Ég fékk aldrei neina aðstoð þegar ég kom hingað fyrst. Mér fannst það mjög erfitt en fólk af erlendum uppruna er oft ekki meðvitað um réttindi sín hér á landi, til dæmist varðandi kjaramál. Margir vita ekki að þeir geti borgað í stéttarfélag og að það sé gott fyrir þá að gera það, því þá geti þeir leitað sér aðstoðar ef á þarf að halda.“
Þetta segir Mirabela Blaga í samtali við Kjarnann en hún hefur búið á Íslandi í 14 ár. Mirabela er lögfræðingur og mun útskrifast með fullnaðarskírteini næsta vor. Hún vinnur nú við að skrifa meistararitgerð um mansal erlendra verkamanna.
„Eins og allir vita hafa tilteknar starfsmannaleigur misnotað fólk hér á landi sem enn starfa undir öðrum nöfnum og á öðrum kennitölum. Það þyrfti að gera þeim það erfiðara fyrir að flakka svona á milli kennitalna og halda áfram að misnota fólk og kerfið. Það þarf að koma í veg fyrir að slíkir einstaklingar, sem misnota kerfið, geti haft rekstur,“ segir hún.
Fólki lofað öllu fögru
Þá séu þessar starfsmannaleigur líklegast með tengiliði sem þekkja vel til erlendis og beinlínis sækja fólkið út til að vinna hér á landi. Mirabela segir að þetta verkafólk sé iðulega með litla menntun og fái lág laun fyrir störf sín. Því sé lofað öllu fögru við komuna hingað til lands en raunveruleikinn sé síðan allt annar.
Mirabela minnir á að þetta eigi ekki við um allar starfsmannaleigur, sumar séu í lagi.
„Ég þekki einstaklinga sem komu hingað í gegnum starfsmannaleigur sem virða samninga og borga launin. Allt samkvæmt samningi. Svona er þetta bara mismunandi og það eru alltaf einhverjir svartir sauðir alls staðar,“ segir hún.
Fólk af erlendum uppruna í verstu stöðunni í kreppunni
Samhliða námi hefur Mirabela unnið sem skjalaþýðandi og túlkur síðan árið 2013. Hún stofnaði nýlega fyrirtæki sem sér um túlkun og lögfræðilega aðstoð. Hún vann síðustu tvö ár sem landamæravörður í Keflavík en starfar nú sem sérfræðingur í nýrri deild útlendingamála hjá Vinnumálastofnun.
„Stór hluti atvinnulausra er fólk af erlendum uppruna en flestir unnu í ferðamannabransa og á veitingastöðum. Þeir eru í verstu stöðunni eins og er,“ segir hún.
Þannig hafi COVID-19 faraldurinn haft gríðarlega slæm áhrif á fjölda vinnandi fólks enda atvinnuleysi í hæstu hæðum. En þrátt fyrir erfitt ástand sér Mirabela ljós í myrkrinu. Hún telur að ýmislegt gott hafi átt sér stað á árinu og bendir hún meðal annars á að margar stofnanir séu „að vakna til lífsins“ er varðar útlendingamál á Íslandi. Til dæmis hjá Vinnumálastofnun sé verið að þróa ýmsar leiðir til þess að hjálpa fólki af erlendum uppruna. Þá hafi rafræn samskipti aukist og batnað til muna.
„Festist“ á Íslandi
Mirabela er fædd og alin upp í Rúmeníu og kom fyrst til Íslands árið 2006. „Fyrst þegar ég kom til Íslands dvaldi ég í þrjá mánuði. Ég kynntist íslenskum eiginmanni mínum og „festist“ síðan,“ segir hún og hlær. „Eins og gerist stundum.“
Hún bjó í Austurríki í nokkur ár áður en hún kom hingað til lands og hefur því búið utan heimalandsins í mjög langan tíma. Þegar hún er spurð út í upplifun sína af því að flytja til Íslands þá segir hún að það hafi verið gott að búa og dvelja hér árið 2006.
„Launin voru ekki mikið lægri en þau eru í dag. Ég starfaði á veitingastað í Kringlunni og launin voru fín. Það var mjög gott að vera á Íslandi árið 2006 þegar ég kom. Eftir þá vinnu fór ég að vinna á snyrtistofu sem naglasnyrtifræðingur og síðan tveimur árum síðar fór ég í fæðingarorlof, eða akkúrat í kreppunni,“ segir hún.
Mikil breyting á íslensku samfélagi á þessum tíma
Mirabela segir að mikil breyting hafi orðið á íslensku samfélagi á þessum tíma frá því að hún flutti fyrst til landsins. „Maður sá ekki mikið af útlendingum. Ég til dæmis kynntist ekki neinum frá Rúmeníu fyrr en miklu miklu seinna. Maður sá ekki svo marga erlenda verkamenn eða fólk af erlendum uppruna eins og maður sér í dag.“
Hún segir að þegar hún byrjaði að vinna sem túlkur árið 2013 þá hafi hún nánast ekkert haft að gera. „Það var kannski eitt verkefni á mánuði, í mesta lagi. Núna gæti ég, ef ég myndi gefa mér tíma, verið að vinna allan daginn í þessu; að túlka á rúmensku. Þá er ég ekki einu sinni að tala um Pólverjana eða fleiri þjóðerni.“
Þessi aukning hófst þegar ekki þurfti lengur dvalar- og atvinnuleyfi til að vinna hér á landi. „Þegar EES-samningurinn tók gildi og fleiri lönd fengu aðild að honum þá byrjar sprengjan – eða ég tók allavega meira eftir þessu þá. Hvað rúmenska fólkið varðar þá hefur komin sprengja undanfarin fjögur til fimm ár. Allt í einu kom fjöldi fólks, sem til dæmis bjó í hinum Norðurlöndunum og Bretlandi. Svo komu margir frá Spáni, þar sem kreppan var slæm, til að vinna hér.“
Pólska samfélagið mjög öflugt hér á landi
Mikið af þessu erlenda fólki vann í veitingabransanum, sem og í ferðamannaiðnaðinum. Mirabela nefnir sérstaklega byggingargeirann og segir hún að heilu hóparnir af Rúmenum hafi komið í gegnum starfsmannaleigur til að vinna við hann. „Einnig komu stórir hópar frá Búlgaríu, Úkraínu og Póllandi en mér finnst reyndar Pólverjarnir öðruvísi, þeir eru með svo allt á hreinu.“
Hún bendir á að pólska samfélagið sé mjög öflugt hér á landi og að upplýsingaflæðið þeirra á milli sé meira en hjá fólki af öðrum þjóðernum. „Þeir eru komnir með sendiráð og ýmis konar samtök. Það eru eiginlega allar stofnanir komnar með helstu upplýsingarnar á pólsku. Enda eru þeir miklu fjölmennari en aðrir hópar.“
Hvernig upplifir þú að réttindi fólks af erlendum uppruna séu virt hér á landi?
„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í laganámið var til þess að geta aðstoðað aðra, en ég fékk aldrei neina aðstoð þegar ég kom hingað fyrst. Mér fannst það mjög erfitt en fólk af erlendum uppruna er oft ekki meðvitað um réttindi sín hér á landi, til dæmist varðandi kjaramál. Margir vita ekki að þeir geti borgað í stéttarfélag og að það sé gott fyrir þá að gera það, því þá geti þeir leitað sér aðstoðar ef á þarf að halda. Margir vinnuveitendur láta fólk ekki einu sinni vita að það geti farið í stéttarfélag,“ segir hún og bætir því við að margir verði einnig fyrir launamismunun og að brotið sé á þeim. „Þá veit þetta fólk ekki hvaða leiðir eru í boði fyrir það til þess að sækja réttindi sín og kæra.“
Helst er það í kjaramálum, að hennar sögn, sem brotið er á fólki. „Fólk veit ekki hvaða leiðir það hefur og er smeykt við að krefjast sinna réttinda vegna þess að margir skrifa aldrei undir ráðningarsamning,“ segir hún.
Mirabela segir að margir af erlendum uppruna sem hún hefur hitt í gegnum störf sín segi að vinnuveitendur komi ekki endilega illa fram við sig en nefni frekar samstarfsfélaga. „Að það sé gert lítið úr þeim vegna þess að þeir tali ekki tungumálið. Fjöldi fólks af erlendum uppruna er lagður í einelti, hef ég heyrt. Fólki er hótað eða það misnotað. Bara nefndu það. Þannig er það ekki alltaf vinnuveitandi sem fer illa með fólk. Og fólk þorir ekki að kvarta, það er svo hrætt við að missa vinnuna. Það er bara mjög sorglegt.“
Var sjálf fljót að aðlagast íslensku samfélagi
Eins og fjallað var um hér að ofan er pólska samfélagið mjög þétt á Íslandi, en hvernig standa Rúmenar í því samhengi?
Mirabela segir að fólk frá Rúmeníu eigi almennt mjög auðvelt með að aðlagast öðrum samfélögum, menningu og aðstæðum. „Ég var til dæmis mjög fljót að aðlagast og hef alltaf verið mjög forvitin að eðlisfari; að læra, skilja og vita. Það eru ekki mörg dæmi þess að rúmenskt fólk hafi ekki aðlagast hér á landi, allavega ekki sem ég veit um. Fólk kvartar aðallega yfir veðrinu,“ segir hún og hlær en bætir því við að auðvitað telji ýmsir sig verða fyrir einhverri mismunun. Fólk leggi þó ólíkan skilning í hugtakið „að vera mismunað“.
„Mér finnst Íslendingar allavega almennt hafa tekið vel á móti þessum hóp en ég hef auðvitað heyrt um tilvik þar sem svo var ekki. Það er þá helst ef fólk kemur í gegnum gervi-starfsmannaleigur og eitthvað slíkt. En hvar sem maður leitar hér á Íslandi þá eru stofnanir alltaf tilbúnar að veita aðstoð.“
Hún bendir á að þetta sé einnig einstaklingsbundið. „Þetta fer líka eftir því hvernig maður er sjálfur. Hvort þér finnist alltaf allt ömurlegt eða hvort þú viljir leysa málið. Mér finnst margir sem koma hingað með enga tungumálakunnáttu vera mjög fljótir að læra, allavega ensku,“ segir hún.
Margir kunna lítið á tölvur
Helst finnst Mirabelu mikilvægt að upplýsingaflæði til fólks af erlendum uppruna sé gott og er hún til dæmis dugleg að deila með samlöndum sínum fróðleik sem kemur sér vel við það að búa á Íslandi. „Margir af erlendum uppruna sem koma hingað að vinna kunna lítið á tölvu og hafa ekki einu sinni tölvupóst. Hafa ekki ferilskrá á netinu. Eiga ekki snjallsíma eða skilja rafræn skilríki.“ Mikilvægt sé að þessi hópur fái hjálp við tæknimálin.
Hvernig er hægt að bæta upplýsingaflæðið til fólks af erlendum uppruna, hvernig er hægt að ná til þessa hóps?
Mirabela segir að ein leiðin sé að stofnanir taki sig saman og að upplýsingaflæðið milli þeirra sé sýnilegt á fleiri tungumálum. „Svo er líka nauðsynlegt að vera á samfélagsmiðlum því allt í dag gerist til dæmis á Facebook. Fólk er mjög sjaldan að fylgjast með því sem gerist eða nýjustu fréttum á vefsíðum stofnana eða samtaka. Auðveldasta leiðin væri að búa til einföld myndbönd með leiðbeiningum. Reyndar eru margar stofnanir farnar að fara þá leið.“
Margt jákvætt í kortunum
Það besta sem komið hefur fyrir varðandi útlendingamál á Íslandi undanfarin misseri, að mati Mirabelu, er ráðgjafarstofa innflytjenda en Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu þess efnis að stofnuð verði slík stofa. Mirabela segir að til standi að hún taki til starfa næsta vor.
Í þingsályktuninni segir að hlutverk ráðgjafarstofu verði að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur. Áætlunin verði unnin í samvinnu við innflytjendaráð, opinberar stofnanir, sveitarfélögin, félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins.
„Mér finnst íslenska ríkið, sveitarfélög og stofnanir standa sig mjög vel þarna. Það eru fullt af verkefnum í gangi og allir að gera sitt besta. Við erum að læra og allir eru að læra. Oft þurfa leiðinlegir hlutir að gerast til að eitthvað lagist, því miður,“ segir Mirabela.
Nefnir hún sem dæmi brunann á Bræðraborgarstíg en hún vonast til þess að tekið verði á húsnæðismálum í framhaldinu.
Við erum öll með ýmis réttindi – en líka skyldur
Mirabela segir að hún hafi tekið eftir því þegar hún byrjaði að aðlagast íslensku samfélagi og læra tungumálið að tekið væri vel á móti fólki á Íslandi. „Þú sem persóna getur ekki alltaf beðið eftir öðrum að koma til þín og veita þér upplýsingar eða stuðning. Þú þarft líka að leita sjálfur.
Við erum með ýmis réttindi en við erum líka með skyldur – og verður fólk að átta sig á því einnig. Það er kannski auðvelt að kvarta en fólki ber líka skylda til dæmis að læra tungumálið í því landi sem það býr. Það er líka skylda fólks að reyna að aðlagast samfélaginu sjálft en ekki hópast bara saman með þeim sem eru frá sama landi.“
Að endingu, hvað er hægt að gera betur varðandi útlendingamál á Íslandi?
Mirabela telur að bæta mætti heimildir stéttarfélaga til að sekta vinnuveitendur. „Ekki er nóg að hafa vinnueftirlit, það greinilega nær ekki öllu. Mér þætti betra ef stéttarfélögin fengju meiri heimildir til að hafa eftirlit með vinnumarkaðinum. Allavega til að beita sektum,“ segir hún. Þetta eigi auðvitað líka við um íslenska launþega.
Svo myndi hún vilja auka fjárframlög til lögreglunnar þannig að hún gæti sinnt þeim málum sem snúa að brotum á vinnumarkaði. „Það mætti þróa ákveðnar deildir innan lögreglunnar til að takast á við mál hjá til dæmis starfsmannaleigunum og til að taka á móti fólki sem brotið hefur verið á.“ Þá þyrfti samvinnu á milli lögreglu, stéttarfélaga og stofnana til að hjálpa fólki ef erlendum uppruna til að leita réttar síns.
Hún segir að margir útlendingar fari einfaldlega heim áður en þeir fái nokkurn tímann réttlæti. Hún hvetur aftur á móti fólk sem verður fyrir óréttlæti til að kvarta og ekki samþykkja neitt sem það telur brjóta gegn grundvallarréttindum þess.
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi