Sex þingmenn ganga inn á bar ... og voru teknir upp af Báru
Klaustursmálið er stærsta pólitíska hneykslismál þess árs sem nú er senn að ljúka. Pólitískar afleiðingar þess, að minnsta kosti til skamms tíma, eru gífurlegar og fyrir liggur að dómsmál og umfjöllun nefnda um kvöldið afdrifaríka mun dragast vel inn á komandi ár. Hér er málið rakið frá byrjun og að þeim punkti sem það stendur nú.
Þriðjudaginn 20. nóvember fóru sex þingmenn – fjórir úr Miðflokki og tveir úr Flokki fólksins – á barinn Klaustur, í námunda við Alþingishúsið. Þar settust þeir niður, drukku áfengi og töluðu með niðrandi og meiðandi hætti um samstarfsfólk sitt í stjórnmálum.
Þeir stærðu sig einnig að pólitískum hrossakaupum með sendiherrastöður, þingmenn Miðflokksins reyndu að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra sem glímir við sjaldgæfan beinsjúkdóm, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann.
Það sem þingmennirnir sex, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins , Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritari flokksins, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson úr Flokki fólksins, vissu ekki var að í nálægð við þá sat einstaklingur sem upphaflega kallaði sig bara „Marvin“.Sá tók upp það sem fram fór. Og sendi á vald fjölmiðla.
Fréttir af tali Klaustursmanna birtar
Þann 28. nóvember síðastliðinn hófu fjölmiðlarnir DV, Stundin og Kvennablaðið að birta fréttir upp úr upptöku af samtali þingmannanna. Þær stóðu yfir í nokkra daga. Samfélagið fór á hliðina.
Fyrstur þeirra sem tóku þátt í samsætinu til að bregðast við var Sigmundur Davíð. Hann setti inn stöðuuppfærslu á Facebook sama kvöld. Þar sagði:
Daginn eftir var þó komið annað hljóð í strokkinn. Miðflokksþingmennirnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir báðu „þá sem farið var ónærgætnum orðum um í þeim einkasamtölum sem þar fóru fram einlæglegrar afsökunar. Það var ekki ætlun okkar að meiða neinn og ljóst má vera að sá talsmáti sem þarna var á köflum viðhafður er óafsakanlegur. Við einsetjum okkur að læra af þessu og munum leitast við að sýna kurteisi og virðingu fyrir samferðarfólki okkar. Jafnframt biðjum við flokksmenn Miðflokksins og fjölskyldur okkar afsökunar á að hafa gengið fram með þessum hætti.“
Sama dag, 29. nóvember, óskaði hópur þingmanna eftir því að forsætisnefnd tæki upp mál sexmenninganna.
Næstu daga gerðust hlutirnir hratt. Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr Flokki fólksins vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“. Gunnar Bragi og Bergþór, tilkynntu þann 30. nóvember að þeir myndu fara í leyfi frá þingstörfum.
Nánast allir landsmenn vilja afsögn
Á öðrum degi desembermánaðar birtist grein eftir Freyju Haraldsdóttur á Kjarnanum. Þar greindi hún frá símtali sem hún hafði fengið frá Sigmundi Davíð og sagði m.a.: „Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér.“
Þann 3. desember var birt könnun frá Maskínu. Þar kom fram að á milli 74 og 91 prósent Íslendinga eru hlynnt afsögn alþingismannanna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi ætti að segja af sér en næstum jafn háu hlutfalli fannst að Bergþór ætti einnig að gera það. Þá töldu 86 prósent landsmanna að Sigmundur Davíð ætti að víkja.
Sama dag var greint frá því að forsætisnefnd Alþingis hefði ákveðið að hefja skoðun á Klausturmálinu sem mögulegu siðabrotamáli. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, bað, fyrir hönd þingsins, þingmenn sem nefndir voru í upptökunum, aðra þingmenn en þá sem í hlut áttu að máli, fjölskyldur þeirra, og þjóðina alla afsökunar á málinu. „Ég vil biðja starfsfólk okkar, konur, fatlaða, hinsegin fólk og þjóðina alla, afsökunar,“ sagði hann.
Eiginkona Sigmundar Davíðs blandaði sér í umræðuna daginn eftir og sagði í ummælum á Facebook að hún teldi að íslenskt samfélag væri komið á villigötur. „Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til upphefja sjálfan sig,“ skrifar hún. „Ég ætla ekki að segja ykkur hvað hefur gengið á í partýum meðal stjórnmálamanna síðustu árin en það kannski segir allt að við SDG höfum gengið út. Þakka ykkur enn og aftur. Ég stend stolt með Sigmundi mínum enda veit ég hvaða mann hefur að geyma og veit hver líðan hans er núna.“
Afdrifaríkur 5. desember
Fyrir lá að Klaustursmálið var að valda sexmenningunum miklum pólitískum skaða. Í fyrstu könnun sem gerð var á fylgi flokka eftir að það kom upp, sem var birt í Fréttablaðinu að morgni 5. desember, kom fram að Miðflokkurinn myndi einungis fá 4,3 prósent fylgi ef kosið yrði þá og þar með falla með öllu út af þingi. Flokkur er í dag með sjö þingmenn eftir að hafa fengið 10,9 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra. Í síðustu mælingu MMR áður en að Klaustursmálið kom upp hafði Miðflokkurinn mælst með 13 prósent fylgi, og hafði aldrei mælst með meira.
Flokkur fólksins mældist einnig með fylgi undir kjörfylgi og á þeim slóðum að afar tæpt yrði að flokkurinn myndi ná inn manni.
Þegar leið á daginn tjáði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sig um fund sem Sigmundur Davíð hafði átt með honum og Bjarna Benediktssyni til að ræða áhuga Gunnars Braga á að vera skipaður sendiherra, en í frásögn Miðflokksmannanna af þessu máli á Klaustri mátti skilja að þeir teldi Bjarna skulda sér greiða vegna þess að Gunnar Bragi hefði skipað Geir H. Haarde sendiherra á sínum tíma.
Guðlaugur staðfesti fundinn í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar sagði hann:
Einn þeirra stjórnmálamanna sem mikið var rætt um á Klaustursupptökunni, á kynferðislegan og niðrandi hátt, er Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Á upptökunum heyrist Gunnar Bragi meðal annars segja: „Hjólum í helvítis tíkina“ þegar rætt er um Lilju.
Lilja fór í viðtal í Kastljósi 5. desember síðastliðinn sem hefur mælst afar vel fyrir þvert á pólitískar línur. Þar var hún mjög afgerandi í afstöðu sinni gagnvart framferði Klausturfólksins., sagði tal þeirra vera „algjört ofbeldi“ og að hún væri „ofboðslega“ ósátt við það.
Sigmundur Davíð sár
Sigmundur Davíð brást við viðtalinu við Lilju daginn eftir, 6. desember, með stöðuuppfærslu á Facebook. Þar sagðist hann meðal annars hafa verið kallaður fleiri ljótum nöfnum en hann hafi tölu á. Hann minnist þess hins vegar ekki að hafa áður verið kallaður ofbeldismaður. „Ekkert sem um mig hefur verið sagt í pólitík hefur sært mig eins mikið.“
Föstudagsmorguninn 7. desember hafði málið staðið yfir í viku og ýmsum kenningum verið fleytt um hvernig staðið hafði verið að upptökunum á Klausturbar þriðjudagskvöldið afdrifaríka.
Þennan morgun steig sá sem tók upp samtölin fram í viðtali við Stundina. Viðkomandi reyndist vera Bára Halldórsdóttir, 42 ára fötluð og hinsegin kona sem sagði að sér hefði einfaldlega blöskrað orðfæri fólksins og ákveðið að taka það upp. „ „Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“
Undirbúa málarekstur gegn Báru
Þann 8. desember sendi fræðafólk við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum bréf til forseta Alþingis. Í því sagði að Klaustursmálið og ummæli þingmanna sem þar voru séu þeim „áfall og þungbært að verða vitni að þeim niðurlægjandi og fordómafullu ummælum sem þar voru viðhöfð um fatlað fólk, einkum fatlaðar konur sem við virðum mikils og eigum náið og gott samstarf við í baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu fatlaðs fólks.“
Þar sagði enn fremur að þeir „djúpstæðu fordómar, mannfyrirlitning, hroki og vanvirðing sem þar birtast í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsetra hópa gerir það að verkum að við munum ekki taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan að Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni.“
Eftir nokkurra daga svikalogn greindi Bára Halldórsdóttir svo frá því að lögmaður þingmanna Miðflokksins hefði lagt fram beiðni um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna fyrir dómi vegna upptöku á samtölum sem áttu sér stað á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn. Beiðnin byggir á ákvæði laga um meðferð einkamála sem fjallar um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að möguleg sönnunargögn spillist.
Í bréfinu sagði enn fremur að beiðnin verði „ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál kunni að verða höfðað á hendur þér í kjölfar umbeðinnar gagnaöflunar.“
Ekki hægt að funda vegna og pistill Sigmundar Davíðs
Miðvikudaginn 12. desember stóð til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi funda um sendiherratal Miðflokksmannanna. Það reyndist hins vegar ekki hægt þar sem þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svöruðu ekki ítrekuðum boðum um að mæta til fundarins. Á fundinn var einnig búið að boða Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson. Fundinum var því frestað fram í janúar.
Miðflokkurinn brást við þessari stöðu með yfirlýsingu á Facebook þar sem sagði m.a.: „Það er afar fátítt að þingnefndir séu notaðar í jafn augljósum pólitískum tilgangi og átti að gera. Slíkt á ekki að viðgangast.“
Þann 16. desember birti Sigmundur Davíð svo pistil á heimasíðu sinni þar sem hann gaf í skyn að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hefðu farið öðruvísi með Klausturupptökurnar svokölluðu ef þeir sem teknir væru upp væru úr vinstriflokkum.
Í pistlinum, sem ber nafnið „Er sama hver er?“, lagði Sigmundur Davíð út frá því að þingmennirnir sex sem sátu að sumbli á Klausturbar hefðu verið úr Vinstri grænum og Samfylkingu og að sá sem tekið hafi upp samtal þingmannanna hafi verið „ungir Heimdellingur og harðlínu-frjálshyggjumaður“ sem hefði „gert ráðstafanir til að njósna um einkasamtal þeirra klukkutímunum saman.“
Sigmundur Davíð gaf þingmönnum og flestum fjölmiðlum gervinöfn í pistlinum og gekk einnig út frá því að upptökur á samtölum eins og þeim sem áttu sér stað á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn, væru ólöglegar. Í skrifunum var Stundin t.d. köllum hin ákafa hægrivefsíða Tíðarandinn og Kjarninn fékk viðurnefnið hægrivefurinn Kvörnin sem „hafi lengi helgað sig baráttunni gegn ógnum kommúnisma og kratisma.“
Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans/Kvarnarinnar um pistilinn hér.
Bára dregin fyrir dóm
Mánudaginn 17. desember kom Bára Halldórsdóttir fyrir dóm vegna krafna Miðflokksmannanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur sem var liður í fyrirhugaðri málsókn þeirra gagnvart uppljóstraranum. Fjölmenni mætti til að sýna Báru stuðning. Enginn þingmannanna sem stóðu að málatilbúnaðinum var viðstaddur. Þar fór lögmaður þeirra fram á að myndefni úr eftirlitsmyndavélum Alþingis og Dómkirkju yrði varðveitt og lagt fyrir dóm. Á meðal þess sem fram kom í máli lögmannsins fyrir dómi var: „ „Umbjóðendur mínir telja að freklega hafi verið brotið á rétti þeirra til einkalífs. Þetta hafi gerst þegar einkasamtal á Klaustri var hljóðritað að þeim óafvitandi og gert opinbert. Í því hafi falist brot gegn 229. grein almennra hegningarlaga,“ sagði hann og benti á að þessi háttsemi gæti varðað skaða- og miskabótaskyldu.“
Kröfu Miðflokksmanna var hafnað 19. desember. Tveimur dögum síðar var greint frá því í Stundinni að Miðflokksþingmennirnir hefðu kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að fram færu vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna um atburðina á Klaustri, til Landsréttar.
Í kærunni vakti lögmaður Miðflokksmanna, Reimar Pétursson, athygli á því að Bára hafi greint frá því í fjölmiðlum hvernig hún „sperrti eyrun“ og „þóttist“ vera að lesa ferðamannabæklinga sem hún hafði meðferðis þegar hún hljóðritaði samskipti þingmannanna. Þá vísi Reimar sérstaklega til myndar sem birtist í Stundinni og var tekin fyrir utan Klaustur „áður en varnaraðili hóf aðgerðir sínar nema, ef vera skyldi, að einhver annar hafi tekið hana“.
Af þessu dragi hann ályktun um einbeittan ásetning Báru: „Allt þetta gefur til kynna að þegar varnaraðili kom á Klaustur hafi hún komið þangað með það fyrirframgefna markmið að njósna um og taka upp samtöl sóknaraðila. Hún hafi gengið fumlaust til verka. Hún hafi haft meðferðis bæklinga sem hún notaði sem yfirvarp og búnað sem hentaði til verksins. Þá hafi hún dvalið á staðnum svo lengi sem í fjórar klukkustundir. Hafi hún þó sagst hafa verið á leiðinni á æfingu á leiksýningu sem ætlunin var að frumsýna tveimur dögum síðar, án þess að þetta hafi neitt tálmað þaulsetu hennar yfir upptökunum.“
Í frétt Stundarinnar segir enn fremur að þingmennirnir telji þetta gefa „ríka ástæðu til að kanna hvort einhver annar hafi komið að framkvæmd þessarar aðgerðar með varnaraðila eða hafi fylgt henni til hennar“. Finnist þeim frásögn Báru vera „öll út og suður“. Til að mynda segi hún eina stundina að samtalið hafi verið opinbert en aðra stundina lýsi hún erfiðleikum við að greina orðaskipti. „Trúverðugleiki frásagnar varnaraðila er því enginn.“
Lestu meira:
-
24. desember 2019Jólasaga: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
4. janúar 2019Af hverju má ekki skipta gæðunum jafnt?
-
2. janúar 2019Þú veist ekki þegar þú sefur hjá í síðasta sinn
-
1. janúar 2019Stöndum vörð um lífskjörin
-
1. janúar 2019Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
-
31. desember 2018Mest lesnu aðsendu greinar ársins 2018
-
30. desember 2018Mest lesnu viðtölin 2018
-
30. desember 2018Ár styttri vinnuviku
-
30. desember 2018Endurnýjun verkalýðsbaráttunnar
-
30. desember 2018Árið sem flugfélögin ógnuðu stöðugleikanum