Aðsend mynd

Þjóðin á úthald inni ef hugarfarið fylgir með

Íslendingar eru vanir að takast á við krefjandi aðstæður og bregðast fljótt við, til að mynda þegar eldfjöll gjósa eða jörðin skelfur – og þrátt fyrir að teymi almannavarna hafi verið undirbúið fyrir hinar ýmsu sviðsmyndir hefur árið 2020 tekið steininn úr varðandi það. Kjarninn ræddi við sérfræðing hjá Landhelgisgæslunni sem segir að líta verði á þetta ástand sem langhlaup.

„Jafn­vel þó að okkur tak­ist að ná smit­unum niður í lítið sem ekk­ert þá verður þetta mjög erfitt. Við verðum að halda áfram öllum þessum aðgerðum og það er oft mjög íþyngj­andi. Auð­vitað eru frá­bærar fréttir að Bretar séu að fara að bólu­setja í næstu viku og ef við erum ekki aft­ast í lest­inni þá verður þetta skárra með vor­in­u.“

Þetta segir Sóley Kaldal, áhættu- og örygg­is­verk­fræð­ingur og sér­fræð­ingur í alþjóð­legum örygg­is­mál­um. Hún vinnur hjá Land­helg­is­gæslu Íslands og í örygg­is­stefnu­mótun fyrir stofn­un­ina. Hún flutti til Íslands með fjöl­skyldu sína frá Banda­ríkj­unum þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall á snemma í vor og fór beint að starfa fyrir almanna­varnateymið. 

Hún segir að fólkið innan teym­is­ins hafi alltaf náð að halda í húmor­inn – og að aldrei sé neinn upp­gjaf­ar­tónn í hópn­um. Kjarn­inn spjall­aði við Sól­eyju um það hvernig var að flytja heim við þessar skrítnu aðstæð­ur, vinn­una hjá Land­helg­is­gæsl­unni og fyrir almanna­varnir – og hvernig hún sér fyrir sér næsta ár varð­andi COVID-19.

Auglýsing

Eigum að vera her­laus þjóð – en þó ekki án varna

Þegar Sóley er spurð út í hlut­verk Land­helg­is­gæsl­unnar á COVID-­tímum þá segir hún að það sé meðal ann­ars að sjá um sjúkra­flutn­inga, bæði inn á land og út á sjó. „Flug­deildin okkar hefur þurft að aðlaga verk­ferla sína mikið að þessu, hvernig COVID-­sjúk­lingar eru fluttir og bak­varða­sveit og annað slíkt. Svo sem partur af við­bragðs­kerf­inu þá erum við með sér­fræð­inga á skrif­stofu eins og mig sem taka þátt í teym­is­vinnu undir stjórn almanna­varna.“

Land­helg­is­gæslan sinnir auð­vitað öðrum mörgum og mis­mun­andi verk­efnum og bendir Sóley að gæslan sé örygg­is­stofnun Íslend­inga. Bæði hvað varðar öryggi borg­ar­anna og að fylgj­ast með haf­stæð­unum okk­ar. Svo sinni gæslan ákveðnu örygg­is­hlut­verki en Ísland er sam­starfs­að­ili innan Atl­ants­hafs­banda­lags­ins.

„Ég tel að Ísland þurfi að vera í ein­hvers konar varn­ar­banda­lagi, en ég tel að þjóð geti ekki verið algjör­lega án varna. Ég tel á sama tíma að Ísland ætti ekki að vera með neinn her, við eigum að vera her­laus þjóð. En það er mjög gott að vera í banda­lagi þjóða um varn­ir. 

Ef maður ætlar að vera í banda­lagi þá þarf maður nátt­úru­lega að leggja eitt­hvað af mörkum – og við leggjum af mörkum inn í sviðs­mynd Atl­ants­hafs­banda­lags­ins mjög stórt svæði á Norð­ur­slóðum sem er teng­ing aust­urs til vest­urs. Þannig að ef við erum að fylgj­ast vel með okkar svæðum þá erum við að leggja ýmis­legt af mörkum inn í varn­ar­sam­starf­ið,“ segir hún. 

Sóley bendir á að Ísland stefni á að vera her­laust áfram. „Það er eng­inn vilji til að breyta því en ríki þurfa samt að hafa rík­is­stofnun sem fylgist með aðstæðum og tengir sig inn í varn­ar­sam­starf erlendis – ásamt því að sinna örygg­is­málum á breiðum grund­velli.“

Til stendur að hafa stóra björgunaræfingu í apríl næstkomandi en Sóley segir að enn sé ekki ljóst hvort af henni verði vegna faraldurs.
Aðsend mynd

Þurfum að geta virkjað erlent sam­starf mjög hratt

Hug­tökin „security“ og „sa­fety“ eru aðgreind í fræð­unum og sinnir Land­helg­is­gæslan hvoru tveggja en á íslensku er þau þýdd „vernd“ og „ör­ygg­i“. 

„Þannig að við erum bæði að fylgj­ast með íslenskum haf­svæðum út frá leit og björgun og meng­un­ar­slysum og fleira svo allir séu örugg­ir. Við fylgj­umst einnig með óæski­legum ferð­um, lög­brotum og öðru sem ekki telst sem eðli­leg för,“ segir Sól­ey. 

„Security“ eru varnir gegn árás af ásetn­ingi en „sa­fety“ eru varnir gegn því sem ger­ist til­fallandi. „Hið síð­ara fyllir meira hvers­dag­inn okkar – almenn slys, sjúk­dómar og annað sem ger­ist án þess að ein­hver beiti ofbeldi. Það sem ég skoða hjá stofn­un­inni er að athuga hvaða búnað við þurfum við að hafa til að vera með lág­mark­s­við­bragðs­getu, hvar eigum við að stað­setja hann og við hverja við eigum að hafa sam­band. Við erum eyríki og erum með risa­stór haf­svæði þannig að við þurfum að geta virkjað erlent sam­starf mjög hratt ef það verða slys yfir ákveð­inni stærð­argráðu.“

Sóley segir að þess vegna séu Íslend­ingar í miklu norð­ur­slóða­sam­starfi en innan þess eru Norð­ur­löndin fimm, sem og Banda­rík­in, Kanada og Rúss­land. „Þau eiga erfitt með að tryggja björg­un­ar- og við­bragðs­getu á norð­ur­slóðum vegna þess að þetta er svo erfitt haf­svæði; myrk­ur, kuldi og mikil öldu­hæð og ann­að. Við erum að reyna að samnýta úrræði okkar og stytta boð­leiðir þannig að um leið og eitt­hvað ger­ist á haf­svæðum norður af þessum löndum þá getum við alltaf haft sam­band með mjög skömmum fyr­ir­vara og óskað eftir því að fá við­bragðsein­ingar þeirra, hvort sem það eru flug­vél, þyrla, varð­skip til hjálp­ar,“ segir hún. 

Sam­starfið heldur áfram í gegnum net­forrit

Sam­starfið hefur gengið mjög vel, að sögn Sól­eyj­ar. „Það er mik­ill sam­starfsvilji meðal þess­ara þjóða og virki­lega skemmti­legt að vinna í þessum hópi.“ Hún bendir á að Íslend­ingar séu með for­mennsku í Norð­ur­skauts­ráð­inu og á sama tíma sé Land­helg­is­gæslan með for­mennsku í Sam­tökum stand­gæsla á Norð­ur­slóðum (e. Arctic Coast Guard For­um). 

Til stendur að hafa stóra björg­unaræf­ingu í apríl næst­kom­andi en Sóley segir að enn sé ekki ljóst hvort af henni verði vegna far­ald­urs. „Það stefnir í það ef COVID leyfir að það verði alls konar ein­ingar frá þessum löndum sem koma til Akur­eyrar og þá líkjum við eftir stór­slysum um borð í far­þega­skipi, þar sem ferja þyrfti fjölda fólks og leka í olíu­tönkum þannig að girða þyrfti af lek­ann.“

Auglýsing

Þrátt fyrir far­aldur þá heldur sam­starfið áfram í gegnum net­forrit. „Það getur auð­vitað verið erfitt þar sem þetta eru her­tengdar stofn­anir í hinum lönd­un­um. Annað hvort er hrein­lega ekki strand­gæsla hjá þessum lönd­um, eins og í Dan­mörku til dæmis þar sem sjó­her­inn sér um gæslu. Í Banda­ríkj­unum og Kanada eru strand­gæslur en þær eru tengdar her­stofn­unum þannig að það getur verið erfitt að hitt­ast á fjar­fundum upp á upp­lýs­inga­ör­ygg­i.“

Íslend­ingar óform­legri í sam­skiptum

Hvernig er að vera eina landið ekki með her í þessum sam­skipt­um? 

Sóley segir að vegna þess að Ísland sé í Atl­ants­hafs­banda­lag­inu (NATÓ) þá þekki Land­helg­is­gæslan alla þá ferla sem starfað er eftir þegar um hern­að­ar­sam­starf er að ræða. 

„Það sýna því allir fullan skiln­ing og bera mikla virð­ingu fyrir Land­helg­is­gæsl­unni sem sinnir að miklu leyti þessum verk­efnum sem eru innan Atl­ants­hafs­banda­lags­ins. Gæslan sér um þann hluta sem við­kemur þessum borg­ara­legu skyldum og við upp­lifum ekki að við séum eitt­hvað minni mátt­ar. 

Það helsta er kannski að við Íslend­ing­arnir erum svo­lítið óform­legri í sam­skiptum við yfir­menn og hvernig við ávörpum hvert ann­að. Í þessum hern­að­arstrúktúr segir þú ekki hvað sem er við hvern sem er en við Íslend­ingar erum svo smá að við bara tölum öll sam­an,“ segir hún. 

Sóley segir að það hafi alltaf hjálpað henni að undirbúa sig andlega undir verra ástand og geta svo hrósað happi ef betur fer en á horfðist.
Aðsend mynd

Ynd­is­legt að vera komin heim

Sóley flutti til Íslands í fyrstu bylgju COVID-19 frá Banda­ríkj­un­um, eins og áður seg­ir, en hún og eig­in­maður hennar hafa búið víða um heim í gegnum árin. „Það er ynd­is­legt að vera komin heim og ég upp­lifði það sér­stak­lega þarna í fyrstu bylgj­unni af COVID að ég sá ótrú­leg­ustu Íslend­inga, sem ætl­uðu sér aldrei að flytja heim, koma heim. Það var svo þægi­legt hvað far­ald­ur­inn var smár í sniðum hér og öllu vel stýrt hérna. Við­brögð­unum hefur verið stýrt á heims­mæli­kvarða á Íslandi en eftir því sem lengra dregst á far­ald­ur­inn þá verður erf­ið­ara að fá fólk til sam­starfs og allir verða þreytt­ir. Verk­efnin fara að verða meira íþyngj­andi vegna þess að þau koma ofan í öll önnur verk­efni sem þarf að sinna.“

Sóley segir að fjöl­skyld­unni hafi hálf part­inn liðið eins og flótta­mönnum en þau bjuggu í New Haven í Conn­ect­icut og þurftu þau að ákveða á fjórum dögum hvort þau myndu flytja aftur heim til Íslands – og í raun flýja Banda­rík­in. 

„Við eigum tvö börn og við þurftum að pakka allri búslóð­inni og gefa – en við gátum ekki selt hana. Svo þurftum við að kaupa flug­miða og fljúga heim. Þetta var í mars en vinir okkar voru í „lock­down“-á­standi alveg fram á haust. Þau upp­lifðu engan eðli­legan tíma en börnin þeirra voru til dæmis ekk­ert í skól­anum og komust þau ekki einu sinni út á róló. Öllum opin­berum leik­svæðum var lokað og mátti eng­inn fara neitt eða gera neitt.“

Sóley segir að henni hafi runnið blóðið til skyld­unnar þegar far­ald­ur­inn bloss­aði fyrst upp. „Ég vissi strax í jan­ú­ar, ver­andi í áhættu­stýr­ingu og örygg­is­stefnu­mót­un, að byrjað var að und­ir­búa við­brögð við því ef þessi veira kæmi – þegar þetta var ennþá auka­grein á blað­síðu þrjú og fjögur í blöð­un­um.“

Fór strax að und­ir­búa sig and­lega

Land­helg­is­gæslan er partur af björg­un­ar­mið­stöð­inni í Skóg­ar­hlíð og segir Sóley að þar hafi strax verið byrjað að dusta rykið af áætl­unum og fara yfir það hvað yrði gert ef veiran kæmi til lands­ins. 

Hún segir að strax eftir ára­mót hafi hún byrjað að búa sig and­lega undir það að veiran kæmi – eða um leið og hún frétti af henni. Kenn­ari í skól­anum hennar hafði það á orði að þessi sjúk­dómur yrði skæður og að hann myndi hafa mikil áhrif. „Svo varð það bara raun­in. Ég fékk þannig séð langan aðdrag­anda sem áhættu­verk­fræð­ingur til að setja upp í höfð­inu hvað væri að fara að ger­ast.“ 

Auglýsing

Svo þegar Sóley kom heim í byrjun mars þá hafði hún strax sam­band við sína yfir­menn hjá Land­helg­is­gæsl­unni og byrj­aði hún strax að vinna aðgerðateymi undir stjórn almanna­varna en öll starf­semin er í sama húsi í Skóg­ar­hlíð.

„Öllum starfs­mönnum sem vett­lingi gátu valdið voru settir í sam­hæf­ing­ar­stöð­ina og deildum við með okkur verk­efnum sama hjá hvaða stofn­unum við vor­um. Ég var til dæmis í við­bragð­steymi með slökkvi­lið­inu, Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg, almanna­vörnum og Land­spít­al­an­um.“

Sú vinna gekk mjög vel, að hennar sögn. „Það var mjög gott að vinna með þessu frá­bæra fólki. Til­gang­ur­inn með Skóg­ar­hlíð­inni er að hafa stuttar boð­leiðir á milli við­bragðs­að­ila. Þó eru eld­veggir á milli stofn­ana en voru þeir allir felldir niður um leið og far­ald­ur­inn skall á.“

Hún segir að venju­lega sé mikil skipt­ing þarna á milli en í fyrsta skipti hafi hún upp­lifað ákveðna blöndun þar sem allir voru að deila mis­mun­andi þekk­ingu og reynslu. „Það var algjör­lega frá­bært og skemmti­legt sam­starf. Allir ætl­uðu sér ein­hvern veg­inn að kom­ast í gegnum þetta – enda Íslend­ingar mjög góðir að gera það í ham­för­u­m.“

Auð­vitað gera allir ein­hvern tím­ann mis­tök

Hvernig upp­lifir Sóley þessa þriðju bylgju miðað við þá fyrstu? 

Hún segir að núna sé ekki um að ræða sömu for­dæma­lausu stöð­una. „Nú eru komin for­dæmi og það er auð­veld­ara fyrir stofn­anir og fyr­ir­tæki að skilja þau skila­boð sem við erum að senda. Aftur á móti, þó að allir skilji þetta betur og afleið­ing­arn­ar, þá eru margir orðnir þreytt­ari líka. Íslend­ingar eru mjög vanir því að virkja sam­hæf­ing­ar­stöð út af ýmsum atburðum eins og jarð­skjálftum og eld­gosum en þetta er yfir­leitt daga­spurs­mál. Það er mjög óvana­legt að við­bragðs­að­ilar séu í svona rosa­lega langvar­andi við­bragði. Ég held að það sé eitt­hvað sem á eftir að rann­saka betur síðar meir vegna þess að fæst okkar hafa reynslu af því að vera í margra mán­aða vinnu við að fleyta upp­lýs­ing­um.“

Sóley segir að henni finn­ist merki­legt hve mik­inn starfs­kraft þrí­eykið hafi og metnað til að halda áfram að gera hlut­ina vel – og láta engan bil­bug á sér finna. 

„Auð­vitað gera allir mis­tök – það er óhjá­kvæmi­legt þegar svona ástand dregst á lang­inn. Svo koma auð­vitað dagar þar sem er þungt hljóð í okkur sér­fræð­ing­un­um, til dæmis þegar tölur um dauðs­föll koma eða erfitt ástand á sjúkra­hús­stofn­unum eða ann­að, en það er samt alltaf haldið í húmor­inn. Það er þessi íslenska hugsun að við reddum okkur út úr þessu. 

Það er aldrei neinn upp­gjaf­ar­tónn. Aldrei sorg eða pirr­ingur og þó að við séum líka bara öll fólk með heim­il­is­líf og þetta bitni á okkur þá höfum alltaf náð að setja það að odd­inn af hverju við erum að vinna þessa vinn­u,“ segir hún. 

„Það er aldrei neinn uppgjafartónn.“
Aðsend mynd

Hjálpar til að und­ir­búa sig fyrir enn verra ástand

Sóley hvatti vini sína og fjöl­skyldu á Face­book í lok októ­ber, þegar herða átti aðgerðir á ný, til að und­ir­búa sig undir lang­hlaup. Það væru miklar líkur á að erf­ið­leikar og hömlur yrðu til staðar langt fram á næsta ár.

„Ég vil gjarnan líkja þessu við bíl­ferð með börn­um. Ef fjöl­skylda sest upp í bíl og börnin telja að ferð­inni sé heitið upp í Mos­fells­bæ, þá eru allir orðnir pirraðir og ómögu­legir í bílnum strax á Kjal­ar­nesi. Litla barnið farið að grenja, stóru systk­inin farin að slást, pabbi far­inn að hóta því að skilja ein­hverja eftir við veg­kant og hnú­arnir á mömmu hvítir á stýr­inu.

Ef fjöl­skyldan hins vegar býr sig undir að þurfa að keyra til Akur­eyrar – eða guð hjálpi okk­ur, á Egils­staði – þá er hægt að und­ir­búa ferð­ina bet­ur, vera með nesti, leiki, teppi og tón­list. Ferðin verður senni­lega aldrei nein skemmti­för, en það er hægt að lág­marka lík­urnar á verstu afleið­ing­um.

Þegar við náum þess­ari bylgju niður erum við kannski bara komin í Stað­ar­skála – örlítil pása áður en síð­ari hluti tekur við,“ skrif­aði hún. 

Hún segir að það hafi alltaf hjálpað henni að und­ir­búa sig and­lega undir verra ástand og geta svo hrósað happi ef betur fer en á horfð­ist. „Ég veit að sumir eru svo aðfram­komnir að ekki er hægt að und­ir­búa sig and­lega undir meira, en ég held að flestir eigi slatta inni ef hug­ar­farið er stillt inn á það.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal