Eitt síðasta verk Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í stjórnmálum var að skila af sér skýrslu um umsvif 20 stærstu útgerða landsins í ótengdum rekstri. Átta mánuðir eru síðan að skýrslubeiðnin var samþykkt og um fimm mánuðir síðan að hefðbundinn frestur til að skila henni rann út.
Tilgangur beiðninnar var kortleggja það hvernig eigendur 20 útgerða sem halda á stærstum hluta aflaheimilda, sem markaðurinn metur á um 1.200 milljarða króna, hafa nýtt þann mikla auð sem eigendunum hefur áskotnast vegna kvótakerfisins til að teygja sig út í aðra og ótengda geira.
Fyrir liggur vitneskja um að það hafi þeir gert. Ráðandi aðilar í sjávarútvegi og þeir sem hafa selt sig út úr þeim geira fyrir fúlgur fjár hafa fjárfest í fjármálafyrirtækjum, tryggingafélögum, fasteignaverkefnum, innflutningsfyrirtækjum, flutningafyrirtækjum, fjölmiðlum, smásölufyrirtækjum, fyrirtækjum í orkutengdum rekstri og flest öllu öðru undir þeirri sól atvinnulífsins sem skín á Ísland.
Þrátt fyrir að almenn vitneskja sé um þetta allt þá ákvað ráðherrann að setja skýrslubeiðnina í þann farveg að hún myndi örugglega ekki svara því með nokkrum hætti því sem hún átti að svara.
Tiltekið að ekkert sé að marka niðurstöðuna
Þess í stað var Skatturinn fenginn til að setja upp yfirlit yfir bókfært virði þeirra eigna sem útgerðarfélögin, eigendur og tengdir aðilar áttu í öðrum félögum en útgerðum.
Þær upplýsingar sem Skatturinn tók saman á bókfærðu virði eigna byggja á upprunalegu kostnaðarverði sem greitt var fyrir þær eignir. Það þýðir á mannamáli að verðið sem er uppgefið er það sem greitt var fyrir eignina upphaflega, ekki markaðsvirði hennar. Ef félag í eigu útgerðarmanns keypti til að mynda hlutabréf í skráðu félagi eftir hrunið fyrir 500 milljónir króna, og þau bréf hafa hækkað tífalt í virði, sem þýðir að upplausnarverð þeirra er fimm milljarðar króna, þá er bókfærða virðið samt sem áður enn 500 milljónir króna. Eða 4,5 milljörðum króna undir því verði sem útgerðarmaðurinn gæti selt eignina á.
Skýrsluhöfundar vissu auðvitað að tölurnar sem settar voru fram væru þvæla. Á einum stað segja þeir enda beint út að það verði að hafa „fyrirvara um ályktanir sem kunna að verða dregnar af þeim tölulegu gögnum, um bókfært virði fjárfestingar, sem skýrslan byggir á.“
Með öðrum orðum: Það er ekkert að marka niðurstöður þessarar skýrslu.
Röng túlkun
Skýrsla Kristjáns Þórs lætur þó ekki þar við sitja. Því er haldið fram í henni að það standist ekki persónuverndarlög að birta upplýsingar um raunverulega eigendur félaga. Þess vegna er þar ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og fylgitungl þeirra hafa keypt í óskyldum geirum.
Þess má geta að hægt er að fletta upp öllum raunverulegum eigendum félaga á heimasíðu Skattsins. Það hefði því átt vera skýrsluhöfundum ljóst, sem vinna hjá því embætti, að það gæti ekki verið ólöglegt að taka saman upplýsingar sem eru þegar opinberar á heimasíðu þess.
Skýrslum sem stungið var undir stól
Það kom fáum á óvart að skýrslan yrði með þeim hætti sem hún reyndist vera. Á meðal þeirra þingmanna sem stóðu að skýrslubeiðninni, sem komu úr fimm flokkum á þingi, áttu flestir von því að skýrslan yrði annað hvort ónothæft plagg eða að birting hennar yrði dregin fram yfir komandi kosningar. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður málsins, sagði til að mynda í samtali við Kjarnann að skýrslan væri hlægileg. „Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“
Af hverju er sú staða uppi að þingmenn treysta ekki ráðherrum til að vinna skýrslur að heilindum, eða birta þær í aðdraganda kosninga? Jú, meðal annars vegna þess að fyrir kosningarnar 2016 voru tvær skýrslur sem áttu mikið erindi við almenning tilbúnar til birtingar fyrir kosningarnar sem fóru fram það árið, en ráðherrann sem bar ábyrgð á þeim ákvað að stinga þeim undir stól í nokkra mánuði og birta ekki fyrr en vísir var kominn að nýrri ríkisstjórn sem hann leiddi. Önnur var skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti. Skýrslan var unnin sem viðbragð við opinberun Panamaskjalanna svokölluðu, sem voru orsök kosninganna 2016. Hún var birt í janúar 2017 þrátt fyrir að hafa verið tilbúin í byrjun október 2016.
Hin skýrslan sem um ræðir var skýrsla um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar. Hún var birt 18. janúar 2017, en síðar kom í ljós að drög hennar höfðu verið tilbúin í heilt ár, lokadrög hefðu legið fyrir í júní 2016 og vinnslu að öllu leyti lokið í byrjun október 2016.
Villt um fyrir Alþingi
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur stóð að ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hún sagðist sömuleiðis ætla að leggja áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi.
Þessi loforð virka hjákátleg þegar skýrslan sem birt var í vikunni er lesin. Með vinnslu og framsetningu hennar er augljóslega verið að villa um fyrir Alþingi og almenningi. Það dettur varla nokkrum í hug að það auki traust á stjórnmál og stjórnsýslu að þingmenn geti ekki óskað eftir skýrum upplýsingum um hvað er í gangi í landinu. Að ráðherra standi í vegi fyrir því að þær upplýsingar séu teknar saman.
Hvað er svo í gangi í landinu? Það sem er í gangi er að frá 1997 hafa þeir sem fá að halda á kvóta í eigu þjóðar haft heimild til að veðsetja hann. Það gerði að verkum að til varð meiri auður en nokkru sinni áður á Íslandi, og ofurstétt sem sópaði honum til sín.
Það sem er í gangi er að frá hruni og út árið 2018 batnaði eiginfjárstaða útgerða landsins, samkvæmt Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte, um 376 milljarða króna. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um að minnsta kosti 479,2 milljarða króna frá 2009. Til samanburðar greiddu útgerðirnar um 70 milljarða króna í veiðigjöld á þessu tímabili. Í fyrra greiddi þau 4,9 milljarða króna í þau, sem er minna en greitt var í tóbaksgjald á því ári.
Þessa fjármuni hafa margir eigenda útgerða notað til að auka ítök sín í óskyldum greinum, og samhliða aukið völd sín um framgang og þróun íslensks samfélags.
Sjálfskaparvítið
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í nýlegri blaðagrein að meginvandi þess flokks í dag sé víðtækur trúverðugleikabrestur. „Og vandinn er djúpstæðari en svo að það verði tekist á við hann með því að yppta öxlum, tala um breytta tíma og búa til nokkur 30 sekúndna myndbönd fyrir kosningar.“
Tveir augljósustu hlutarnir af þessari grunsemdaþoku væru „auðvitað annars vegar þær stöðugu ásakanir sem formaður flokksins má þola vegna eigin umsvifa og fjölskyldu hans í viðskiptalífinu – afskrifta og aflandsreikninga – og svo fullyrðingar um skaðlega hagsmunaárekstra vegna náinna tengsla sjávarútvegsráðherra við Samherja.“ Það hafi verið „hreint sjálfskaparvíti forystu flokksins“ að hafa ekki valið Kristjáni Þór, sem er persónulegur vinur forstjóra Samherja og var stjórnarformaður samstæðunnar í kringum síðustu aldarmót, annað ráðuneyti en það sem fer með sjávarútvegsmál. „Þessi ráðstöfun hefur skaðað Sjálfstæðisflokkinn og ráðherrann sjálfan – og skemmt fyrir þeirri viðleitni að skapa meiri sátt um sjávarútveginn,“ skrifaði Páll og hitti naglann lóðbeint á höfuðið.
Eftir að Samherjamálið kom upp átti að endurskoða skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi. Sú endurskoðun var sett í gang til sýnis og á endanum varð hún engin, að kröfu lobbýista stærstu útgerðarfyrirtækjanna.
Þá átti að láta Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinna úttekt á „viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum.“ Síðast þegar fréttist af því máli var enn verið að reyna að ganga frá samningum um gerð úttektarinnar, sem augljóslega hefur því ekki verið gerð.
Loks átti að kortleggja umsvif eigenda 20 stærstu útgerðanna í ótengdum geirum. Það var gert með útgáfu skýrslu sem varpar hvorki ljósi á ítök né krosseignartengsl.
Af hverju eru kerfin í andstöðu við vilja þjóðar?
Hver er skoðun þjóðarinnar á þessu kerfi sem ráðherranum er svo umhugað að vernda fyrir nokkrum breytingum og auknu gagnsæi? Nýleg könnun sýnir að 77 prósent hennar er hlynnt því að útgerðir landsins greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Sú leið nýtur mikils meirihlutastuðnings hjá öllum hópum samfélagsins, óháð því hvaða stjórnmálaflokka þeir kjósa, hverjar tekjur þeirra eru, aldur, menntun eða búseta. Einungis 7,1 prósent landsmanna er andvígur því að útgerðirnar greiði markaðsgjald fyrir kvóta.
Í könnun sem gerð var seint á síðasta ári kom fram að næstum níu af hverjum tíu landsmönnum vilji að náttúruauðlindir, þar með talið fiskimiðin, séu skilgreindar í þjóðareign í stjórnarskrá. Tveir af hverjum þremur íbúum landsins telja að kvótakerfið ógni lýðræðinu. Og kjósendur allra flokka nema eins vilja hækka skatta á ríkasta eitt prósentið í landinu, sem ofurstétt útgerðarmanna sannarlega tilheyrir.
Á móti þessum breytingum stendur hluti eins flokks, Sjálfstæðisflokks. Í sumum tilfellum er hann meira að segja í andstöðu við vilja eigin kjósenda. En þessi hluti flokks sem hefur fengið um fjórðung atkvæða að jafnaði í kosningum undanfarin rúma áratug hefur með einhverjum hætti náð að stöðva allar tilraunir til að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu og þeim einstaklingum sem hafa hagnast ævintýralega á því.
Síðasta verk Kristjáns Þórs Júlíussonar í sjávarútvegsráðuneytinu, að skila ónothæfri skýrslu um umsvif útgerðaraðalsins í íslensku atvinnulífi, er enn einn vitnisburðurinn um þá stefnu.