Meirihlutinn í Reykjavíkurborg heldur og bætir við sig fylgi milli kosninga
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað mestu fylgi allra í Reykjavík frá síðustu kosningum en er samt stærsti flokkurinn í höfuðborginni. Miðflokkurinn mælist vart lengur, Framsókn bætir langmest allra við sig en líklegustu meirihlutarnir innihalda Samfylkinguna og Pírata.
Borgarstjórnarmeirihlutinn heldur með 49,8 prósent atkvæða sem myndi skila honum tólf borgarfulltrúum. Þetta er niðurstaða fyrstu kosningaspár Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, sem fara fram 14, maí næstkomandi.
Það er nokkuð meira fylgi en flokkarnir fjórir sem mynda meirihlutann: Samfylking, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn, fengu í kosningunum 2018 þegar samanlagt fylgi þeirra var 46,4 prósent. Fylgisaukning upp á 3,4 prósentustig milli kosninga skilar meirihlutaflokkunum þó enn sama fjölda borgarfulltrúa, eða tólf af 23.
Samfylkingin mælist stærst meirihlutaflokkanna með 23 prósent fylgi. Það er 2,9 prósentustigi minna en hún fékk í kosningunum 2018 og borgarfulltrúum hennar myndi að óbreyttu fækka úr sjö í sex. Fimm efstu á lista Samfylkingarinnar eru þegar borgarfulltrúar þannig að eini nýliðinn sem myndi setjast í borgarstjórn úr flokknum er Guðný Maja Riba, sem situr í sjötta sæti listans. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er sem fyrr oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Píratar taka manninn sem Samfylkingin missir og fá þrjá borgarfulltrúa, en fylgi þeirra mælist nú 13,0 prósent sem er heilum 5,3 prósentustigum meira en þeir fengu 2018. Dóra Björt Guðjónsdóttir er áfram oddviti Pírata líkt og í síðustu kosningum og borgarfulltrúinn Alexandra Briem er í öðru sæti listans. Miðað við stöðu mála í kosningaspánni myndi Magnús Davíð Norðdahl lögfræðingur komast nýr í borgarstjórn fyrir flokkinn.
Viðreisn myndi tapa einu prósentustigi frá síðustu kosningum og fá 7,2 prósent atkvæða, sem myndi þýða að þau Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek sætu áfram í borgarstjórn.
Vinstri græn biðu afhroð í borgarstjórnarkosningunum 2018, fengu aðeins 2.700 atkvæði eða 4,7 prósent allra greiddra. Flokkurinn er aðeins hressari nú en þá samkvæmt kosningaspánni og mælist með 6,6 prósent atkvæða. Það dugar samt sem áður ekki til annars en að halda eina borgarfulltrúa Vinstri grænna, Líf Magneudóttur, áfram í borgarstjórn.
Framsókn á flugi en Miðflokkurinn nánast horfinn
Sá flokkur sem bætir við sig mestu fylgi í borginni frá síðustu kosningum heitir Framsóknarflokkurinn. Hann mælist nú með 11,7 prósent fylgi en fékk 3,2 prósent 2018 og náði þá ekki inn manni. Framsókn teflir fram nýjum þekktum oddvita, Einari Þorsteinssyni fyrrverandi fréttamanni, og hann myndi setjast nokkuð örugglega í borgarstjórn ásamt Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, dósent við Háskóla Íslands og rithöfundi, sem skipar annað sætið á lista flokksins, og Magneu Gná Jóhannsdóttur laganema sem situr í því þriðja.
Sá flokkur sem tapar mestu fylgi frá síðustu kosningum er Sjálfstæðisflokkurinn, en hann mælist nú með 25,1 prósent stuðning sem er 5,7 prósentustigum minna en flokkurinn fékk fyrir fjórum árum. Borgarfulltrúunum myndi fækka um tvo í sex en Sjálfstæðisflokkurinn yrði þó áfram stærsti flokkurinn í borginni. Auk Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, myndu tveir sitjandi og einn fyrrverandi borgarfulltrúi ná inn ásamt varaborgarfulltrúanum Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur og varaþingmanninum Friðjóni R. Friðjónssyni.
Sósíalistaflokkur Íslands bætir lítillega við sig milli kosninga samkvæmt kosningaspánni og fengi sjö prósent atkvæða. Sanna Magdalena Mörtudóttir, eini borgarfulltrúi flokksins, hefur gefið það út að hún vilji áfram leiða hann í komandi kosningum og búist er við því að svo verði. Sanna yrði áfram eini borgarfulltrúi flokksins að óbreyttu.
Flokkur fólksins stendur nánast í stað milli kosninga og mælist með 4,5 prósent. Kolbrún Baldursdóttir er oddviti flokksins í dag og eini borgarfulltrúi hans. Hún mun leiða Flokk fólksins í Reykjavík áfram.
Miðflokkurinn hverfur hins vegar af sjónarsviði borgarstjórnar að óbreyttu. Fylgi hans mælist nú 1,7 prósent en flokkurinn fékk 6,1 prósent fyrir fjórum árum sem skilaði Vigdís Hauksdóttur í borgarstjórn. Vigdís tilkynnti í síðasta mánuði að hún fari ekki aftur fram. Ómar Már Jónsson greindi í kjölfarið frá því að hann sæktist eftir oddvitasætinu en heimildir Kjarnans herma að brösuglega hafi gengið að manna önnur þeirra 46 sæta sem þarf að manna til að vera með kjörgengan lista. Flokkurinn hefur út vikuna til að ganga frá því.
Góðar líkur á meirihluta með Samfylkingu og Pírötum
Samkvæmt útreikningum kosningaspárinnar eru 52 prósent líkur á því að núverandi meirihluti haldi velli og nái að minnsta kosti þeim tólf sætum sem þarf til að stjórna borginni. Líkurnarnar á því að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn gætu myndað meirihluta að óbreyttu eru 23 prósent og líkurnar á því að tveir fyrrnefndu flokkarnir gætu náð tólf borgarfulltrúum án Viðreisnar eru einungis þrjú prósent.
Ef vilji er til þess að styrkja meirihlutasamstarfið með því að taka Framsóknarflokkinn inn í stað Viðreisnar eru 81 prósent líkur á að slíkur meirihluti Samfylkingar, Pírata, Framsóknar og Vinstri grænna næði meirihluta borgarfulltrúa. Ef Vinstri grænum yrði skipt út fyrir Viðreisn í þeirri jöfnu eru líkurnar á meirihluta enn meiri, en slíkur meirihluti hefði 14 borgarfulltrúa miðað við nýjustu kosningaspánna.
Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins eiga hins vegar litla möguleika á því að ná saman völdum í höfuðborginni. Líkurnar á því að þeir þrír flokkar nái að minnsta kosti tólf sætum eru sem stendur einungis ellefu prósent.
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Athugasemd ritstjórnar:
Fréttaskýringin hefur verið uppfærð. Fyrir mistök voru birtar rangar tölur um fylgi Pírata og það sagt 14,2 prósent þegar hið rétta er að það mælist 13 prósent.
Lestu meira:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni