Ríkisstjórnin sem vill halda áfram, en mun mögulega ekki geta það
Stjórnmálaflokkarnir vega nú og meta hvenær þeir eru líklegir til að hámarka árangur sinn í kosningum. Og eru fyrir nokkuð löngu síðan farnir að máta sig í næstu ríkisstjórn. Þar virðast, eins og er, aðallega vera tveir skýrir valkostir á borðinu, þótt pólitíkin sé ólíkindatól og geti breyst hratt. Kjarninn skoðaði stöðuna eins og hún lítur út í dag og birtir niðurstöðuna í tveimur fréttaskýringum. Þessi er sú fyrri.
Frá árinu 2007 hefur það gerst einu sinni að ríkisstjórn á Íslandi hefur setið heilt kjörtímabil. Sú tók við völdum 2009, fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin, og skilaði sér yfir endalínuna 2013 sem minnihlutastjórn.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var fyrst mynduð í febrúar 2009 sem minnihlutastjórn, er líka eina ríkisstjórn eftirhrunsáranna sem hefur tekist að bæta við sig fylgi í næstu kosningum eftir að hún var mynduð. Þær fóru reyndar fram tæpum þremur mánuðum eftir að ríkisstjórnin varð til í febrúar 2009. Í næstu kosningum á eftir upplifðu Samfylkingin og Vinstri græn mesta afhroð sem ríkisstjórn í lýðveldissögunni hefur orðið fyrir, þegar rúmlega helmingur fylgis þeirra leitaði annað.
Því hafa allar ríkisstjórnir sem myndaðar hafa verið frá 2009 fallið í næstu kosningum á eftir.
Leikjafræði vegna COVID-áhrifa
Yfirstandandi kjörtímabili lýkur á næsta ári. Óljóst er á þessari stundu hvort kosið verði að vori eða hausti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við Kjarnann í síðasta mánuði að hún væri ekkert farin að hugsa út í dagsetningar í þeim efnum en að fyrir lægi loforð um samtal um það á vettvangi Alþingis í sumar. Allir stjórnmálaflokkar sem ætla sér áframhaldi tilveru á Alþingi ættu því að vera með skýra hugmynd um hvenær næst verði kosið þegar næsti þingvetur hefst. Og samhliða mun upptaktur að kosningabaráttu hefjast.
Aðstæður hérlendis, og um allan heim, hafa breyst hratt vegna heimsfaraldursins sem nú geisar. Á örfáum vikum hefur efnahagslegu ástandi Íslands verið snúið á haus, atvinnuleysi bætt öll fyrri met og allt stefnir í mörg hundruð milljarða króna halla á rekstri ríkissjóð á næstu tveimur árum. Áhrifin af áfallinu eru þegar komin fram að einhverju leyti, en munu koma frekar fram að fullum krafti þegar líður á árið og uppsagnarfrestir renna út með tilheyrandi skerðingu á ráðstöfunartekjum mörg þúsund fjölskyldna.
Slæmt efnahagsástand vinnur sjaldnast með sitjandi stjórnvöldum í kosningum. Fyrir sitjandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins eru því krefjandi tímar framundan.
Allir stjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi
Í könnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið, og birt var seint í júní, var staðan þannig að allir stjórnarflokkarnir hafa þegar tapað fylgi frá því í kosningunum 2017, þegar þeir fengu 52,9 prósent atkvæða. Þeir mældust þar með samanlagt 41,8 prósent fylgi, sem myndi ekki duga til að mynda meirihluta jafnvel þótt að hátt í tíu prósent atkvæða myndu falla niður dauð.
Samkvæmt könnuninni hafa flokkarnir þrír samanlagt tapað rúmlega fimmtungi af fylgi sínu það sem af er kjörtímabili. Í síðustu könnun Gallup mældist sameiginlegt fylgi þeirra ívið hærra en hjá Zenter, eða 46,2 prósent en minna, 41,5 prósent, hjá MMR.
Sjálfstæðisflokkur kemur best út úr óvenjulegu samstarfi
Allar kannanir nú gefa það til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá ríkisstjórnarflokkur sem geti best við unað eftir næstum þriggja ára samstarf. Fylgi hans mælist á bilinu 23,1 til 24,3 prósent í nýjustu könnunum ofangreindra þriggja könnunarfyrirtækja, en flokkurinn fékk 25,3 prósent í síðustu kosningum. Hann hefur einungis einu sinni náð því að fara yfir það fylgi í könnunum Gallup á yfirstandandi kjörtímabili, í október 2018, og skaust upp yfir 27 prósent hjá MMR í fyrstu könnun eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á, en seig fljótt aftur niður á þær slóðir sem hann hefur að mestu verið á kjörtímabilinu. Um tíma mældist fylgið undir 20 prósent, sem er nánast einsdæmi í sögu flokksins.
Það virðist vera nokkuð sterk fylgni milli fylgisþróunar hjá Sjálfstæðisflokknum annars vegar og Miðflokknum hins vegar. Þegar Miðflokkurinn bætir við sig, þá dregst fylgi Sjálfstæðisflokksins saman, og öfugt. Miðflokkurinn virðist tala skýrt til íhaldssama og þjóðernislega arms Sjálfstæðisflokksins. Það sást til að mynda vel á greiningum sem Kjarninn gerði úr gögnum MMR seint á síðasta ári þar sem kom fram að Miðflokkurinn virtist ná vel til fyrrverandi kjósenda Sjálfstæðisflokks í eldri aldurshópum og á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni.
Breytt afstaða Morgunblaðsins
Þessi staða birtist líka í auknu fylgislagi Morgunblaðsins, sem áratugum saman hefur gengið að mestu í takti við Sjálfstæðisflokkinn, við Miðflokkinn og hans áherslur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við Mannlíf seint í maí að sumt af því sem lögð sé áhersla á í Morgunblaðinu komi honum á óvart. „Mér finnst Morgunblaðið heilt yfir almennt vera að tala fyrir til dæmis efnahagsstefnu sem er líkleg til árangurs en mér finnst alveg hafa verið dæmi um áherslur í blaðinu sem ég finn ekki samleið með.“ Ekki væru mikil samskipti milli hans og Davíðs Oddssonar, ritstjóra blaðsins og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn í ritstjórnargreinum hefur aukist verulega á undanförnum árum.
Skýrasta dæmið um þetta birtist í Reykjavíkurbréfi sem birt var í júní í fyrra. Þar skrifaði Davíð, í bréfi þar sem umfjöllunarefnið var að uppistöðu Sjálfstæðisflokkurinn, meint fjarlægð hans frá kjósendum sínum og þriðji orkupakkinn, að Morgunblaðið væri „borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Þetta rof á sambandi flokks og blaðs hefur einnig birtist í hina áttina. Það vakti til að mynda mikla athygli í maí í fyrra, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð 90 ára, að formaður hans ákvað að birta afmælisgrein í Fréttablaðinu ekki Morgunblaðinu. Sú ákvörðun þótti senda skýr skilaboð um hvernig formaðurinn teldi samband flokksins við gamla málgagnið standa.
Ekki margir slóðar að völdum í boði
Ef niðurstaða kannana kæmi upp úr kjörkössunum gæti vel farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn fengi sína verstu niðurstöðu í kosningum frá upphafi, og fengið minna en í vorkosningunum 2009, þegar 23,7 prósent landsmanna kusu flokkinn í fyrstu kosningum eftir hrunið.
Vert er þó að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft tilhneigingu til að fá meira fylgi þegar talið er upp úr kjörkössunum en í mörgum síðustu könnunum sem birtar hafa verið fyrir kosningar hafa bent til á undanförnum árum.
Þótt Bjarni Benediktsson, sem hefur verið formaður flokksins frá árinu 2009, hafi ekki staðfest að hann verði áfram í framboði til formanns á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í nóvember næstkomandi þá bendir allt til þess að svo verði.
Bjarni sagði til að mynda í viðtali í Silfrinu seint í febrúar, skömmu áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á Íslandi, að hann langaði til þess að halda áfram. „Hvað getur verið meira spennandi í lífinu en að fást við það að móta framtíð lands og þjóðar og vera að leggja á borðið tillögur? Ég get ekki séð neitt annað sem gæti verið merkilegra og skemmtilegra að gera.“
Bjarni er í þriðja sæti yfir þá formenn Sjálfstæðisflokksins sem setið hafa lengst.
Frekari breytingar á framlínu flokksins, sérstaklega með kosningu Þordísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í varaformannsembætti, og með auknum framgangi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem varð ráðherra í fyrra tæplega 29 ára gömul, virðist ekki vera að skila auknu fylgi hjá yngri eða frjálslyndari kjósendum, en þær spila báðar til að mynda mun umfangsmeiri samfélagsmiðlaleik en flestir kollegar þeirra.
Hjá sumum eldri og íhaldssamari flokksmönnum hefur framgangur þeirra verið gagnrýndur nokkuð harkalega, og farið niðrandi orðum um hann.
Allra flokka bestur í að tryggja aðgengi að áhrifum
Sjálfstæðisflokkurinn er heldur ekki með marga sýnilega slóða að meirihlutasamstarfi, annan en þann að sitjandi ríkisstjórn haldi velli. Samfylkingin og Píratar hafa með öllu útilokað samstarf með flokknum og skilgreina hann sem vandamálið í íslenskum stjórnmálum. Einn möguleiki væri að kippa Miðflokknum með og mynda fjögurra flokka ríkisstjórn með núverandi stjórnarflokkum, en viðmælendur Kjarnans innan bæði Vinstri grænna og Framsóknarflokksins segja að það sé pólitískur ómöguleiki.
Sömuleiðis segja viðmælendur innan Sjálfstæðisflokksins litlar líkur á því að núverandi forysta flokksins hefði áhuga á að endurnýja stjórnarsamstarf við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, eftir allt sem gekk á árunum 2013 til 2016, þegar hann var forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur þó sýnt að hann er allra flokka bestur í að taka kalda hagsmunadrifna ákvörðun um mögulegt samstarf þegar búið er að telja upp úr kjörkössunum til að tryggja aðgengi að áhrifum. Fyrsti valkostur Sjálfstæðismanna yrði samt sem áður alltaf sá að geta haldið áfram því samstarfi sem nú er.
Líða fyrir samstarfið við ætlaðan höfuðóvin
Vinstri græn fengu 16,9 prósent atkvæða í haustkosningunum 2017 og ljóst var að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, var óskakandidat ansi margra í starf forsætisráðherra. Um var að ræða næst besta árangur flokksins í kosningum frá upphafi. Bestum árangri náði flokkurinn í eftirhrunskosningunum 2009 sem skilaði honum í einu tveggja flokka hreinu vinstristjórn lýðveldissögunnar með Samfylkingunni.
Ákvörðun Vinstri grænna að mynda ríkisstjórn með íhaldsflokkunum Sjálfstæðisflokki, sem hafði verið skilgreindur sem helsti pólitíski andstæðingur vinstrimanna árum saman, og Framsóknarflokki, yrði alltaf umdeild. Nokkur fjöldi ákvað að yfirgefa flokkinn og fyrrverandi framkvæmdastjóri hans Drífa Snædal, sem í dag er forseti ASÍ, var þar á meðal. Hún lét þau frægu orð falla samhliða að stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn yrði „eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“ Á meðal annarra sem fordæmdu ákvörðunina, og lögðust gegn henni, var ungliðahreyfing flokksins. Í yfirlýsingu hennar sagði meðal annars: „Við getum ekki samþykkt síendurteknar lygar, spillingu og frændhygli.“
Tveir þingmenn Vinstri grænna ákváðu svo ekki að styðja ríkisstjórnina og annar þeirra, Andrés Ingi Jónsson, sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í nóvember í fyrra.
Fylgi Vinstri grænna hefur einungis einu sinni farið yfir kjörfylgi í könnunum á kjörtímabilinu, í könnun Gallup sem gerð var í desember 2017, nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin var formlega mynduð.
Í síðustu könnunum Zenter, MMR og Gallup mælist fylgi flokksins á bilinu 10,7 til 13,6 prósent. Minnst í könnun MMR en mest í könnun Gallup. Ef neðri mörkin í því bili yrði niðurstaðan – en fylgi flokksins hefur að uppistöðu verið að mælast á bilinu 10 til 13 prósent á kjörtímabilinu – myndi það þýða að um 37 prósent af fylgi Vinstri grænna hefði horfið frá því í síðustu kosningum. Fylgistapið virðist aðallega ætla að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þar sem vinstrisinnaðra og frjálslyndara fylgi flokksins hefur verið, en í íhaldssamari vígum, sérstaklega í norðaustur- og norðvesturkjördæmi, ríkir meiri ánægja með yfirstandandi stjórnarsamstarf.
Líður vel í íhaldssamri ríkisstjórn
Framlínusveit flokksins í kosningunum á næsta ári liggur nokkurn veginn fyrir. Katrín Jakobsdóttir, sem er enn enn sá ráðherra sem flestir landsmenn eru ánægðir með, verður áfram formaður og leiðir flokkinn inn í þær. Hún verður líka forsætisráðherraefni sama í hvora áttina flokkurinn þarf að halla sér til að halda völdum; í átt að íhaldsblokkinni sem hann situr nú með í ríkisstjórn eða í átt að frjálslyndu miðjuflokkunum sem vilja búa til ríkisstjórn með sambærilegri áferð og sá meirihluti sem nú situr í Reykjavíkurborg.
Nýr varaformaður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, var kjörinn seint á síðasta ári. Ekki eru sjáanlegar neinar stórar vendingar á helstu framlínustöðum, þótt óvissa ríki um hvort Rósa Björk Brynjólfsdóttir muni leiða flokkinn áfram í Kraganum, þar sem flokkurinn bætti við sig fylgi í síðustu kosningum, í ljósi þess að hún hefur ekki stutt ríkisstjórnina og í meira að segja gagnrýnt hana opinberlega á stundum. Finna þarf oddvitasæti fyrir nýja varaformanninn og líklegt þykir að hann horfi til Kragans.
Flestir viðmælendur innan stjórnarandstöðunnar eru sannfærðir um að vilji Vinstri grænna standi til þess að viðhalda því stjórnarsamstarfi sem nú er við lýði. Þeir benda meðal annars á orð Katrínar á 90 ára afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins í fyrra þar sem hún sagði að Bjarni Benediktsson væri einn besti samstarfsmaður sem hún hefði nokkurn tímann haft.
Flokksforystan mun þó ganga óbundin til kosninga. Það verður gert til að halda öðrum leiðum að völdum opnum ef niðurstaða kosninganna verða þær að ríkisstjórnin sé fallin.
Vinstri græn virðast vera búin að taka við gamla Framsóknarhlutverkinu í íslenskum stjórnmálum, sem í felst að sitja á grindverkinu og geta horft til allra átta í leit að ríkisstjórnaraðild, að minnsta kosti á meðan að gamli Framsóknarflokkurinn er að mælast með jafn lítið fylgi og raun ber vitni.
Tilvistarkreppa Framsóknarflokksins
Framsóknarflokkurinn er sá stjórnarflokkanna sem er í mestum vanda. Flokkurinn hefur notið þess sögulega að geta setið á miðju íslensks stjórnmálalandslags og litið til vinstri eða, og mun oftar, til hægri eftir samstarfsfélaga þegar búið er að telja upp úr kjörkössunum.
Hnignun hans hófst af alvöru 2007 þegar flokkurinn fékk einungis 11,7 prósent atkvæða, sem þá var það lægsta sem hann hafði nokkurn tímann fengið. Snemma árs 2009 tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við formennsku í flokknum og gjörbreytti honum. Áherslur urðu mun popúlískari, á stórar og einfaldar lausnir á flóknum vandamálum. Undir hans stjórn vann flokkurinn stórsigur í kosningunum 2013 á baki niðurstöðunnar í Icesave málinu, sem flokkurinn eignaði sér að stórum hluta, og loforðum um að leiðrétta verðtryggð lán sem tekin höfðu verið í kringum hrunið með tugmilljarða króna millifærslu úr ríkissjóði. Alls fékk Framsókn 24,4 prósent í þeim kosningum.
Þegar kosið var 2016 hafði átt sér stað blóðugt formannsuppgjör milli Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga Jóhannssonar, núverandi formanns, með sigri hins síðarnefnda. Nýtt met var sett í lágu fylgi og það met bætt í kosningunum ári síðar, eftir að Sigmundur Davíð hafði klofið flokkinn og stofnað Miðflokkinn, þegar Framsóknarflokkurinn fékk einungis 10,7 prósent atkvæða. Til að gera stöðuna verri fékk flokkurinn 319 færri atkvæði en Miðflokkurinn.
En hann var samt sem áður í gömlu góðu oddastöðunni, sökum þess hversu víða atkvæði dreifðust. Og valdi að fara frekar með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki en að mynda fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri.
Reykjavíkurafhroðið
Síðan þá hefur fylgi flokksins, með skammvinnri undantekningu í kjölfar Klausturmálsins svokallaða, haldið að mestu áfram að síga.
Í borgarstjórnarkosningunum 2018 beið flokkurinn afhroð. Hann fékk 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykjavík. Í ljósi þess að um er að ræða kjördæmi varaformannsins Lilju D. Alfreðsdóttur, og þess að Framsóknarflokkurinn er rúmlega 100 ára gamall flokkur með sterka innviði og mikla reynslu af kosningum, var niðurstaðan verulegt áhyggjuefni.
Rifja má upp að Halldór Ásgrímsson heitinn, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, ákvað að draga sig í hlé úr stjórnmálum í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 2006, þegar Framsókn fékk 6,1 prósent atkvæða. Halldór sagði meðal annars að hann væri að axla ábyrgð á lélegri stöðu flokksins í þeim kosningum með því að stiga til hliðar.
2018 var fylgi flokksins næstum helmingur þess sem ýtti Halldóri út úr stjórnmálum.
Í síðustu könnun MMR, sem birt var í lok síðasta mánaðar mældist fylgi Framsóknarflokksins 6,1 prósent. Yrði það niðurstaða kosninga myndi Framsóknarflokkurinn verða minnsti flokkurinn sem næði manni inn á þing og um væri að ræða langverstu niðurstöðu hans í kosningum frá því að Framsóknarflokkurinn var stofnaður 1916. Fylgi Framsóknarflokksins í síðustu könnun MMR var enn fremur það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili. Staðan í könnunum Gallup (8,6 prósent) og Zenter (7,2 prósent) er lítið eitt skárri. Í greiningum sem Kjarninn gerði út fram ítarefni úr könnunum MMR seint á síðasta ári kom í ljós að Framsóknarflokkurinn er í mestum vanda með að ná til yngri kjósenda og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Leiðtogauppgjör talið ólíklegt sem stendur
Sigurður Ingi tilkynnti nýverið að hann ætli sér að leiða flokkinn áfram í gegnum næstu kosningar. Það gerði hann á miðstjórnarfundi 18. júní síðastliðinn. Lilja, sem er vinsælasti ráðherra Framsóknarflokksins, hefur ekkert gefið upp enn um sín áform, en viðmælendur Kjarnans í Framsóknarflokknum og öðrum stjórnmálaflokkum á undanförnum árum hafa búist við því að hún myndi, á einhverjum tímapunkti, gera atlögu að formannsstólnum. Sú leið virðist þyrnum stráð í dag af nokkrum ástæðum.
Í fyrsta lagi virðast flestir þeirra sem eru ánægðir með störf hennar sem ráðherra ekki hafa nokkurn hug á því að kjósa Framsóknarflokkinn. Í öðru lagi þá úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála nýverið að Lilja hefði brotið gegn jafnréttislögum þegar hún réð Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Páll hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins. Þá bauð hann sig fram til formanns árið 2009.
Í kjölfarið fjölluðu fjölmiðlar um formann hæfisnefndarinnar sem fjallaði um ráðningu ráðuneytisstjórans. Formaður hennar er lögfræðingurinn Einar Hugi Bjarnason, sem Lilja hefur á tveggja og hálfs starfstíma sínum í ráðuneytinu, valið til margra trúnaðarstarfa. Ráðuneytið hefur á þeim tíma greitt Einari Huga alls 15,5 milljónir króna fyrir lögfræðiráðgjöf og nefndarsetu á vegum ráðuneytisins. Ekki skánaði áferð málsins þegar Lilja ákvað að stefna konunni sem kærði ráðninguna til kærunefndarinnar, og nefndin taldi að brotið hefði verið á. Það gerir ráðherrann til að reyna að fá úrskurð nefndarinnar ógildan.
Í þriðja lagi hefur staða Lilju innan ríkisstjórnarinnar verið veik. Viðmælendur Kjarnans segja að sumir samráðherranna, og ýmsir þingmenn samstarfsflokkanna, finnist Lilja spila of mikla einleiki í ýmsum málum. Þar hafa helst verið nefnd til sögunnar Menntasjóður námsmanna og frumvarp um uppsetningu á styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Síðara málið hefur setið fast í nefnd frá því í desember eftir að hafa áður tafist mánuðum saman vegna andstöðu hluta stjórnarþingmanna. Þá fékk hún harða gagnrýni frá samstarfsráðherrum í apríl eftir að hafa sagt í hlaðvarpi að forsenda þess að hægt verði að opna landið aftur fyrir innstreymi ferðamanna væri að það fyndist bóluefni gegn kórónuveirunni.
Í fjórða lagi virðist Sigurður Ingi telja nokkuð víst að hann eigi meirihlutastuðning vísan á meðal þeirra sem velja formann flokksins á flokksþingi.
Ákveði Lilja að hún geti ekki sigrað Sigurð Inga virðist einboðið að hún bjóði aftur fram í Reykjavík, þar sem flokkurinn stendur afar illa, í næstu kosningum.
Áður en að Lilja hóf beina stjórnmálaþátttöku var hún aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofu Seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta. Þegar hún settist á þing í lok október 2016 fór hún allt að fimm ára leyfi frá því starfi, á grundvelli fjórðu greinar laga um þingfararkaup og þingfararkostnað. Því leyfi lýkur því haustið 2021 og Lilja þarf að taka ákvörðun um það hvort hún snýr aftur í sitt gamla starf fyrir þann tíma.
Þurfa mögulega að finna nýja slóða
Þegar allt er talið til er nokkuð mikill samhljómur milli viðmælenda Kjarnans að allir stjórnarflokkarnir þrír sjái áframhaldandi stjórnarsamstarf þeirra sem sinn fyrsta valkost eftir næstu kosningar.
Því fer þó fjarri að slík þriggja flokka stjórn verði raunhæfur möguleiki og þá verður annað hvort að horfa til þess að bæta fjórða flokknum við eða flokkarnir þrír verða að finna sér nýja slóða í átt að völdum.
Erfitt er að sjá hvaða flokkur ætti að vera tilbúinn að hoppa um borð. Miðflokkurinn væri líklega opinn fyrir því en það er svokallaður „pólitískur ómöguleiki“ eins og mál standa í dag, vegna samskiptasögu Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs. Auk þess segja viðmælendur innan bæði Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna að þar sé enginn áhugi á slíku samstarfi.
Viðreisn er líklega eini valkosturinn af frjálslyndu miðjuflokkunum þremur sem gæti fyllt það hlutverk en líkurnar á því, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór fyrir flokknum í stjórnarsamstarfinu á árinu 2017, eru jafnvel minni en á innkomu Miðflokksins.
Vinstri græn eru í bestri stöðu stjórnarflokkanna þriggja að feta nýjan valdaslóða.
Um það verður fjallað í grein morgundagsins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars