Það er samvinnuverkefni Seðlabanka, ríkisstjórnar og vinnumarkaðar að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Það þýðir að þessar þrjár einingar þurfa allar að leggja sitt að mörkum til að viðhalda kaupmætti, stuðla að nægri atvinnu og halda niðri verðbólgu. Seðlabankinn gerir það með þeim tólum sem hann hefur, sérstaklega stýrivöxtum sem ákvarða hversu dýrt lánsfé er á hverjum tíma. Vaxtalækkanir eða -hækkanir hans hafa síðan áhrif á til dæmis tekju- og eignaskiptingu og þar á ríkið að grípa inn í til að skakka leikinn, ef tilefni er til. Það getur gert slíkt með því að skattleggja þá sem urðu heppnir og högnuðust vegna aðgerða Seðlabankans og með því að nýta millifærslukerfi til að koma fjármunum til hópa sem urðu verst úti vegna sömu aðgerða. Eða stórra sértækra aðgerða vegna sýnilegs markaðsbrests.
Hlutverk vinnumarkaðarins er að semja þannig að það sé til innistæða fyrir launahækkunum. Hærri laun leiða af sér verðbólgu enda eykst kostnaður fyrirtækja við launahækkanir starfsfólk og þeim kostnaði er velt út í verðlagið. Þess vegna klifa lobbýistar samtaka atvinnulífsins, sumir stjórnmálamenn og helstu stjórnendur Seðlabankans á því að það megi ekki hækka laun meginþorra vinnumarkaðarins, að minnsta kosti ekki mikið, í komandi kjarasamningum. Það sé engin innistæða fyrir slíkum hækkunum, að það yrði ábyrgðarlaust að semja um þær og að hærri laun myndu leiða af sér efnahagslegar hamfarir.
Þeir sem græða ekki eiga að axla ábyrgð á stöðugleika
Þetta er að einhverju leyti rétt. Miklar launahækkanir munu valda verðbólgu. En vandamál sérstaklega láglaunahópa er að stöðu þeirra, sem felur meðal annars í sér gríðarlegt húsnæðisóöryggi og litlar eftirstandandi ráðstöfunartekjur þegar búið er að greiða fyrir húsnæði, er ekki mætt með aðgerðum ríkisstjórnar eða Seðlabanka. Þessir hópar græddu ekki á hækkunum á hlutabréfum sem að stóru leyti eru tilkomnar vegna aðgerða Seðlabanka og stjórnvalda vegna heimsfaraldurs. Þeir eiga flestir ekki hlutabréf. Þeir græddu heldur ekki á ástandinu á húsnæðismarkaði sem hækkaði bókfært virði íbúða um tugi prósenta. Þeir eiga flestir ekkert íbúðir.
Þess vegna er eina leið þessara hópa til aukinna lífsgæða að sækja fleiri krónur í veskið, jafnvel þótt það leiði til þess að þær tapi einhverju af verðgildi sínu. Stöðugleikinn sem hóparnir eru beðnir um að axla er að uppistöðu stöðugleiki sem gagnast öðrum en þeim sjálfum til lífskjarasóknar.
Sum laun mega hækka
Svo er það þetta með fordæmið. Til að forðast höfrungahlaupið illræmda, sem felur í sér að ef einhver hópur fær launahækkun þá muni næsti hópur fylgja eftir og krefjast þess sama, þurfa allir hópar að taka þátt. Ef markmiðið er kaupmáttaraukning, ekki fleiri krónur í launaumslagið, þá má engin falla í freistni og stíga út úr.
Það er nefnilega erfitt að segja við fólk sem á í erfiðleikum að ná endum saman í líkamlega erfiðum láglaunastörfum að það megi ekki sækja sér launahækkun svo hægt sé að verja stöðugleikann, þegar efstu lögin í samfélaginu hika ekki við að mylja undir sig.
Eðlilega litaði þetta kröfur annarra hópa þegar kom að kjarasamningagerðinni.
Til að taka á þessu var kjararáð lagt niður og þess í stað ákveðið að hækka laun í æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa í takti við þróun launavísitölu. Í síðustu kjarasamningum á vinnumarkaði var að mestu samið um krónutöluhækkanir en það gekk ekki yfir ráðamenn og önnur opinber fyrirmenni. Laun þeirra hækkuðu um 6,3 prósent í byrjun árs 2020 og aftur um 6,2 prósent um mitt ár í fyrra. Ef skoðuð er launaþróun ráðherra frá sumrinu 2016 þá hafa laun þeirra hækkað um 874.363 krónur á tímabilinu, eða um 70 prósent. Þeir eru nú með 2.131.788 krónur á mánuði í laun. Forsætisráðherra er með um 150 þúsund krónur í viðbót ofan á það.
Laun þingmanna hafa hækkað um 432 þúsund krónur umfram þær krónur sem meðaltal heildartekna landsmanna hefur hækkað á tímabilinu og um 443 þúsund krónur umfram miðgildi heildartekna.
Mörg fyrirtæki græddu á kreppunni
Þegar kórónuveirukreppan skall á gerðu Samtök atvinnulífsins (SA) kröfu um að launafólk í landinu myndi taka hluta þess kostnaðar sem féll til vegna kreppunnar á sig. Annars vegar með því að draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda inn í lífeyrissjóði, og þar með draga úr inngreiðslum launafólks í slíka. Hins vegar með því að fresta umsömdum launahækkunum tímabundið.
Í september 2020 var meira að segja boðað til atkvæðagreiðslu hjá félögum í samtökunum þar sem kjósa átti um hvort segja ætti upp kjarasamningum fyrst þessum kröfum væri ekki mætt. Þegar ljóst var að verkalýðshreyfingin ætlaði ekki að bifast, og fyrir lá að enginn raunverulegur vilji var til að bæta stríði á vinnumarkaði ofan á himinhátt atvinnuleysi, heimsfaraldur og miklar efnahagslegar áskoranir, skar ríkisstjórnin SA niður úr snörunni með nýjum efnahagspakka. Verkalýðshreyfingin var ekki sátt með útspilið. Í yfirlýsingu frá Eflingu sagði meðal annars að þær aðgerðir sem hönd væru á festandi í yfirlýsingu stjórnvalda styddu eingöngu „atvinnurekendur og efnafólk, láta undan óeðlilegum þrýstingi þeirra og hlunnfara vinnandi fólk.“
En kjarasamningar héldu og umsamdar launahækkanir skiluðu sér til launafólks. Samhliða hefur komið í ljós að áhrif faraldursins á flest fyrirtæki sem eru ekki beint eða óbeint í ferðaþjónustu eða hafa orðið fyrir áhrifum vegna skertra opnunartíma, hafa fremur verið jákvæð en neikvæð. Þannig hafa nokkur stærstu fyrirtækin innan SA – sérstaklega bankar og sjávarútvegsfyrirtæki – malað gull á faraldurstímum. Það sést til að mynda á rúmlega 90 milljarða króna hagnaði fjögurra banka í fyrra, á því að hagnaður stærsta skráða útgerðarfélags landsins jókst um 156 prósent milli ára og að afkoma hins skráða útgerðarfélagsins verður langt umfram gerðar áætlanir.
Það þarf að halda í yfirburðarfólkið
Samt er það launafólk, aðallega það sem er á lægstu laununum, sem á að bera uppi verðstöðugleikann. Nýlega lét Félag atvinnurekenda til að mynda gera könnun þar sem félagsmenn voru spurðir hvaða svigrúm þeir töldu til launahækkana í kjarasamningum síðar á árinu. Rúmlega helmingur þeirra félagsmanna sem svöruðu könnuninni töldu svigrúmið ekkert og þriðjungur taldi það lítið. Heilt yfir töldu fyrirtækið að meðaltali að svigrúm væri til að hækka launakostnað um 1,4 prósent. Fyrir þann sem er með 350 þúsund krónur í laun á mánuði myndi það þýða 4.900 króna launahækkun á mánuði, fyrir skatt.
Á grunni þessarar orðræðu voru laun forstjóra Icelandair Group, félags sem hefur tapað næstum 80 milljörðum króna á fjórum árum, þynnti hluthafa sína niður um meira en 80 prósent í tveimur hlutafjáraukningum á nokkrum mánuðum, sem fékk meiri fyrirgreiðslu úr ríkissjóði en nokkurt annað fyrirtæki á landinu vegna faraldursins, hækkuð um næstum 50 prósent milli ára upp tæpar sjö milljónir króna á mánuði að lífeyrisgreiðslum meðtöldum. Fyrir aðalfund Icelandair Group liggur svo tillaga um að koma á fót milljarða króna bónuskerfi fyrir lykilstjórnendur.
Innan bankakerfisins jukust greiðslur til allar bankastjóra kerfislega mikilvægu bankanna þriggja milli ára og þar er bónuskerfavæðingin og kaupréttarstefnan komin á fullt á ný. Arion banki uppfærði starfskjarastefnu sína, sem er atvinnulífsfrasi yfir það að borga stjórnendum meira, svo bankanum væri kleift að „laða að og halda í hæfa leiðtoga“.
Meira að segja nú hættur forstjóri Skeljungs hækkaði um tæp 50 prósent í launum upp í sjö milljónir króna á mánuði. Nær allur hagnaður félagsins í fyrra var vegna eignasölu og það hefur fyrst og síðast á stefnuskránni að selja fleiri eignir til að skapa svigrúm fyrir fjárfestingaleiki ráðandi eiganda þess. Til að undirstrika þennan tilgang á að breyta nafninu á félaginu í Skel á komandi aðalfundi.
En venjulegt launafólk á að sýna hófsemi í kröfum.
Stöðugleiki þeirra sem eiga
Aðgerðir Seðlabanka Íslands og stjórnvalda til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum skiluðu ákveðnum árangri. Það tókst að verja kaupmátt og atvinnusköpun. Hliðaráhrif voru þau að aðgerðirnar færðu tugi milljarða króna úr ríkissjóði til atvinnulífsins, í einhverjum tilfellum til að verja hlutafé eigenda fyrirtækja frá því að rýrna. Hliðaráhrif urðu gríðarlegar hækkanir á hlutabréfum og fasteignum, sem skiluðu ofsagróða í vasa þeirra sem fjárfesta í slíkum eignum í stórum stíl. Það er sannarlega ekki öll þjóðin. Í lok árs 2020 voru til að mynda 85 prósent allra verðbréfa í eigu einstaklinga í eigu þeirra tíundar sem var með hæstu tekjurnar.
Neikvæðustu hliðaráhrifin voru stóraukin verðbólga, sem nú stendur í 6,2 prósentum og hefur ekki mælst hærri í næstum tíu ár. Allt kostar fyrir vikið fleiri krónur og eina leiðin sem margt launafólk hefur til að elta þessa þróun, á meðan að stjórnvöld gera ekkert til að bæta stöðu þeirra með nýtingu millifærslukerfa eða stórátaki í húsnæðismálum, er að fjölga krónunum í vasanum með því að sækja launahækkanir.
Þá rísa peninga- og valdaöflin upp á afturlappirnar og segja að það megi ekki. Það má ekki skattleggja ofurhagnað sem er tilkominn vegna heppni. Það má ekki skattleggja arðgreiðslur eða endurkaup á hlutabréfum. Það má alls ekki auka álögur á sjávarútveg eða hækka bankaskatt. Stöðugleikinn snýst ekki um að hrófla við tækifærum ríks fólks til að verða enn ríkara, heldur í að koma fátæku fólki í skilning um að það verði að sýna hófsemi og ábyrgð.
Verðstöðuguleikinn hvílir nefnilega á þeirra herðum.