfa. Og þannig var það mánuðum saman.
Peter fékk einstaka verkefni. En þar sem hann mátti ekki fara um á bodaboda notaði hann reiðhjólið sitt. Eitt sinn hjólaði hann hálfa dagleið til viðskiptavinar. Og svo sömu leið til baka.
„Þetta hefur verið svo erfitt,“ segir hann og mundar naglaþjölina, „en þetta hefur líka kennt mér svo margt.“
Útgöngubanninu var létt smám saman en það var þó ekki fyrr en í lok janúar að það heyrði alfarið sögunni til. Ferðamennirnir eru farnir að koma aftur. Í fuglaskoðun, til að sjá villidýrin tignarlegu, fara í ævintýralegar flúðasiglingar á Níl eða til þess að slaka á undir heitri Afríkusólinni.
Þeir eru þó ekki enn farnir að skila sér til Peters. Ekki þannig að hann geti komið undir sig fótunum almennilega aftur. „Ég þyrfti að minnsta kosti tvo viðskiptavini á viku,“ segir hann á meðan hann lyftir fótum mínum upp úr nuddtækinu og þerrar þá varlega.
„Ég vona að þetta breytist hratt,“ segi ég uppörvandi. „Fólki er farið að þyrsta í að skoða heiminn eftir allt sem á undan er gengið.“
Hann kinkar kolli til samþykkis. „En ég vil líka gera eitthvað annað. Hafa eitthvað í bakhöndinni.“ Óttinn við að missa allt á ný er augljós.
„Ég er góður kokkur,“ segir hann svo feimnislega og byrjar að raða nokkrum glösum af naglalakki fyrir framan mig. „Kannski ég opni veitingastað?“ Þeir eru þegar margir veitingastaðirnir, litlir og stórir, svo líklega yrði samkeppnin mikil. En Peter er öruggur með hæfileika sína í eldamennskunni. Vill að minnsta kosti reyna fyrir sér á góðum veitingastað. Læra vinnubrögðin. Kynnast faginu.
„Ég verð að reyna,“ segir hann yppir öxlum. „Ég hef ekkert annað val.“
Hann er búinn að pússa grófar neglur mínar svo þær eru glansandi sléttar.
„Hvaða lit viltu?“
Ég renni augunum yfir úrvalið af naglalakki. Það er takmarkað – enn sem komið er. Fölgráir og brúnir tónar eru í boði, eins voru í tísku heima á Íslandi fyrir nokkrum misserum.
Þeir heilla mig ekki. Það er val að hafa liti í lífi sínu.
„Þennan bleika, takk.“ Sá hinn sama og er á blómunum í runnunum rétt fyrir framan okkur. Við hliðina á ananasplöntunni.
Næst þegar ég hitti Peter við Viktoríuvatn eftir nokkrar vikur, verður litli ananasinn í plöntunni miðri orðinn fullþroskaður. Svona um það leyti sem viðskiptin hjá Peter verða vonandi farin að blómstra á ný.