Fyrsta ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 30. nóvember 2017. Annað ráðuneyti hennar, skipað sömu flokkum en með breyttri verkaskiptingu og fleiri ráðherrum, settist að völdum 28. nóvember 2021.
Líkt og Katrín benti sjálf á í viðtali við Fréttablaðið vegna fimm ára setu sinnar sem forsætisráðherra þá litaðist síðari hluti síðasta kjörtímabils nánast að öllu leyti af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hefðbundin stjórnmál voru tekin úr sambandi. „Það víkja öll önnur mál, það rífst enginn um hvað eigi að vera í matinn þegar húsið brennur,“ sagði forsætisráðherra.
Þótt mörgum finnist eins og faraldurinn hafi staðið yfir í tíu ár fyrir tíu árum síðan þá var takmörkunum vegna sóttvarna ekki aflétt að fullu og endanlega fyrr en 25. febrúar síðastliðinn, tveimur árum eftir að veiran lét fyrsta á sér kræla hérlendis.
Þess vegna voru síðustu þingkosningar haldnar í pólitísku tómarúmi. Faraldrinum var ekki lokið og afleiðingar efnahagslegra aðgerða stjórnvalda vegna hans voru ekki nálægt því að fullu komnar fram. Stýrivextir voru 1,25 prósent og verðbólgan 4,4 prósent. Ríkisstjórnin gat réttilega uppskorið fyrir að hafa fylgt í meginatriðum ráðgjöf sérfræðinga þegar kom að aðgerðum til að verja líf og heilsu landsmanna, og naut þess líka að líf fólks á Íslandi var háð miklu minni takmörkunum en í flestum öðrum ríkjum heims.
Pólitíska svikalognið liðið hjá
Við þessar aðstæður gat Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda farið í kosningabaráttu þar sem formaður hans lofaði því að vextir yrðu lágir til frambúðar ef fólk myndi bara kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann einn gæti víst varið stöðugleikann og ef öðrum yrði hleypt að myndi verðbólgan fara af stað. „Reikningurinn fyrir loforðalistana birtist okkur öllum í hærra vöruverði,“ skrifaði Bjarni Benediktsson fyrir rúmu ári síðan.
Tjöldin falla
Nú er staðan hins vegar afar breytt. Stýrivextir hafa verið hækkaðir upp í sex prósent. Verðbólgan er 9,3 prósent og hefur mælst yfir níu prósent frá því í júlí, þrátt fyrir að hér sé engin orkukreppa. Krónan hefur veikst um tæp níu prósent gagnvart evru og um 14 prósent gagnvart Bandaríkjadal frá því í byrjun árs 2020 sem gerir allan innflutning miklu dýrari og rýrir virði þeirra íslensku króna sem launafólk þénar í alþjóðlegum samanburði.
Þessi staða bítur fyrst og síðast á þeim sem lifa enn í veruleika íslensku krónunnar, sem leikstýrt er af Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra. Það eru launafólk í landinu og minni fyrirtæki. Flest stærstu fyrirtæki landsins sem stunda útflutning eru fyrir löngu búin að yfirgefa krónuna, gera upp í öðrum gjaldmiðlum og fjármagna sig að stórum hluta í öðrum löndum þar sem vaxtastigið er ekki galið.
Kaupmáttaraukning almennings sem féll til á síðustu árum, aðallega vegna uppgangs í ferðaþjónustu og þrátt fyrir stjórnvöld ekki vegna þeirra, er byrjuð að étast upp (kaupmáttur reglulegs tímakaups er nú svipaður og í byrjun árs 2021) og hratt gengur hjá mörgum á sparnaðurinn sem safnaðist upp í aðgerðarleysi kórónuveirunnar. Eftir standa fjölmörg heimili með stóraukna greiðslubyrði húsnæðislána, miklu hærri dagleg útgjöld vegna þess að verðlag á nauðsynjavöru hefur rokið upp og veikingu krónunnar sem hefur rýrt virði þeirra peninga sem launafólk þénar í alþjóðlegum samanburði.
Þetta er staða sem bitnar skarpt á viðkvæmustu hópum samfélagsins, þeim sem hafa lægstu tekjurnar, en er líka farin að bíta millistéttina fast. Viðbrögð seðlabankastjóra við áhyggjum þessa hóps hafa verið þau að ungt fólk verði bara að búa lengur heima hjá foreldrum sínum en þau ætluðu, að venjulegt launafólk verði að hætta að eyða peningum og að sökin á ástandinu liggi hjá þeim sem fara til Tenerife í frí. Hrokinn og skorturinn á jarðtengingu minnir mjög á orðræðuna fyrir hrun þegar almenningi var kennt um ástandið, sem bankamennirnir og lukkuriddararnir á sporbaugnum í kringum þá sköpuðu, vegna þess að hann hafði fjárfest í flatskjám.
Ríkið sem gerði ríka miklu ríkari
Það ástand sem ríkir er afleiðing af pólitískum aðgerðum. Þeirri leið sem farin var til að mæta efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins með því að dæla fjármunum inn á eignamarkaði með þeim afleiðingum að íbúðaverð hækkaði um 50 prósent frá byrjun árs 2020, með tilheyrandi stórkallalegum áhrifum á verðbólgu. Þótt launafólk hafi ekkert grætt á þessu nema eignir á pappír og miklu hærri afborganir fyrir þak yfir höfuðið hafa fjármagnseigendur, sem eiga fjölda fasteigna og hlutabréf, makað krókinn.
Fjármagnstekjur jukust um 65 milljarða króna milli 2020 og 2021 og voru 181 milljarður króna. Alls fór 81 prósent þeirra tekna til ríkustu tíu prósent landsmanna. Miðað við hvernig málum hefur verið háttað á síðustu árum má ætla að ríkasta eitt prósentið hafi tekið til sín helming fjármagnstekna, um 90 milljarða króna. Úr því fæst þó ekki skorið fyrr en fjármála- og efnahagsráðherra svarar útistandandi fyrirspurn um málið sem hann hefur dregið í rúma tvo mánuði að svara.
Ráðstöfunartekjur þeirrar tíundar landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar, og hafa helst tekjur af fjármagni, jukust um tólf prósent á föstu verðlagi á einu ári. Restin af landsmönnum, 90 prósent, juku sínar ráðstöfunartekjur á raunvirði um fjögur prósent. Því jukust ráðstöfunartekjur, laun að frádregnum sköttum og öðrum lögbundnum gjöldum, efstu tíu prósentanna þrefalt á við aðra þegar þær eru reiknaðar á föstu verðlagi. Þessi kjaragliðnun milli launafólks og fjármagnseigenda hefur raunar verið að eiga sér stað frá 2011, þótt hún hafi verið ýktust á síðasta ári.
Með því að hækka fjármagnstekjuskatt um þrjú prósentustig væri hægt að auka tekjur vegna hans um rúma fimm milljarða króna. Ríkustu tíu prósent landsmanna myndu greiða 87 prósent þeirrar hækkunar.
Það er bullandi góðæri … hjá fjármagnseigendum
Það er hægt að tína fleira til. Methagnaður var í sjávarútvegi í fyrra, þegar geirinn hagnaðist um 65 milljörðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagnaðurinn um 124 prósent milli ára. Á sama tíma greiddu sjávarútvegsfyrirtækin 22,3 milljarða króna í öll opinber gjöld. Veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjöld. Það þýðir að rúmlega fjórðungur af hagnaði fyrir greiðslu opinberra gjalda fór til hins opinbera en tæplega 75 prósent varð eftir hjá útgerðarfyrirtækjum.
Bankaskattur var lækkaður í faraldrinum til að auka svigrúm banka til útlána og lækka vaxtamun. Á næsta ári er áætlað að skatturinn skili 5,9 milljörðum króna í ríkiskassann en ef hann hefði haldist óbreyttur myndi hann skila 15,3 milljörðum króna. Á árinu 2023 mun þessi aðgerð því færa bönkunum 9,4 milljarða króna sem hefðu annars farið í ríkissjóð, og samneysluna. Þetta svigrúm, og annan hagnað, hafa stóru einkabankarnir tveir, Arion banki og Íslandsbanki, notað til að greiða út til hluthafa. Arion banki hefur greitt út 60 milljarða króna til hluthafa sinna á tveimur árum. Bankinn hefur þegar boðað áform um að greiða enn meira út til þeirra í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að útgreiðslurnar nálgist 90 milljarða króna. Íslandsbanki greiddi hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð vegna síðasta árs. Auk þess kom fram fyrr á þessu ári að stjórn bankans stefni að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé fyrir lok næsta árs. Þegar hefur verið samþykkt endurkaupa áætlun fyrir 15 milljarða króna í ár.
Í umfjöllun Innherja um nýlegt verðmat á Eimskip sagði að árið 2021, þegar fyrirtækið skilaði methagnaði, hefði verið „algjer sprengja“ í rekstri fyrirtækisins og að árið í ár yrði enn betra.
Útgreiðslur skráðra félaga í Kauphöll í formi arðgreiðslna og endurkaupa á bréfum í fyrra voru yfir 80 milljarðar króna. Í ár liggur nokkuð ljóst fyrir að þær verði yfir 200 milljarðar króna, án þess að þeir tæplega 55 milljarðar króna sem Síminn og Origo ákváðu að greiða hluthöfum sínum út eftir að hafa selt annars vegar Mílu og hins vegar stóran hlut í Tempo til erlendra fjárfesta sé teknir með.
Samandregið er því góðæri hjá fjármálaöflunum. Og við skulum muna að nær öll stærri fyrirtæki á Íslandi sem eru ekki fyrst og síðast í útflutningi starfa annað hvort á einokunar- eða fákeppnismarkaði, varin fyrir erlendri samkeppni með íslenskri krónu og samvinnuþýðum íslenskum stjórnmálaöflum.
Innlán fyrirtækja vaxið um 83 prósent frá 2020
Í nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar segir að viðspyrnan hérlendis hafi verið mun kröftugri en í helstu viðskiptalöndunum. Gangi spár áranna 2022 og 2023 eftir verður samanlagður hagvöxtur hér rúmlega 8,6 prósent samanborið við 3,7 prósent að meðaltali innan OECD landanna og 2-4 prósent á öðrum Norðurlöndum. Þetta er langt umfram fyrri spár og bendir til þess að kakan sé að stækka. Það sé nóg til. Bara ekki til að borga í samneyslu né til að hækka laun til að mæta afleiðingum verðbólgunnar og vaxtahækkana.
Eitt sýnilegt dæmi um þetta eru innlán atvinnufyrirtækja. Peningarnir sem þau eiga á bankabók. Í lok febrúar 2020, þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, áttu atvinnufyrirtæki landsins 408 milljarða króna inni á bók. Um síðustu áramót, eftir tveggja ára heimsfaraldur þar sem íslenska ríkið var rekið í 275 milljarða króna halla, höfðu innlánin vaxið upp í 596 milljarða króna, eða um 188 milljarða króna. Það sem af er árinu 2022 hafa þau vaxtið um 151 milljarð króna upp í 747 milljarða króna.
Það þýðir að frá því í febrúar 2020 hafa innlán íslenskra atvinnufyrirtækja vaxið um 339 milljarða króna, eða 83 prósent. Á sama tíma hafa innlán heimila, sem gátu litlu eytt í heimsfaraldrinum og sæta núna skömmum seðlabankastjóra fyrir að fara offari í eyðslu, aukist um 17 prósent. Til heimila teljast líka margir fjármagnseigendur, sem tók til sín stærstan hluta fjármagnstekna í faraldrinum.
Meltið þessar tölur aðeins.
Verja kerfi sem gagnast bara sumum
Eftir að kórónuveiruástandið rann af þjóðinni hafa orðið marktækar breytingar á stjórnmálalegri afstöðu hennar. Búið er að stinga stjórnmálunum aftur í samband. Og ósanngirni þess efnahagslega ástands sem lýst er hér að ofan hefur orðið skýrari í hugum sífellt fleiri. Sama fólk finnur líka tilfinnanlega hvernig velferðarþjónustan hefur verið kerfisbundið veikt sem leiðir til að mynda til meiri kostnaðarþátttöku á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu, lengri biðlista og þess að það tekur margar vikur að fá tíma hjá heimilislækni. Nú á að leysa þessi vandamál með því að auka einkarekstur, og þar með ná pólitísku markmiði þeirra sem stóðu fyrir þrengingunum. Tvöfalt heilbrigðiskerfi er að festa sig í sessi. Slíkt var ekki á loforðalista að minnsta kosti hluta þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn eftir síðustu kosningar. Það hefur aldrei verið kosið um þetta. Raunar skrifuðu 85 þúsund manns undir undirskriftasöfnun, þá stærstu í Íslandssögunni, fyrir nokkrum árum sem snerist um að hækka framlög til heilbrigðiskerfisins í ellefu prósent af landsframleiðslu. Afstaða þjóðarinnar er því nokkuð skýr.
Þeir sem styðja ofangreint ástand eru fyrst og síðast kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur enda staðið í stað í fylgi það sem af er ári þrátt fyrir að yfir 60 prósent landsmanna vantreysti formanni hans. Hinir stjórnarflokkarnir tveir segjast standa fyrir meiri jöfnuð, réttlátara þjóðfélag sem byggir á samvinnu og samfélagsvitund, og tala þannig á tyllidögum. Þær áherslur birtast hins vegar ekki í verkum ríkisstjórnarinnar sem þeir sitja í undir Sjálfstæðisflokknum. Þar ríkir fyrst og síðast einstaklingshyggju Thatcherismi með íslensku blandi.
Þriðjungur þjóðarinnar styður Samfylkingu og Pírata
Samkvæmt Gallup hafa stjórnarflokkarnir samtals tapað 10,5 prósentustigum af fylgi á fyrsta ári kjörtímabilsins. Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn hafa tapað 97 prósent þess fylgis. Það sér vart högg á vatni á fylgi Sjálfstæðisflokks, sem er við kjörfylgi. Ríkisstjórnin væri kolfallin ef kosið yrði í dag, einungis einu ári eftir að hún var kosin til valda að nýju. Hún næði bara 29 þingmönnum inn.
Á sama tíma hefur fylgi Samfylkingarinnar rúmlega tvöfaldast og hefur ekki mælst meira í áratug. Hinn flokkurinn sem bætt hefur miklu við sig eru Píratar, en fylgi þeirra hefur aukist um 42 prósent. Samanlagt hafa þessir tveir flokkar, sem leggja áherslu á jafnaðarmennsku og réttlátara samfélag, aukið fylgi sitt um 14,8 prósentustig á einu ári. Þeir njóta nú stuðnings þriðjungs þjóðarinnar.
Ekki verður framhjá því litið að kjör Kristrúnar Frostadóttur sem formanns Samfylkingarinnar, og þær áherslubreytingar sem hún hefur innleitt hratt, hafa skipt þar lykilmáli. Hún hefur trúverðugleika þegar hún talar um efnahags- og velferðarmál sem hefur ekki verið til staðar hjá forystu íslenskra jafnaðarmanna um langt skeið og getur sett stefnu sína fram á máli sem venjulegt fólk skilur. Hún hefur líka verið skýr um að fara aftur í kjarnann í jafnaðarmennskunni í stað þess að láta stjórnmál Samfylkingarinnar snúast um rifrildi á samfélagsmiðlum á forsendum upphrópunar hvers dags. Í viðtali við Kjarnann í september sagði Kristrún að skilaboð Samfylkingarinnar inn í næstu ríkisstjórn væru að umbótamál verði fjármögnuð. „Mér finnst allt í lagi að það sé verkaskipting á milli flokka. Raunveruleikinn er sá að ef við förum í ríkisstjórn þá erum við fara í fjölflokka ríkisstjórnarsamstarf. Ég vil að okkar hluti í verkaskiptingunni snúist um trúverðugleika þegar kemur að efnahagsmálapólitík þegar kemur að því að hrinda velferðaráherslum í framkvæmd. Og mér finnst allt í lagi að dreifa áherslum með öðrum flokkum.“
Þessi skilaboð eru augljóslega að höfða til sífellt fleiri kjósenda.
Hvernig samfélag viljum við?
Íslenskt samfélag hefur breyst gríðarlega mikið á skömmum tíma. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem hingað hafa flutt er kominn í næstum 64 þúsund. Þeir voru um 20 þúsund árið 2011. Kynslóðir Íslendinga hafa alist upp sem eru með allt aðra sýn á lífið og væntingar til þess. Allar kannanir sýna mikinn meirihluta fyrir réttlátara þjóðfélagi. Minni einstaklingshyggju og meiri samfélagsvitund. Minna fúsk og leyndarhyggju, meiri fagmennsku og gagnsæi. Að efnahagslegu kökunni sem er bökuð hér verði skipt með sanngjarnari hætti. Að fjárfesting í innviðum og velferð verði settir framar í röðina en áhersla á að fjölga krónunum á bankareikningum efsta lags samfélagsins.
Það eru flestir sem eru ekki beinir þiggjendur fyrir löngu búnir að sjá í gegnum blekkinguna um jöfn tækifæri á grundvelli verðleika, enda koma tækifærin á Íslandi að stóru leyti til vegna aðgengis tengdu fjölskyldu eða stjórnmálaskoðunum. Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, gerði þessari mýtu ágætlega skil í nýlegri grein.
Birtingarmyndir þessa eru margar. Ein er hrun á trausti í garð forystumanna ríkisstjórnarinnar. Önnur er að 63 prósent þjóðarinnar, þar á meðal meirihluti kjósenda tveggja stjórnarflokka, treysta ríkisstjórninni ekki lengur til að selja hluti í ríkisbönkum og svipað hlutfall vill skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir síðasta söluferli. Þriðja er að eftir rúman áratug af andstöðu við aðild að Evrópusambandinu, sem er í takti við stefnu ríkisstjórnarflokkanna þriggja, hefur nú mælst afgerandi meiri stuðningur við hana en andstaða í þremur könnunum í röð. Þá er ónefnd könnun sem sýndi að flestir treysta leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokksins afgerandi betur en öðrum stjórnmálaleiðtogum, þar með talið sitjandi forsætisráðherra.
Það eru breytingar í loftinu. Það hafa þær oft verið áður en hræðslupólitík í aðdraganda kosninga, og hækjublæti ýmissa gagnvart íhaldinu, hafa gert það að verkum að lognið hefur ríkt áfram að kosningum loknum.
Vonandi fer sá tími að renna sitt skeið.