Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í bönkunum og verklag þeirra
Alls hafa sextán tilvik um kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi verið tilkynnt hjá þremur stærstu bönkunum á síðustu fjórum árum. Kjarninn kannaði þá verkferla sem málin fara í innan þeirra.
Konur halda áfram að greina frá kynferðislegu áreiti, áreitni og ofbeldi á samfélagsmiðlum og hefur umræðan um metoo fengið töluvert vægi á þessu ári. Fyrsta bylgja baráttunnar átti sér stað í lok árs 2017 og skrifuðu tæplega 5.650 konur úr hinum ýmsu starfsstéttum sem lifa við margs konar aðstæður undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 815 frásögnum.
Kjarninn hefur undanfarið kannað hvernig verklagi í íþróttasamböndum, opinberum fyrirtækjum og stofnunum sé háttað og hversu margar tilkynningar hafa borist síðan fyrsta bylgja metoo hófst.
Hér koma svör þriggja stærstu bankanna á Íslandi, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka.
Sjö mál komið upp hjá Arion banka
Alls hafa sjö mál komið upp hjá Arion banka á fyrrnefndu tímabili. Í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að þrjú mál hafi komið upp á árinu 2018, tvö mál 2019 og tvö 2020 en bankinn hefur undanfarin þrjú ár birt í árs- og samfélagsskýrslu sinni upplýsingar um fjölda þeirra EKKO-mála (einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, og annað ofbeldi) sem komið hafa upp. „Viðbrögð við svona málum eru auðvitað misjöfn og fara eftir eðli og alvarleika málanna. Í sumum tilvikum er leitað ráðgjafar hjá óháðum og utanaðkomandi fagaðilum,“ segir í svarinu.
Þá kemur jafnframt fram að Arion banki leggi áherslu á að samskipti á vinnustaðnum einkennist af gagnkvæmri virðingu og að starfsfólki líði vel í vinnunni.
„Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (stundum nefnt einu orði EKKO) er undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum. Til staðar er forvarnar- og viðbragðsáætlun í EKKO málum. Bankinn hefur sett sér stefnu til að sporna gegn svona málum og stuðla að forvörnum í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn EKKO á vinnustöðum. “
Arion banki er með verkferla fyrir EKKO mál.
„Ef starfsfólk telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri- eða kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum eða vantar að spegla það sem það er að upplifa er þeim bent á að leita til stjórnenda eða starfsfólks á mannauðssviði bankans. Einnig er hægt að hafa samband við utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtæki og er fullum trúnaði heitið varðandi þá þjónustu.
Ef starfsfólk telur sig hafa rökstuddan grun eða vitneskju um að einhver á vinnustaðnum sæti óæskilegri hegðun ber því að leita til stjórnenda, starfsfólks mannauðs, sérstaks eineltisteymis eða til fyrrgreinds ráðgjafarfyrirtækis,“ segir í svarinu.
Fjórir starfsmenn fengu formlega áminningu vegna kvörtunar hjá Landsbankanum
Fimm tilkynningar um kynferðislega áreitni og ein tilkynning um kynbundna áreitni hafa borist Landsbankanum frá því bankinn gerði samning við Auðnast í júlí 2018. Málunum hefur öllum verið lokið eftir óformlegt ferli. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans.
Á tímabilinu frá ársbyrjun 2017 til júlí 2018 kom fram ein kvörtun um kynferðislega áreitni og kynbundna mismunum. Fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til aðstoðar. Niðurstaðan var sú að viðkomandi starfsmaður hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og var um aðskilin atvik að ræða. Fjórir starfsmenn fengu í kjölfarið formlega áminningu vegna málsins. Lögð var fram aðgerðaáætlun í 12 liðum sem er ætlað að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig, segir í svarinu.
Landsbankinn er með skilgreinda forvarna- og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni eða annars ofbeldis. Áætlunin er endurskoðuð reglulega og starfsfólk frætt með reglulegu millibili um þennan málaflokk. Mæling á tíðni atvika, upplifun og tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu, að því er fram kemur hjá bankanum.
„Ef starfsmaður upplifir óþægileg/óviðeigandi atvik (eitt eða fleiri) eða verður vitni að slíku, getur viðkomandi óskað eftir samtali við stjórnanda, mannauðsráðgjafa eða fagaðila á vegum Auðnast ehf., skv. samstarfssamningi bankans við Auðnast. Sé óskað eftir fagaðila getur mannauðsráðgjafi haft milligöngu um slíkt eða starfsmaður haft samband milliliðalaust við Auðnast. Tilgangur viðtals er að veita starfsmanni tækifæri til að ræða upplifun, fá ráðgjöf eða upplýsingar um frekari úrvinnslu. Óski starfsmaður eftir einhvers konar inngripi er slíkt gert í fullu samráði við hann.“
Tilkynnandi getur valið um hvort mál fari í formlegt eða óformlegt ferli, segir í svari Landsbankans.
- Megintilgangur óformlegrar málsmeðferðar er að styðja við málsaðila, uppræta samskiptavanda eða annað óviðeigandi hátterni hvort sem um ræðir eitt afmarkað tilvik eða síendurtekna hegðun. Eftirfylgni í óformlegri málsmeðferð felur í sér að mannauðsdeild eða fagaðili á vegum Auðnast hefur samband við starfsmann eftir ákveðinn tíma til að ganga úr skugga um að málinu sé lokið eða sé að þróast í rétta átt.
- Megintilgangur formlegrar málsmeðferðar er að rannsaka hvort tilkynning falli undir skilgreiningar í reglugerð á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Í formlegri málsmeðferð er viðbragðsnefnd virkjuð sem ber ábyrgð á að framkvæma hlutlausa athugun. Með þjónustusamningi Auðnast og Landsbankans er tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir málsaðila á meðan athugun stendur yfir.
Tvö mál komið upp hjá Íslandsbanka vegna munnlegs áreitis
Tvö mál sem varða kynferðislega áreitni hafa komið upp undanfarin fjögur ár hjá Íslandsbanka. Bæði málin voru vegna munnlegs áreitis. „Við tökum slík mál mjög alvarlega og fylgjum skýrum verkferlum,“ segir í svari bankans.
Samkvæmt bankanum eru starfsmenn spurðir um upplifun af áreitni í hverri vinnustaðagreiningu sem framkvæmd er í bankanum og segir í svarinu að bankinn leggi mikla áherslu á að starfsfólki líði vel á vinnustaðnum.
Verklagið er þannig að eftir að tilkynning um einelti eða áreitni berst til mannauðsteymis, stjórnenda, trúnaðarmanna eða formanns SÍ er mannauðsteymi upplýst til þess að geta unnið málið áfram.
Farið er yfir málsgögn en meintur þolandi velur hvort hann vill fara með málið í óformlegt eða formlegt ferli.
- Óformlegt ferli: Farið er yfir málsatvik með meintum þolanda. Þolanda er veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir aðilar (starfsmenn, meintur gerandi) eru ekki upplýstir ef meintur þolandi vill ekki fara lengra með málið.
- Formlegt ferli: Farið er yfir málsatvik með meintum þolanda og gögn lögð fram. Stuðningur við þolanda er metinn. Stuðningur getur komið frá mannauðsteymi eða utanaðkomandi aðila. Einnig farið yfir málsatvik með geranda og stuðningur við hann metinn.
Unnið er úr gögnum beggja aðila og rætt við vitni. Því næst kemur að sáttaumleitan. Ef vafi er um réttmæti ásakana eða í ljós kemur að einelti eða áreitni hefur ekki verið beitt er ekki þörf á formlegri áminningu og telst málinu því lokið. Mikilvægt er samkomulag náist milli málsaðila til að tryggja vinnufrið, að því er fram kemur í verklagi bankans.
Ef að í ljós kemur að einelti eða áreitni hafi átt sér stað skuli geranda gert ljóst að hann/hún verði látin axla ábyrgð á gjörðum sínum. Tilfærsla í starfi getur komið til greina, áminning eða uppsögn, allt eftir eðli og alvarleika brota. Í formlegi ferli eru allar upplýsingar um málstilvik skráð og vistuð hjá mannauðsteymi.
Lesa meira um tilkynningar og verklag:
Lesa
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“