Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar kynnti þá greiningarvinnu sem farið hefur fram hjá neyðarstjórn Reykjavíkurborgar á borgarráðsfundi í fyrradag, en sérstök umræða var á fundinum um hættustig almannavarna vegna COVID-19 að beiðni borgarstjóra. Tilgangur greiningarvinnunnar er, samkvæmt Degi, undirbúningur fyrir þá áætlunargerð sem þarf til þess að bregðast við efnahags- og fjárhagslegum áhrifum af COVID-19.
„Þar er teymi undir forystu fjármálastjóra, Halldóru Káradóttur, og var það sett niður strax vegna þess að við vitum, þátt fyrir að við vitum ekki allt um faraldurinn, að bæði faraldurinn sjálfur og viðbrögðin við honum munu hafa víðtækar og neikvæðar efnahagslegar afleiðingar í för með sér um allan heim, ekki síst í samfélagi sem byggir eins mikið á ferðaþjónustu og hið íslenska. Það má eiginlega segja að fyrirséð sé að fyrstu áhrifin verða á ferðaþjónustuna og í tengdum greinum – en einnig geta verið áhrif af nauðsynlegum tímabundnum sóttvarnaraðgerðum. Þetta áfall á hagkerfið kemur inn í stöðu þar sem vart hefur orðið við kólnun, eins og við höfum rætt hér og ræddum í tengslum við fjárhagsáætlun seint á síðasta ári,“ sagði Dagur á fundinum.
Fram kom á glærum, sem borgarstjóri birti um leið og hann kynnti málið í borgarstjórn, að neyðarstjórnin hefði falið teyminu undir forystu fjármálastjóra að hefja nauðsynlega greiningu til að undirbúa ákvarðanir og áætlanagerð. Sérstakur starfshópur yrði enn fremur skipaður til þess að skipuleggja frekari viðbrögð Reykjavíkurborgar við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins á þeim grunni.
Uppfæra fjárhagsáætlun fyrir næstu 3 til 5 ár
Verkefni starfshópsins er að meta möguleg skammtíma- og langtíma efnahagsáhrif faraldursins á rekstur og fjárhag borgarinnar. Að lista upp og greina mögulegar mótvægisaðgerðir og að vinna efnahagslega viðbragðsáætlun. Þá mun starfshópurinn gera aðgerðaráætlun sem tryggir órofna þjónustu og starfsemi Reykjavíkurborgar.
Hópurinn mun jafnframt greina og meta áhrif aðgerða hins opinbera og leggja drög að viðbrögðum borgarinnar og gera áætlun um markaðsátak eftir að faraldrinum lýkur. Þá mun hann uppfæra fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næstu þrjú til fimm ár.
Dagur sagði að um faraldra af þessu tagi og nýjar veirur sem kynntar eru til sögunnar hefði verið sagt að það eina sem hægt er að slá föstu væri að það er óvissa. „Óvissa um hvernig hún er, hvernig hún þróast og hvort að þetta verði einn faraldur eða bylgjur og svo framvegis. Og þess vegna skiptir mjög miklu máli að binda sig ekki við einhverja eina spá eða álit einhverra, hversu vísir eða spakir þeir geta verið um að hlutirnir muni þróast í einhverja ákveðna eina átt, heldur verður að gera sér grein fyrir öllum þeim mögulegum sviðsmyndum sem munu koma upp varðandi áhrif á fjármál og efnahagsmál og öðrum þræði búa sig undir allt sem gæti gerst,“ sagði borgarstjórinn.
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur því hlutverki að gegna að samhæfa aðgerðir og grípa til neyðarráðstafana þegar neyðarástand skapast til að forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða.
Neyðarástand getur skapast þegar öryggi og innviðum samfélagsins er ógnað, svo sem vegna náttúruvár, þegar umhverfi og heilsu er ógnað og þegar tæknivá eða annars konar hættuástand skapast.
Á neyðarstigi er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu borgarinnar til að halda uppi nauðsynlegustu starfsemi. Borgarstjóri fer ásamt borgarráði með framkvæmdastjórn borgarinnar. Fagsvið, skrifstofur og fyrirtæki borgarinnar bera hvert í sínu lagi ábyrgð á þeirri þjónustu sem þau veita. Á neyðarstigi viðbragðsáætlana er neyðarstjórn borgarinnar virkjuð. Að öðru leyti helst stjórnskipulag borgarinnar óbreytt og ber hver stjórnandi ábyrgð á sínum starfsvettvangi/sinni starfsstöð samkvæmt hefðbundnu skipulagi.
Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar.
Heimildir: Reykjavíkurborg
Markmiðið ekki að „spá“ fyrir um rétta framtíð
Samkvæmt Degi var fyrsta verkefni teymis neyðarstjórnarinnar að teikna upp þessar sviðsmyndir til þess að gefa innsýn inn í hvernig hagkerfið gæti þróast á komandi misserum og hvaða áhrif það hefði á borgarsjóð. Markmið sviðsmyndanna væri ekki að „spá“ fyrir um rétta framtíð heldur að átta sig á því hvaða drifkraftar væru ráðandi og hvaða aðgerðir þyrfti að vera búið að grípa til.
Dagur benti á að þetta hefði borgin einnig gert í og eftir hrunið 2008.
„Það sem við vitum og á í raun við um allar sviðsmyndirnar sem við erum að gera er að það er ljóst að efnahagsleg áhrif af kórónu-faraldrinum verða veruleg. Hér var sagt að fólk gerði sér kannski ekki grein fyrir því hversu alvarlegt þetta yrði, hversu alvarlegt höggið fyrir efnahagslífið – og ég tek undir það. Það sem ég heyri innan úr atvinnulífinu varðandi uppsagnir og bráðaaðgerðir, það hve lausafé er að þorna fljótt upp hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustunni en líka fleirum, að það er af stærðargráðu sem við erum ekki alveg búin að ná utan um. En þetta er umtalsvert,“ sagði Dagur.
Hins vegar væri óljóst hversu langvinn þau áhrif yrðu. „Við vitum að þau verða mikil en hversu langvinn vitum við ekki.“
Reynsla af efnahagsáföllum í tengslum við farsóttir erlendis gæfi til kynna að snöggur viðsnúningur gæti vel átt sér stað en borgin þyrfti þó líka að vera viðbúin því að viðsnúningurinn tæki lengri tíma.
Verður að koma til móts við fólk í krappri stöðu
Dagur sagði enn fremur að samstaða skipti miklu máli og að í raun hefði borgin úr mjög sterkri stöðu að spila. „En hún verður auðvitað ekki sterk ef við spilum þessu úr höndunum á okkur. Þannig að við þurfum líka að gæta ábyrgðar og vera á traustum grunni. Það er það sem er óþægilegt í stöðunni; við vitum ekki allt um stöðuna í atvinnulífinu – það er verið að kortleggja það – þó við vitum grunnstærðirnar í fjármálum hins opinbera. Það sem við vitum hins vegar er að ríkisstjórn og Alþingi hafa verið einhuga um að grípa til afgerandi aðgerða til þess að fleyta atvinnulífinu í gegnum þetta. Það skiptir verulegu máli og það skiptir líka verulegu máli að koma til móts við fólk í krappri stöðu, bæði þá sem gætu misst vinnuna en líka hina sem geta orðið fyrir tekjufalli. Og síðan þessa fjölmörgu einyrkja og fólk sem treystir á í raun viðburði eða annað slíkt sem urðu fyrir þessu fyrsta höggi ásamt ferðaþjónustunni,“ sagði Dagur.
Hann telur einnig skipta miklu máli að þegar ástandið byrjar að batna að borgin verði tilbúin með áætlanir til þess að auka eftirspurn, hvort sem það sé í ferðaþjónustu eða á fjárfestingarhliðinni, í menningarlífinu eða borgarlífinu. „Þarna er borgin býsna sterk en svo er það hitt sem við fáum ekki um öllu ráðið – hvernig hlutir þróast í umheiminum. Hvort eftirspurnin braggast hratt í Evrópu, Ameríku eða öðrum helstu viðskiptalöndum. Við erum, sérstaklega þegar kemur að ferðaþjónustu, háð því líka. Þannig að hafi það einhvern tímann gilt þá gildir það líka sannarlega núna að heimurinn er á sama báti hvað þetta varðar og hvernig úr þessu spilast. En við þurfum að vinna heimavinnuna okkar og standa okkar vakt,“ sagði Dagur enn fremur.
Erum rétt að átta okkur á umfanginu
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, segir í samtali við Kjarnann að neyðarstjórn Reykjavíkurborgar sé búin að hittast daglega síðan fyrir þar síðustu helgi – og jafnvel tvisvar á dag.
Hún segir að neyðarstjórnin sé að skoða hvaða áhrif faraldurinn muni hafa á fólk, fyrirtæki og stofnanir í borginni. Farið verður yfir málið á borgarráðsfundi á morgun og segir Þórdís Lóa að mikilvægt sé að eiga samtal á dýptina. „Þetta er langt ferðalag sem við erum að fara í og erum við á fyrstu stigum þess að átta okkur á umfanginu. Eins og sóttvarnalæknir og yfirlögregluþjónn segja þá erum við í fyrsta fasa í þessu ferðalagi,“ segir hún.
Engar töfralausnir til staðar
Þórdís Lóa telur að í því sambandi séu engar töfralausnir við því ástandi sem upp er komið og framundan er. Hún segir enn fremur að það sé ágætis samstaða í borgarstjórn og að áherslan sé á að taka vel á þeim málefnum sem fyrir framan þau eru og að vinna hratt og vel.
„Mér finnst að allir í borgarstjórn ættu að sýna ábyrgð og vilja til að tala saman um málið af yfirvegun. Við ættum að fara að fordæmi sóttvarnalæknis og leyfa vísindunum og fræðunum að teyma okkur áfram. Við erum öll um borð í þessu skipi hvort sem við viljum það eða ekki. Við eigum því að berjast saman að halda því á floti,“ segir hún.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“