Hvernig gengur að koma úkraínskum flóttabörnum inn í skólakerfið?
Langfæst börn sem flúið hafa stríðið í Úkraínu með foreldrum sínum á síðustu vikum og mánuðum eru komin inn í skólakerfið hér á landi og spila þar inn margir þættir. Samstarf á milli stærstu sveitarfélaganna hefur þó gengið vel og eru áform uppi um ýmsar leiðir til að koma til móts við börnin af hlýju og með ljúfri móttöku.
Eftir að stríðið í Úkraínu braust út í febrúar á þessu ári hafa yfir 1.000 flóttamenn þaðan sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Búist er við að um 3.000 flóttamenn komi til Íslands í heildina á þessu ári en það er mikil aukning frá fyrri árum.
Þetta ástand hefur vakið upp spurningar hvort helstu innviðir í íslensku samfélagi séu undir það búnir að taka á móti slíkum fjölda. Að mörgu þarf að huga og snýr einn angi í þessu reikningsdæmi að skólamálum. Stærstu sveitarfélögin hafa haft samráð sín á milli og fyrirheitin eru fögur. En eru leik- og grunnskólar í stakk búnir til að taka á móti þeim börnum sem hingað flýja með foreldrum sínum? Hvernig hefur gengið að skipuleggja skólastarfið með þessi börn í huga og hvernig hefur samstarfið gengið milli stærstu sveitarfélaganna?
Kjarninn kannaði málið og leitaði svara við þessum spurningum hjá þeim sveitarfélögum sem helst hafa tekið á móti fólki á flótta frá Úkraínu.
Engin laus pláss fyrir úkraínsk flóttabörn í leikskólum Reykjavíkur sem stendur
Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið sem tekur á móti flóttafólki en samkvæmt nýjustu tölum frá borginni hafa 45 börn og 127 fullorðnir komið þangað síðan stríðið braust út.
Tvær leiðir eru mögulegar hvað skólamál varðar fyrir úkraínsk börn sem flúið hafa með fjölskyldum sínum til Íslands og til borgarinnar, að því er fram kemur í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans.
Önnur leiðin felur í sér að börnin eru skráð beint í almennan grunnskóla. Samkvæmt Reykjavíkurborg hafa nokkrir valið þessa leið en langt er liðið á skólaönnina. Hægt er að skrá börnin í leikskóla borgarinnar en þar eru engin laus pláss til úthlutunar sem stendur, segir í svarinu.
Hin leiðin er þátttaka í Skóla- og fjölskyldumiðstöðinni sem sett var á laggirnar fyrir börn frá 0 til 16 ára og foreldra þeirra en 17 ára hafa líka verið tekin inn. Þar starfa sex úkraínskumælandi starfsmenn sem koma úr leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Í svari borgarinnar segir að aðaláherslan sé á ljúfa móttöku, kenna þeim íslensku á úkraínsku og kynna þau fyrir íslensku samfélagi. Þar taka þátt á milli 40 og 50 manns en flest börnin eru á grunnskólaaldri.
Samstarfið felst í því að stilla saman strengi
En hvernig gengur að skipuleggja skólastarf fyrir börn á flótta? Í svari Reykjavíkurborgar segir að til standi að börn á leik- og grunnskólaaldri komi inn í almennt skólastarf Reykjavíkurborgar næsta haust. Undirbúningur standi yfir, meðal annars með starfseminni í Skóla- og fjölskyldumiðstöðunni. Þar fái fólk aðstoð við skráningu og unnið sé að því að byggja brú yfir í almennu skólana. Jafnframt sé unnið að því að ráða úkraínskumælandi brúarsmið sem verði brú milli skóla og fjölskyldna. „Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel í skólastarfi skóla- og frístundasviðs,“ segir í svarinu.
Reykjavíkurborg hefur verið í samráðshóp á vegum menntamálaráðuneytisins með Hafnarfirði, Árborg og Reykjanesbæ vegna móttöku flóttafólks. Í svari borgarinnar segir að mjög gott samstarf sé við hin sveitarfélögin sem eru í samræmdri móttöku flóttafólks. Samstarfið felst í því að stilla saman strengi og skiptast á hugmyndum og úrræðum sem reynast vel.
Einungis ein umsókn um skólavist borist Hafnarfjarðarbæ
Flóttafólki frá Úkraínu hefur fjölgað gríðarlega í Hafnarfirði undanfarið en lögheimilisskráningum fólks með úkraínskt ríkisfang þar hefur fjölgað úr 29 í 106 á sex vikum. Í þessum hópi eru 19 börn á grunnskólaaldri og fjögur á leikskólaaldri.
Hafnarfjarðarbær setti upp tvær sviðsmyndir hjá sér varðandi móttöku með fyrirvara um fjölda barna.. „Annars vegar að opna fjölskyldumiðstöð sem hugsuð er sem virkniúrræði fyrir börn og foreldra fram á sumarið og hins vegar að taka börn beint inn í grunnskóla og leikskóla,“ segir í svari bæjarins.
Samkvæmt Hafnarfjarðarbæ hefur ein umsókn um skólavist borist sveitarfélaginu og er það barn byrjað í sínum hverfisskóla. Engin umsókn hefur borist um leikskólavist enn sem komið er.
Lagt hefur verið upp með að börnum frá Úkraínu á grunnskólaaldri standi til boða að taka þátt í frístunda- og tómstundastarfi í sumar. Unnið er að því að koma á fót sambærilegri þjónustu fyrir leikskólabörn og foreldra þeirra með úkraínskumælandi starfsmanni.
Fram kemur hjá Hafnarfjarðarbæ að skipulagning hafi gengið vel og verið sé að vinna með þessar tvær sviðsmyndir. Fjöldi barna og umsókna hafi bein áhrif á virkjun sviðsmynda.
Hafnarfjarðarbær var með fulltrúa í undirbúningsnefnd á vegum ráðuneytisins ásamt fulltrúum Reykjavíkur og Reykjanesbæjar varðandi skólagöngu barna frá Úkraínu og aðkomu ríkisins að því verkefni. Samstarfið hefur aðallega verið milli þessara þriggja sveitarfélaga og gengið mjög vel.
Ekki þykir ástæða til að skrá börn tímabundið í skóla sem ekki eru komin með varanlegt húsnæði
Fjöldi barna frá Úkraínu sem er í þjónustu hjá Reykjanesbæ eða er á leiðinni til þeirra á næstu vikum, sem vitað er um, eru níu börn á aldrinum 6 til 16 ára, samkvæmt upplýsingum frá bænum.
Fyrstu tvö börnin komu í þjónustu til Reykjanesbæjar þann 21. apríl síðastliðinn og eru þau byrjuð í Háaleitisskóla á Ásbrú. Hin börnin komu til þeirra frá 3. maí og eru væntanleg í næstu viku á fyrsta fund. Þau eru enn í millibilsbúsetuúrræðum á vegum Útlendingastofnunar eða að leita sér að húsnæði.
Í svari Reykjanesbæjar kemur fram að eðlilegt sé að það taki fólk allt að þrjár vikur að leita sér að húsnæði og ekki þyki ástæða til að skrá börn tímabundið í skóla á meðan staðsetning er ekki föst.
Þá segir í svarinu að aðstaða sé hjá Háaleitisskóla til að bregðast við ef hópur barna frá Úkraínu kemur sem þarf skólavist. Á meðan ekki sé um neina slíka hópa að ræða þá fari börn eftir búsetu í sína heimaskóla.
Þetta fyrirkomulag hefur gengið vel, segir í svarinu.
Leitast við að úkraínsk börn verði með íslenskum börnum í sumarstarfi
Varðandi sumarið þá segir í svari Reykjanesbæjar að börnin verði skráð í frístundaúrræði. Þar sé leitast við að úkraínsk börn verði með íslenskum börnum í því sumarstarfi sem býðst í Reykjanesbæ til að auðvelda aðlögun að íslensku samfélagi.
Meginmarkmiðið fram að sumarfríi sé að leggja áherslu á að veita börnunum hlýju og öryggi, skapa rútínu og ramma, skapa vettvang fyrir samskipti við aðra nemendur – bæði í leik og starfi – og veita börnum næringarríkt nesti og máltíð í hádeginu.
Þá kemur fram að kennsla í Úkraínu fari fram í gegnum vefforritið Classrom þar sem tímamismunur er á löndum. Allt efni sé rafrænt og fái foreldrar aðgang í gegnum kennara sinna barna. Ef nemendur hafa færi á að vera í rauntíma þá fari kennsla fram á Zoom með kennara.
Fjölskyldur frá Úkraínu hafa dvalist í Árborg án þess að hafa stöðu flóttafólks
Sveitarfélagið Árborg hefur einnig stöðu móttökusveitarfélags og segir í svari Árborgar að talsvert sé um að þau taki við flóttabörnum frá ýmsum heimshlutum þar sem menntabakgrunnur sé oft enn meira krefjandi en gildir um börn frá Úkraínu.
„Hér voru um skamma hríð tvö börn frá Úkraínu sem höfðu stöðu flóttafólks en þau eru farin til baka til Póllands og kom aldrei til þess að þau færu í skóla í Árborg. Eitt barn með stöðu sem flóttabarn er nú væntanlegt til Árborgar. Við höfum einnig haft spurnir af að fjölskyldur frá Úkraínu hafi verið í sveitarfélaginu án þess að hafa stöðu flóttafólks,“ segir í svari sveitarfélagsins.
Þá kemur fram hjá Árborg að það hafi orðið til góð þekking og reynsla í að skipuleggja skólastarf fyrir flóttabörn sama hvaðan þau koma. Þau leggi meðal annars fyrir stöðumat sem auðveldi skólunum að meta þekkingu og reynslu nemenda af erlendum uppruna þannig að skólinn geti undirbúið og lagað kennsluna að þörfum hvers nemanda og þekkingargrunni hans. Í sveitarfélaginu sé jafnframt starfrækt fjölmenningarteymi þvert á fagsvið, skóla og skólastig.
„Við höfum átt afar gott samstarf við nokkur sveitarfélög, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar þróuðu Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær Stöðumatið saman og fyrirmynd þess kemur frá Svíþjóð,“ segir í svarinu.
Safna upplýsingum um þekkingu nemandans
Á vef Menntamálastofnunar má finna markmiðið með Stöðumatinu en þar segir að markmiðið sé að styðja við vinnu skólanna varðandi mat á þekkingu nemenda af erlendum uppruna þannig að skólinn geti undirbúið og lagað kennsluna að þörfum nemandans og þekkingargrunni hans.
„Mat skóla snýst um að safna upplýsingum um þekkingu nemandans og túlka þær út frá markmiðum matsins. Algengasta form námsmats er að skólinn meti þekkingu nemandans í ólíkum aðstæðum í gegnum skólagöngu hans. Stöðumatið lýsir grunnþekkingu nemandans og liggur til grundvallar skipulagi kennslunnar og einstaklingsíhlutunar. Í efninu eru hugtökin námsmat (mat) og stöðumat notuð jöfnum höndum,“ segir á vef stofnunarinnar.
Þar kemur enn fremur fram að stöðumat á þekkingu nemandans, aldri og persónulegum aðstæðum veiti skólanum grunn fyrir ákvarðanatöku skólastjóra um hvaða námshópi nemandinn á að tilheyra. Efnið sé ætlað grunnskólum en það sé einnig hægt að nota á framhaldsskólastigi.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna
-
29. október 2022Frá Pushkin til Pútíns: Hugmyndafræði keisaraveldis í rússneskum bókmenntum
-
25. október 2022Samkeppni stórveldanna – Frá Úkraínu til Taívan
-
17. október 2022Barnafátækt stóraukist vegna innrásar Rússa
-
24. september 2022Víðtækar afleiðingar ósigra Rússlands
-
6. september 2022Dularfull dauðsföll auðmanna sem tengdust Pútín