Kostnaður hins venjulega launamanns við að lifa dag frá degi hefur vaxið mikið undanfarið. Miklar verðlagshækkanir hafa leitt af sér verðbólgu sem er hærri en mælst hefur hérlendis síðan 2010. Fyrir vikið er kaupmáttur launa að dragast verulega saman. Fólk fær minna fyrir krónurnar í vasanum sínum.
Stýrivaxtahækkanir sem ráðist er í til að reyna að hemja verðbólguna hafa leitt til þess að vaxtakostnaður heimila vegna húsnæðislána hefur rokið upp, oft um tugi prósenta á mánuði, sem getur þýtt mörg hundruð þúsund króna viðbótarvaxtakostnað á ári. Þegar horft er á rísandi tölur um þá sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað (sem greiða meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjur sínum í að halda þaki yfir höfuðið) í fyrra og þær settar í samhengi við þær miklu vaxtahækkanir sem orðið hafa í ár þá má ljóst vera að stór hópur er að rata í greiðsluvanda. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að hækka bætur almannatryggingar lítillega, greiða út einskiptis barnabótaauka upp á 20 þúsund krónur til sumra og hækka húsnæðisbætur um tíu prósent. Nauðsynlegt skref, en allt of lítið og allt of seint.
Húsnæðismarkaðurinn er uppseldur á sama tíma og ferðaþjónustan er að taka við sér af fullum krafti, en hún útheimtir nýtingu hluta íbúðarhúsnæðis undir ferðamenn og mun búa til þúsundir nýrra starfa, að stórum hluta fyrir útlendinga, sem þurfa að búa einhversstaðar. Fyrirsjáanlegt er að leiguverð muni hækka skarpt og það má slá því föstu að hlutfall þeirra sem eru fastir á leigumarkaði sem eiga erfitt að standa undir húsnæðiskostnaði (27 prósent leigjenda í fyrra) muni vaxa umtalsvert milli ára.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari stöðu er að búa til leigusamningagagnagrunn. Og valdamesti ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur þegar slegið hugmyndir um leiguþak út af borðinu.
Neyð svarað með þögn
Heilbrigðiskerfið er enn og aftur komið að þolmörkum og í sífellu birtast fréttir af neyðarástandi innan eininga þess. Biðlistar eftir þjónustu sem í mörgum tilfellum er lífsnauðsynleg eru víða í undirfjármögnuðu og undirmönnuðu velferðarkerfi.
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, fjallaði þá stöðu að Landspítalinn sé löngu sprunginn í stöðuuppfærslu á Facebook í vikunni. Þar minnti hann á að á síðasta kjörtímabili hafi heilbrigðisráðherra látið alþjóðlegan hóp sérfræðinga á vegum McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins vinna, í samvinnu við íslenskt fagfólk, greiningu á stöðu spítalans. „Niðurstaða greiningar McKinsey var gríðarlegur áfellisdómur. Á hverjum degi er spítalinn troðfullur, mjög oft vel yfir 100% af rýmum spítalans. Slíkt ætti að vera augljós neyð. Fullur spítali tekur ekki við nýjum sjúklingum, það er augljóst. Fullur spítali er fullur spítali. Venjulegt sjúkrahús ætti að um hafa 85% rúmanýtingu að jafnaði. Skýrslan benti á að auðvitað þurfi að bregðast við. Við verjum ekki fjármunum til að leysa þessa alvarlegu stöðu. Það þarf hjúkrunarrými til að taka við mörgum þeim einstaklingum sem liggja á sjúkrahúsinu. En það þarf líka margfalt meira fjármagn í innviði heimaþjónustu fyrir eldri einstaklinga. Miðað við nágrannalönd þarf sennilega að áttfalda þá tölu. Ég ætla endurtaka, áttfalda þá tölu. Slíkar upplýsingar ættu að hafa kallað á neyðaráætlun, en nei, það er bara þögn.“
Sýnið hófsemd og sveltið
Svo er framundan risastór kjarasamningalota þar sem þorri samninga eru lausir.
Hingað til hafa viðbrögð stjórnvalda við þessu ástandi að mestu verið þau að hvetja stéttarfélög til sýna hófsemd í launakröfum í haust og boða, samkvæmt fjármálastefnu, aðhald í rekstri hins opinbera til að mæta þeirri stöðu að heildarafkoma ríkissjóðs var samtals neikvæð um 443 milljarða króna á árunum 2020 og 2021 samkvæmt birtum ríkisreikningum. Engar tillögur hafa verið lagðar fram um hvað ríkið geti gert fyrir fólk og fyrirtæki í vanda til að stuðla að þjóðarsátt um að ná niður verðbólgunni og ná jafnvægi í ríkisrekstrinum til lengri tíma.
Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar þýðir á mannamáli niðurskurð á almannaþjónustu, ekki skattahækkanir til að fjármagna mótvægisaðgerðir. Það á að draga úr, eða að minnsta kosti halda aftur af, útgjöldum, í stað þess að afla nýrra tekna.
Þessi stefna á ekkert skylt við félagshyggju. Ekki frekar en flestar aðrar aðgerðir innleiddar hafa verið í tíð sitjandi ríkisstjórnar.
Þetta er róttæk efnahagsleg sveltistefna í samræmi við hugmyndafræðilegar áherslur hægrisinnaðra íhaldsmanna sem vilja umsvif ríkisins sem minnst og tækifæri þeirra sem eiga fjármagn til að ávaxta það sem mest.
Tug milljarða skattalækkanir
Þannig er nær öll efnahagsleg pólitík sitjandi ríkisstjórnar. Á síðasta kjörtímabili var ráðist í umtalsverðar skattalækkanir. Tekjustofnar ríkisins til að styðja við þá sem þurfa stuðning og kerfi sem eru löngu komin að þolmörkum voru veiktir svo fólk sem á fjármagn geti haft meira fjármagn til ráðstöfunar.
Endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga, sérstök hækkun persónuafsláttar, lægra tryggingagjald, endurskoðun á stofni fjármagnstekjuskatts, skattafsláttur vegna stuðnings einstaklinga við almannaheillafélög, hækkun frítekjumarks erfðaskatts og svo auðvitað lækkun bankaskatts eru allt dæmi um þetta. Allt eru þetta aðgerðir sem nýttust tekjuhærri eða eignameiri hluta þjóðarinnar mest.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem situr í fjárlaganefnd, reiknaði sig niður á að með ofangreindum skattalækkunum hafi 41,6 milljarðar króna verið teknir úr tekjustofni ríkissjóðs og árlegu svigrúmi til útgjalda.
Í stöðuuppfærslu á Facebook bendir hún á að það sé um helmingur af kostnaði við rekstur Landspítalans á ári. „Ef áætlanir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur ganga eftir verða tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu þær lægstu á öldinni. Það þarf ekki að fjölyrða um áhrif þessarar stefnu á velferðarkerfið miðað við þá stöðu sem upp er komin,“ skrifar Kristrún.
Sumir vinna
Til viðbótar við ofangreint hefur á nokkrum árum verið innleitt kerfi sem felur í sér eðlisbreytingu á stuðningi ríkisins við heimili með húsnæðislán. Áður fyrr fór þorri þess stuðningar til tekjulægri hópa og yngra fólks í gegnum vaxtabótakerfið en frá því að skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar inn á lán var innleidd 2014 hefur þorri stuðningsins færst til tekjuhæstu hópa samfélagsins. Á árinu 2020 fór til að mynda næstum helmingur af skattaafslættinum sem veittur var fyrir slíka nýtingu til ríkustu tíu prósent landsmanna. Alls nemur skattaívilnunin frá því að henni var komið að 32,8 milljörðum króna, þar af hefur 85 prósent heildar upphæðarinnar farið til tekjuhæstu 30 prósent einstaklinga. Greiðslur vaxtabóta, sem stóðu hinum tekjuhæstu og eignamestu ekki til boða, hafa hins vegar dregist saman um 75 prósent frá árinu 2013.
Í gær greindi Kjarninn frá því hvernig útvíkkun úrræðisins „Allir vinna“, sem felur í sér endurgreiðslu á virðisaukaskatti fyrir ákveðna vinnu, aðallega vegna byggingar og viðhalds húsnæðis, skiptist. Af þeim 15 milljörðum króna sem búið er að greiða út á síðustu rúmu tveimur árum fór rúmur þriðjungur til byggingarfyrirtækja og af þeim hluta sem rataði til einstaklinga fór rúmlega helmingurinn, 4,1 milljarður króna til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru með hæstu tekjurnar. Þetta styrktarátak fyrir verktakafyrirtæki og ríkt fólk var framlengt við síðustu fjárlagagerð án þess að nokkur efnahagsleg rök væru fyrir því. Af því bara.
Fjármagnseigendur mokgræða
Höldum áfram. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafa margar hverjar gert umtalsvert samfélagslegt gagn. En þær hafa lika stuðlað að mikilli tilfærslu á fjármunum til fjármagnseigenda. Það er óumdeilanlegt.
Má þar nefna styrki sem vörðu hlutafé fyrirtækjaeigenda, vaxatalaus lán til fyrirtækja til margra ára úr ríkissjóði, stýrivaxtalækkanir, afnám sveiflujöfnunarauka og lækkun á bankaskatti.
Þessar aðgerðir blésu upp hlutabréfabólu sem leiddi til þess að öllu félög í Kauphöllinni hækkuðu í virði í fyrra. Úrvalsvísitalan hækkaði um 33 prósent á því ári og heildarvísitala hlutabréfa hækkaði um 40,2 prósent. Þau félög sem hækkuðu mest tvöfölduðust í virði.
Afleiðingarnar sjást svart á hvítu í tölum um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga sem birtar voru í vikunni. Þar kom fram að fjármagnstekjur einstaklinga hafi verið 181 milljarður króna í fyrra. Þær jukust um 65 milljarða króna í fyrra, eða um 57 prósent. Þessi aukning var fyrst og síðast drifin áfram af söluhagnaði hlutabréfa, sem var 69,5 milljarðar króna. Árið 2020 var hann hann 25,2 milljarðar króna og því jókst hagnaður af einstaklinga sölu hlutabréfa um 44,3 milljarða króna milli ára, eða um 176 prósent.
Fjöldi þeirra fjölskyldna sem innleysti hagnað með sölu hlutabréfa í fyrra var 9.718. Um lítið brot Íslendinga er að ræða.
Það er svo margt hægt með því að taka ákvarðanir
Ísland er að mörgu leyti frábært land sem eftirsóknarvert er að búa í. En það þýðir ekki að hér megi ekki, og þurfi ekki, að laga margt.
Það er hægt að gera ýmislegt. Það er hægt að fullfjármagna heilbrigðiskerfið með því að forgangsraða öðruvísi. Velja að setja meiri fjármuni í það í stað þess að veikja tekjustofna ríkissjóðs með skattalækkunum fyrir millitekju-, hátekjufólk og fjármagnseigendur.
Það er líka hægt að skattleggja hagnað fyrirtækja, og eftir atvikum einstaklinga, sem varð að uppistöðu ekki til vegna hugvits, metnaðar eða útsjónarsemi, heldur vegna heppni eða afleiðinga af aðgerðum stjórnvalda. Þetta kallast hvalrekaskattur og í Bretlandi eru hægrisinnaðir íhaldsmenn að leggja slíkan á um þessar mundir, ekki í fyrsta sinn. Á Íslandi geta yfirlýstir vinstrimenn í ríkisstjórn hins vegar ekki stutt hann opinberlega þrátt fyrir að ráðherra í öðrum skilgreindum félagshyggjuflokki í ríkisstjórn hafi lagt hann til.
Það er hægt að ráðast í stórtækar breytingar á sjávarútvegskerfinu sem skila því að stærri hluti af þeim ágóða sem verður til vegna veiða og vinnslu lendi hjá eigendum auðlindarinnar, íslensku þjóðinni. Heildarhagnaður geirans á árinu 2020, fyrir skatta og gjöld, var 665 milljarðar króna. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda, en rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna. Allt bendir til þess að hagnaður geirans hafi verið enn meiri í fyrra, og verði enn meiri í ár.
Orðasalat fyrir íslenska olígarka
Hingað til hefur ekkert bent til þess að ríkisstjórnin ætli að ráðast í ofangreindar aðgerðir, hvorki þær sem skila langtíma samfélagslegum árangri né þeirra sem skila umtalsverðum nýjum skatttekjum í ríkissjóð. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur slegið slíkar tillögur út af borðinu. Hingað til hefur það sem Bjarni segir gilt, þrátt fyrir að hann leiði stjórnmálaflokk með undir fjórðungsfylgi sem á sér tvo til þrjá skoðanabræður í flestum efnahagsmálum innan stjórnarandstöðunnar.
Það á meira að segja að skipa einhverja fjölmennustu nefnd Íslandssögunnar (í starfshópum, verkefnastjórn og samráðsnefnd sitja hátt í 50 manns) til að „greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Hvað hún á að gera öðruvísi en t.d. sáttarnefndin sem skipuð var eftir hrun, og átti að endurskoða lög um stjórn fiskveiða, en gerði á endanum ekkert nema að lúta ítrustu kröfum frekustu eigenda sjávarútvegsfyrirtækja, hefur ekki verið útskýrt. En það er algjörlega ljóst að það er ekki þörf á enn einni orðasalats skýrslunni þar sem „áskoranir og tækifæri“ eru tíundum. Það er sennilega orðið of seint að taka á málinu árið 2024, líkt og stefnt er að.
Það þarf ekkert að greina vandamálið. Við vitum hvað það er. Almenningur á Íslandi telur að arðinum af nýtingu sjávarauðlindar sé misskipt og að það hafi leitt af sér fáveldi íslenskra olígarka sem séu ógn við lýðræðið.
Og vill að því verði breytt.
Ákvarðanir um að breyta, ekki nefndir til að greina
Breytt valdajafnvægi í ríkisstjórninni eftir ævintýralegt bankasöluklúður og sveitarstjórnarkosningarnar þar sem Framsóknarflokkurinn vann annan stórsigurinn í röð í kosningunum ætti að leiða til þess að hægt verði að knýja í gegn U-beygju frá þessari sveltistefnu í velferðar- og efnahagsmálum.
Framsókn hefur gefið upp boltann með yfirlýsingum Lilju Alfreðsdóttur um skatt á ofurhagnað í bankakerfinu og sjávarútvegi. Vinstri græn, sem eru farin að komast á síðasta séns í að finna sinn persónuleika aftur ef flokkurinn á hreinlega að lifa af, þarf að halla sér hratt upp að þeirri stefnu og ákveða að að leggja á slíka skatta. Það er fyrsta skrefið.
Saman þurfa svo þessir tveir flokkar, sem saman eru með fimm fleiri þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn, að ákveða að ríkið leggi sitt að mörkum til að stórauka framboð á húsnæði hratt. Að ákveða að leggja háan útgönguskatt á þá sem selja sig úr kvótakerfinu. Ákveða að fullfjármagna velferðar- og heilbrigðiskerfin. Ákveða að færa meira fjármagn til þeirra sem þurfa á því að halda til að lifa af og fjármagna þá millifærslu með því að auka álögur á breiðu bökin.
Forystumenn þessara tveggja flokka, Vinstri grænna og Framsóknar, þurfa að taka ákvarðanir. Þeir hafa afl til þess innan ríkisstjórnarinnar og ólíkt Sjálfstæðisflokknum þá eiga þeir möguleika á öðrum samstarfsmönnum um flest þessi stóru og aðkallandi verkefni á meðal stjórnarandstöðunnar.
Sterkir og hæfileikaríkir stjórnmálamenn eins og Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir, sem hafa þorra síns stjórnmálaferils talað fyrir félagshyggju, réttsýni og sanngirni, ættu að grípa tækifærið og marka sér afgerandi spor í íslenskri stjórnmálasögu. Búa til eftirminnilega arfleið um stjórnmálamenn sem breyttu samfélaginu markvisst til batnaðar. Ef það gerist ekki þá verður tíma Vinstri grænna í ríkisstjórn aðallega minnst fyrir að hafa nýst til að verja og styðja verk samstarfsflokks sem stendur fyrir allt annað en vinstri og grænt og festa í sessi leyndarhyggju yfir ráðstöfun almannagæða.
Um þetta snúast stjórnmál. Ákvarðanir um að breyta, ekki nefndir til að greina.