Breski íhaldsflokkurinn tapaði meirihluta sínum á þingi í þingkosningunum í Bretlandi í gær. Það var þvert á væntingar Theresu May, formanns flokksins og forsætisráðherra Bretlands, sem hafði boðað til kosninganna til þess að styrkja umboð sitt og ríkisstjórnar íhaldsflokksins fyrir Brexit-viðræðurnar sem hefjast síðar í þessum mánuði.
May boðaði til kosninganna 19. apríl síðastliðinn. Í tiltölulega stuttri kosningabaráttu hugðist May og hennar teymi láta kosningarnar snúast um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þannig treysta umboð ríkisstjórnar sinnar í breska þinginu vegna þeirra fjölmörgu lagabreytinga sem þurfa að fara fyrir þingið í kjölfar Brexit.
Þá taldi hún að sterkari staða sín heima í Bretlandi myndi nýtast sem vopn í viðræðunum við Evrópusambandið (ESB) þar sem samið verður um skilmála og framhald samstarfs Bretlands og ESB.
En það fór allt í vaskinn.
Hvað klikkaði?
Strax á fyrstu metrum kosningabaráttunnar varð ljóst að Brexit yrði aldrei það kjölfestumál kosninganna sem ákveðið hafði verið að láta kosningabaráttu „Camp May“ snúast um. Auk þess var May sjálfri helst teflt fram og atkvæði með íhaldsflokknum áttu að þýða atkvæði með Theresu May.
Verkamannaflokknum, undir stjórn Jeremy Corbyn, tókst að snúa kosningabaráttu May á haus. Stefnuyfirlýsing verkamannaflokksins varð aðalmálið í kosningabaráttunni og verkamannaflokkurinn sótti á í skoðanakönnunum.
Tvær mannskæðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi breyttu einnig gangi kosningabaráttunnar sem fjallaði á síðustu metrunum helst um öryggismál og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir slík ódæðisverk. May-liðar áttu erfitt með að svara fyrir niðurskurð til löggæslumála sem varð þegar Theresa May var innanríkisráðherra.
Niðurstaða kosninganna varð sú að enginn flokkur hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Í Bretlandi er það kallað „hung parliament“, þe. kosningarnar skiluðu engum sigurvegara og niðurstaðan „hangir í lausu lofti“.
Hver verða næstu skref?
Theresa May hefur þegar fundað með Elísabetu II Englandsdrottningu og óskað eftir umboði til þess að mynda nýja minnihlutastjórn íhaldsflokksins. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn í Norður-Írlandi hefur samþykkt að ræða samstarf við íhaldsmenn um að verja minnihlutastjórnina falli og kjósa með lykilmálum svo þau fái framgang.
Ekki verður um eiginlega samsteypustjórn að ræða (eins og þegar David Cameron og Nick Clegg mynduðu stjórn saman árið 2010) heldur hafa norður-írskir sambandsinnar samþykkt að standa með May í erfiðum málum.
Samanlagður þingmannafjöldi þessara flokka dugar til þess að mynda meirihluta á þingi, en það munar bara tveimur þingsætum. Verkefni Theresu May í Brexit-viðræðunum heima fyrir er þess vegna orðið mun flóknara en það var áður en hún boðaði til kosninganna.
Hvað þýðir niðurstaðan fyrir Brexit?
Bretland mun ganga úr Evrópusambandinu þrátt fyrir þennan kosningaósigur sitjandi ríkisstjórnar. Allt bendir til þess að Theresa May verði áfram forsætisráðherra í minnihlutastjórn og hefur þess vegna enn umboð til þess að leiða útgönguviðræðurnar.
Í kosningabaráttunni var aðeins einn flokkur sem bauð fram á landsvísu sem lofaði að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Það voru frjálslyndir demókratar sem hlutu aðeins 12 sæti á þinginu. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins næst stærsta flokksins á breska þinginu eftir kosningarnar, hafði lýst því yfir að hann mundi virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fyrra og leiða viðræður um útgöngu úr ESB hlyti hann til þess umboð.
May boðaði til þessara kosninga til þess að efla meirihluta sinn á þinginu og tryggja þannig umboð sitt til þess að leiða viðræðurnar um útgöngu úr ESB. Það þótti mikilvægt enda þarf að greiða atkvæði um fjölmargar, og veigamiklar, lagabreytingar í tengslum við Brexit. Jafnframt átti stærri meirihluti á þingi að nýtast sem vopn í samningaviðræðunum við ráðamenn í Brussel.
Ljóst er að niðurstaða kosninganna flækir útgönguferlið nokkuð og setur áætlanir Theresu May í nokkuð uppnám. Í ræðu sinni fyrir utan Downingstræti 10 í hádeginu í dag, að loknum fundi sínum með drottningunni, lagði May áherslu á að í krafti flestra þingsæta allra flokka væri íhaldsflokkurinn eini stjórntæki flokkurinn í Bretlandi.
Hvað þýðir niðurstaðan fyrir sjálfstæði Skotlands?
Skoski þjóðarflokkurinn tapaði 21 þingsæti á breska þinginu í kosningunum í gær og eru nú með 35. Flokkurinn fékk sína langbestu kosningu í kosningunum 2015; Hlaut þá 56 sæti. Í sögulegu samhengi er kosning flokksins í kosningunum í gær nokkuð góð. En þegar litið er á stöðuna nánar eru niðurstöðurnar nokkur vonbrigði.
Á undanförnum árum hefur Skotum gengið vel að koma sjálfstæði sínu á dagskrá stjórnvalda í London. Árið 2014 samþykkti David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi um sjálfstæði. Skotar völdu hins vegar að vera áfram í sambandsríkinu Bretlandi. Í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar fyrir um ári síðan komst krafan um sjálfstæði á nýjan leik í umræðuna, enda hafði meirihluti Skota valið að vera áfram í Evrópusambandinu.
Þrýstingurinn á stjórn Theresu May var orðinn mikill í vetur. Viðbúið er að slagkraftur sjálfstæðisbaráttunnar verði minni nú, þegar þjóðarflokkur Skota hefur færri þingmenn í London.
Ástæður þess eru margþættar. Fyrir það fyrsta þá tapaði skoski þjóðarflokkurinn flestum þingsætum sínum til íhaldsmanna í Skotlandi. Meðal þeirra sem töpuðu sætum sínum til íhaldsins voru þeir Angus Robertson og Alex Salmond. Robertson hafði verið leiðtogi þingflokksins á breska þinginu og Salmond er fyrrverandi formaður þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon, leiðtogi skoska þjóðarflokksins, var ekki í kjöri í þingkosningunum. Hún var hins vegar vonsvikin eftir að talið hafði verið úr kjörkössunum. Hún sagðist ætla að íhuga stöðuna vandlega og kynna næstu skref á næstunni.
Hvernig er breska kosningakerfið frábrugðið því íslenska?
Til breska þingsins er kosið í svokölluðum einmenningskjördæmum. Kjördæmin eru jafnmörg og þingsætin, 650, og í hverju kjördæmi er aðeins einn þingmaður kjörinn.
Sá frambjóðandi nær kjöri sem fær flest atkvæði. Ekki þarf að ná meirihluta atkvæða heldur aðeins fleiri atkvæði en aðrir einstakir frambjóðendur.
Í þessu kerfi getur farið svo að þingmannafjöldi flokka sé ekki í neinu samræmi við hlutfallslegan stuðning við flokka. Eins og sést á niðurstöðum kosninganna í gær þá hlutu íhaldsmenn um 49 prósent þingsæta en aðeins 42 prósent atkvæða.
Á Íslandi eru 63 þingmenn valdir í sex kjördæmum og mismargir þingmenn koma úr mismunandi kjördæmum.