„Jafnvel þó að okkur takist að ná smitunum niður í lítið sem ekkert þá verður þetta mjög erfitt. Við verðum að halda áfram öllum þessum aðgerðum og það er oft mjög íþyngjandi. Auðvitað eru frábærar fréttir að Bretar séu að fara að bólusetja í næstu viku og ef við erum ekki aftast í lestinni þá verður þetta skárra með vorinu.“
Þetta segir Sóley Kaldal, áhættu- og öryggisverkfræðingur og sérfræðingur í alþjóðlegum öryggismálum. Hún vinnur hjá Landhelgisgæslu Íslands og í öryggisstefnumótun fyrir stofnunina. Hún flutti til Íslands með fjölskyldu sína frá Bandaríkjunum þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall á snemma í vor og fór beint að starfa fyrir almannavarnateymið.
Hún segir að fólkið innan teymisins hafi alltaf náð að halda í húmorinn – og að aldrei sé neinn uppgjafartónn í hópnum. Kjarninn spjallaði við Sóleyju um það hvernig var að flytja heim við þessar skrítnu aðstæður, vinnuna hjá Landhelgisgæslunni og fyrir almannavarnir – og hvernig hún sér fyrir sér næsta ár varðandi COVID-19.
Eigum að vera herlaus þjóð – en þó ekki án varna
Þegar Sóley er spurð út í hlutverk Landhelgisgæslunnar á COVID-tímum þá segir hún að það sé meðal annars að sjá um sjúkraflutninga, bæði inn á land og út á sjó. „Flugdeildin okkar hefur þurft að aðlaga verkferla sína mikið að þessu, hvernig COVID-sjúklingar eru fluttir og bakvarðasveit og annað slíkt. Svo sem partur af viðbragðskerfinu þá erum við með sérfræðinga á skrifstofu eins og mig sem taka þátt í teymisvinnu undir stjórn almannavarna.“
Landhelgisgæslan sinnir auðvitað öðrum mörgum og mismunandi verkefnum og bendir Sóley að gæslan sé öryggisstofnun Íslendinga. Bæði hvað varðar öryggi borgaranna og að fylgjast með hafstæðunum okkar. Svo sinni gæslan ákveðnu öryggishlutverki en Ísland er samstarfsaðili innan Atlantshafsbandalagsins.
„Ég tel að Ísland þurfi að vera í einhvers konar varnarbandalagi, en ég tel að þjóð geti ekki verið algjörlega án varna. Ég tel á sama tíma að Ísland ætti ekki að vera með neinn her, við eigum að vera herlaus þjóð. En það er mjög gott að vera í bandalagi þjóða um varnir.
Ef maður ætlar að vera í bandalagi þá þarf maður náttúrulega að leggja eitthvað af mörkum – og við leggjum af mörkum inn í sviðsmynd Atlantshafsbandalagsins mjög stórt svæði á Norðurslóðum sem er tenging austurs til vesturs. Þannig að ef við erum að fylgjast vel með okkar svæðum þá erum við að leggja ýmislegt af mörkum inn í varnarsamstarfið,“ segir hún.
Sóley bendir á að Ísland stefni á að vera herlaust áfram. „Það er enginn vilji til að breyta því en ríki þurfa samt að hafa ríkisstofnun sem fylgist með aðstæðum og tengir sig inn í varnarsamstarf erlendis – ásamt því að sinna öryggismálum á breiðum grundvelli.“
Þurfum að geta virkjað erlent samstarf mjög hratt
Hugtökin „security“ og „safety“ eru aðgreind í fræðunum og sinnir Landhelgisgæslan hvoru tveggja en á íslensku er þau þýdd „vernd“ og „öryggi“.
„Þannig að við erum bæði að fylgjast með íslenskum hafsvæðum út frá leit og björgun og mengunarslysum og fleira svo allir séu öruggir. Við fylgjumst einnig með óæskilegum ferðum, lögbrotum og öðru sem ekki telst sem eðlileg för,“ segir Sóley.
„Security“ eru varnir gegn árás af ásetningi en „safety“ eru varnir gegn því sem gerist tilfallandi. „Hið síðara fyllir meira hversdaginn okkar – almenn slys, sjúkdómar og annað sem gerist án þess að einhver beiti ofbeldi. Það sem ég skoða hjá stofnuninni er að athuga hvaða búnað við þurfum við að hafa til að vera með lágmarksviðbragðsgetu, hvar eigum við að staðsetja hann og við hverja við eigum að hafa samband. Við erum eyríki og erum með risastór hafsvæði þannig að við þurfum að geta virkjað erlent samstarf mjög hratt ef það verða slys yfir ákveðinni stærðargráðu.“
Sóley segir að þess vegna séu Íslendingar í miklu norðurslóðasamstarfi en innan þess eru Norðurlöndin fimm, sem og Bandaríkin, Kanada og Rússland. „Þau eiga erfitt með að tryggja björgunar- og viðbragðsgetu á norðurslóðum vegna þess að þetta er svo erfitt hafsvæði; myrkur, kuldi og mikil ölduhæð og annað. Við erum að reyna að samnýta úrræði okkar og stytta boðleiðir þannig að um leið og eitthvað gerist á hafsvæðum norður af þessum löndum þá getum við alltaf haft samband með mjög skömmum fyrirvara og óskað eftir því að fá viðbragðseiningar þeirra, hvort sem það eru flugvél, þyrla, varðskip til hjálpar,“ segir hún.
Samstarfið heldur áfram í gegnum netforrit
Samstarfið hefur gengið mjög vel, að sögn Sóleyjar. „Það er mikill samstarfsvilji meðal þessara þjóða og virkilega skemmtilegt að vinna í þessum hópi.“ Hún bendir á að Íslendingar séu með formennsku í Norðurskautsráðinu og á sama tíma sé Landhelgisgæslan með formennsku í Samtökum standgæsla á Norðurslóðum (e. Arctic Coast Guard Forum).
Til stendur að hafa stóra björgunaræfingu í apríl næstkomandi en Sóley segir að enn sé ekki ljóst hvort af henni verði vegna faraldurs. „Það stefnir í það ef COVID leyfir að það verði alls konar einingar frá þessum löndum sem koma til Akureyrar og þá líkjum við eftir stórslysum um borð í farþegaskipi, þar sem ferja þyrfti fjölda fólks og leka í olíutönkum þannig að girða þyrfti af lekann.“
Þrátt fyrir faraldur þá heldur samstarfið áfram í gegnum netforrit. „Það getur auðvitað verið erfitt þar sem þetta eru hertengdar stofnanir í hinum löndunum. Annað hvort er hreinlega ekki strandgæsla hjá þessum löndum, eins og í Danmörku til dæmis þar sem sjóherinn sér um gæslu. Í Bandaríkjunum og Kanada eru strandgæslur en þær eru tengdar herstofnunum þannig að það getur verið erfitt að hittast á fjarfundum upp á upplýsingaöryggi.“
Íslendingar óformlegri í samskiptum
Hvernig er að vera eina landið ekki með her í þessum samskiptum?
Sóley segir að vegna þess að Ísland sé í Atlantshafsbandalaginu (NATÓ) þá þekki Landhelgisgæslan alla þá ferla sem starfað er eftir þegar um hernaðarsamstarf er að ræða.
„Það sýna því allir fullan skilning og bera mikla virðingu fyrir Landhelgisgæslunni sem sinnir að miklu leyti þessum verkefnum sem eru innan Atlantshafsbandalagsins. Gæslan sér um þann hluta sem viðkemur þessum borgaralegu skyldum og við upplifum ekki að við séum eitthvað minni máttar.
Það helsta er kannski að við Íslendingarnir erum svolítið óformlegri í samskiptum við yfirmenn og hvernig við ávörpum hvert annað. Í þessum hernaðarstrúktúr segir þú ekki hvað sem er við hvern sem er en við Íslendingar erum svo smá að við bara tölum öll saman,“ segir hún.
Yndislegt að vera komin heim
Sóley flutti til Íslands í fyrstu bylgju COVID-19 frá Bandaríkjunum, eins og áður segir, en hún og eiginmaður hennar hafa búið víða um heim í gegnum árin. „Það er yndislegt að vera komin heim og ég upplifði það sérstaklega þarna í fyrstu bylgjunni af COVID að ég sá ótrúlegustu Íslendinga, sem ætluðu sér aldrei að flytja heim, koma heim. Það var svo þægilegt hvað faraldurinn var smár í sniðum hér og öllu vel stýrt hérna. Viðbrögðunum hefur verið stýrt á heimsmælikvarða á Íslandi en eftir því sem lengra dregst á faraldurinn þá verður erfiðara að fá fólk til samstarfs og allir verða þreyttir. Verkefnin fara að verða meira íþyngjandi vegna þess að þau koma ofan í öll önnur verkefni sem þarf að sinna.“
Sóley segir að fjölskyldunni hafi hálf partinn liðið eins og flóttamönnum en þau bjuggu í New Haven í Connecticut og þurftu þau að ákveða á fjórum dögum hvort þau myndu flytja aftur heim til Íslands – og í raun flýja Bandaríkin.
„Við eigum tvö börn og við þurftum að pakka allri búslóðinni og gefa – en við gátum ekki selt hana. Svo þurftum við að kaupa flugmiða og fljúga heim. Þetta var í mars en vinir okkar voru í „lockdown“-ástandi alveg fram á haust. Þau upplifðu engan eðlilegan tíma en börnin þeirra voru til dæmis ekkert í skólanum og komust þau ekki einu sinni út á róló. Öllum opinberum leiksvæðum var lokað og mátti enginn fara neitt eða gera neitt.“
Sóley segir að henni hafi runnið blóðið til skyldunnar þegar faraldurinn blossaði fyrst upp. „Ég vissi strax í janúar, verandi í áhættustýringu og öryggisstefnumótun, að byrjað var að undirbúa viðbrögð við því ef þessi veira kæmi – þegar þetta var ennþá aukagrein á blaðsíðu þrjú og fjögur í blöðunum.“
Fór strax að undirbúa sig andlega
Landhelgisgæslan er partur af björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og segir Sóley að þar hafi strax verið byrjað að dusta rykið af áætlunum og fara yfir það hvað yrði gert ef veiran kæmi til landsins.
Hún segir að strax eftir áramót hafi hún byrjað að búa sig andlega undir það að veiran kæmi – eða um leið og hún frétti af henni. Kennari í skólanum hennar hafði það á orði að þessi sjúkdómur yrði skæður og að hann myndi hafa mikil áhrif. „Svo varð það bara raunin. Ég fékk þannig séð langan aðdraganda sem áhættuverkfræðingur til að setja upp í höfðinu hvað væri að fara að gerast.“
Svo þegar Sóley kom heim í byrjun mars þá hafði hún strax samband við sína yfirmenn hjá Landhelgisgæslunni og byrjaði hún strax að vinna aðgerðateymi undir stjórn almannavarna en öll starfsemin er í sama húsi í Skógarhlíð.
„Öllum starfsmönnum sem vettlingi gátu valdið voru settir í samhæfingarstöðina og deildum við með okkur verkefnum sama hjá hvaða stofnunum við vorum. Ég var til dæmis í viðbragðsteymi með slökkviliðinu, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, almannavörnum og Landspítalanum.“
Sú vinna gekk mjög vel, að hennar sögn. „Það var mjög gott að vinna með þessu frábæra fólki. Tilgangurinn með Skógarhlíðinni er að hafa stuttar boðleiðir á milli viðbragðsaðila. Þó eru eldveggir á milli stofnana en voru þeir allir felldir niður um leið og faraldurinn skall á.“
Hún segir að venjulega sé mikil skipting þarna á milli en í fyrsta skipti hafi hún upplifað ákveðna blöndun þar sem allir voru að deila mismunandi þekkingu og reynslu. „Það var algjörlega frábært og skemmtilegt samstarf. Allir ætluðu sér einhvern veginn að komast í gegnum þetta – enda Íslendingar mjög góðir að gera það í hamförum.“
Auðvitað gera allir einhvern tímann mistök
Hvernig upplifir Sóley þessa þriðju bylgju miðað við þá fyrstu?
Hún segir að núna sé ekki um að ræða sömu fordæmalausu stöðuna. „Nú eru komin fordæmi og það er auðveldara fyrir stofnanir og fyrirtæki að skilja þau skilaboð sem við erum að senda. Aftur á móti, þó að allir skilji þetta betur og afleiðingarnar, þá eru margir orðnir þreyttari líka. Íslendingar eru mjög vanir því að virkja samhæfingarstöð út af ýmsum atburðum eins og jarðskjálftum og eldgosum en þetta er yfirleitt dagaspursmál. Það er mjög óvanalegt að viðbragðsaðilar séu í svona rosalega langvarandi viðbragði. Ég held að það sé eitthvað sem á eftir að rannsaka betur síðar meir vegna þess að fæst okkar hafa reynslu af því að vera í margra mánaða vinnu við að fleyta upplýsingum.“
Sóley segir að henni finnist merkilegt hve mikinn starfskraft þríeykið hafi og metnað til að halda áfram að gera hlutina vel – og láta engan bilbug á sér finna.
„Auðvitað gera allir mistök – það er óhjákvæmilegt þegar svona ástand dregst á langinn. Svo koma auðvitað dagar þar sem er þungt hljóð í okkur sérfræðingunum, til dæmis þegar tölur um dauðsföll koma eða erfitt ástand á sjúkrahússtofnunum eða annað, en það er samt alltaf haldið í húmorinn. Það er þessi íslenska hugsun að við reddum okkur út úr þessu.
Það er aldrei neinn uppgjafartónn. Aldrei sorg eða pirringur og þó að við séum líka bara öll fólk með heimilislíf og þetta bitni á okkur þá höfum alltaf náð að setja það að oddinn af hverju við erum að vinna þessa vinnu,“ segir hún.
Hjálpar til að undirbúa sig fyrir enn verra ástand
Sóley hvatti vini sína og fjölskyldu á Facebook í lok október, þegar herða átti aðgerðir á ný, til að undirbúa sig undir langhlaup. Það væru miklar líkur á að erfiðleikar og hömlur yrðu til staðar langt fram á næsta ár.
„Ég vil gjarnan líkja þessu við bílferð með börnum. Ef fjölskylda sest upp í bíl og börnin telja að ferðinni sé heitið upp í Mosfellsbæ, þá eru allir orðnir pirraðir og ómögulegir í bílnum strax á Kjalarnesi. Litla barnið farið að grenja, stóru systkinin farin að slást, pabbi farinn að hóta því að skilja einhverja eftir við vegkant og hnúarnir á mömmu hvítir á stýrinu.
Ef fjölskyldan hins vegar býr sig undir að þurfa að keyra til Akureyrar – eða guð hjálpi okkur, á Egilsstaði – þá er hægt að undirbúa ferðina betur, vera með nesti, leiki, teppi og tónlist. Ferðin verður sennilega aldrei nein skemmtiför, en það er hægt að lágmarka líkurnar á verstu afleiðingum.
Þegar við náum þessari bylgju niður erum við kannski bara komin í Staðarskála – örlítil pása áður en síðari hluti tekur við,“ skrifaði hún.
Hún segir að það hafi alltaf hjálpað henni að undirbúa sig andlega undir verra ástand og geta svo hrósað happi ef betur fer en á horfðist. „Ég veit að sumir eru svo aðframkomnir að ekki er hægt að undirbúa sig andlega undir meira, en ég held að flestir eigi slatta inni ef hugarfarið er stillt inn á það.“
Lesa meira
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
31. desember 2022WHO ýtir enn og aftur við Kínverjum – Nauðsynlegt að fá nýjustu gögn um COVID-bylgjuna
-
31. desember 2022Endalok COVID-19 – Eða hvað?
-
21. desember 2022Núll-stefnan loks frá og COVID-bylgja á uppleið
-
6. desember 2022Mikill veikindavetur framundan
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
27. ágúst 2022„Skunkurinn í lautarferðinni“ yfirgefur Hvíta húsið
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum