Að sjá muninn á því hvernig stjórnvöld hafa brugðust við faraldrinum er ótrúlegt. Mér fannst Ísland að mörgu leyti hafa brugðist við á góðan hátt en íslensk stjórnvöld byrjuðu fyrr með blaðamannafundi en hér. Upplýsingagjöf til almennings hefur verið mikið betri á Íslandi.“
Þetta segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, aðgerðasinni og formaður Trans Íslands, en hún býr í strandbænum Brighton í Bretlandi. Hún segir ástandið vera mjög einkennilegt þar í landi. Kjarninn sló á þráðinn til Uglu til að kanna hvernig hún upplifði stöðuna sem upp er komin vegna COVID-19 faraldursins samanborið við Ísland.
Ugla segir að þessi skortur á upplýsingagjöf hafi valdið mikilli hræðslu hjá fólki. „Fólk í Bretlandi fékk engar upplýsingar um hvað nákvæmlega væri í gangi, hvað það gæti gert og hvað myndi gerast. Þannig að það sem gerðist var að allir héldu að allt myndi klárast í búðum og þá byrjaði fólk að hamstra og hamstra – endalaust,“ segir hún.
Matvöruverslanir víða í Bretlandi eru nánast tómar, að hennar sögn – líka þær stærstu. „Fólk er jafnvel að bíða í marga klukkutíma fyrir opnun til þess að ná í ákveðnar vörur. Þannig að ástandið hér er rosalega skrítið,“ segir hún.
Stjórnvöld hafa ekki staðið sig
Ugla segir að fólk sé almennt mjög óttaslegið og það skiljanlega. „Stjórnvöld hafa ekki staðið sig í því að veita fólki upplýsingar og róa fólk. Og mynda þessa samstöðu og sameiningu sem er miklu meiri á Íslandi. Eða allavega eins og ég hef upplifað það.“
Sömuleiðis bendir hún á að blaðamannafundirnir á Íslandi séu leiddir af sérfræðingum; fólki sem veit um hvað það er að tala. Í Bretlandi sé þetta leitt af forsætisráðherra sem er ekki læknir og hefur ekki þá þekkingu sem þarf, þrátt fyrir að fá auðvitað upplýsingar frá sérfræðingum. Það sé ekki nóg.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi sjálfur frá því í síðustu viku á Twitter að hann væri með með kórónuveiruna. Hann er nú í sjálfskipaðri einangrun.
Ugla gagnrýnir Johnson og vinnubrögð hans. „Forsætisráðherra landsins getur ekki einu sinni sett fordæmi í því að passa sig og sjá til þess að fólk sé að fara eftir reglum og virða ákveðin mörk. Þá er ekki skrítið að almenningur hér viti ekki hvernig eigi að snúa sér í þessu,“ segir hún.
Erfitt ástand fyrir sjálfstætt starfandi
Varðandi áhrif á nánasta umhverfi Uglu þá segir hún að flestir sem hún þekkir séu sjálfstætt starfandi og að í Bretlandi sé ennþá ekki verið að aðstoða fólk nægilega mikið í slíkri aðstöðu.
„Mér finnst stjórnvöld hér ekki hafa hugsað til þess hvernig þetta ástand muni hafa áhrif á sjálfstætt starfandi fólk sem getur ekki unnið sína vinnu eða fær ekki verkefni – og nái þar af leiðandi ekki endum saman. Það er að vísu búið að opna fyrir ákveðnar bætur sem allir geta sótt um en þær eru mjög lágar og fólk getur ekki lifað af þeim til lengri tíma litið. Sömuleiðis er verið að segja að fólk geti ekki fengið bætur fyrr en í júní, þannig að hvernig á fólk að lifa fram að því þegar það er ekki lengur að fá innkomu eða verkefni?“ spyr hún.
Þá þurfi fólk að treysta á að fá lánaða peninga og það sé ekki ástand sem er ásættanlegt í krísu sem þessari.
Heilbrigðiskerfið ekki í stakk búið til að takast á við COVID-19
Þrátt fyrir að margir sem Ugla þekkir taki ástandinu alvarlega þá séu þó aðrir sem takist ekki á við það eins og best verður á kosið. „Sumir halda jafnvel áfram með lífið eins og ekkert sé í gangi, sem er auðvitað ekki í lagi. Svo mér finnst stjórnvöld ekki hafa sinnt sínu hlutverki í upplýsingagjöf eða gripið til aðgerða nægilega snemma. Ég tel að Bretland sé að stefna í það að verða eins og Ítalía og Spánn á þessum tímapunkti miðað við þessar aðstæður,“ segir hún.
Þá telur Ugla að heilbrigðiskerfið í Bretlandi sé ekki í stakk búið til að takast á við faraldurinn. „Heilbrigðiskerfið hér hefur verið fjársvelt mjög lengi og það hefur verið viðvarandi fjárskortur í því. Og þessi krísa sýnir fram á að það er allt of lítið fjármagn sett í heilbrigðiskerfið og það er engan veginn að halda utan um allan þennan fjölda fólks sem nú leitar sér þjónustu.“
Hún bendir á að heilbirgðisyfirvöld hafi þurft að leigja aðstöðu hjá einkasjúkrahúsum og borga sérstaklega fyrir það. „Mér finnst það rosalega skrítið við svona aðstæður, við ættum öll að vera í þessu saman og ætti þess vegna ekki að þurfa sérstaklega að borga fyrir slíka aðstöðu. Þetta ætti að vera sjálfsagt. Þannig að mér finnst þetta sýna okkur hvernig stjórnkerfið í Bretlandi er ekki í rauninni að virka. Og hvernig stjórnvöld hafa fjársvelt þessar stofnanir sem eru til staðar til að takast á við svona ástand. Stjórnvöld taka þessu einhvern veginn ekki alvarlega,“ bætir hún við. Í raun hafi stjórnvöld í Bretlandi brugðist almenningi að mörgu leyti.
Ætlar ekki að koma til Íslands eins og er
Íslensk stjórnvöld réðu Íslendingum frá ferðalögum og hvöttu Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför. Margir fóru eftir þeim tilmælum en þetta á ekki við um Uglu þar sem hún býr í Bretlandi með maka sínum og hefur ákveðið tengslanet þar í landi. „Það var eitthvað sem ég velti fyrir mér en ég á heimili hér og maka – við eigum gæludýr og makinn á fjölskyldu, svo það er annað en að segja það að fara aftur til Íslands. En auðvitað væri ég til í það ef það væri auðveldara.“ Hún segir að þess vegna hafi þau ákveðið að dvelja í Bretlandi eins og er og sjá hvað gerist.
Vegna þess að Ísland og Bretland eru innan Evrópska efnahagssvæðisins þá hafði hún rétt til að flytja þangað á sínum tíma og öðlaðist hún þau réttindi sem fylgja því að vera með breska kennitölu. Hún hefur þannig aðgengi að heilbrigðisþjónustu ef á þarf að halda í framtíðinni. „Ef ég hefði það ekki hefði ég hiklaust komið heim strax,“ segir hún.
Ekki allir átta sig á afleiðingunum
Ugla brýnir fyrir fólki að virða reglur og fara eftir þeim. „Því fleiri sem gera það því færri munu smitast og þá mun taka minni tíma að ná tökum á þessu ástandi,“ segir hún. Þá telur hún jafnframt marga í Bretlandi ekki gera sér grein fyrir því hversu lengi þetta ástand muni vara.
„Það upplifi ég mikið hér, að fólk áttar sig ekki á afleiðingunum. Þó svo að þetta hafi ekki áhrif persónulega á fólk – þannig – þá mun þetta samt hafa langvarandi áhrif á alla og suma mjög verr en aðra,“ segir hún. Svona ástand komi auðvitað verst niður á öryrkum, flóttafólki, fötluðu fólki, eldra fólki og langveikum og þess vegna sé ótrúlega mikilvægt að við hin sýnum ábyrgð og gerum okkar besta til að stöðva útbreiðsluna.
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“