„Reglulega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða biturð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér. Þegar ég heyri um Jón Baldvin talað í fréttum eða á netinu, þá líður mér illa. Fjölskyldan mín er splundruð útaf þessu og mér finnst eins og það sé kominn tími til að fólk fái að vita sannleikann og taki afstöðu. Ég vil að fólk lesi bréfin og sjái svart á hvítu hvað í þeim stendur. Sumir þykjast standa með mér en mæta svo í veislur til Jóns Baldvins. Mér finnst vissulega skrítið að koma fram í fjölmiðlum en tel það einu leiðina til að fá fólk til að horfast í augu við staðreyndir.“
Þannig lýsir Guðrún Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar Schram eiginkonu Jóns Baldvins Hannibalssonar, árið 2012 ástæðum þess að hún steig fram í umfjöllun í Nýju lífi og sagði frá bréfum sem Jón Baldvin, fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins, sendi henni þegar hún var barn að aldri.
Töluvert var fjallað um málið á sínum tíma en eftir því sem árin liðu fennti yfir það og fór Jón Baldvin að koma fram í fjölmiðlum á ný, meðal annars sem viðmælandi hjá Ríkissjónvarpinu og eins hefur hann verið með þætti í útvarpinu. En atburðarás í byrjun árs kom málum Jóns Baldvins aftur í umræðuna þegar fjórar konur stigu fram í Stundinni og greindu frá meintu kynferðislegu áreiti hans í garð þeirra. Í kjölfarið var stofnaður metoo-hópur á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem fleiri konur greindu frá reynslu sinni af samskiptum og meintri ósæmilegri háttsemi Jóns Baldvins. Í vikunni var opnuð vefsíða með vitnisburðum þessara kvenna.
Frelsinu fegnar
Elsta sagan er frá árinu 1962 og sú nýjasta frá árinu 2018. Á síðunni er að finna 23 nafnlausar sögur þolenda af meintum kynferðisbrotum og áreiti Jóns Baldvins sem virðast ná yfir nær 60 ár. Í yfirlýsingu frá hópnum segir að þær konur sem standa að hópnum vilji gera sögurnar opinberar í anda þeirrar bylgju sem farið hefur yfir heiminn og sameinað konur þegar þær segja: Ég líka – Me too! „Við viljum að það samfélag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið gerð opinber geti nú lesið þær reynslusögur sem er okkar sannleikur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þjáningu sem samskipti við hann hafa valdið okkur í áratugi. Við erum frelsinu fegnar.“ Hægt er að lesa frásagnirnar á vefslóðinni https://metoo-jonbaldvin.blog.is/blog/metoo-jonbaldvin/.
Elsta atvikið sem komið hefur fram opinberlega í fjölmiðlum mun hafa átt sér stað árið 1967 þegar Jón Baldvin var kennari í Hagaskóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nemendur við skólann, Matthildur Kristmannsdóttir og María Alexandersdóttir, voru á bilinu 13 til 14 ára.
Kveið fyrir tímum með Jóni Baldvin
Í umfjöllun Stundarinnar segir Matthildur frá því þegar hún var nemandi við Hagaskóla árið 1967, þegar Jón Baldvin vann þar sem kennari. „Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög líklega alveg rétt, og vildi að ég sæti eftir. Það var ekki í sömu kennslustofu heldur í herbergi hinum megin á ganginum. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrifaði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerðist alltaf nærgöngulli.“
Matthildur segir að hún hafi farið að kvíða fyrir tímunum hjá Jóni Baldvin þar sem hann lét hana alltaf sitja eftir eina. „Ég fór að reyna að læra betur heima en það breytti engu. Hann sagðist bara þurfa að láta mig læra þetta betur. Ég bara skynjaði það að það væri eitthvað fram undan sem mundi gerast,“ segir hún.
Loks hafi Jón Baldvin farið að færa sig upp á skaftið. „Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stólinn hjá mér. Þetta var svona gamall skólastóll með algjörlega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stólbaksins. Ég sat alveg á nippinu á stólnum. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skammaðist mín fyrir hvað væri að gerast.“
Óttaðist að verða næst
María segir í viðtalinu í Stundinni að hún hafi óttast að verða næst. „Hann var alltaf mjög hortugur og leiðinlegur við krakkana,“ segir hún og bætir því við að stuttu eftir að samnemendur Matthildar mótmæltu eftirsetu hennar hafi Jón Baldvin alltaf verið að grúfa sig yfir hana í tímum, eins og hann væri að skoða hvað hún væri að gera, og strjúka á henni axlirnar í leiðinni. „Hann lagði hendurnar yfir axlirnar og strauk mig og grúfði sig alveg upp við andlitið á mér. Og þetta fannst mér alveg hræðilega óþægilegt.“
Loks hafi komið að því að hann hafi sagt henni að sitja eftir. „Þá sagði ég nei, ég vildi ekki lenda í því sama og Matthildur. Eftir það lét hann mann í friði. Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drulluhræddur. Ég var búin að lenda í ýmsu tvö sumur áður í sveit. Ég vissi nákvæmlega hvað karlinn ætlaði sér,“ segir hún.
Þess má geta að Jón Baldvin hefur sjálfur sagst hafa kallað eftir gögnum frá Hagaskóla sem leiði í ljós að hann hafi ekki kennt í umræddum bekk á þessum tíma. Þar af leiðandi ætli hann ekki að svara þessum ásökunum frekar.
Telur nýjasta atvikið hafa verið sviðsett
„Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn.“
Þannig lýsir Carmen Jóhannsdóttir, í samtali við blaðamann Stundarinnar, samskiptum sínum við Jón Baldvin en hún segir að hann hafi áreitt hana kynferðislega síðasta sumar en sú saga er sú nýjasta um slíka hegðun af hans hálfu.
Þannig lýsir Carmen Jóhannsdóttir, í samtali við blaðamann Stundarinnar, samskiptum sínum við Jón Baldvin en hún segir að hann hafi áreitt hana kynferðislegra síðasta sumar en það er síðasta dæmið um slíka hegðun af hans hálfu.
Carmen segir að atvikið hafi átti sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu, á heimili hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans.
Í viðtalið í Silfrinu á RÚV um síðustu helgi sagði Jón Baldvin að móðir Carmenar hefði hrópað upp þessa ásökun við matarborðið en sjónarvottur, kona að nafni Hugrún, segi að þetta hafi ekki gerst. Jón Baldvin telur að heimsókn mæðgnanna til hans og Bryndísar í hús þeirra á Spáni hafi verið sviðsett og til þess gerð að koma höggi á hann og að mæðgurnar séu tengdar Aldísi dóttur hans.
Fullyrðingarnar fáránlegar
Carmen sagði sjálf eftir viðtalið við Jón Baldvin að henni fyndist þetta hlægilegt og fullyrðingar hans vera ótrúlegar, fáránlegar og að þær dæmdu sig sjálfar. Í samtali við mbl.is eftir viðtalið sagðist hún ekkert þekkja Jón Baldvin en að hún hefði ekki átt von á því að hann færi að segja að þetta væri sviðsett. Það væri svo langsótt.
„Bryndís var í mörg ár búin að bjóða mömmu minni að koma að heimsækja þau þarna og svo loksins sló hún til. Mér finnst í raun magnað að þetta hafi verið það sem hann ákvað að segja,“ sagði Carmen sem telur það ekki vera neitt mál að sýna fram á, meðal annars með tölvupóstsamskiptum, að koma þeirra mæðgna hafi verið í fullu samráði við Bryndísi.
Áralöng barátta
Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins og Bryndísar, hefur til margra ára reynt að koma sjónarmiðum sínum og reynslusögu á framfæri við dræma athygli fjölmiðla. Eftir umfjöllun Stundarinnar um meint brot föður hennar sagði hún í Morgunútvarpinu á Rás 2 að Jón Baldvin hefði notað bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Með því hefði hann misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að reka persónuleg erindi.
Aldís sagðist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kynferðisbrota eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
Hún sagði að eftir þetta hefði hann getað hringt í lögreglu hvenær sem er til að handtaka hana. „Umsvifalaust er ég í járnum, farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði hún.
„Klædd brynju réttlætisins mun ég skjótt há lokaorustuna til sigurs“
Í fyrrnefndu viðtali í Silfrinu sagði Jón Baldvin þessar ásakanir vera fráleitar. „Enginn einn maður getur komið á nauðungarvistun, þar þarf að koma til álit fleiri en eins læknis og úrskurður dómsmálaráðuneytis.“ Jón sagði að þáttur hans og Bryndísar eiginkonu hans í nauðungarvistunum dóttur hans hefði einungis verið að bregðast við neyðarkalli lækna með því að veita samþykki.
Aldís óskaði í framhaldinu eftir því að fá að segja frá sinni hlið á málinu og bregðast við svörum Jóns Baldvins í sambærilegu viðtali í sjónvarpi. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagðist Aldís vera að safna kröftum þar til hún myndi tilneydd verða að „verjast þessu slæga illmenni“ en þar vísar hún til Jóns Baldvins.
Hún sagðist liggja undir feldi en það myndi ekki vara lengi. „En viti menn, klædd brynju réttlætisins mun ég skjótt há lokaorustuna til sigurs - alls óhrædd, og sigra hann og hans barnaníðingabandalag. Og það á opinberum vettvangi,“ sagði hún í stöðuuppfærslunni.
Málverk af hjónunum tekið niður
Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram, sem hefur áratugum saman hangið á vegg í matsal Menntaskólans á Ísafirði, var tekið niður í kjölfar umræðu um meint kynferðislegt áreiti hans. Frá þessu var greint í fjölmiðlum í vikunni.
Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, sem er í stjórn femínistafélags Menntaskólans á Ísafirði, sagði að í kjölfar þess að konur stigu fram í janúar og greindu frá samskiptum sínum við Jón Baldvin hefði nemandi í femínistafélagi MÍ farið þess á leit við starfsfólk skólans að málverkið yrði tekið niður og var það gert samdægurs.Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ, sagði í samtali við RÚV að honum hefði ekki borist formlegt erindi um að láta fjarlægja málverkið heldur hefði það verið gert til að bregðast við ábendingum frá nemendum og starfsfólki um að málverkið ylli fólki óþægindum. Jón Reynir vildi ekki veita upplýsingar um hvar málverkið er nú niðurkomið en sagði það ekki hanga lengur á vegg í skólanum.
Jón Baldvin var fyrsti skólameistari Menntaskólans á Ísafirði á árinum 1970 til 1979 en meðal þeirra sem hafa sagt sögur sínar af kynnum við Jón Baldvin undir myllumerkinu #metoo eru fyrrverandi nemendur við skólann. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum er málverkið gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans og var fært skólanum á tíu ára stúdentsafmæli hans árið 1984. Málverkið hefur því hangið uppi í meira en þrjá áratugi. Ekki er sérstök hefð fyrir því að málaðar séu myndir af fyrrverandi skólameisturum.
Nú er meiri stuðningur við fórnarlambið
Eins og komið hefur fram hafa viðbrögð almennings verið töluvert ólík núna en fyrir sjö árum. Guðrún Harðardóttir segir í samtali við Kjarnann að nú sé verið að taka umræðuna í meira mæli en bætir því við að það hafi ekkert haft upp á sig þegar hún steig fyrst fram. Hún segir að ástæðan fyrir því að þær – hún og fleiri konur – stígi fram núna sé sú að þær geti gert það í krafti fjöldans.
Hún segist jafnframt vona að fólk sem stígur fram núna – eins síns liðs – fái viðbrögðin: „Ég trúi þér!“. Hún bendir á að svoleiðis hafi ekki verið í pottinn búið hér á árum áður. „Nú er meiri stuðningur við fórnarlambið,“ segir Guðrún og bætir því við að slíkur stuðningur geri fólki auðveldara að stíga fram og segja frá reynslu sinni.
Skiptir máli að segja frá
Guðrún telur að almennt sé fólk með gott hjartalag og vilji ekki trúa því að annað fólk geti komi illa fram við aðra. „Fólk vill ekki trúa svona viðbjóði,“ segir hún. Hún segist vona að með tíð og tíma muni viðhorfin breytast til hins betra. Mikilvægt sé að kenna kynjafræði og heimspeki í skólum og að fólk læri að tala saman.
Í samtali við Fréttablaðið í vikunni sagðist hún upplifa létti að hafa skilað skömminni. „Það skiptir svo miklu máli að segja frá og burðast ekki ein með sögu sína. Og að geta gert það í krafti fjöldans gefur manni mikið. Ég er enn þá alveg óhrædd og finn alveg að þó Jón Baldvin sé að malda eitthvað í móinn þá hefur það engin áhrif á mig og innan hópsins er andinn jákvæður.“
Telur um skipulagða rógsherferð að ræða
Í tilefni af áttræðisafmæli Jóns Baldvins á þessu ári stóð til að gefa út bók með ræðum hans, ritum og greinum um „frumkvæði Íslands að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, samningana við ESB um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Norræna módelið sem raunhæfan valkost við auðræði nýfrjálshyggjunnar.“ Vegna umfjöllunar fjölmiðla um kynferðislega áreitni síðastliðnar vikur var útgáfunni frestað um óákveðinn tíma. Bókin var langt komin en ekkert var fjallað um ósæmilegar bréfaskriftir Jóns Baldvins til Guðrúnar.
Í grein eftir Jón Baldvin, sem birtist í Fréttablaðinu í byrjun vikunnar, heldur hann því fram að ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot megi útskýra sem skipulagða rógsherferð gegn honum sem hafi verið hafin til að spilla fyrir fyrirhugaðri bók og málþingi um arfleifð jafnaðarstefnunnar en það hafi staðið til í tilefni af áttræðisafmæli hans. Hann segir að hræða hafi átt fólk frá því að kaupa bókina eða fagna afmælinu með honum.
Hann segir enn fremur að allir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafi gagnrýnislaust slegist í för með „aðstandendum rógsherferðarinnar“. Hann segir að „herferðin“ hafi skilað tilætluðum árangri því málþingið hafi verið blásið af og útgáfu bókarinnar frestað um óákveðinn tíma. Jón Baldvin segir að á næstunni komi út bókin „Vörn fyrir æru – hvernig fámennur hópur öfgafeminista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur“ til að svara öllum ásökunum sem hafa komið fram frá nafngreindu fólki – þar sem hinar raunverulegu staðreyndir eigi eftir að koma fram.
„Þið eruð meiri hetjur en þið gerið ykkur grein fyrir“
Nokkrir einstaklingar innan Samfylkingarinnar vissu af bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar áður en þau voru gerð opinber. Í byrjun árs 2007 hafði Jón Baldvin verið skipaður í heiðurssæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar en í mars sama ár var Guðrúnu tilkynnt að Ríkissaksóknari hefði ákveðið að fella mál hennar gegn Jóni Baldvini niður.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, fékk vitneskju um bréfin og þar af leiðandi aðgang að þeim. Í kjölfarið boðaði hún Jón Baldvin til fundar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa þar sem Jóni Baldvini var tjáð að hann yrði fjarlægður af framboðslista flokksins.
Hún greindi frá því í stöðuuppfærslu inn á metoo-hópnum á Facebook að Jón Baldvin hefði brugðist illa við en hún sagði nauðsynlegt að halda þessu til haga í ljósi þess algjöra skorts á sómakennd sem Jón Baldvin hefði sýnt að undanförnu. Ingibjörg Sólrún lýkur færslu sinni á því að segja að Aldís Schram og Guðrún séu meiri hetjur en þær geri sér grein fyrir og hrósar um leið hinum konunum.
„Ég tek ofan fyrir þeim konum sem hafa ákveðið að taka slaginn við JBH og láta ekki undan síga þó að hann beiti öllum tiltækum vopnum sem finnast í vopnabúri hinnar eitruðu karlmennsku. Sérstaklega vil ég segja við Aldísi og Guðrúnu – þið eruð meiri hetjur en ég held þið gerið ykkur grein fyrir,“ segir hún í færslunni.
Telur sig hafa átt að taka málstað Guðrúnar
Í byrjun árs 2012 – rétt áður en viðtalið við Guðrúnu birtist í Nýju lífi – var Jón Baldvin leiðbeinandi á námskeiði Samfylkingarfélagsins í Reykjavík þar sem fjallaði var um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið en það var einungis opið flokksmönnum.
Kjartan Valgarðsson, þáverandi formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, sagði í samtali við Kjarnann í janúar síðastliðnum að vitneskjan um bréfin hefði komið fram á þriðja degi námskeiðsins og þá hefði einn dagur verið eftir. „Ég tel að við höfum tekið ranga ákvörðun, að láta hann klára námskeiðið. Ég sé það núna að ég hefði átt að taka málstað Guðrúnar,“ sagði hann.
Í frétt Stundarinnar um málið sagði Kjartan að hann hefði rætt málið við Jón Baldvin. „Hann var ekki ánægður, eins og þú getur ímyndað þér. Ég vildi bara láta hann vita að ég vissi af þessu og „confrontera“ hann með þetta. Auðvitað var það álitamál hvort það ætti að láta hann halda áfram eða ekki. Þetta varð hins vegar til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði sig úr Samfylkingarfélaginu í Reykjavík. Mér fannst vont að missa þessa miklu forystukonu úr félaginu.“
Segja má að áberandi viðsnúningur hafi átt sér stað síðan Guðrún steig fyrst opinberlega fram árið 2012. Það má bersýnilega sjá á viðbrögðum almennings á samfélagsmiðlum og í fréttaflutningi. Þannig hafa fleiri konur stigið fram og sagt frá reynslu sinni og upplifunum. Einnig hafa framámenn og konur, sem áður þögðu, komið fram og tekið afgerandi afstöðu sem ekki var algengt fyrir einungis nokkrum árum síðan.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“