Hvert fara tilkynningar um kynferðislega áreitni eða ofbeldi í íþróttum?
Kjarninn sendi fyrirspurnir á stærstu íþróttahreyfingarnar á Íslandi til að kanna hvort ásakanir um kynferðislega áreitni eða ofbeldi hefðu borist á borð stjórnenda á síðustu fjórum til tíu árum. Svörin létu ekki á sér standa.
Konur í íþróttum kröfðust þess í byrjun árs 2018 að umhverfi íþróttanna breyttist, að konum væri gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það kæmi niður á framtíðarmöguleikum þeirra innan íþróttarinnar, að á þær væri hlustað, að með þeim væri staðið og að þeim væri trúað.
Þremur og hálfu ári síðar lék allt á reiðiskjálfi innan Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði grein í Vísi í sumar þar sem hún sakaði KSÍ um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna. Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 sem hún birti á samfélagsmiðlum í byrjun maí en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta.
Kjarninn óskaði ítrekað eftir svörum hjá KSÍ varðandi það hvort sambandið hefði einhvern tímann haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta, sér í lagi áður en verkferlar voru endurbættir en samkvæmt yfirlýsingu KSÍ þann 17. ágúst voru allir verkferlar slíkra mála endurbættir og hafði fyrsta bylgja #Metoo meðal annars áhrif þar á. „Jafnréttisáætlun og jafnréttisstefna sambandsins hafa verið uppfærðar og er þar fjallað sérstaklega um kynferðislegt ofbeldi. Þá hefur KSÍ staðið fyrir vinnustofu um kynferðisofbeldi fyrir aðildarfélög sín og bætt fræðslu um kynferðisofbeldi inn í námsefni þjálfaramenntunar,“ sagði í yfirlýsingunni.
KSÍ vildi ekki tjá sig um einstök mál en í svari frá sambandinu til Kjarnans kom fram að þann 20. ágúst kvartanir um meint brot einstakra leikmanna hefðu ekki borist inn á borð KSÍ. Rúmum mánuði seinna var annað hljóð í skrokknum og staðfesti KSÍ við Kjarnann að ábending hefði borist sambandinu „snemmsumars“ um fyrrnefnt 10 ára gamalt mál. Deildarstjóra samskiptadeildar vissi ekki nákvæmlega í hvaða formi sú ábending hefði komið inn á borð sambandsins.
„Seinnipart sumars barst svo aftur skrifleg ábending. Frá KSÍ séð var formaðurinn með það mál á sínu borði. Við höfum ekki upplýsingar um það hvort KSÍ hafi haft einhverja sérstaka vitneskju um það mál fyrir þann tíma.“ Sú ábending kom með tölvupósti þann 27. ágúst, að því er fram kemur í svarinu, eða degi eftir umtalað viðtal við formann sambandsins, Guðna Bergsson, þar sem hann sagði að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ.
KSÍ svarar ekki hvort málið hafi farið í sérstakan verkferil þegar ábendingin barst í byrjun júní.
Kjarninn sendi í kjölfarið á KSÍ-málinu fyrirspurnir á stærstu íþróttahreyfingarnar á Íslandi til að kanna hversu margar tilkynningar hefðu borist þeim er varðar kynferðislega áreitni eða ofbeldi á síðustu árum. Svörin létu ekki á sér standa og svöruðu allar hreyfingarnar þegar eftir því var leitað. Einnig spurði Kjarninn hvort sérstakt verklag væri til staðar fyrir slíkar tilkynningar innan hreyfinganna.
Þurfa að virða óskir þolenda ef þær eru aðrar en að kalla til lögreglu eða samskiptaráðgjafa
Eitt mál er varðar kynferðislegt áreiti hefur komið formlega inn á borð Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) á síðustu 10 árum. Málið var „tekið föstum tökum“, að því er fram kemur í svarinu.
„Mál koma formlega inn á borð til okkar með því að þolandi eða einstaklingur tengdur þolenda með beina vitneskju tilkynnir okkur um mál. Hvort sem er í beinu samtali, gegnum síma eða tölvupósti,“ segir í svarinu.
Samkvæmt KKÍ er sambandið með verkferla fyrir slík mál.
„Í stuttu máli er það þannig að ef upp kemur mál þá eru formaður og varaformaður fyrstu snertifletir. Málið er yfirfarið og tekin ákvörðun um hvort þurfi að tilkynna til lögreglu sem við teljum þann farveg sem svona alvarleg mál eigi að fara.
Í dag höfum við einnig samskiptaráðgjafa íþrótta-og æskulýðshreyfingarinnar sem á að fá öll mál til sín. En samt sem áður þurfum við að virða óskir þolenda ef þær eru aðrar en að kalla til lögreglu eða samskiptaráðgjafa. Þegar búið er að ná utan um málið er stjórn KKÍ upplýst og ítrekaður trúnaður sem ríkir um svona alvarleg mál. KKÍ hvetur þá sem telja á sér brotið að tilkynna um slík mál, öðruvísi er ekki hægt að taka á þeim,“ segir í svarinu.
HSÍ hefur ekki beina aðkomu að málum sem koma upp innan félaganna
Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) hefur borist eitt erindi er varðar ótilhlýðilega háttsemi starfsmanns sem var skoðað og er lokið á síðustu fjórum árum, að því er fram kemur í svari HSÍ við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt HSÍ kom eitt mál óbeint á þeirra borð fyrir þann tíma en það varðaði sjálfboðaliða hjá þeim „sem varð sekur um ótilhlýðilega framkomu vegna starfa hans í félagi“.
Í svari HSÍ við fyrirspurn Kjarnans vill sambandið benda á að mál sem koma upp innan félaga fari í ferli hjá félögunum sjálfum samkvæmt leiðbeiningum ÍBR og ÍSÍ eða samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum ef það á við og hafi HSÍ enga beina aðkomu að þeim.
Ef upp koma mál er tengjast starfsemi HSÍ þá sé þeim beint til samskiptaráðgjafa íþrótta – og æskulýðsstarfs eins og kveðið er á um íþróttalögum.
Konur í íþróttum stigu fram
Konur í íþróttum létu sig ekki vanta, eins og áður segir, í fyrstu metoo-bylgjunni og sendu þær frá sér yfirlýsingu í janúar 2018 og samantekt sagna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir.
Þær sögðu ljóst að kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun væri vandamál í hinum karllæga íþróttaheimi Íslands líkt og á öðrum stöðum í samfélaginu. Þær sögðu sjást í frásögnunum að vandann mætti finna í framkomu þjálfara, stjórnarmanna, nuddara og sjúkraþjálfara, dómara, sjálfboðaliða, fjölmiðla, sem og hjá öðrum iðkendum.
Ein sagan frásögnin greindi frá því að eftir að íþróttakonu var nauðgað af þjálfara sínum hefði hún grennst töluvert og átt mjög erfitt með að borða og sofa. Hún hefði síðan greint tveimur landsliðsþjálfurum frá nauðguninni svo þeir vissu hvað hún var að ganga í gegnum. Nokkrum dögum síðar hefði einn aðstoðarlandsliðsþjálfari komið upp að henni og sagt að hún ætti að líta á björtu hliðarnar, kannski var það gott að henni hefði verið nauðgað því nú væri hún svo grönn.
Konurnar sögðu fordæmi fyrir því að konur sem staðið hafa á rétti sínum og látið vita af ofbeldi sem þær hafa verið beittar, fengju á sig orð fyrir að vera erfiðar í samstarfi með tilheyrandi útskúfun og óréttlæti, ef það á annað borð væri tekið mark á orðum þeirra. Gerendur sem hafa verið reknir á einum stað væru einfaldlega ráðnir annars staðar. Einnig væru dæmi um það að íþróttafélög hefðu ekkert gert í málunum þrátt fyrir að brot geranda hefði verið upplýst.
„Stúlkur og konur eiga skilið að fá að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga. Við setjum því fótinn niður og biðjum um leikhlé. Við sættum okkur ekki við mismunun, ofbeldi eða áreitni og köllum eftir breytingum,“ sögðu þær í yfirlýsingunni.
Þær kröfðust þess að málið væri tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd, þjálfarar og aðrir innan íþróttanna, litu í eign barm og lofuðu stúlkum og konum breytingum til frambúðar. Þá kröfðust þær þess að umhverfi íþróttanna breyttist, að konum væri gert kleift að segja frá ofbeldi án þess að það kæmi niður á framtíðarmöguleikum þeirra innan íþróttarinnar, að á þær væri hlustað, að með þeim væri staðið og að þeim væri trúað. Síðast en ekki síst kröfðust þær þess að geta stundað íþróttir án þess að verða fyrir ofbeldi eða áreitni. Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 íþróttakonur.
Ítarlegasta svarið barst frá Fimleikasambandi Íslands (FSÍ) en það hefur fengið tilkynningar um fimm tilfelli er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi inn á borð til sín á síðustu fjórum til fimm árum. Á vef sambandsins er sérstakur tilkynningarhnappur þar sem hægt er að tilkynna mál til sérstaks fagráðs.
„Stjórn FSÍ hefur á síðustu misserum lagt mikla áherslu að búa til þannig umhverfi að ef iðkendur hafa upplifað erfiða lífsreynslu geti þeir leitað til sambandsins og við stutt þá og brugðist við,“ segir í svarinu.
Þjálfara sagt upp störfum eftir tilkynningar
Fram kemur hjá FSÍ að í lok árs 2016 hafi sambandið fengið ábendingu frá fagteymi þeirra um ósæmilega hegðun þjálfara í landsliðsverkefni á vegum sambandsins. Í kjölfarið hafi málið verið tilkynnt til Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) en þjálfarinn var þá að störfum við þjálfun í félagi innan þeirra raða.
Samkvæmt FSÍ var stjórn viðkomandi félags upplýst um málið og þjálfarinn boðaður á fund hjá FSÍ þar sem honum hafi verið tilkynnt að málið hefði borist á borð stjórnar og að hann kæmi ekki til greina sem þjálfari í verkefnum á vegum sambandsins aftur. Málið hafi sömuleiðis verið tilkynnt til barnaverndar.
Í lok árs 2017 hafði félagið sjálft fengið fleiri tilkynningar um þjálfarann og var honum í framhaldinu sagt upp störfum, að því er fram kemur í svarinu. FSÍ hafi þá aftur komið inn í málið til að styðja við félagið, safnað upplýsingum og tilkynnt hann aftur til barnaverndar, sem hafi leitt til rannsóknar hjá lögreglu. Þjálfarinn sem um ræðir er af erlendu bergi brotinn og fluttist af landi brott í framhaldinu, að því er fram kemur hjá FSÍ.
Endurskoðuðu siðareglur sambandsins í kjölfarið
Eftir reynslu sambandsins af þessu máli ákvað stjórn FSÍ að stofna óháða aga- og siðanefnd sem starfar sem leiðbeinandi nefnd fyrir iðkendur og félögin. Í henni sitja lögmaður, læknir og sálfræðingur. Hægt er að tilkynna mál til nefndarinnar og fá ráð nafnlaust, kjósi viðkomandi það.
Samhliða stofnun aga- og siðanefndar FSÍ, voru siðareglur sambandsins endurskoðaðar og í kjölfarið sendar til félaganna, þeim til leiðsagnar.
Fleiri mál áttu eftir að koma inn á borð sambandsins. Fram kemur hjá FSÍ að í byrjun árs 2018 hafi landsliðskona leitað til þeirra með mjög erfiða lífsreynslu í keppnisferð á vegum FSÍ, þar sem henni hafi verið nauðgað af keppanda frá öðru landi.
Samkvæmt FSÍ voru viðbrögð stjórnar við þeim fréttum þau „að allt kapp var lagt á að standa við bakið á konunni, henni veittur sá stuðningur sem hana vantaði og við hvöttum hana eindregið til að segja sína sögu og vorum til staðar fyrir hana og hjálpuðum henni við undirbúning og framsetningu“.
Eitt mál til meðferðar hjá aga- og siðanefnd FSÍ
Í fyrra leituðu síðan konur til FSÍ vegna erfiðrar reynslu á árunum 2008 til 2013 þar sem félagsþjálfari þeirra áreitti þær kynferðislega um árabil. „Þegar að svo langt var liðið frá þessum erfiðu atburðum var þjálfarinn, sem var af erlendu bergi brotinn, fluttur af landi brott og var því ákveðið, í samráði og samvinnu við félagið, að tilkynna málið til samskiptaráðgjafa íþróttahreyfingarinnar, sem hafði nýlega hafið störf. Þar fengu konurnar ráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Félagið sem um ræðir hafði á sínum tíma brugðist við tilkynningu þeirra með því að segja þjálfaranum upp störfum,“ segir í svari FSÍ.
Nýjasta tilkynningin barst á borð stjórnar fyrir stuttu. Samkvæmt FSÍ á félagsþjálfari að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart iðkanda. Málið hafi verið tilkynnt til aga- og siðanefndar sambandsins og sé þar til meðferðar.
Krefjast nú sérstakt þjálfaraleyfis
FSÍ segist hafa farið í mikla vinnu til að bregðast við málum sem þessum – bæði sem komið hafi upp hér á landi sem og í fimleikahreyfingunni erlendis.
„Tekið var inn í samninga við landsliðsþjálfara FSÍ að óskað er eftir leyfi til uppflettingar í sakaskrá og slíkt er gert áður en samningur er kláraður.
Árið 2017 var tekin ákvörðun um að fræða þjálfara í fimleikum enn frekar og ákveðið að setja upp kerfi þar sem krafist er sérstaks þjálfaraleyfis til að þjálfa ólíka iðkendahópa. Eitt af skilyrðunum til að fá þjálfaraleyfi er að þjálfarar mæta á fræðsludag FSÍ sem haldinn er á hverju hausti, þar sem tekin eru fyrir málefni líðandi stundar í samfélaginu hverju sinni,“ segir í svari FSÍ. Í fyrra, á fræðsludegi ársins 2020, voru samskipti við iðkendur, siðareglur FSÍ og transbörn í íþróttum í brennidepli.
Vilja setja aukinn kraft í forvarnir og greiningu á stöðu mála
Þing Fimleikasambands Íslands árið 2020 fagnaði því að opin umræða hefði átt sér stað um það ofbeldi sem hefur liðist í fimleikahreyfingum víðs vegar um heiminn, því aðeins með hispurslausri umræðu væri hægt að sporna við því að slíkt ofbeldi liðist í framtíðinni.
„Iðkendur eiga rétt á öruggu umhverfi án alls ofbeldis. Við ætlum öll að taka höndum saman um að ofbeldi í hvaða formi sem er innan fimleikahreyfingarinnar verði ekki liðið. Við erum öll sammála um að standa sameiginlega vörð um faglega meðhöndlun á þeim málum sem upp kunna að koma og við hvetjum jafnframt alla iðkendur og aðra innan hreyfingarinnar til að tilkynna til aganefndar Fimleikasambandsins ef þeir upplifa ofbeldi af einhverju tagi við fimleikaiðkun. Til að fyrirbyggja að iðkendur og aðrir innan hreyfingarinnar verði fyrir ofbeldi og áreitni ætlum við að stuðla að menningu virðingar og jafningjasamskipta og setja aukinn kraft í forvarnir og greiningu á stöðu þessara mála hér á landi,“ segir í ályktun þingsins síðan í fyrra.
Þá felur samþykkt aðgerðaráætlun sambandsins meðal annars í sér að farið verði í rannsókn á andlegri líðan iðkenda innan sambandsins til að hægt sé að meta næstu skref á þessari vegferð og standa viðræður yfir við háskólasamfélagið um samstarf.
Á nýafstöðnu Fimleikaþingi þann 4. september síðastliðinn fékk stjórn FSÍ samskiptaráðgjafa Íþróttahreyfingarinnar til að halda erindi með það að markmiði að kynna vel fyrir félögunum hvernig þjónusta hennar virkar í þeim tilgangi að auðvelda félögum að tilkynna mál af þessu tagi til hennar núna og síðar meir, ef einhver væru.
Gamalt mál kemur upp hjá GSÍ
Þrjú mál er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi hafa borist á borð stjórnenda Golfsambands Íslands (GSÍ) á síðustu tíu árum. Fyrsta málið varðar gamalt brot en GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem tók til starfa árið 2020.
Í svarinu segir að fyrir 10 árum hafi verið óskað eftir fundi með forsvarsfólki GSÍ vegna kynferðisofbeldis. „Um var að ræða einstakling sem hafði verið misnotaður um 40 árum áður af manni sem starfaði innan golfhreyfingarinnar. Með fundinum vildi þolandinn upplýsa Golfsambandið um brotið og þau áhrif sem atburðurinn hafði haft á líf hans. Þolandinn hafði þá þegar leitað aðstoðar fagaðila.“
Fram kemur hjá GSÍ að á sama fundi hafi einnig verið upplýst um annað fórnarlamb sama geranda. „Brotamaðurinn hafði þá verið ákærður og hlaut síðar dóm fyrir kynferðisbrot gegn þriðja einstaklingnum. Stjórn Golfsambandsins ákvað í framhaldi af málinu að setja verklagsreglur um mál af þessum toga. Þar sagði meðal annars að ef tilkynningar eða erindi bærust á borð sambandsins er vörðuðu hverslags ofbeldi innan golfhreyfingarinnar væri viðkomandi þolanda bent á að hafa samband við fagaðila og/eða lögreglu.“
Úrbótavinna er hafin – GSÍ fordæmir allt ofbeldi og stendur með þolendum
Samkvæmt svari GSÍ tók sérstakur samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs til starfa árið 2020 og nú skal öllum málum sem berast Golfsambandinu vísað til hans.
GSÍ hefur í tveimur málum hvatt aðila til þess að fara með sín mál til samskiptaráðgjafans, eins og áður segir, en þau snúa bæði að samskiptum einstaklinga við golfklúbba. Einnig hefur Golfsamband Íslands notast við forvarnarefni frá ÍSÍ, að því er fram kemur í svarinu.
„Atburðir síðustu vikna hafa leitt það í ljós að bæta má enn frekar ferla, viðbrögð og fræðslu innan íþróttahreyfingarinnar bæði hvað varðar forvarnir gegn ofbeldi sem og viðbrögð við tilkynningum um atvik og meðhöndlun þeirra. Hafin er ýmis úrbótavinna til að tryggja að allir innan vébanda hreyfingarinnar hafi þau tól og tæki sem þarf til að bregðast rétt við atvikum er upp koma í starfi hreyfingarinnar og auka öryggi allra innan hennar,“ segir í svari GSÍ og vísar þarna í umfjöllun um ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi innan KSÍ.
Golfsamband Íslands segist að endingu fordæma allt ofbeldi og standa með þolendum.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“