Nýja bylgjan sem skall á með látum
Eftir fyrstu metoo-bylgjuna árið 2017 héldu kannski einhverjir að samfélagið væri komið á rétta braut varðandi umræðu og aðgerðir í málefnum um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jú, hlutirnir þokuðust áfram og greina mátti breytt viðhorf en atburðir ársins 2021 í þessum málum sýna það og sanna að Íslendingar eru enn ekki komnir á þann áfangastað sem margir vildu að þeir væru.
Þögnin var rofin enn á ný síðastliðið vor þegar hundruð íslenskra kvenna stigu fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni, Sölva Tryggvasyni, sem tvær konur sögðu að brotið hefði á sér.
Talað var um gerendameðvirkni og voru miklar vangaveltur um það hver lærdómur samfélagsins hefði verið af fyrri metoo-bylgjunni árið 2017. Í þetta skiptið voru karlar hvattir til að taka meiri þátt í umræðunni en á Twitter mátti sjá holskeflu af frásögnum, aðallega kvenna, af kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
Árin 2017 og 2018 gaf fjöldi starfsstétta og samfélagshópa út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun var mótmælt. Krafan var skýr: Konur vildu breytingar, að samfélagið viðurkenndi vandann og hafnaði núverandi ástandi. Þær kröfðust þess að samverkamenn þeirra tækju ábyrgð á gjörðum sínum og að verkferlar og viðbragðsáætlanir yrðu gangsettar.
Tæplega 5.650 konur úr ýmsum starfsstéttum sem lifa við margs konar aðstæður skrifuðu undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 815 lífsreynslufrásögnum.
Leituðu til Stígamóta
Nú, fjórum árum síðar, var metoo-byltingin vakin á ný og önnur bylgja hreyfingarinnar skall á með þunga. Það sem einkenndi umræðuna síðastliðið vor voru ákveðin vonbrigði yfir því að samfélagið, eða hluti þess og ekki síður fjölmiðlar, stæði með gerendum og gegn þeim sem stíga fram og greina frá ofbeldi.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta sagði í samtali við Stöð 2 í byrjun maí að margir hefðu leitað til samtakanna í kjölfar nýjustu metoo-bylgjunnar.
„Ég held að það hafi komið aftan að fólki í vikunni þegar það allt í einu verður vitni af rosalegri gerendameðvirkni, vilja fólks til að stökkva á vagninn og trúa þeim sem er sakaður um ofbeldi án þess að hafa nokkuð fyrir sér endilega og þekkja nokkuð málavexti,“ sagði Steinunn við Vísi.
Margir hefðu talið að samfélagið væri komið lengra og þolendur nytu vafans. „Og eðlilega þegar það koma upp svona umræður um að brotaþolum sé ekki trúað. Það ýtir við mjög mörgum að leita sér aðstoðar eða fólk upplifir erfiðar tilfinningar í kjölfarið af því, þannig það er mjög mikil aðsókn hingað í augnablikinu.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tjáði sig um hina nýju bylgju og sagði að það væri í raun og veru dapurlegt að Íslendingar væru ekki komnir lengra þrátt fyrir #metoo-bylgjuna sem reið hér yfir árið 2017.
„Það er auðvitað margt búið að gerast hvað varðar umbætur í löggjöf og í fyrra var til dæmis samþykkt þingsályktunartillaga um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi og áreiti, auðvitað eru áhrifin af því ekki enn komin fram og það verður að segjast eins og er, að manni finnst þessi mál þokast gríðarlega hægt. Því það er auðvitað algjör meinsemd í samfélaginu að svona lagað tíðkist og á ekki að líðast,“ sagði forsætisráðherra.
„Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja“
Umræðan rataði í þingsal í maí. „Enn og aftur er spurt: Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra?“ Þannig hóf Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata, mál sitt undir liðnum störf þingsins á Alþingi en þingmenn VG og Sjálfstæðisflokksins lögðu líka orð í belg vegna þeirrar metoo-bylgju sem herjaði á landann.
Gaf Olga Margrét nokkrar ástæður sem gott væri að hafa í huga. „Endalausar sögur af lögreglufólki sem hlær þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni. Dómarar sem gefa beint og óbeint í skyn að þetta hafi verið okkur að kenna því að við drukkum of mikið. Kærum er vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum þó að við hefðum gert allt rétt, þ.e. það sem réttarkerfinu finnst að við eigum að gera eftir að okkur er nauðgað; fara á neyðarmóttökuna, tala við lögreglu og lækna og fá svo ávítur fyrir að hafa ekki verið nógu skýrar. En það er bara svolítið erfitt að vera skýr þegar heilinn og líkaminn er í áfalli. Það er líka svolítið erfitt að vera skýr þegar gerendur eru okkur svo nákomnir að við hættum á að missa allt okkar bakland frá okkur ef við segjum eitthvað eða að starfsferill okkar, orðspor og fjárhagslegt bakland verði fyrir óafturkallanlegum skaða fyrir að segja frá,“ sagði hún.
„Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja. Við kærum ekki því að ef við dirfumst að gera það er okkur úthúðað í samfélaginu. Ef við segjum frá erum við útskúfaðar frá fjölskyldum og vinum.“
Þingmaður dregur framboð til baka
Hin nýja bylgja hafði einnig áhrif á framboð þingmanna fyrir kosningarnar seinna um haustið. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, dró til að mynda framboð sitt í forvali flokksins í Reykjavík til baka. Þar sóttist hann eftir að vera í öðru sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Áður hafði Kolbeinn sóst eftir að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi en náði ekki þeim árangri sem hann sóttist eftir þar.
Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði Kolbeinn að hann hefði sína djöfla að draga og að ýmislegt væri óuppgerð úr fortíð hans. „Þegar mér svo barst til eyrna að hegðun mín hefði valdið konu mikilli vanlíðan varð ég fús til að leita mér aðstoðar vegna þessa. Ég vil ekki koma þannig fram að öðru fólki líði illa. Ég vil ekki sýna af mér hegðun sem konur upplifa sem óeðlilega. Nú er mikil og þörf bylgja í gangi þar sem konur segja frá. Það er aðdáunarvert að þær geri það og ég vona innilega að gott komi út úr því. Á dögunum var leitað til fagráðs VG með kvartanir vegna hegðunar minnar. Það ferli sem þá fór af stað opnaði augu mín fyrir því að ýmislegt hefur verið ábótavant í minni hegðun.“
Ekki kom fram í stöðuuppfærslunni hvað fólst í þeirri hegðun sem Kolbeinn sýndi af sér.
KSÍ á allra vörum
Stærsta mál ársins í þessum efnum er án efa KSÍ-málið. Það hófst þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari við Borgarholtsskóla og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, henti sprengju inn í umræðuna með aðsendri grein sinni á Vísi í ágúst.
„Ætlar KSÍ að halda áfram að þagga niður ofbeldi sem gerendur á þeirra vegum hafa beitt? Að vera gerendameðvirk og fórna stúlkum og konum á altari keppniskarla? Er það afstaða sem hreyfingin vill standa fyrir?“ skrifaði hún.
Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta. „Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni,“ sagði meðal annars í greininni.
Grein Hönnu Bjargar vakti mikla athygli og sá KSÍ sig knúið til að senda út yfirlýsingu fjórum dögum síðar þann 17. ágúst þar sem því var hafnað að sambandið tæki þátt í því að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að „dylgjum“ um slíkt væri alfarið vísað á bug.
Misvísandi ummæli formannsins
Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði í samtali við fjölmiðla dagana 25. og 26. ágúst að sambandið hefði ekki fengið inn á sitt borð tilkynningar um að leikmenn landsliða Íslands hefðu undanfarin ár beitt einhvers konar ofbeldi. „Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um slíkt inn á okkar borð síðan ég tók við formennsku en hins vegar erum við meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum,“ sagði hann við Fréttablaðið.
Í Kastljósviðtali á RÚV endurtók Guðni þá staðhæfingu að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ. „Okkur er mjög umhugað um öryggi okkar iðkenda og almennings og hegðun okkar iðkenda gagnvart umhverfinu. Við höfum vissulega ekkert farið varhluta af þeirri umræðu sem hefur verið upp á síðkastið og undanfarin ár, við tökum mið af því, en við verðum að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, frá vitnum eða þolendum, og ef það gerist gætum við þess að þolandinn fái ákveðna aðstoð og hjálp og við tökum á því af ábyrgð og festu, og við stöndum svo sannarlega gegn öllu ofbeldi, ekki síst kynbundnu og kynferðisofbeldi, við gerum það.“
Guðni sagði enn fremur að gagnrýni á KSÍ vegna þessa væri ómakleg. Eftir krísufund stjórnar KSÍ vegna málsins í lok ágúst sagði Guðni af sér formennsku eftir að hafa gegnt embættinu síðan árið 2017 og sagði stjórnin af sér stuttu síðar.
„Fíla-fokking-hjörð út um allt í öllum herbergjum“
Hanna Björg sagði í samtali við Kjarnann í byrjun september að ástandið innan KSÍ væri verra en hún héldi. Hún vakti máls á því að ýmsir hefðu vitað af þessum atvikum sem um ræðir, til að mynda íþróttafréttafólk. „Það vissu þetta allir. Það er ekki bara bleikur fíll í herberginu – það er fíla-fokking-hjörð út um allt í öllum herbergjum og það er gengið undir hann og bak við hann. Þetta er samtryggingin – þetta er feðraveldið. Samtryggingin, gerendameðvirknin og kvenfyrirlitningin sem er í raun kvenhatur. Af því að þetta er svo alvarlegt. Við erum að tala um hópnauðgun.“
Hún sagði að vandamálið væri út um allt. „Kynferðisofbeldið er ljótasta birtingarmyndin af misréttinu og kúguninni en það er stutt af annarri kvenfyrirlitningu og þannig normalíserað. Og þetta hangir allt saman. Óvirðing gagnvart konum er kerfisbundin og meðvirknin með ofbeldi gegn þeim hefur verið samfélagslega samþykkt.“
Ekki er nóg að krakkar fái fræðslu heldur þurfa kennarar einnig að fá hana, að mati Hönnu Bjargar. „Sko, það kemur mér svo á óvart að stjórnmálafólk hikar við að segja að misrétti sé ekki í boði. Orð frá fólki sem hefur völd hafa svo mikið að segja.“
Vitneskja um fjórar frásagnir
Síðan dró til tíðinda í KSÍ-málinu í byrjun desember en þá lágu fyrir niðurstöður úttektar á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands fyrir.
Í úttektinni kom fram að vitneskja hefði verið innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem starfa fyrir sambandið hefðu beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi árin 2010 til 2021.
Nefndin taldi ljóst að KSÍ hefði brugðist strax við þremur þessara frásagna. Annaðhvort með því að leikmaðurinn sem átti í hlut hefði verið sendur heim úr landsliðsverkefnum eða þannig að viðkomandi hefði ekki starfað aftur fyrir hönd KSÍ.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar voru gerðar athugasemdir við að upplýsingar sem þáverandi formaður KSÍ, Guðni Bergsson, veitti fjölmiðlum og almenningi í ágúst síðastliðnum um vitneskju KSÍ af frásögn um ofbeldismál hefðu verið villandi enda hefði formaðurinn á sama tíma haft vitneskju um frásögn starfsmanns KSÍ um alvarlegt kynferðisofbeldi gagnvart tengdadóttur starfsmanns. Yfirlýsingarnar hefðu heldur ekki samræmst vitneskju um eldri tilkynningu frá árinu 2018 um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis.
Úttektarnefndin taldi ekki tilefni til að fullyrða að framganga stjórnar, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna KSÍ um málið bæri einkenni þöggunar og/eða nauðgunarmenningar umfram „það sem almennt gerist í íslensku samfélagi“.
Fyrir lægi að stjórnarfólk, framkvæmdastjóri KSÍ og starfsfólks sem kom að málinu hefði gert „verulegar athugasemdir við þær yfirlýsingar sem formaður þáverandi lét frá sér“.
Metoo-hreyfingin komin til að vera?
Að öðru leyti taldi nefndin ekki forsendur til þess að segja að fyrir hendi væru atvik í formannstíð Guðna Bergssonar sem bæru sérstök einkenni þöggunar og nauðgunarmenningar. Úttektarnefndin hefði til dæmis engin gögn fundið eða aðrar vísbendingar fengið sem gæfu til kynna að KSÍ hefði boðið kæranda í ákveðnu máli sem kom til kasta KSÍ í mars 2018 þagnaskyldusamning eða komið með öðrum hætti að slíkum tilboðum.
Úttektarnefndin gerði þó athugasemd við að Geir Þorsteinsson þáverandi formaður KSÍ hefði árið 2016 leitað til almannatengils í kjölfar þess að hann frétti af því að lögregla hefði verið kölluð að dvalarstað landsliðsmanns með grunsemd um heimilisofbeldi.
Guðni Bergsson sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfarið að hann hefði borið ábyrgð á viðbrögðum sambandsins, vegna þeirra ofbeldismála sem komu upp í formannstíð hans. Sömu sögu væri að segja um miðlun upplýsinga til fjölmiðla og almennings. „Þar hefði ég getað gert betur.“
Eitt er ljóst eftir atburði ársins 2021 að metoo-hreyfingin er komin til að vera og að enn munu konur halda áfram að velta við steinum með því að greina frá reynslu sinni og krefjast breytinga á meðan samfélagið tekur stakkaskiptum. Við sjáum til hvað mun bíða íslensks samfélags árið 2022 í metoo-málum.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“