Vanmáttug og reið – Kærði vændiskaup en upplifði sig sem fjórða flokks manneskju
Kona sem reyndi að kæra vændiskaup í lok mars 2020 er ósátt við vinnubrögð lögreglunnar og segist ekki mæla með því að fólk kæri kynferðisbrot til lögreglu. Hún vonast þó til að niðurstaða nefndar um eftirlit með lögreglu um að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi muni hafa þær afleiðingar að lögreglan taki á þessum málum og komi betur fram við kærendur.
Kona, sem ekki vill láta nafn síns getið, missti heilsuna í kjölfar bankahrunsins árið 2008 og sá enga aðra úrkosti en að selja vændi til þess að framfleyta sér og barni sínu. Hún lýsir í samtali við Kjarnann hvaða afleiðingar fátækt hefur á fólk og sömuleiðis vændi. „Þetta er það svakalegasta sem ég hef lent í og ég óska engum að vera á þeim stað að íhuga þetta.“
Kaup á vændi eru ólögleg hér á landi en ekki sala á vændi. Lögum þess efnis var breytt árið 2009 þar sem farið var eftir svokallaðri sænsku leið en samkvæmt lögum skal hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.
Á vef Stígamóta kemur fram að kaup á vændi séu talin gróf valdbeiting, þar sem valdastaða þess sem kaupir vændi eða hefur milligöngu um það sé í stöðu hins sterka.
„Einstaklingur sem kaupir vændi er í raun að nýta sér neyð þess sem selur. Afleiðingar vændis eru mjög svipaðar og hjá öðrum brotaþolum kynferðisofbeldis. Brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, sjálfsásakanir, þunglyndi, skömm og sjálfvígshugleiðingar en tilraunir til sjálfsvíga eru algengari hjá brotaþolum vændis en annars kynferðisofbeldis,“ segir á vef Stígamóta.
Konan greinir frá því að eftir mikla íhugun hafi hún lagt fram skriflega kæru til lögreglu í byrjun COVID-faraldurs á hendur manni sem keypti af henni vændi árið 2015. Brotið var fyrnt en hún segir að henni hafi verið ráðlagt að leggja fram kæru til þess að geta talað um meint brot ef henni hugnaðist svo.
Maðurinn hefur verið virkur í starfi stjórnmálaflokks og er stundum áberandi í samfélaginu og taldi konan mikilvægt að fólk vissi af slíkum brotum í ljósi starfa hans. Vegna misvísandi upplýsinga frá lögreglu var kæran þó aldrei tekin til meðferðar og afgreidd. Þegar konan fékk veður af þessu þá sendi hún erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún gerði athugasemdir við starfsaðferðir lögreglu og misvísandi upplýsingagjöf við móttöku kærunnar.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að vísbendingar væru um að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi.
Taldi að kæran yrði tekin fyrir – en svo var ekki
Atburðarásin var með þeim hætti að konan sendi kæru með tölvupósti í lok mars árið 2020 á tiltekinn lögreglufulltrúa og óskaði eftir því að kæra hennar yrði tekin til skoðunar. Í tölvupóstinum spurði konan sérstaklega hvort erindið væri fullnægjandi til að ná markmiði hennar um kæru en fékk ekki svör við því. Vegna COVID-faraldurs og samkomutakmarkana – og vegna þess að ekki var leiðbeint um annað á þessum tíma – taldi konan að erindi hennar yrði tekið fyrir sem kæra en svo var ekki.
Í kærunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að á haustmánuðum árið 2015 hafi maðurinn sem um ræðir greitt konunni fyrir vændi.
Þá segir að sá tími sem atvikið átti sér stað hafi verið konunni erfiður, meðal annars vegna mikilla fjárhagserfiðleika. Í neyð sinni hefði hún ákveðið að selja líkama sinn – sér til lífsviðurværis.
Maðurinn reyndi ítrekað að hafa samband við hana
Fram kemur að maðurinn hafi nálgast hana í gegnum netfang og ítrekað haft samband. Að endingu hafi hún látið undan og samþykkt að selja honum líkama sinn gegn greiðslu. Eftir vændiskaupin, þar sem maðurinn hafi talað verðið niður, hafi hann ítrekað haft samband við konuna en hún hins vegar ekki svarað skilaboðum hans. Þau hittust ekki aftur, að sögn konunnar.
Eins og áður segir var kæran aldrei tekin fyrir af hálfu lögreglunnar og lét lögreglan konuna ekki vita um framvindu mála. Hún kannaði málið í byrjun júní 2020 og spurði lögregluna hvar það stæði og fékk hún einungis þau svör að málið væri fyrnt.
Það er yfirhöfuð erfitt að kæra, hvað þá að lenda í svona bið.
Síðar í málinu hefur lögreglan borið því við að til þess að leggja fram formlega kæru þurfi kærandi að panta tíma í kærumóttöku á lögreglustöð og mæta í eigin persónu og leggja fram kæru. Konan fékk þessar upplýsingar þó ekki fyrr en eftir sérstaka kvörtun.
Sendi erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu
Í júlí 2021, rúmu ári seinna, sendi hún erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún gerði athugasemdir við starfsaðferðir lögreglu og misvísandi upplýsingagjöf við móttöku kæru vegna meints kynferðisbrots gegn henni árið 2015.
Nefndin tók málið fyrir í október árið 2021. Í niðurstöðunni kemur fram að vísbendingar séu um að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi.
„Nefnd um eftirlit með lögreglu fór ítarlega yfir erindi XXX og þau gögn sem henni bárust frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Með hliðsjón af því hvernig málsatvikum var lýst í kvörtuninni og þeim gögnum sem nefndin hefur undir höndum, telur nefnd um eftirlit með lögreglu að vísbendingar séu uppi að embættið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi í ljósi þess að XXX taldi sig hafa verið að leggja fram kæru svo sem ásetningur hennar stóð til. XXX fékk aðeins svar frá embættinu að málið væri fyrnt en ekki að skjal það sem hún sendi hafi ekki fullnægt skilyrðum að teljast kæra né að ekki stæði til að skrá málið í bókum lögreglu né tilkynna aðila máls um framkomna „kæru“,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar sem Kjarninn hefur undir höndum.
Taldi nefndin því rétt að erindið yrði tekið til þóknanlegrar meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Biðin erfið
Eftir niðurstöðu nefndarinnar gekk málið hratt fyrir sig. Konan var boðuð í skýrslutöku rúmum mánuði eftir að niðurstaðan lá fyrir.
Konan segir í samtali við Kjarnann að ástæðan fyrir því að hún hafi kært meint brot sé sú að hún vildi geta talað um manninn án þess að eiga á hættu að vera kærð fyrir meiðyrði. Maðurinn hefur verið virkur í starfi stjórnmálaflokks og fannst henni mikilvægt að kæran yrði færð til bókar.
Biðin hefur verið löng og segir konan að sú bið hafi verið erfið. „Það er yfirhöfuð erfitt að kæra, hvað þá að lenda í svona bið,“ segir hún.
Missti heilsuna og var með lítið á milli handanna
Konan útskýrir ástæður þess að hún leiddist út í vændi á sínum tíma – en heilsuleysi, fátækt og brotin sjálfsmynd spiluðu stóra rullu. Hún greinir frá því að hún hafi misst heilsuna í bankahruninu 2008 og í kjölfarið hafi hún farið í endurhæfingu. Biðin á þeim tíma hafi verið 3 til 12 mánuðir en konan bendir á að nú sé biðin enn lengri.
„Á meðan þú ert að bíða eftir endurhæfingarúrræði þá er engin önnur innkoma í boði nema félagsþjónustan ef þú átt ekki maka. Og þar er fjárhagsaðstoðin naumt skorin; þetta er neyðaraðstoð og ekki hugsuð þannig að hún eigi að duga í marga mánuði. Þetta er hugsað sem tímabundið úrræði,“ segir hún og bætir því við að kerfið sé því miður þannig að margir þurfi að reiða sig á þetta neyðarúrræði í hálft ár, ár eða jafnvel lengur.
Hún segir að lítið sé eftir þegar búið er að borga húsaleigu en í hennar tilfelli hafi hún átt meðlag og húsaleigubætur eftir. Meðlagið hafi þó farið í aðra reikninga og hluti af húsaleigubótunum einnig. „Þá átti ég eftir einhverja tíu þúsund kalla til að lifa en þeir gátu verið fljótir að fara því á þessum tíma kostaði tíu þúsund krónur að fylla á ísskápinn.“
Sérstaklega erfitt fyrir fólk með lítið bakland
Konan er með barn á framfæri sínu og bendir hún á að hún hafi þurft að kaupa skólamáltíðir, aðgang að frístund og tómstundum – og fleira fyrir barnið.
„Það er ekkert sjálfsagt að félagsþjónustan aðstoði með það og í mínu tilfelli var það þannig að ég þurfti að lesa mér til um allan minn rétt, um allt sem mér var ekki sagt að fyrra bragði að ég gæti fengið.“
Hún segir að aðstæður sem þessar séu sérstaklega erfiðar fyrir þau sem hafa lítið bakland eða mæta skilningsleysi fjölskyldu sinnar. Hún greinir frá því að hún hafi skammast sín fyrir stöðu sína og að stundum hafi hún þurft að betla frá fjölskyldu sinni 500 krónur í lán ef einhver átti til dæmis afmæli. „Þetta var mjög niðurlægjandi,“ segir hún.
Kerfið heldur fólki niðri í sárafátækt
Konan er mjög gagnrýnin á þau úrræði sem standa fátæku fólki til boða. „Kerfið er þannig byggt upp að ef ég vinn mér fyrir einni krónu þá er sú króna dregin af mér. Kerfið leyfir mér ekki að vinna þó ég myndi hafa pínulitla orku til þess. Þannig heldur kerfið manni niðri í sárafátækt og barnanna þá í leiðinni.“
Hún segist enga lausn hafa séð út úr þessum aðstæðum. Hún var ekki að fara á aftur á vinnumarkaðinn í bráð og heilsan var ekki að lagast. Því hafi hún enga aðra leið séð út úr fjárhagsvandræðunum nema að selja vændi. „Ég sá enga aðra leið til að láta þessa hluti ganga upp.“
Ég gat ekki ímyndað mér að vændi myndi valda mér þeim skaða sem það gerði.
Þá hafi hún jafnframt haft mikla áfallasögu að baki áður en hún varð óvinnufær. „Ég hafði meðal annars orðið fyrir nauðgun sem unglingur og bjó við heimilisofbeldi bæði sem barn og fullorðin. Þannig var ég mjög brotin, með lága eða enga sjálfsmynd og ekki með getuna til að setja mörk í samskiptum við hitt kynið.“
Fór þessa leið í staðinn fyrir að svelta
Konan segir að hún hefði aftur á móti ekki getað ímyndað sér afleiðingarnar af því að stunda vændi. „Ég gat ekki ímyndað mér að vændi myndi valda mér þeim skaða sem það gerði. Þess vegna ákvað ég frekar að fara í vændi frekar en að selja til dæmis dóp,“ segir hún.
Fólk kann að hafa ákveðnar hugmyndir um „vændiskonuna“ – hvernig henni líður og hvað hún gengur í gegnum. Konan segist vera af þeirri kynslóð sem ólst upp við kvikmyndina Pretty Woman með Juliu Roberts og Richard Gere í aðalhlutverkum. Þar segir frá ríkum viðskiptajöfri sem kaupir vændisþjónustu frá ungri konu og fella þau hugi saman á endanum. Hann verður í raun hvíti prinsinn á hestinum sem bjargar henni úr aðstæðunum.
Þessi heimur er fegraður gríðarlega í kvikmyndinni, að mati konunnar, og þrátt fyrir að hún hafi gert sér grein fyrir því áður en hún fór að stunda vændi þá óraði hana ekki fyrir afleiðingunum á sínum tíma. „En ég var bara í mjög erfiðum aðstæðum – og ég veit ekki einu sinni hvort hægt sé að kalla þetta val. En ég fór þessa leið í staðinn fyrir að svelta,“ segir hún.
Var „stútfull“ af skömm
Konan var með hléum í sjö ár í vændi og þegar hún er spurð hvernig hún hafi tekist á við afleiðingar þess að selja vændi segir hún að fyrst þegar hún losaði sig úr þessum heimi hafi hún verið „stútfull af skömm“.
„Ég hélt að enginn myndi skilja mig og að enginn gæti sýnt mér samkennd. Og að allir myndu kenna mér um það að mér liði illa yfir því að hafa verið á þessum stað. Að hafa lent í þessu. Hins vegar leitaði ég mér aðstoðar einhverjum árum síðar eftir að hafa bælt þetta niður í mjög langan tíma og liðið eins og ég væri fjórða flokks manneskja í þessari veröld. Mér hafði liðið annars flokks sem fátæk óvinnufær móðir en nú var ég komin í fjórða flokk eftir að hafa verið í vændi,“ segir hún.
Hún ber Stígamótum vel söguna og telur hún hreinlega að samtökin hafi bjargað lífi sínu. Hún frétti af hóp sem var starfræktur reglulega þar sem konur í vændi hittust undir handleiðslu sálfræðings og fólks sem hefur verið á þessum stað. Hún hefur tvisvar farið í gegnum slíka meðferð og án hennar segist hún ekki vera viss um að vera á lífi í dag.
„Ég væri að minnsta kosti ekki að tala við þig!“ segir hún ákveðin, Hún tekur fram að slík hópúrræði virki ekki endilega fyrir alla – en að það hafi virkað fyrir hana.
Mögulegt að hætta sjálfsásökunum
„Þarna eru konur með þekkingu og reynslu af þessum heimi og ég er ekki viss um að það sé til betri staður á Íslandi til að fá skilninginn og samkenndina og aðstoð við að koma öllum þessum flóknu tilfinningum í orð. Því við kennum sjálfum okkur rosalega mikið um.“
Hún segir að hægt sé að komast út úr skömminni og sjálfsásökunum með meðferð. „Mér fannst hópmeðferðir sérstaklega hjálpa. Eins erfitt og það var að leyfa öðrum konum að sjá mig og leyfa öðrum að vita að ég hafi verið á þessum stað – ég var með svo mikla fordóma fyrir sjálfri mér – að þá var það eiginlega meirihlutinn af batanum og lækningarferlinu að geta speglað mig í öðrum konum sem líður alveg eins.“
Stór ákvörðun að kæra
Konan segir að það hafi verið gríðarlega stór ákvörðun að leggja fram kæru á hendur vændiskaupandanum. Henni hafi verið ráðlagt að kæra ef hún ætlaði að tala um hann opinberlega. Að hún yrði að kæra til að fá að tala um það sem gerðist þeirra á milli. „Mér finnst rosalega skiljanlegt en samt erfitt að þurfa að fara í gegnum kæruferlið til þess að mega tala um það sem ég hef upplifað. Sérstaklega út af því viðmóti sem ég síðan fékk.“
Þegar hún er spurð hvernig sé að fara í gegnum slíkt ferli segist hún hafa upplifað sig sem fjórða flokks einstakling. Það hafi jafnvel hvarflað að henni að viðmótið til hennar og kærunnar hafi verið út af málaflokknum.
„Svo koma líka þær hugsanir upp hvort að það sé vegna mannsins sem ég er að kæra. Og ég get ekki að því gert að þessar hugsanir koma líka upp því þessi maður er vel tengdur.“
Harma að afgreiðsla málsins hafi ekki verið með fullnægjandi hætti
Hún segir að kæruferlið hafi verið búið að vera og sé enn ofboðslega sárt. „Ég get staðfest það sem aðrar konur hafa sagt í fjölmiðlum að undanförnu að ég myndi ekki mæla með þessu við neinn en ég hins vegar vona að lögreglan sé að taka á þessum málum þannig að þau sem á eftir okkur koma fái betra viðmót.“
Hún segir að það sé ein af ástæðunum fyrir því að hún tali opinberlega um málið – þetta sé ekki í lagi.
Nýjustu vendingarnar í málinu eru þær að konan fékk bréf þann 28. mars síðastliðinn frá lögfræðingi stjórnsýsludeildar lögreglunnar þar sem vísað er í ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu. Gerðar voru athugasemdir við starfsaðferðir lögreglunnar og misvísandi upplýsingagjöf við móttöku kærunnar árið 2020.
Í bréfinu kemur fram að embættið harmi að afgreiðsla málsins hafi ekki verið með fullnægjandi hætti og beðist er velvirðingar á því. „Kæran þín verður skráð og fer í formlegt ferli,“ segir í bréfinu og að hún yrði látin vita þegar kæran væri tekin til meðferðar. „Beðist er afsökunar á því hversu seint erindi þessu er svarað en það helgast af önnum,“ segir að lokum í bréfinu.
Það er alltaf þessi hræðsla. Ef ég er í sama bæjarfélagi og viðkomandi býr þá er ég hrædd um að rekast á hann.
Konan segir að henni „líði alls konar“ eftir allt þetta ferli. „Ef ég fæ til dæmis símtal úr óþekktu símanúmeri þá kemur alltaf sú hugsun: „Gæti þetta verið maðurinn sem ég er að kæra.“ Það er alltaf þessi hræðsla. Ef ég er í sama bæjarfélagi og viðkomandi býr þá er ég hrædd um að rekast á hann.
Mér finnst einnig gríðarlega óþægilegt að hafa þurft að bendla nafnið mitt einhvers staðar í einhverju tölvukerfi við þennan heim og því tók það mig eitt ár fyrir rest að ákveða að leggja fram kæru. Kvíðahnúturinn í maganum yfir því að einhverju sé lekið er gríðarlegur,“ segir hún.
Veit ekki hvort hún muni nokkurn tímann komast yfir þetta
Konan segist þó eiga fleiri betri daga en slæma – og sé það mikið Stígamótum að þakka. „Ég er ekki viss um að ég væri á þessum stað nema vegna Stígamóta og alls þess fólks sem ég hef kynnst eftir að hafa leitað þangað.
Áfallastreitan en ennþá til staðar og hvort ég mun nokkurn tímann losna við minningar og triggera úr vændisheiminum veit ég ekki. Það eru orð, hljóð, staðir og útlit og bílar og svo margt sem gerir það að verkum að minningar poppa upp.“
Konan fékk nýlega staðfestingu á því að hún væri með áfallastreituröskun. „Þetta tímabil í mínu lífi er mjög stór valdur að því að ég fæ áfallastreituköst oft í mánuði, mörgum árum síðar,“ segir hún.
Varðandi viðmótið hjá lögreglunni þá segir hún að henni finnist hún vanmáttug eftir allan þennan tíma og reið. Lífið sé einhvern veginn í biðstöðu. Hún vonist þó til að þessum hluta í lífi hennar fari brátt að ljúka en á meðan ferlið er enn í gangi þá hægi það á eða stöðvi jafnvel bata. „Ég hef í raun farið um allan neikvæða tilfinningaskalann nema sorg,“ segir hún.
Óskar engum að vera á þeim stað að íhuga að stunda vændi
Konunni er umhugað að tala til þeirra sem íhuga þann valkost að stunda vændi. „Ég hvet þá sem íhuga að fara þessa leið að skoða þetta vel. Kynna sér afleiðingar vændis. Ég hafði vit á því að fylgjast með fréttum og vissi hvernig lögreglan hagaði sér. Svo vissi ég af dómi yfir manni sem hafði nauðgað konu sem hann hafði ætlað að kaupa vændi af. Ég var sem sagt meðvituð um hætturnar á staðnum en mér datt ekki í hug að afleiðingarnar mánuðum og jafnvel mörgum árum eftir yrðu miklu meiri en á meðan ég var í þessu.“
Hún bendir á að afleiðingarnar séu fjölþættar. „Þetta kemur út í líkamlegum afleiðingum, til dæmis verkjum. Þetta er svo rosalega flókið og alls konar og ég get ekki einu sinni komið þessu almennilega í orð enn þann dag í dag. Þetta er það svakalegasta sem ég hef lent í og ég óska engum að vera á þeim stað að íhuga þetta,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“