Stuðningur samfélagsins lykillinn að vellíðan flóttafólks
Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa verið í brennidepli undanfarið og hefur Útlendingastofnun leitað á náðir sveitarfélaganna og biðlað til þeirra að gerður verði þjónustusamningur við þessa einstaklinga. Einungis þrjú sveitarfélög á landinu hafa gert slíka samninga en samkvæmt sérfræðingi hjá Rauða krossinum er eðlilegt að aðstoð við þennan hóp sé með sama hætti og við aðra hópa í þjóðfélaginu.
Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ.
Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að ekkert þeirra sveitarfélaga sem svarað hefur erindinu taldi sig að svo stöddu í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hafi þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins.
Auk Reykjanesbæjar hefur Reykjavíkurborg boðist til að kynna reynslu sína af verkefninu fyrir öðrum sveitarfélögum. Útlendingastofnun hyggst ræða það við dómsmálaráðuneytið hvernig best megi standa að slíkri kynningu fyrir önnur sveitarfélög en ekki er komin tímasetning á hana.
Á meðan þjónustusamningar Útlendingastofnunar við sveitarfélög ná ekki utan um þann fjölda umsækjenda um vernd sem staddur er hér á landi og á tilkall til þjónustu mun stofnunin sjálf veita þeim þjónustu sem umfram eru. Um þessar mundir þiggja um 590 umsækjendur um vernd þjónustu hér á landi, þar af eru samanlagt um 330 hjá sveitarfélögunum þremur og um 260 hjá Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun er nú með tvö búsetuúrræði fyrir umsækjendur um vernd í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, eitt á Grensásvegi í Reykjavík og tvö á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Samningarnir ná ekki utan um alla sem þurfa á þjónustu að halda
Engin opinber stefna er til hjá Útlendingastofnun um dreifingu umsækjenda milli sveitarfélaga eða um landið. Markmið stofnunarinnar er að búsetuúrræði séu að jafnaði rekin á vegum sveitarfélaga en stofnunin sinni fyrstu móttöku í einni komugátt.
Þrátt fyrir að þjónustusamningum við sveitarfélög hafi fjölgað á undanförnum árum og þeir verið stækkaðir – þannig að þeir nái til fleiri einstaklinga – þá hefur fjöldi umsækjenda um vernd verið slíkur á sama tíma að þjónustusamningarnir hafa ekki náð utan um alla sem hafa þurft á þjónustu að halda. Útlendingastofnun hefur því þurft að veita töluverðum fjölda umsækjenda þjónustu á undanförnum árum og bætt við og lokað búsetuúrræðum eftir þörfum.
800 umsóknir um vernd árið 2018
Útlendingastofnun afgreiddi 790 umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2018, samanborið við 976 afgreidd mál árið 2017. 406 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar en þar af voru 111 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. 152 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 70 mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki og 162 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.
Auk þeirra 160 einstaklinga sem hlutu alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum með ákvörðun Útlendingastofnunar fengu 35 alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, 41 einstaklingur fékk alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi sem aðstandandi flóttamanns og 53 einstaklingar komu hingað til lands og fengu alþjóðlega vernd í boði íslenskra stjórnvalda (kvótaflóttamenn). Samtals fengu því 289 einstaklingar alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2018. Umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2018 voru af 70 þjóðernum. Heildarfjöldi umsókna – sem var 800 – var lægri en árin tvö þar á undan en árið 2017 var hann 1096 og árið 2016 1133. Samkvæmt Útlendingastofnun var samsetning hópsins önnur og dreifing umsókna milli mánaða enn fremur jafnari en verið hefur.Fjölskyldur með börn í forgangi
Í Bæjarhrauni eru móttökuúrræði stofnunarinnar, eitt fyrir karla og annað fyrir konur og fjölskyldur en þar dvelja allir fyrst eftir komuna til landsins. Samkvæmt Útlendingastofnun er það forgangsatriði að fjölskyldur með börn fari sem fyrst í þjónustu hjá sveitarfélögunum.
Þar á eftir sé það viðmiðið að þeir umsækjendur fari í þjónustu hjá sveitarfélögunum sem fá efnislega meðferð umsóknar sinnar hér á landi því það séu þeir umsækjendur sem lengst þurfa að bíða eftir svari við umsókn sinni og þeir sem líklegastir eru til þess að fá jákvæða niðurstöðu.
Umsækjendur frá öruggum upprunaríkjum sem fá mál sín afgreidd í forgangsmeðferð og umsækjendur sem eru með mál sem afgreidd eru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar dvelji alla jafna í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar.
Skýr stefna að uppfylla þjónustusamninginn
Í fundargerð velferðarráðs Reykjanesbæjar frá 12. júní síðastliðnum kemur fram að bréfið frá Útlendingastofnun hafi verið lagt fram þar sem óskað hafi verið eftir því við sveitarfélög að auka við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en engin jákvæð svör hafi borist. Einnig hafi verið leitað að hentugu húsnæði á suðvesturhorninu. Stofnunin sé í viðræðum um húsnæði á Ásbrú sem væri þá viðbót við það sem fyrir er á svæðinu. Það þýði að 170 manns gætu verið í þjónustu Útlendingastofnunar á Ásbrú með möguleika á fjölgun í allt að 250 manns.
Þá segir í fundargerð velferðarráðsins að það hafi ekki legið á skoðunum sínum varðandi málefni einstaklinga sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Skýr stefna sveitarfélagsins sé sú að uppfylla þjónustusamning sem gerður hefur verið við Útlendingastofnun um að sinna þjónustu við fjölskyldur eða einstaklinga í viðkvæmri stöðu, allt að 70 manns, og gera það vel.
Útlendingastofnun skortir húsnæði
„Í þeirri þjónustu hefur tekist nokkuð vel að aðlaga einstaklinga að samfélaginu og veita stuðning í nærumhverfi á meðan einstaklingarnir bíða eftir úrlausn sinna mála. Á sama tíma hefur Útlendingastofnun skort húsnæði til að taka á móti fleiri einstaklingum og því þurft að leigja húsnæði meðal annars í Reykjanesbæ þar sem Útlendingastofnun sér um daglegan rekstur þar sem dvalið geta allt að 100 manns í einu. Þeir einstaklingar tengjast þjónustu sveitarfélagsins ekki á nokkurn hátt,“ segir í fundargerðinni.
Velferðarráði hugnast ekki sú hugmynd Útlendingastofnunar að stækka þjónustuhóp þeirra í sveitarfélaginu enn frekar og hefur áður leitað til stofnunarinnar og mælt með aðkomu fleiri sveitarfélaga. Mikilvægt sé að kynna vel fyrir öðrum sveitarfélögum hver samfélagslegi ávinningurinn er af því að sinna þessari þjónustu. Fulltrúar Reykjanesbæjar séu tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu.
„Þessir einstaklingar hafa gefið okkur mikið“
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Kjarnann að þau hafi átt von á þessari tilkynningu eftir að hafa verið í miklum samskiptum við Útlendingastofnun. Hún segir að mikilvægt sé að fleiri sveitarfélög komi að borðinu og geri þjónustusamninga við stofnunina. „Það er fyrst og fremst til að tryggja að hægt sé að mæta einstaklingunum í nærumhverfi þeirra og það gerum við með því að hafa dreifinguna betri. Þetta eru ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir.“
Hún telur að sveitarfélögin verði að sjá ávinning þess að gera slíka samninga en að hennar sögn er hann mikill bæði fyrir umsækjendurna sjálfa og samfélagið. „Þessir einstaklingar hafa nefnilega gefið okkur mikið.“
Halldóra veltir því fyrir sér hvort heppilegt sé að tugir, jafnvel hundruð, manna séu í einu eða tveimur húsum, eins og raunin er í Reykjanesbæ á vegum Útlendingastofnunar. „Með því að þjónusta minni hópa þá eru meiri líkur á að þörfum einstaklinganna sé mætt.“ Hún bendir á að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem búa í þessum tveimur húsum séu ekki hluti af þjónustusamingi við Reykjanesbæ og því geti þeir ekki leitað þjónustu til sveitarfélagsins.
Það er fyrst og fremst til að tryggja að hægt sé að mæta einstaklingunum í nærumhverfi þeirra og það gerum við með því að hafa dreifinguna betri. Þetta eru ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir.
Kröfur flóttafólks á Íslandi
Flóttafólk á Íslandi boðaði til sinna fyrstu mótmæla þann 13. febrúar síðastliðinn við Hallgrímskirkju en þaðan var gengið á Austurvöll en síðan þá hefur það staðið fyrir hinum ýmsu gjörningum til að vekja athygli á málstað sínum. Helstu kröfur þeirra voru meðal annars að ekki yrði fleirum vísað úr landi og að flóttafólk fengi sanngjarna málsmeðferð, auk þess að Dyflinnarreglugerðin og hinar einangruðu flóttamannabúðir á Ásbrú – eins og þau orðuðu það – yrðu lagðar niður.
Mikill samfélagslegur ávinningur
„Við fengum fulltrúa dómsmálaráðuneytisins til fundar við okkur og buðum fram krafta okkar til að móta skýrari stefnu. Okkur hefur gengið vel hér; við erum með margar fjölskyldur þar sem börnin ganga í skóla og leikskóla og við reynum að sinna þessari þjónustu eins vel og við getum,“ segir Halldóra og bætir því við að þau sjái mikinn samfélagslegan ávinning að hafa hælisleitendur í bænum. „Við lærum líka af þeim og það myndast vinátta og samkennd. Við græðum öll á þessu,“ segir hún.
Samkvæmt Halldóru hefur dómsmálaráðuneytið tekið vel í tillögur þeirra og vonast hún til að það muni leita til þeirra í náinni framtíð. „Við þurfum öll að huga betur að sálgæslu og þátttöku einstaklinga í samfélaginu. Það er alls ekki kvöð að sinna þessum málaflokki eða uppfylla þjónustusamninginn,“ segir hún.
Vel hefur tekist hjá Hafnarfjarðarbæ
Hafnarfjarðarbær er, eins og áður segir, eitt þriggja sveitarfélaga á landinu sem er með þjónustusamning við Útlendingastofnun. Í svari Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að sveitarfélagið hafi brugðist vel við erindum Útlendingastofnunar. „Sveitarfélagið hefur unnið vel að þessum málum og sinnt þeim af ábyrgð og metnaði,“ segir í svarinu.
Þá hafi Hafnarfjarðarbær enn fremur lagt áherslu á að fá fleiri sveitarfélög til að koma að þessari þjónustu og láta reyna á það áður en fleiri hælisleitendur yrðu settir í úrræði í Hafnarfjarðarbæ. Bærinn er með samning sem hljóðar upp á þjónustu við allt að 60 hælisleitendur og samkvæmt samskiptastjóra sveitarfélagsins hefur gengið vel að uppfylla þann samning.
Reykjavík fjölgar þeim sem borgin þjónustar
Borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Dagur B. Eggertsson, svaraði bréfi Útlendingastofnunar og var svarið lagt fram í borgarráði 9. maí síðastliðinn. Samningur velferðarsviðs við Útlendingastofnun var samþykktur í borgarráði þann 2. maí og er um að ræða fjölgun upp á 20 einstaklinga sem Reykjavík þjónustar á milli ára – úr 200 í 220.
Í bréfi borgarstjóra til Útlendingastofnunar segir að samkvæmt fréttum hafi borið á því að sveitarfélög skorist undan að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu. Það séu vonbrigði og býðst Reykjavíkurborg til að kynna reynslu sína af verkefninu fyrir hikandi eða neikvæðum sveitarfélögum, ef Útlendingastofnun óskar eftir. Sem fyrr sé Reykjavíkurborg einnig tilbúin til frekari viðræðna við Útlendingastofnun um aukna þjónustu fáist ekki nægilega mörg sveitarfélög til að veita slíka þjónustu.
Útiloka ekki að skoða málið síðar
Kjarninn sendi fyrirspurn til hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og bárust svör frá Garðabæ, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ.
Bæjarráð Garðabæjar fjallaði um bréf Útlendingastofnunar á fundi sínum þann 19. mars síðastliðinn og fól bæjarráð bæjarstjóra að ræða við forstjóra Útlendingastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá Garðabæ ræddi bæjarstjórinn, Gunnar Einarsson, nýverið við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, um erindið. Í samtali þeirra kom fram að Garðabær er sem stendur á fullu að undirbúa komu flóttafólks til Garðabæjar í haust en bæjarstjórnin samþykkti samhljóða á fundi sínum 6. júní síðastliðinn samning félagsmálaráðuneytisins og Garðabæjar um móttöku, aðstoð og þjónustu við hóp flóttafólks 2019 til 2021.
Í svarinu kemur enn fremur fram að viðbrögð bæjaryfirvalda hafi verið á þá veg að Garðabær vilji fyrst einbeita sér og gera vel í því verkefni sem framundan er að taka á móti þessum tíu flóttamönnum. „Á meðan á því stendur verður því ekki farið af stað með gerð þjónustusamnings við Útlendingastofnun vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd en ekki útilokað að hægt verði að skoða það síðar.“
Segja húsnæðisvanda hafa áhrif
Í svari Mosfellsbæjar kemur fram að bæjarráðið hafi orðið við beiðni félagsmálaráðuneytisins að taka í ár á móti tíu einstaklingum sem hafa stöðu flóttafólks samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Þá segir í svarinu að fjölgun íbúa í Mosfellsbæ undanfarið ár sé umtalsverð og samfara henni sé eðlilega aukin eftirspurn eftir þjónustu sem fjölskyldusvið hafi ekki farið varhluta af. Mosfellsbær hafi tekið á móti hópi flóttafólks fyrir ári og einu erfiðleikarnir við framkvæmd þess hafi falist í vanda við að útvega húsnæði fyrir fólkið. Húsnæðismarkaðurinn sé enn með þeim hætti að ætla megi að vandkvæðum væri bundið að finna viðeigandi húsnæði fyrir svo stóran hóp fólks.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti í því ljósi að gera að svo stöddu ekki þjónustusamning við Útlendingastofnun um að tryggja þjónustu við 40 til 50 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Afgreiðsla bæjarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar í apríl og Útlendingastofnun hefur verið upplýst um þá afgreiðslu.
Hafa ekki tök á að aðstoða Útlendingastofnun í þessu verkefni
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, svaraði bréfi Útlendingastofnunar í lok mars síðastliðins þar sem hún greindi frá því að erindið hefði verið tekið fyrir á bæjarráðsfundi sama dag. „Á þeim sama fundi samþykkti bæjarráð að taka á móti flóttafólki, sem hafa stöðu flóttafólks samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á næstu mánuðum,“ sagði í svari bæjarstjórans. „Við höfum því miður ekki tök á að aðstoða Útlendingastofnun í þessu verkefni samhliða því.“
Samkvæmt almannatengli Kópavogsbæjar var bréf Útlendingastofnunar lagt fram í bæjarráði og vísað þaðan til úrvinnslu hjá sviðsstjóra velferðarsviðs. Ekki hafi enn verið sent svar frá Kópavogsbæ til Útlendingastofnunar.
Æskilegast að sveitarfélögin annist umsækjendur
Samkvæmt svörum frá Rauða krossinum hefur stofnunin lengi bent á það að æskilegast sé að umönnun umsækjenda um alþjóðlega vernd sé í höndum sveitarfélaga enda sé félagsleg þjónusta byggð upp á nærþjónustu í landinu öllu og því eðlilegt að aðstoð við þennan hóp sé með sama hætti og við aðra hópa í þjóðfélaginu.
Þær félagsþjónustur sem hafa sinnt þjónustunni hingað til hafi gert það með mikilli prýði og ekki sé nein ástæða til að ætla annað en að ef fleiri sveitarfélög bætist í hópinn verði sami metnaður þar að leiðarljósi. Rauði krossinn telur því mjög jákvætt að fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd dveljist í umsjón sveitarfélaga á meðan á málsmeðferð stendur.
Það er nefnilega lykillinn að vellíðan að fólk fái upplýsingar, finni fyrir öryggi og fái nauðsynlega þjónustu eins og félagslegan stuðning og heilbrigðisþjónustu.
Ísabella Ósk Másdóttir, sérfræðingur á kynningarsviði Rauða krossins, segir að mikilvægast sé að þjónustan sé sambærileg óháð því hver veitir hana og því skipti í raun ekki máli í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Mismunur í þjónustustigi sé alltaf áskorun líkt og er núna þar sem þjónusta sveitarfélaganna er á mun breiðari grunni en þjónustan sem Útlendingastofnun veitir.
Ef aðgengi er skert getur fólki liðið verr
„Það hafa verið gerðar kannanir hjá Rauða krossinum sem gefa vísbendingar um að staðsetning geti haft áhrif á líðan fólks á meðan á málsmeðferð stendur. Það sem er lykilatriði þar, er aðgengið að þjónustu, þ.e. ef aðgengið er skert þá upplifir fólk staðsetningu mögulega sem einangrun og það hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggistilfinningu,“ segir Ísabella. En ef þjónustan er góð þá líði fólki eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Þau hjá Rauða krossinum sjái til að mynda að fólk sem býr hjá félags- og fjölskylduþjónustu Reykjanesbæjar kvarti ekki undan staðsetningu þar sem öll sú þjónusta sem þau þurfa sé í nærumhverfinu.
„Það er nefnilega lykillinn að vellíðan að fólk fái upplýsingar, finni fyrir öryggi og fái nauðsynlega þjónustu eins og félagslegan stuðning og heilbrigðisþjónustu,“ segir hún en bætir því við að ekki sé þó hlaupið að því að færa umsækjendur um alþjóðlega vernd of langt frá þeim stöðum þar sem málsmeðferðin fer fram á meðan á málsmeðferð stjórnvalda stendur því það skapi þessa raunverulegu fjarlægð sem sé ekki af hinu góða. Öðru máli gegni þegar fólk er komið með vernd og er að taka sín fyrstu skref út í samfélagið. Þá skipti staðsetningin ekki lengur höfuðmáli heldur nærsamfélagið og möguleikar sem fólk hefur til að taka þátt.
Fréttaskýringin birtist einnig í síðasta tölublaði Mannlífs.
Lesa meira
-
23. ágúst 2022Aldrei fleiri hælisleitendur yfir Ermarsundið á einum degi
-
26. júlí 2022Myndir af kynlífsathöfnum ekki krafa heldur örþrifaráð hinsegin hælisleitenda
-
25. júlí 2022Dómsmálaráðherra beiti agaviðurlögum vegna ummæla vararíkissaksóknara
-
9. júlí 2022„Ég get ekki skrifað undir minn eigin dauðadóm“
-
7. júlí 2022Voru „korteri frá brottflutningi“ en fá nú efnismeðferð
-
14. júní 2022Framkvæmd „illkvittnu“ laganna að hefjast: Fyrsta vélin á áætlun í kvöld
-
11. júní 2022„Þetta er álag á kerfið allt saman“
-
25. maí 2022„Íslensk stjórnvöld sjá mig ekki“
-
23. maí 2022„Þarf ekki meira en eitt pennastrik til að sýna aukna mannúð“
-
20. maí 2022Konur upplifi sig ekki öruggar á Ásbrú – og erfitt að koma óskum á framfæri