Tekur minna en mánuð að hefja flugrekstur PLAY
Forstjóri og eigandi PLAY segja að þeir séu ekki að stefna á heimsyfirráð en búast við því að félagið nái stærri markaðshlutdeild en WOW air náði á fyrstu árum sinnar starfsemi. Í ríkisábyrgð á þrautavaraláni til Icelandair Group felist hins vegar að PLAY verði refsað fyrir að hafa betur í samkeppni. Þeir telja „mjög eðlilegt“ að tvö flugfélög starfi á Íslandi.
Við erum tilbúin til þess að koma inn á markaðinn og gerum það þegar annað hvort þörf er á eða markaðurinn byrjar að koma til baka,“ segir Arnar Már Magnússon forstjóri PLAY, nýs lággjaldaflugfélags sem beðið hefur verið eftir í tæpt ár.
Í viðtali við Kjarnann ræddu Arnar og Skúli Skúlason eigandi félagsins um stöðu þess núna, framtíðarhorfur og þann ríkisstuðning sem Icelandair hefur fengið á undanförnum mánuðum.
„Eina vitið“ að draga sig til hlés
Í nóvember á síðasta ári var PLAY kynnt til sögunnar á blaðamannafundi. Félagið var með stórhuga áform, en það stefndi að því að hefja miðasölu nokkrum vikum seinna og vera með tíu flugvélar í rekstri innan þriggja ára.
Þessar áætlanir hafa þó ekki gengið upp. Þremur vikum eftir blaðamannafundinn tilkynnti flugfélagið að miðasölu þess yrði frestað þar sem félagið þyrfti að „ganga frá ýmsum hlutum.“ Miðasalan hefur nú enn ekki hafist, tíu mánuðum seinna.
Aðspurður hvers vegna starfsemi PLAY hefur ekki enn hafist bendir Arnar Már á að margir þættir hafi spilað þar inn, en þeirra á meðal voru ytri markaðsaðstæður: „Við sáum það náttúrulega bara mjög fljótt að það var mjög áhættusamt að fara í rekstur síðla veturs eða í vor. Þá var eina vitið að draga sig aðeins til hlés og fara að hugsa lengra fram í tímann.“
Samkvæmt Arnari var þó stefnubreyting innan félagsins aðalástæða þess að þau ákváðu að draga sig til hlés. Þegar flugfélagið var kynnt í fyrra var lagt upp með að það yrði byggt upp að hluta til á eigið fé og að hluta til á lánsfé, en nú sé það eingöngu byggt upp á eigið fé.
Enginn „COVID-draugur“ fylgir félaginu
Arnar Már segir einnig að þau hafi verið mjög heppin með að fara ekki af stað. Útlitið væri mjög svart hjá flugfélaginu ef upphaflegu áform þess um að hefja starfsemi síðasta vetur hefðu staðið, í ljósi þess erfiða rekstrarumhverfis sem flugfélög um allan heim búa við þessa stundina.
Blaðamaður spyr Arnar hvort núverandi aðstæður hafi verið flugfélaginu í hag og játar hann að svo sé: „Bæði með því að hafa ekki farið af stað og vera ekki búin að auka kostnað félagsins til muna þá höfum við náð að halda okkur með mjög lágan kostnað í gegnum COVID-krísuna sem gefur okkur líka ákveðið forskot þegar eftirspurnin eykst, vegna þess að það fylgir okkur ekki neinn COVID-draugur inn í framtíðina.“
Tekur minna en mánuð að hefja flugrekstur
Fyrirtækið hyggst þó ekki liggja lengi í dvala, en samkvæmt Arnari bíður það eftir rétta tækifærinu til að hefja flugrekstur. Samningar séu í höfn og leyfi langt komin, en flugrekstrarleyfið verði innkallað um leið og framleiðslunúmerið á fyrstu flugvélinni sem félagið mun leigja liggur fyrir og skráningu lokið á íslenska flugrekstrarleyfið. Ábyrgðaraðilar á flugrekstrarsviði PLAY vinna náið með Samgöngustofu að útgáfu leyfisins
Arnar bætir einnig við að öll kerfi séu komin upp, þar á meðal tekjustýring, bókunarvél, heimasíða og flugplanskerfi. Þar að auki er markaðsherferð á vegum félagsins tilbúin.
„Eins og við höfum sagt við stjórnvöld: Við erum tilbúin til þess að koma inn á markaðinn og gerum það þegar annað hvort þörf er á eða markaðurinn byrjar að koma til baka,“ segir Arnar og bætir við að litið sé sérstaklega til takmarkana á flugvöllum í ljósi ástandsins.
Aðspurður hvað það taki langan tíma fyrir flugfélagið segir Skúli að það taki minna en mánuð.
Arnar Már bætir við að það sé svo sannarlega í áformum flugfélagsins að vera komið á markaðinn í vetur, en býst þó við að umfang starfseminnar verði takmarkað þangað til að eftirspurn eftir flugferðum eykst aftur þegar COVID-krísunni lýkur.
„Við erum að koma inn á það að vera sýnileg í gegnum veturinn og fljúga eitthvað og þá helst til Evrópu og einhverra sólarlandastaða, eða þar sem eftirspurnin er, en svo er uppbyggingin hafin fyrir flugrekstur og flug sumarið 2021,“ segir Arnar.
Geta alveg beðið lengur
Því gerir Arnar ráð fyrir því að eftirspurnin taki við sér hratt eftir að bóluefni við COVID-19 verði komið í dreifingu og vonast hann til þess að það verði fyrir næsta sumar. Hins vegar segir hann það vera allt í lagi þótt dreifing bóluefnis dragist á langinn, flugfélagið geti alveg beðið í nokkra mánuði í viðbót ef markaðsaðstæður krefjast þess.
Arnar Már og Skúli bæta einnig við að sá kostnaður sem hlýst af rekstri félagsins í núverandi mynd sé einungis fjárfesting í stofnkostnaði, sem sé eitthvað sem öll fyrirtæki þurfa að gera. „Eðlilega eru allar tafir á að flug geti hafist í tekjuberandi rekstur neikvæðar, en ekki alveg „make or break“. Þetta getur alveg dregist á langinn, þess vegna erum við búin að draga það á langinn að sækja okkur vélar,“ segir Skúli.
„Af því að við erum ekki búin að taka þetta risaskref að hefja flug þá höfum við getuna í að halda okkur á þessum stað sem við erum á í mjög langan tíma. Við höfum þolinmæðina,“ bætir Arnar við.
Eigendur að langstærstum hluta íslenskir
Þessa stundina er FEA ehf., sem er félag í eigu Skúla og hóps fjárfesta, eigandi alls hlutafjár PLAY. Arnar Már segir FEA veita flugfélaginu mjög sterkt bakland, en Skúli segir þó hópinn ekki verða eini eigandi flugfélagsins þegar fram í sækir.
„Við erum að vinna að því að það verði þrír sterkir hópar sem standa að félaginu, plús aðrir fjárfestar. Við erum komin langt með að loka viðræðum við einn hóp og erum síðan í viðræðum við nokkra aðra sem gætu verið hugsanlegur þriðji aðili í þessum kjarna,“ segir Skúli.
Hann bætir við að í þessum þremur hópum séu aðilar sem hafa mikla þekkingu á flugrekstri, ferðaþjónustu og tengdum greinum og komi því með verðmæta reynslu að borðinu, en öðrum fjárfestum verði svo boðið að fylgja þessum hópum.
Aðspurður hverjir þessir hópar séu segir Skúli að félagið verði að langmestu leyti í eigu Íslendinga. Þá sé erlendur aðili þar á meðal, sem geti komi með mikil verðmæti fyrir reksturinn og félagið.
COVID leiðir til lægri leigu og betri samninga
Samkvæmt Arnari býður núverandi lægð í flugrekstri upp á gott tækifæri fyrir PLAY til þess að koma inn á markaðinn. Um átta þúsund flugvélar sitji tómar á jörðu niðri, sem þrýsti leiguverði þeirra og allra annarra vara tengdum geiranum niður.
„Að koma inn á markaðinn núna og festa lága leigu á flugvélum eða kaupum eða hvað sem það er þá ertu að njóta þess til lengri tíma,“ segir Arnar. Hann bendir einniga á að önnur flugfélög séu einungis að fá tímabundnar niðurfellingar þessa stundina en fái svo aftur sömu kjör eftir COVID.
Skúli bætir einnig við að núverandi ástand hafi leitt til þess að samningar hafi náðst á milli PLAY og stærri flugleigusala sem annars hefðu tekið lengri tíma. Venjulega séu flugfélögin „kannski að taka nokkrar leigur inn, kannski að koma sér fyrir á markaðnum og sýna fram á að reksturinn og annað sé í lagi, þá fara þessir stærri að sýna manni áhuga. Við erum að upplifa það að stærstu flugleigusalarnir hafa áhuga á að vinna með okkur. Þar á meðal erum við nú þegar að vinna með einum, þeim stærsta.“
„Það er vegna þess að þeir sjá í gegnum hvað er að gerast. Það er engin fortíð. Þeir eru sammála þeim þankagangi og eru bara klárir áfram með okkur og vita hvað þeir hafa í hendi þegar fram í sækir,“ bætir Skúli við.
Mið-Evrópukjör
Með því að stefna að lágri leigu á flugvélum og hagkvæmum samningum stefnir PLAY að því að CASK-hlutfall félagsins, sem mælir kostnað á hvern floginn sætakílómeter, verði lægri en hjá öðrum flugfélögum í Norður-Evrópu.
Til þess að ná slíku hlutfalli hefur flugfélagið einnig samið um að halda launakostnað í lágmarki, en Kjarninn greindi frá því í fyrra að kjarasamningar PLAY við ÍFF fælu í sér 27 til 37 prósenta kostnaðarlækkun launa flugmanna og flugliða, ef miðað væri við WOW air.
Arnar og Skúli segjast líka vilja bera sig saman við flugfélög annars staðar í Evrópu í kjaramálum. „Við höfum alltaf haft það sem markmið að bera okkur saman við Evrópu. Flugkjör og annað í fluggeiranum er mjög hátt alls staðar í Evrópu, en á Íslandi hefur það verið svolítið í hærri kantinum. Við höfum meira verið að horfa í það og að vera samkeppnishæfir,“ segir Arnar. „Mið-Evrópukjör,“ bætir Skúli við.
Þó benda þeir á að flugfélagið verði íslenskt, með íslenskan kjarasamning og starfi á íslenskum vinnumarkaði.
„Algjör þvæla“ að það taki langan tíma að koma inn
Framtíðaráætlanir PLAY gera ráð fyrir að félagið muni stækka ört um leið og eftirspurnin tekur við sér á ný eftir yfirstandandi lægð.
Arnar segir að margir vilji meina að það taki mörg ár fyrir flugfélag að koma á markaðinn, „sem er bara þvæla, ef við tölum beint út.“ Því til stuðnings minnist hann á WOW air, sem náði að auka markaðshlutdeild sína umtalsvert um leið og félagið ákvað að verða tengiflugfélag árið 2016.
Raunar telur Arnar að PLAY geti komið inn á flugmarkaðinn með enn brattari hætti á næsta ári en WOW air gerði árið 2016: „Önnur flugfélög í dag hafa skalað niður, þannig að markaðshlutdeild PLAY yrði miklu stærri heldur en WOW air var á þessum tímapunkti. “
Ekki eins og menn séu að gera þetta í fyrsta skiptið
Fyrsta veturinn er flugfélagið þó að búast við að vera með eina til þrjár flugvélar, en samkvæmt Arnari eru samningarnir við flugleigusala þess eðlis að auðvelt er að bæta við sig eða draga úr flugvélum.
Hins vegar búast Skúli og Arnar við að stækkunin verði mjög hröð á fyrstu árum flugfélagsins, þar sem virðiskeðjan er öll til. Öll þjónusta sem PLAY mun nota er nú þegar til og mun verða innt af hendi af fólki með reynslu. „Það er ekki eins og menn séu að gera hlutina í fyrsta skiptið,“ segir Skúli.
Eru ekki að stefna að heimsyfirráðum
Aðspurður hvort PLAY stefni að því að vera jafnstórt og WOW air segir Skúli að stærðin skipti ekki öllu máli: „Þú verður að vera með ákveðin umsvif til að ná hagræði í rekstrinum, en aðalatriðið er að vera arðsamt fyrirtæki. Þetta er ekki spurning um heimsyfirráð.“
Samkvæmt Skúla er aðalatriðið að skila lágum fargjöldum á markaðinn, góðri afkomu fyrir eigendurna og öruggum rekstri sem stendur undir sér og þolir áföll. „Það er ekkert verra bissnesskonsept heldur en önnur,“ bætir hann við.
Arnar tekur undir orð Skúla og segir það vera skýra reglu innan flugfélagsins að halda sig við upphaflegt plan, sem eru ódýr tengiflug á minni flugvélum.
Alltaf pláss fyrir tvö flugfélög
Gjaldþrot tveggja annarra íslenskra lággjaldaflugfélaga á síðustu tíu árum, Iceland Express og WOW air, vekja þó upp spurningar hvort yfirhöfuð sé pláss fyrir tvö flugfélög á Íslandi. Skúli og Arnar svara því játandi, sér í lagi vegna þess mikilvæga hlutverks sem félögin sinna í tengiflugum yfir Atlantshafið.
„Þetta er ekki spurning um bara Ísland. Ef það væri málið þá væri ekki einu sinni pláss fyrir eitt félag. En við búum við þau gæði á Íslandi að landið er bara gríðarlega vel staðsett. Eins og hefur komið fram undanfarna daga þá lifir Icelandair ekki á Íslendingum að ferðast. Þetta er miklu stærra batterí, þetta er „hub operation“ þetta eru via-flugin. Helmingur farþega stoppar bara í Keflavík til að fara upp í næstu flugvél,“ segir Arnar.
Skúli bendir einnig á möguleika Keflavíkurflugvallar á að verða að öflugum tengiflugvelli í Evrópu: „Við erum að horfa á þéttingu byggðar í Evrópu og takmarkanir á opnunartíma. Keflavík er flugvöllur sem er opinn allan sólarhringinn, alla daga. Og eins og var sérstaklega árið 2018 þegar allur þessi fjöldi flugfélaga var, þá ert þú kominn með nógu marga aðila inn á völlinn til að fólk er farið að horfa á hann sem mögulegan tengiflugvöll, svona eins og Amsterdam og Heathrow og fleiri, þótt þetta sé ekki af sama skala.“
Samkvæmt Skúla eru stjórnvöld einnig að horfa á uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli þannig að þetta verði tengiflugvöllur: „Þá er alveg mjög eðlilegt að það séu eitt eða fleiri flugfélög sem eru staðsett á Íslandi.“
Ríkisábyrgðin skekki samkeppnina
Talið berst að Icelandair og nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita flugfélaginu ríkisábyrgð. Arnar Már gaf nýlega frá sér umsögn við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgðina þar sem hann hvatti til þess að sett yrðu frekari skilyrði fyrir veitingu hennar. PLAY skilaði einnig umsögn til fjárlaganefndar þar sem samkeppnishamlandi áhrif ríkisábyrgðinnar voru gagnrýnd.
Arnar segir ábyrgðina koma niður á samkeppnisstöðu PLAY með ýmsum hætti. Til að mynda séu tveir þættir í frumvarpinu sem séu umshugsunarverðir, annars vegar að ríkið taki þetta skref til að hjálpa félaginu að komast í gegnum komandi hlutafjárútboð en einnig að lánalínan sé til staðar ef félagið nær ekki tekjumarkmiðum sínum vegan samkeppni á markaði. Arnar telur athugavert að minni tekjusköpun Icelandair vegna aukinnar samkeppni á flugmarkaði sé eitt af tilvikunum sem Icelandair yrði leyft að ganga á lánalínu með ríkisábyrgð. Þannig yrði PLAY refsað fyrir að hafa betur í samkeppni við Icelandair, verandi félag með lægri rekstrarkostnað.
Að mati Arnars er líklegt að gengið verði á ríkisábyrgðina, þar sem hún getur verið virkjuð í tilfelli of hás kostnaðar, harðari samkeppni og eða lítillar tekjusköpunar. Hann telur kostnaðaráætlanir Icelandair byggja meðal annars á hæpnum forsendum á olíuverði, þar sem þeir gera ráð fyrir að tveggja ára spá fyrir olíuverðshækkun muni haldast út næstu fjögur árin. Þar að auki finnst honum spár flugfélagsins um tekjuaukningu vera nokkuð bjartsýnar í ljósi þess að helstu greiningaraðilar í fluggeiranum búast ekki við hækkun tekna á næstu árum, ljóst er hinsvegar að tekjur félagsins verði að hækka til að áætlanir félagsins um arðsemi gangi eftir.
„Umræðan hefur alltaf verið að þetta sé til þrautavara, þessir 16 milljarðar, en hún er byggð á spá Icelandair á lækkandi kostnaði, hækkandi tekjum og engri samkeppni frá íslensku flugfélagi. Ef að eitt af þessu klikkar, sem verður að teljast líklegt , þá þurfa þeir að draga á línuna. Þannig að þessi þrautavaralína, það verður dregið á henni,“ segir Arnar.
Því segir Arnar ríkisábyrgðina vera til þess fallinn að niðurgreiða samkeppnina á flugmarkaði eftir tvö ár: „Í september 2022, þegar lánalínan sem ríkisbankarnir tveir hafa veitt Icelandair er að renna sitt skeið, þá er félagið hugsanlega í ósjálfbærum rekstri. Ríkið kemur þá inn með fé til þess að greiða niður miðaverð til Icelandair á móti samkeppninni sem það verður fyrir vegna annarra flugfélaga.“
Hluti starfsfólks á hlutabótaleið
Ríkisstuðningur til PLAY vakti þó einnig nokkra athygli fyrr í ár, en flugfélagið var á lista yfir fyrirtæki sem fóru á hlutabótaleiðina í kjölfar samkomubanns vegna heimsfaraldursins. Arnar segir þó að fyrirtækið hafi verið á hlutabótaleiðinni frá miðjum apríl og hættu á henni í maí. Styrkurinn náði einungis til hluta starfsfólks fyrirtækisins og þeir hafi ekki nýtt sér nein önnur ríkissúrræði, eins og t.a.m. uppsagnarstyrki. Þrátt fyrir að hafa ekki verið tekjuberandi taldi Vinnumálastofnun að flugfélagið uppfyllti skilyrðin til þess að fara á leiðina, en stjórn PLAY hafi samt sem áður ákveðið að fara af henni.
„Þessi hlutabótaleið snýr ekki að start-up fyrirtækjum,“ segir Skúli. „Start-up-in þurfa bara að taka þetta á kassann.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi