Fordómar leynast víða í íslensku samfélagi
Íslenskt samfélag er oft mært fyrir að vera opið og fordómalítið – jafnréttissinnað og umburðarlynt. Þetta er þó ekki alveg svo einfalt og erfitt getur reynst að komast inn í íslenskt samfélag eins og mörg dæmi sýna. Kjarninn spjallaði við konu af erlendum uppruna sem segir farir sínar ekki sléttar þrátt fyrir að vera í forréttindastöðu.
Berenice Barrios Quiñones hefur búið á Íslandi í sex ár en nú stendur hún á tímamótum. Hún er að breyta til og skipta um starf – fara frá Origo yfir til Advania – en hún hefur unnið heiman frá eins og svo margir aðrir í samfélaginu undanfarna mánuði.
En þrátt fyrir að vera tæknimenntuð og með B.A.-gráðu í markaðsfræði þá átti hún í miklum erfiðleikum með að finna starf við sitt hæfi þegar hún kom fyrst hingað til lands – og einungis vegna þess að hún er ekki Íslendingur. Kjarninn ræddi við Berenice til fá innsýn inn í veruleika hennar sem kona af erlendum uppruna og reynsluheim.
Rannsóknir sýna að konur af erlendum uppruna hafa oft haft lítinn aðgang að íslensku samfélagi og að erfitt geti verið fyrir þær að kynnast innlendu fólki. Jafnframt geta þær síður nýtt menntun sína í störfum á Íslandi en karlar af erlendum uppruna og innlendir einstaklingar. Rannsóknirnar hafa jafnframt sýnt að jafnvel þær konur sem eru í störfum þar sem þær geta nýtt sérþekkingu sína upplifa oft neikvæð viðhorf sem hafa meðal annars áhrif á framgang þeirra í starfi.
Berenice getur vissulega samsamað sig við þessar rannsóknir enda hefur hún upplifað ýmislegt frá því hún flutti hingað til lands. Hún telur þó sjálfa sig tilheyra forréttindahóp þar sem hún er gift íslenskum manni og á þar af leiðandi auðveldara með að komast inn í samfélagið að einhverju leyti.
Fékk áhuga á Microsoft
Berenice er fædd í Mexíkóborg, höfuðborg Mexíkó, en fluttist með foreldrum sínum í bæ í suðurhluta landsins fimm ára gömul. Þar átti hún góð uppvaxtarár – nálægt skógi og í námunda við á eina. Hún lýsir þessum árum glöð í bragði og segir hún að barnæska hennar hafi verið yndisleg.
Þegar hún varð tvítug flutti hún aftur til Mexíkóborgar. Hún er tæknimenntuð og byrjaði í verkfræðinámi á þessum tíma – en sá fljótt að hana langaði í annað nám. Hún ákvað að fara í markaðsfræði sem hún kláraði síðan í háskólanum þar í borg. Hún segist hafa lagt áherslu í námi sínu á tækni enda hafi bakgrunnur hennar legið þar.
Þegar hún var í háskólanum byrjaði hún að vinna hjá bandarísku tæknifyrirtæki og þar kviknaði áhuginn á hugbúnaði Microsoft. „Þar öðlaðist ég reynslu af að selja fyrir Microsoft og varð mjög góð í því. Og síðar fór ég að vinna fyrir fyrirtækið sjálft en þar var ég í fimm ár,“ segir hún.
Hitti myndarlegan ljóshærðan mann
Berenice náði fljótt að vinna sig upp sem yfirmaður hjá stórum Microsoft samstarfsaðila í Mexíkóborg og segir hún að henni hafi gengið mjög vel í starfi á þessum tíma.
Örlögin gripu þó í taumana og hitti hún eiginmann sinn, sem er íslenskur, á ráðstefnu í Houston í Bandaríkjunum þar hún var verðlaunuð fyrir störf sín fyrir Microsoft. „Yfirmaður minn fór með mér út um kvöldið, vegna þess að ég hafði unnið til þessara verðlauna og við vildum halda upp á það, og fórum í Windows og Office-partý. Á milli tveggja manneskja sá ég þennan ljóshærða, hávaxna, myndarlega mann,“ segir hún og hlær. Seinna um kvöldið rakst hún aftur á manninn og kom þá í ljós að hann væri íslenskur og töluðu þau saman allt kvöldið. Upp frá því hófst samband þeirra og sex mánuðum síðar giftust þau.
Treglega gekk að fá vinnu
Árið 2014 flutti Berenice til Íslands með son sinn úr fyrra sambandi og hefur hún því búið hér á landi í tæplega sex ár. Hún segir að ekki hafi verið heiglum hent að fá vinnu á þessum tíma.
„Það tók mig eitt ár að fá vinnu hér á Íslandi eftir að ég flutti. Ég fór í mörg atvinnuviðtöl en ég held að tvennt hafi spilaði þarna inn í. Í fyrsta lagi að þrátt fyrir að við hefðum gift okkur í febrúar þetta ár þá fór það ekki í gegnum kerfið fyrr en í maí og ég fékk ekki aðsetur hér á landi fyrr en í janúar árið eftir. Í öðru lagi lenti ég í því að þeir sem tóku atvinnuviðtal við mig þóttu ég hafa of mikla reynslu og vera of hæf í mörg störf,“ segir hún og bætir því við að henni hafi staðið á sama um að vera talin of hæf í störf, hún hafi einungis viljað fá vinnu. Hún hafi verið tilbúin að vinna sig upp í fyrirtæki og sanna sig – en til þess hafi hún þurft tækifæri.
Að lokum var hún ráðin til Origo en Berenice segir að hún hafi einungis fengið atvinnuviðtal vegna þess að vinur eiginmanns hennar mælti með henni þar. Þannig hafi hún náð að koma „fæti inn“ og þegar hún fór í atvinnuviðtalið þá hafi þeim litist mjög vel á hana og ráðið hana.
Erfitt ferli að brjóta glerþakið
Rúmu hálfu ári eftir að Berenice byrjaði í vinnunni fékk hún meira frelsi til að sinna sínum störfum og segir hún að á einungis átta mánuðum hafi hún stuðlað að því að gera Nýherja að Microsoft-samstarfsaðila ársins 2016. Viðurkenninguna hlaut fyrirtækið fyrir nýsköpun í þróun og sölu Microsoft lausna og innleiðingu þeirra hjá viðskiptavinum.
Sama ár eignaðist hún sitt annað barn og tók hún hefðbundið fæðingarorlof. Hún segir að launin hafi hækkað með árunum en þó hafi hún alltaf verið með lægri laun en eiginmaður sinn sem starfar í sama geira. „Launin mín voru alltaf lægri fyrir nákvæmlega sömu vinnu.“
Berenice segir að þetta ferli hafi tekið mikið á og verið erfitt. „Það hefur verið mjög erfitt að komast í gegnum glerþakið svokallaða. Ég get rétt ímyndað mér hvernig það er fyrir aðra útlendinga í öðrum geirum að komast inn á vinnumarkaðinn sem ekki eiga íslenskan maka sem getur hjálpað til. Það eru margar erlendar konur á Íslandi vel menntaðar með mikla reynslu sem eiga erfitt með að nýta hana hér.“
Hún segir að hún hafi nú ekki kallað allt ömmu sína þar sem Mexíkó sé mjög karlmiðað land þar sem konur geta átt erfitt uppdráttar. „Í einhverjum skilningi þarftu að verða þessi klassíska „tík“ til að hlustað verði á þig. Þú veist, til að öðlast virðingu. Fólk á það líka til að rugla brosandi almennilegri manneskju saman við einhverja sem ekki er alvara. Þetta þótti mér alltaf erfitt og það tók mig mörg ár að sanna mig í starfi en mér tókst það að lokum með því að biðja yfirmann minn um raunverulegt tækifæri til að gera það. Það tók mig mörg ár að öðlast það sjálfsöryggi sem þurfti til að taka mér þetta pláss. Við konur eigum það til að efast um okkur sjálfar,“ segir hún.
Eins og að vinna í lottói að vinna með góðu fólki
Berenice segir að það sé eins og að vinna í lottói að finna fólk sem sé tilbúið að taka áhættu og vera með opinn hug gagnvart hinum ýmsu möguleikum. „Það gerðist hjá Origo en yfirmaður minn þar gaf mér tækifæri þrátt fyrir að ég væri af erlendum uppruna og talaði ekki íslensku. Ég hafði þá reynslu sem þurfti á þessum tíma til að gera ákveðna hluti í fyrirtækinu,“ segir hún og bætir því við að sá yfirmaður hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að hækka laun hennar og veitt henni þann stuðning sem hún átti skilið hjá fyrirtækinu.
Nú er Berenice komin til Advania, eins og áður segir, en þar mun hún sinna starfi deildarstjóra Microsoft-sölu og stefnumörkunar. Þetta er splúnkuný deild búin til með það að sjónarmiði að gera heildstæða stefnu þvert á fyrirtækið þegar kemur að Microsoft. Hún segist vera þakklát fyrir það traust sem henni er sýnt. „Ég er svo ánægð að þau hafi tekið þessa djörfu ákvörðun að ráða mig vegna hæfileika minna og reynslu. Ég mun verða yfirmaður tveggja kvenna í mínu teymi,“ segir hún. Nú séu nýir tímar framundan þar sem nýjum aðferðum verði beitt.
Þegar Berenice byrjaði að vinna hér á landi var hún nánast eina konan sem sinnti þessu starfi en segir hún að þetta hafi breyst til muna.
„Mér hefur verið sagt hér á Íslandi að það yrði erfitt fyrir mig að fá yfirmannsstöðu vegna þess að ég er af erlendum uppruna og vegna þess að ég tala ekki tungumálið. Og einnig vegna þess að ég er kona,“ segir Berenice. Þannig hefur íslenskan verið ákveðið vandamál fyrir hana en þó ekki beinlínis í starfi þar sem enskan er iðulega notuð í tækniheiminum.
Þurfa að lifa við óviðeigandi brandara og athugasemdir
Það versta við það að vera útlendingur á vinnumarkaði hér á landi er að sögn Berenice þessir lúmsku fordómar. Þeir lýsa sér í óviðeigandi bröndurum og athugasemdum. Hún segir að brandarar um „vegginn“ hafi til að mynda ekki fallið í góðan jarðveg hjá henni enda hafi sonur hennar, sem er á unglingsaldri, orðið fyrir áreiti fyrir að vera frá Mexíkó. Þar hefði fólk verið að vísa í vegginn sem Bandaríkjaforseti ætlar að byggja milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Hún bað vinnufélaga sína um að hætta að segja óviðeigandi brandara um þessi málefni og urðu þeir við þeirri bón.
„Þetta er eitthvað sem við þurfum að lifa við á hverjum einasta degi,“ segir hún.
Berenice rifjar upp atvik þar sem hún varð fyrir fordómum hér á landi en það var fyrir um ári síðan þegar hún fór með fjölskyldunni í bakarí í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði. Eiginmaður hennar og eldri sonur brugðu sér frá og var hún ein með yngri syninum þegar gömul kona fór til hins stutta og spurði hann hvar móðir hans væri og hvort það væri í lagi með hann – en þá var hann tveggja og hálfs árs gamall. Litli er líkur föður sínum og segir Berenice að konan hafi efast um að hann væri sonur hennar vegna litarháttar hennar.
Atvik sem þessi segir Berenice særa sig enda sé um að ræða fordóma sem séu rótgrónir í samfélaginu. Þetta sé einungis eitt lítið dæmi af fjölmörgum. „Mér leið mjög illa eftir þetta atvik. Að fólk haldi að ég ræni barni einungis vegna þess að ég lít ekki út eins og það er hræðilegt.“
Langar stundum að flytja í burtu
Berenice segir að þótt þetta atvik hafi verið slæmt þá særi það hana meira þegar fólk sem hún vinnur með eða þekkir hana sýni fordóma, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Öll þessi litlu atvik safnast saman eins og droparnir sem hola steininn, segir hún.
Þá komi iðulega fyrir að hún fái slæma afgreiðslu í búðum og á veitingastöðum vegna þess að hún lítur ekki út fyrir að vera íslensk. „Ég er stundum svo þreytt á þessu. Maðurinn minn segir þá við mig að ég sé sterk kona sem ráði við þetta og ég er sammála því – en þrátt fyrir það þá langar mig svona einu sinni til tvisvar á ári að flytja í burtu. Þá hugsa ég með mér: Hvað er ég eiginlega að gera hér?“
Berenice hefur nú dvalið á Íslandi í sex ár og þegar hún er spurð út í það hvort henni finnist að eitthvað hafi breyst á þessum tíma varðandi fordóma eða þá upplifun að vera útlendingur í íslensku samfélagi þá svarar hún um hæl: „Nei, ég hef ekki orðið vör við mikla breytingu.“
Auðvitað séu ekki allir Íslendingar fordómafullir og bendir hún á að margir hópar innan samfélagsins vinni að því að skapa betra aðstæður fyrir útlendinga. En hvað sem því líður þá sé samt eitt aðalverkefnið að komast yfir tungumálaörðugleikana. Hún segir að mikilvægt sé í fjölmenningarsamfélagi að hafa upplýsingar aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku. „Ef upplýsingar eru einungis á íslensku þá er verið að segja að útlendingar séu ekki velkomnir til landsins eða partur af samfélaginu. Ég hef þurft að láta í mér heyra varðandi þetta á vinnustaðnum mínum og berjast fyrir því að fá fundi á ensku líka.“ Hún bendir á að margir ef erlendu bergi brotin búi og starfi á Íslandi og að ef þetta fólk fái ekki sömu upplýsingar og þeir innlendu sé því haldið frá því að vera hluti af hópnum.
„Ég er samt stolt af því að segja að margt hefur breyst á gamla vinnustaðnum mínum, Origo, síðan ég byrjaði vegna þess að ég lét í mér heyra. Núna eru allar tilkynningar einnig á ensku,“ segir hún. Það erfiða sé þegar ekki er hlustað á fólk af erlendum uppruna, það fái ekki sömu tækifæri og aðrir og sé skilið útundan.
Konur af erlendum uppruna mæta iðulega hindrunum
Eins og áður segir þekkir Berenice vel til þess að búa í karlmiðuðu samfélagi en hún lýsir Mexíkó einmitt þannig. Hún segir að almennt séð sé Ísland lengra komið í jafnréttisbaráttunni.
Helsta vandamálið sem hún segist rekast á er að hún er dekkri á hörund en Íslendingar. Hún vísar í tiltölulega nýútkomna skýrslu eftir Unni Dís Skaptadóttur og Kristínu Loftsdóttur, prófessora í mannfræði við HÍ. Kjarninn fjallaði um skýrsluna þegar hún kom út í febrúar síðastliðnum en þar kemur fram að huga þurfi betur að ákveðnum þáttum til að bæta stöðu kvenna af erlendum uppruna.
Erlendar konur mæta, samkvæmt skýrslunni, ákveðnum hindrunum gegn því að fá verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, meðal annars varðandi það að læra íslensku og að fá menntun sína metna. Ólíkir hópar kvenna af erlendum uppruna verða jafnframt fyrir fordómum og verða margar hverjar fyrir mismunun á ýmsum sviðum, svo sem á vinnumarkaði og á húsnæðismarkaði.
Berenice segir að þegar hún var atvinnulaus og að leita sér að vinnu hafi hún fundið fyrir því viðhorfi að hún ætti að fara að vinna við þrif eða á leikskóla þrátt fyrir menntun og reynslu. Hún hafi aftur á móti ekki haft nokkurn áhuga á því og þrátt fyrir að hægt sé að hlæja að einkennilegum athugasemdum og ábendingum þá sé erfitt að takast á við þessi viðhorf. Þarna sjái hún mun á Mexíkó og Íslandi en hún segir að útlendingar séu mun meira velkomnir þar en hér.
Öryggið það sem heldur í
Þrátt fyrir að hugsa stundum um að flytja í burtu þá líður fjölskyldunni vel hér. „Við værum alveg til í að flytja til Mexíkó en þegar ég hugsa um börnin mín þá hætti ég við. Ég get ekki bara hugsað um hvað henti mér best heldur hvað henti þeim best. Ég þarf að hugsa sem móðir og það er það flókna í stöðunni. Ef ég væri að hugsa um starfsframa minn þá væri ég þegar flutt og í frábæru starfi með góð laun. Mér gekk mjög vel í Mexíkó á sínum tíma sem einstæð móðir en þetta snýst ekki um það. Ég verð að taka ákvarðanir út frá öðru vegna þess að ég er móðir. Ég verð að hugsa um þeirra velferð, öryggi og heilsu. Það heldur okkur hér á landi,“ segir hún og bætir við glettin að ekki skemmi fyrir að Ísland sé gullfallegt.
Eins og Berenice segir þá spilar öryggið á Íslandi stóra rullu í því að fjölskyldan búi hér enn. Eldri sonur hennar er næstum því fjórtán ára gamall og segir hún að hann kunni mjög vel við það að búa á Íslandi. Hann hafi einu sinni orðað það þannig við hana: „Ég vil ekki glata frelsinu, mamma.“ Hún segir það hafa verið ákveðið áfall fyrir hana að heyra þessi orð – og að hún fái enn gæsahúð við tilhugsunina. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu mikil breyting þetta væri fyrir hann. Þannig er nefnilega mál með vexti að börn á því svæði sem hún bjó fara aldrei út einsömul. Þau eru til að mynda, að hennar sögn, alltaf keyrð á milli staða.
Fólk af erlendum uppruna þarf tækifæri til að taka þátt í samfélaginu
Þegar Berenice er spurð út í það hvað stjórnvöld ættu að gera til að bæta líf fólks af erlendum uppruna þá stendur ekki á svörum. Í fyrsta lagi ættu stjórnmálamenn að eiga meira samtal við erlent fólk sem býr hér og vera vissir um að sem flestir skilji þá. Hún segir að auðvitað eigi allir að læra íslensku en það sé erfitt fyrir marga. Allir reyni þó sitt besta. En á meðan þurfi að ná til þessa fólks og þá þurfi fleiri tungumál en íslenskuna.
Í öðru lagi eigi að gefa útlendingum tækifæri til að taka meira þátt í samfélaginu með ýmsum hætti. Og það mikilvægasta af öllu, að mati Berenice, er að vera almennilegur og hlýlegur við náungann – hægt sé að komast langt á því; að heilsa, að muna nöfn og almennt að viðurkenna tilvist allra í kring.
„Þarna skiptir jafnrétti máli. Hvernig kemur þú fram við fólkið í kringum þig? Er svo erfitt að muna hvað það heitir eða að bera virðingu fyrir því?“ spyr Berenice.
Þetta verður að vera skýrt: Engin mismunun
Jafnframt finnst henni áríðandi að stjórnendur fyrirtækja hér á landi gefi út sérstaka yfirlýsingu til þess að útskýra og greina frá gildum þeirra. Mikilvægt sé að stefna þeirra sé skýr: Að þau sætti sig ekki við rasisma eða fordóma – eða hvers kyns mismunun. Ennfremur þurfi að vera einlægur ásetningur að ráða fólk af mismunandi uppruna til að auka fjölbreytni í fyrirtækjum – og ekki einungis á borði heldur líka í orði. Forsvarsmenn fyrirtækja þurfi að vera hugrakkir.
Þá bendir hún á mannauðsstjórar í íslenskum fyrirtækjum geti tekið sérstakt próf á netinu sem mælir ákveðna fordóma eða slagsíðu hjá þeim. Þá sé allavega hægt að viðurkenna vandann þrátt fyrir að hann sé oft lúmskur og erfitt sé að koma auga á hann.
„Kannski losnum við aldrei við þessa slagsíðu í ákveðnum aðstæðum en þá er fólk allavega meðvitað um þetta. Þá er hægt að taka með í reikninginn þessa ómeðvituðu fordóma,“ segir hún.
Telur sig heppna
Berenice vill taka það enn og aftur fram að hún sé í ákveðnum forréttindahóp hér á Íslandi – hún eigi íslenskan mann sem auðveldi henni að komast inn í samfélagið. Margar aðrar konur af erlendum uppruna búsettar á Íslandi eigi erfitt uppdráttar í samfélaginu. Hún sé jafnframt heppin að geta unnið við það sem hún er menntuð til og með reynslu í.
Dæmin sýna að erlendar konur fá ekki vinnu við sitt hæfi vegna þess að menntun þeirra er ekki tekin til greina – og þurfa þær því oft og tíðum að vinna við láglaunastörf. „En ef ég get látið rödd mína heyrast fyrir þær allar og tjáð mig um þessi óþægilegu mál þá er það þess virði. Og ég mun gera það fyrir mig og fyrir þær,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi