Enn rak vegfarendur í Danmörku í rogastans þegar þeir sáu annan fánan en Dannebrog, þjóðfána Danmerkur, blakta við opinberar byggingar síðastliðinn laugardag þegar fyrsti opinberi færeyski fánadagurinn var í Danmörku. Áður höfðu Danir velt fyrir sér að morgni sólstöðudags 21. júní hvers vegna grænlenski þjóðfáninn blakti við allar stjórnarbyggingar og á strætisvögnum, eins og Dannebrog gerir á opinberum fánadögum. Ástæðan var sú að þá var fyrsti grænlenski fánadagurinn í Danmörku.
En það var ekki vegna þess að fyrsti færeyski fánadagurinn var í Danmörku laugardaginn 29. júlí sem fólki brá í brún þegar það báru fánana augum, heldur vegna þess að litunum hafði verið snúið við í færeyska flagginu. Í stað þess að rauður kross með bláum borða lægi á hvítum fleti var krossinn blár og með rauðum borða.
Dönum tókst nefnilega að flagga vitlausum fána á þessum fyrsta opinbera fánadegi Færeyja í Danmörku og þykir málið hið vandræðalegasta fyrir dönsk stjórnvöld og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra. „Þetta undirstrikar — þyngra en tárum taki — punktinn minn um að við þurfum að vita meira um hvort annað,“ skrifaði Rasmussen á Twitter þegar mistökin uppgvötuðust.
Færeyski stjórnmálamaðurinn Sjúrður Skaale lét svo hafa eftir sér á danska vefnum Politiko að hann hafi fyrst haldið að myndirnar hefðu verið skrumskældar í tölvu. „Þetta sýnir ótrúlega mikinn skort á þekkingu meðal Dana á Færeyjum. Það eru margir Færeyingar sem telja sér sýnd mikil vanvirðing með þessu.“
Vitlausu fánana framleiddi elsta fánasaumastofa í Danmörku. Dahls Flagfabrik stærir sig af því á vefsíðu sinni að danski fáninn, Dannebrog, hafi aldrei selst upp í versluninni nema daginn sem Danmörk var leyst undan járnhæl Þýskalands eftir seinni heimstyrjöldina 5. maí 1945. Peter Østerbye, forstjóri fyrirtækisins, segir málið vera allt hið vandræðalegasta.
Töldu fánastangir í janúar
Stjórnvöld í Danmörku ákváðu upphafi árs að fjölga opinberum fánadögum úr 17 í 19 þetta árið. Opinber grænlenskur fánadagur yrði 21. júni á þjóðhátíðardegi Grænlands og á þjóðhátíðardegi Færeyja, Ólafsdeginum 29. júlí, yrði opinber færeyskur fánadagur. Það var hins vegar ekki tilkynnt fyrr en eftir sérlega flaggstangatalningu í danska ríkinu.
Í janúar sl. bárust forstöðumönnum danskra ríkisfyrirtækja og stofnana ríkisins bréf frá fjármálaráðuneytinu. Þótt þeir væru ýmsu vanir þegar kemur að erindum og fyrirspurnum frá því virðulega ráðuneyti var innihald bréfsins ólíkt öllu því sem áður hafði borist. Þeim var semsé gert að telja þær flaggstangir sem tilheyrðu viðkomandi stofnun og senda fjármálaráðuneytinu upplýsingarnar. „Maður er nú öllu vanur úr þessari átt“ sagði forstöðumaður einnar ríkisstofnunar og bætti við „hvað skyldu þeir háu herrar vilja fá talið næst?“ Ekki kom þó til þess að óskað væri eftir upplýsingum um fjölda handlauga og fatahengja, eins og einn forstöðumaður lét reyndar fylgja með þegar hann upplýsti að hjá sinni stofnun væri ein flaggstöng, sem því miður hefði nýlega brotnað.
Fjölmiðlarnir gerðu sér mikinn mat úr þessu talningamáli sem þeir kölluðu „Flagstangsgate“ og veltu fyrir sér tilganginum. Embættismennirnir voru þögulir sem gröfin, vísuðu á forsætisráðherrann þegar spurt var.
Nokkrum dögum eftir að talningarskipunarbréfið var sent út upplýsti forsætisráðherrann um málið á fésbókarsíðu sinni. Sér væri mjög hlýtt til Grænlendinga og Færeyinga (Sólrun, eiginkona ráðherrans, er færeysk) og nú hefði hann ákveðið að Grænlendingar og Færeyingar fengju sérstakan fánadag. „Þegar farið var að ræða um þetta kom í ljós að í fórum ríkisins voru engar upplýsingar til um fjölda opinberra flaggstanga í konungsríkinu,“ sagði ráðherrann. Til að allar stofnanir gætu fengið þjóðfánana væri nauðsynlegt að vita hve marga þyrfti að útvega. Ráðherrann tilkynnti svo síðar að fánadagarnir yrðu 21. júní fyrir Grænland og 29. júlí fyrir Færeyjar
Flaggstangirnar eru 534
Svör við spurningu ráðuneytisins bárust fljótt og vel. Opinberar flaggstangir reyndust 534 talsins. Nokkrir forstöðumenn tilkynntu um brotnar stangir en það stæði til bóta. Þegar stangafjöldinn lá fyrir gátu embættismenn fjármálaráðuneytisins pantað þann fjölda fána sem til þurfti og þeim var svo komið til stofnana ríkisins um land allt og sendiráða Danmerkur víða um heim.
Á opinberum fánadögum í Danmörku, sem telja almenna hátíðis- og tyllidaga auk afmælisdaga fjölskyldu Margrétar Þórhildar Danadrottnignar, er flaggað við opinberar byggingar og strætisvagnar aka um götur bæja og borga með fánaveifur. Þar til grænlenski fáninn var dreginn að húni að morgni dags 21. júní hafði enginn fáni annar en danski þjóðfáninn, Dannebrog, blakt á opinberum flaggstöngum í Danmörku.