Hönd Icelandair fer sífellt dýpra ofan í vasa almennings
Á síðustu metrunum fyrir hlutafjárútboð Icelandair Group bættist ýmislegt við úr hendi opinberra aðila sem ætlað er að hjálpa samstæðunni að lifa af. Framlag almennings, beint og óbeint, í formi lána og mögulegra hlutabréfakaupa, hleypur á tugum milljarða króna.
Hlutafjárútboð Icelandair Group fer fram í næstu viku. Þar ætlar félagið að safna að lágmarki 20 milljörðum króna í nýtt hlutafé, en hver hlutur verður seldur á eina krónu. Ef umframeftirspurn skapast eftir hlutum verður hægt að stækka útgáfuna um þrjá milljarða króna auk þess sem að kaup á hverjum hlut mun fylgja áskriftarréttindi sem svara til 25 prósent af skráningu nýrra hluta. Það þýðir að þeir sem kaupa hlut mega bæta við fjárfestinguna sína á sama gengi sem nemur fjórðungi af upphaflegri fjárfestingu. Verði þessi réttindi fullnýtt mun Icelandair Group að hámarki safna 28,75 milljörðum króna.
Þótt íslenska ríkið, eða almenningur í landinu, séu ekki að gerast beinir hluthafar í Icelandair Group þá hefur ansi margt verið gert undanfarna daga, vikur og mánuði til að liðka fyrir möguleikum samstæðunnar til að lifa af. Þar er bæði um beinharðar aðgerðir sem hafa fært fjármuni úr opinberum sjóðum til Icelandair Group en líka ýmislegt annað sem er ætlað að hjálpa samstæðunni að ná í þá fjármuni sem hún er að leitast eftir að ná í.
Neyðaraðgerðir ríkisins
Icelandair ehf., flugrekstur samstæðunnar, var í sérflokki þegar kom að því að þiggja svokallaða uppsagnarstyrki. Alls fékk félagið tæplega 2,9 milljarða króna til að segja upp alls 1.889 manns í slíka styrki. Því til viðbótar fengu Icelandair Hotels, sem Icelandair Group á 25 prósent í, 452 milljónir króna í styrki til að segja upp alls 480 manns.
Þá fékk ferðaskrifstofan Iceland Travel, sem er að öllu leyti í eigu Icelandair Group, 116 milljónir króna. Samtals fóru því rúmlega 3,4 milljarðar króna af uppsagnarstyrkjunum, sem samtals námu átta milljörðum króna, til Icelandair Group eða tengdra aðila, eða um 43 prósent heildarupphæðarinnar.
Icelandair Group var líka það einstaka fyrirtæki sem nýtti mest allra hlutabótaleið stjórnvalda. Í mars og apríl fengu launamenn hjá þeim félögum sem mynda Icelandair-samstæðuna alls um 1,1 milljarð króna í greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls. Icelandair Group nýtti líka leiðina í maí en ekki hefur verið greint frá því hversu háar greiðslur Vinnumálastofnunar vegna starfsmanna samstæðunnar námu þann mánuð.
Þá gerði ríkið þjónustusamninga við Icelandair Group á meðan að faraldurinn hefur geisað sem tryggðu samstæðunni 272 milljónir króna í tekjur á fyrri helmingi yfirstandandi árs.
Sölutrygging
Þann 1. september var greint frá því að Icelandair Group hefði náð samkomulagi við ríkisbankana tvo, Íslandsbanka og Landsbankann, um að þeir sölutryggðu samtals sex milljarða króna í komandi hlutafjárútboði. Hvor um sig mun sölutryggja þrjá milljarða króna.
Samkomulagið veltur á því að það náist að selja að lágmarki 14 milljarða króna af nýjum hlutum í útboðinu.
Á mannamáli þýðir þetta að ef það næst ekki að selja fyrir milljarðana sex, eða lægri upphæð, þá munu ríkisbankarnir kaupa það sem upp á vantar svo að Icelandair Group nái að safna þeim 20 milljörðum króna sem félagið þarf að lágmarki að ná í útboðinu.
Rekstrarlína ofan á gömul lán
Ríkisbankarnir Íslandsbanki og Landsbankinn hafa báðir lánað Icelandair Group miklar fjárhæðir. Sá fyrrnefndi hefur lengi verið helsti viðskiptabanki flugfélagsins. Þótt heildarumfang lána hans til Icelandair Group hafi ekki verið opinberað er ljóst að upphæðin hleypur á milljörðum króna. Íslandsbanki á veð í ýmsum eignum Icelandair Group, meðal annars fasteignum og flughermum.
Landsbankinn lánaði Icelandair Group 80 milljónir dala í mars 2019 og tók veð í tíu Boeing 757 flugvélum samstæðunnar. Þær eru, samkvæmt flestum viðmælendum Kjarnans sem þekkja vel til í flugheiminum, mun minna virði en sem nemur þeirri upphæð á markaðnum í dag. Umreiknað í íslenskar krónur á núverandi gengi þá er lánið um ellefu milljarða króna virði.
Til viðbótar við þessa upphæð þá hafa ríkisbankarnir tveir heitið því að leggja fram rekstrarlínu upp á samtals sjö milljarða króna sem Icelandair Group mun geta dregið á. Íslandsbanki leggur til fjóra af þeim milljörðum króna en Landsbankinn þrjá.
Ríkisábyrgð samþykkt
Icelandair Group mun auk þess fá þrautavaralánalínu upp á 16,5 milljarða króna, sem félagið getur dregið á ef allur annar peningur er búinn. Íslandsbanki og Landsbankinn munu skipta því láni á milli sín, og lána 8,25 milljarða króna hvor ef á línuna reynir.
Alþingi samþykkti svo í lok síðustu viku að ábyrgjast 90 prósent lánalínunnar, eða tæplega 15 milljarða króna.
Í fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fram samhliða lögum um ríkisábyrgð fyrir Icelandair Group sagði að rík ástæða þurfi að liggja á bakvið aðgerð eins og þeirri að veita fyrirtæki ríkisábyrgð, sem sé í senn veruleg að fjárhagslegu umfangi og afar sértæk. „Það leiðir af landfræðilegri stöðu Íslands að nauðsyn ber til að tryggja traustar og samfelldar samgöngur fyrir vöru- og fólksflutninga. Þá hefur vægi ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum, þar sem starfsemi Icelandair hefur algjöra grundvallarþýðingu, vaxið óðfluga á síðustu árum. Umfang farþegaflutninga á vegum félagsins hefur skapað mikilvægan grundvöll fyrir vöxt og viðgang allra annarra greina ferðaþjónustunnar. Því má segja að um sé að tefla verulega almenna samfélagslega hagsmuni, ásamt mjög umtalsverðum beinum fjárhagslegum hagsmunum á fjölda launamanna og fyrirtækja.“
Heimildir lífeyrissjóða til að kaupa afleiður auknar
Þann 3. september lagði meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fram frumvarp fyrir tilstuðlan og í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í frumvarpinu fólst að breyta lögum um starfsemi lífeyrissjóða þannig að þeim væri gert kleift að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group,samkvæmt þeim forsendum sem settar eru fyrir því útboði.
Breytingin felur í sér að heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum eru auknar. Ástæðan er sú að samkvæmt áformum Icelandair Group á að fylgja hverjum seldum hlut í hlutafjárútboðinu áskriftarréttindi sem svara til 25 prósent af skráningu nýrra hluta. Þar sem slík áskriftarréttindi kunna að teljast afleiður í skilningi laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum voru háðar því skilyrði að þær dragi úr áhættu sjóðs. Því þótti meirihluta þingnefndarinnar, sem er leidd af Óla Birni Kárasyni þingmanni Sjálfstæðisflokks, að það væri mikilvægt að „gera þá lagabreytingu sem frumvarp þetta kveður á um áður en framangreint hlutafjárútboð fer fram.“
Engin vafi var á því að þessi lagabreyting, sem kom skyndilega inn í þingið degi áður en hinum svokallaða þingstubbi lauk í síðustu viku, er einungis til þess fallinn að liðka fyrir þátttöku lífeyrissjóða í útboði Icelandair.
Frumvarpið var samþykkt tæpum sólarhring eftir að mælt var fyrir því.
Lífeyrissjóðir þurfa að kaupa
Lífeyrissjóðir almennings eru þeir fjárfestar sem horft er til að kaupa stærstan hluta þess hlutafjár sem Icelandair Group þarf að afla sér. Mikill þrýstingur hefur verið á fjóra stærstu sjóði landsins að taka þátt. Þeir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi og Birta. Stjórnarmenn þessarra sjóða hafa fylgt helstu stjórnendum þeirra á kynningarfundi vegna væntanlegs hlutafjárútboðs Icelandair Group, sem er afar óvenjulegt og sýnir hversu mikill titringur er vegna málsins.
Taki þessir fjórir þátt er talið líklegra að aðrir smærri sjóðir geri það líka, og að sjóðsstýringarfyrirtæki, sem ávaxta meðal annars óbeint fé lífeyrissjóða, geti tekið góðan skerf af aukningunni líka.
Áratugur er síðan að Icelandair fór síðast í gegnum endurskipulagningu og á því tímabili hefur ávöxtun sjóðanna ekki verið beysin. Tveir þeirra hafa raunar tapað verulega á þeirri fjárfestingu, líkt og Kjarninn greindi frá nýverið.
Lestu meira:
-
4. nóvember 2022PLAY að ráðast í hlutafjáraukningu sem átti alls ekki að ráðast í fyrir nokkrum mánuðum
-
20. október 2022Icelandair Group hagnaðist um 7,7 milljarða króna á þremur mánuðum
-
13. september 2022Sigurður Ingi: Ekki unnt að fallast á fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu
-
9. september 2022Ekki alveg svona einfalt...
-
8. september 2022Dagur: Hvassahraun virðist „ein öruggasta staðsetningin“ fyrir innviði á Reykjanesskaga
-
22. ágúst 2022PLAY tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins
-
5. ágúst 2022Vill skoða aðra kosti í skýrslu Rögnunefndar ef Hvassahraun þykir ófýsilegt
-
9. júní 2022Innanlandsflugið: Nútíma lausnir?
-
9. mars 2022Markaðsvirði Icelandair Group lækkað um 30 milljarða á innan við mánuði
-
2. mars 2022Gildi mun greiða atkvæði gegn tillögu um milljarða bónuskerfi hjá Icelandair Group