Verðum að ganga í takt og „hætta þessu rugli“
Stórar spurningar vakna þegar fjallað er um skóla án aðgreiningar og vangavelturnar verða síðan enn stærri varðandi aðra kima samfélagsins. Formaður Kennarasambands Íslands segir að nú sé komið að því að við Íslendingar spyrjum okkur hvernig við viljum haga okkar málum. Viljum við vera aðgreinandi í eðli okkar eða gyrða okkur í brók og takast á við erfið málefni?
Þetta er miklu stærra mál en að þetta snerti bara skólann. Hvernig hefur kerfið til dæmis tekið á móti þeim börnum sem liðið hafa mest í íslensku samfélagi síðustu tíu árin – eða frá hruni – eftir að þau urðu 18 ára? Þessu hef ég miklar áhyggjur af.“
Þetta segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, þegar hann er spurður út í hugtakið skóli án aðgreiningar en Kjarninn ræddi við hann um hvernig það kom til að Íslendingar tóku upp þessa stefnu, hvaða áhrif hún hefur haft og hvað vanti upp á til að framfylgja henni.
Hann segir að aðgreiningarhugtakið eigi við um fleiri þætti í íslensku samfélagi en einungis í skólunum. Íslendingar aðgreini sig eftir pólitískum og félagslegum brotalínum og sé sú aðgreining að aukast ár hvert. „Við erum að aðgreinast í auknum mæli og ef við förum ekki að vinna á móti því þá stefnum við væntanlega bara í nákvæmlega sama far og nágrannaþjóðir okkar.“
Ragnar Þór hefur verið kennari í 25 ár og segist hann sjaldan heyra frasa í sínu starfi oftar en: „Skóli án aðgreiningar er frábært hugmynd en ...“ Svo bætist við ýmiss konar útskýringar af hverju hugmyndin gangi ekki upp í raunveruleikanum.
„Það er einhvern veginn línan. Það er hættulegt að þessi orðræða fái að þrífast því skóli án aðgreiningar á að vera, og er, það mikið grundvallaratriði að þetta er hluti af stóru spurningunni hvort samfélagið sé aðgreint eða ekki – hvort samfélagið eigi að vera í kvíum eða ekki. Vissulega snerist umræðan framan af um fötluð börn en þetta er miklu stærri spurning en það. Þetta er einnig spurning sem varðar börn af erlendum uppruna og börn í mismunandi félagslegum aðstæðum.“
Höfum aldrei þurft að vera meira vakandi
Hann rekur söguna og segir að fyrir árið 1974, þegar skóli án aðgreiningar var bundinn í lög, hafi Íslendingar meðvitað og viljandi haft aðgreint skólakerfi. Kerfi sem annars vegar var ætlað þeim sem vildu í langskólanám og hins vegar gagnfræðanám.
„Gegn þessu var gerð uppreisn á eftirstríðsárunum en þetta byrjaði í Frakklandi og kom svo hingað – og frá 1974 höfum við verið að brasa við hugmyndina. Þetta hefur verið í lagi hjá okkur að því leyti að það hefur verið mjög áberandi og greinilegt í löggjöfinni en við höfum verið mjög brokkgeng í því að framkvæma þetta með réttum hætti. Fyrir því eru ýmsar ástæður.“
Aðgreining á einum stað – sérstaklega í skólakerfinu sem er svo mikið grundvallarkerfi í samfélaginu – hefur tilhneigingu til að leiða í för með sér aðgreiningu á öðrum stað.
Ragnar Þór segir að fyrir honum og væntanlega fyrir mjög mörgum sé ekki í boði að segja: „Góð hugmynd en ...“ Samfélagið eigi ekki að vera aðgreint. „Uppruni þinn, líkamlegt og andlegt atgervi á ekki að vera ráðandi þáttur um það á hvaða hillu þú lendir í samfélaginu. Það tilheyrir okkur öllum.“
Hann segir að aðgreining eigi sér stað á nokkrum sviðum. „Við höfum aðgreiningu í búsetu, í atvinnulífinu, í tómstundum og íþróttum en aðgreining á einum stað – sérstaklega í skólakerfinu sem er svo mikið grundvallarkerfi í samfélaginu – hefur tilhneigingu til að leiða í för með sér aðgreiningu á öðrum stað. Við höfum aldrei þurft að vera meira vakandi en núna.“
Þarf ekki að fjölyrða um skaðann ef samfélagið yrði kvíað niður
Ragnar Þór bendir á að íslenskt samfélag hafi verið gríðarlega einsleitt hér á árum áður.
„Við vorum miklu einsleitari en önnur samfélög sem er kannski ástæðan fyrir því að á Íslandi snýst þessi umræða mikið um fatlaða og ófatlaða. En fatlaðir og ófatlaðir eru kannski ekki á endanum þeir hópar sem eru í hvað mestri hættu á að aðgreinast í íslensku samfélagi. Þannig höfum við aldrei þurft að vera meira vakandi en núna – þegar fjölbreytnin er sannarlega að aukast. Þetta er mannréttindamál og spurning um það hvort samfélagið sé fyrir okkur öll eða hvort aðgangur verði bannaður fyrir suma.“
Hann segir að ekkert þurfi að fjölyrða um skaðann sem það veldur samfélagi að vera kvíað niður.
Þurfum að gyrða okkur í brók
Ragnar Þór heldur upprifjuninni áfram og bendir á að Ísland hafi farið frá því að vera með flest einkenni þróunarríkis, upp úr árinu 1960, í það á um þrjátíu árum eða svo að vera eitt af ríkustu samfélögum heims. Segir hann þetta vera einsdæmi.
Það hvernig Íslendingar náðu að virkja mannauðinn hafði hvað mest áhrif á þessa þróun samkvæmt honum. „Og það er nákvæmlega sami mannauður í fötluðu fólki, í öldruðum, í fólki af erlendum uppruna og í fátækum börnum. Og ef samfélagið ætlar einhvern veginn að segja að nú höfum við það svo frábært og við skulum ekki vera að rugga bátnum með því að taka neina sénsa og hafa hlutina eins og þeir eru og ekki vera að blanda hópum of mikið saman þá endar það í einhvers konar elítisma. Það endar með ýmsum vandamálum sem við værum þá sjálf að búa til. Það er eitthvað sem er einfaldlega ekki boðlegt og þá þurfum við núna að gyrða okkur í brók og standa vörð um skóla án aðgreiningar.“
Ragnar Þór segir að þetta kalli vissulega á margar erfiðar spurningar um það hvernig við höfum hagað þessum málum fram að þessu. „Þar þurfum við að vera heiðarlegri en við höfum leyft okkur að vera og fara að gera hluti í íslensku samfélagi með öðrum hætti en við erum vön. Því að það er mikið fúskað í íslensku samfélagi.“
Hvað þurfum við að horfast í augu við og hvaða spurningar þurfum við að spyrja okkur?
„Það eru nokkrir hlutir. Eitt af því sem gerist er það – og á eiginlega að vera okkur varnaðarmerki – að um það leyti sem við erum að festa í lög og taka afstöðu um það að hér skulum við fylgja Salamanca-yfirlýsingunni, sem er hin aðþjóðlega yfirlýsing um að vera ekki með aðgreind samfélög, fluttum við grunnskólann á einu bretti yfir til sveitarfélaganna. Þau í raun og veru voru alls ekki nógu sterkar stjórnsýslueiningar til að taka við hlutverki skólanna eins og það var, hvað þá því hlutverki sem síðar varð, því að skólinn á þessum tíma var allt annað fyrirbæri að mörgu leyti.“
Hann segir að þannig hafi víðtækar kerfisbreytingar orðið á mjög viðkvæmum tíma án þess að tryggt væri að sveitarfélögin væru í stakk búin til að standa undir hlutverki sínu. Ennþá séu mörg þeirra að glíma við sömu vandamál.
„Á sama tíma verður þessi slagur um fjármagn og peninga. Sveitarfélögin fóru strax að tala um að ríkið hefði svelt skólakerfið í einhvern tíma áður en það skilaði því yfir til að viðmiðið yrði lægra,“ segir hann.
Stoðgrindinni kippt í burtu
Ragnar Þór segir að Íslendingar virðist ekki finna pólitíska lausn á þessu vandamáli og að eina lausnin sem fólk hafi sé að sameina sveitarfélög. „En við það er mjög pólitísk andstaða og átök.“
Áður en ríkið skilaði skólakerfinu yfir á sveitarfélögin var til staðar faglegt stuðningsnet inni í menntamálaráðuneytinu sem hélt utan um skólana. „Við höfðum fagsvið sem voru í nánu og sterku sambandi, en því var öllu klippt í burtu. Þannig að ekki aðeins fóru skólarnir til veikari stjórnsýslueininga heldur var stoðgrindinni kippt í burtu. Og þetta skýrir mögulega að einhverju leyti þá erfiðleika sem skólakerfið okkar hefur staðið frammi fyrir nánast frá því að sveitarfélögin tóku við grunnskólunum. Þetta er búið að vera mjög viðkvæmt mál.“
Öll haldreipi eru dýrmæt. Á meðan þú hefur ekkert annað betra þá er þó styrkur af því sem þú hefur og það er mjög erfitt að taka skrefið til skólakerfis án aðgreiningar ef það þýðir að maður þarf að fórna hækjunum sínum.
Ragnar Þór nefnir annað sem hefur verið ábótavant og það eru þær lausnir sem stungið hafi verið upp á í þessu sambandi. „Það hefur verið of mikið um kerfislausnir, patentlausnir, sem eru nánast eins og þær séu samdar á skrifstofu af einhverjum hópi sem ætlar að leysa þetta með einhverju kerfi sem dugi til. Og mjög lengi og jafnvel enn í dag ætluðum við að leysa skóla án aðgreiningar með því sem sem við köllum stundum stuðningsfulltrúakerfi.“
Stuðningsfulltrúakerfið ákveðið haldreipi – en það virkar ekki
Stuðningsfulltrúakerfið snerist um það að ef barn átti erfitt uppdráttar þá fékk það fullorðinn einstakling með sér inn í bekk til aðstoðar. „Þetta er í raun aðgreinandi aðgerð í sjálfu sér. Að setja barn inn í bekk en barnið er einkennt af því að það er með varðmann á sér alla daga sem situr jafnvel við hliðina á því og er í mestum samskiptum við viðkomandi.“
Hann segir að þetta kerfi hafi ekki gengið upp. „Það eru svona tíu ár síðan við horfðumst í augu við það að kerfið virkaði ekki – hvorki til að ná þeim árangri sem þurfti né sem grundvallarhryggjarstykki í skólakerfi án aðgreiningar.“
Ef stuðningsfulltrúunum hefði verið kippt í burtu þá hefði hins vegar verið farið mjög illa með þessi börn. „Öll haldreipi eru dýrmæt. Á meðan þú hefur ekkert annað betra þá er þó styrkur af því sem þú hefur og það er mjög erfitt að taka skrefið til skólakerfis án aðgreiningar ef það þýðir að maður þarf að fórna hækjunum sínum.“
Greiningarkerfið hefur valdið óskunda
Samhliða stuðningsfulltrúakerfinu var notast við svokallað greiningarkerfi. Ragnar Þór segir að ákveðin tilhneiging sé til þess að móta slík kerfi, þau séu gagnsæ og vitað sé hvaða mælikvarðar liggja til grundvallar.
„En þetta kerfi hefur náttúrulega valdið óskunda í skólasamfélaginu okkar þar sem þjónusta hefur verið skilyrt við einstaklinga sem uppfylla einhver greiningarviðmið – jafnvel fjármagn – þó verið sé að vinda ofan af því núna. Það hefur skapast hvati til þess að vera vandamál. Ef þú ert nógu stórt vandamál þá færðu lausnina. Á sama tíma er þetta ekki valdeflandi kerfi til að taka á vanda viðkomandi utan þessa formlega kerfis og þetta kerfi hefur mistekist. Við verðum bara að horfast í augu við það.“
Ragnar Þór segir að stuðningskerfið við börn sé á haus miðað við það hvernig það ætti að vera. „Fræðin segja að mesta pústið eigi að vera lagt í daglegan veruleika barnsins, það er að segja mesti stuðningurinn á að vera á þessu fyrsta þrepi; í hinu daglega skólastarfi. Það starf þarf að vera með þeim hætti að þar sé þörfum sem flestra mætt með markvissum hætti. Við höfum að einhverju leyti, til dæmis vegna greiningarferlisins, verið með þetta þannig að um leið og upp kemur vandi, hvort sem það er lestrarvandi eða þroskahömlun, þá fer pústið í það að koma barni í gegnum kerfið og í Greiningarstöð. Þar er eins, tveggja eða þriggja ára bið eftir að komast inn.“
Hvernig ætti daglegt skólastarf að vera til að sem flestir þrífist?
„Númer eitt tvö og þrjú á að vera hægt að manna kerfin okkar. Það má ekki vera undirmönnun eða mannekla. Það má ekki vera mikil starfsmannavelta þannig að í hvert skipti sem efnahagslífið tekur við sér þá streymir fólk út úr skólakerfinu og svo kemur það til baka þegar það missir vinnuna í kreppu. Það verður að vera meiri stöðugleiki í starfsmannaveltu. Kennarar þurfa að vera hæfir og vel menntaðir.“
Fólk flæðir inn í samfélagið sem auðgar það og bætir
Ragnar Þór byrjaði að kenna árið 1996 og segir hann að á þeim tíma hafi allt annar félagslegur veruleiki verið í skólunum.
„Samfélagið var allt öðruvísi. Ég er búinn að horfa upp á það að þessi venjulegu íslensku börn – prestsdóttirin og forstjórasonurinn – sem voru dæmigerð þá eru að miklu leyti flutt úr íslenskum málheimi mjög snemma og á sama tíma er skólinn að rembast við að vera þessi málheimur. En það gengur ekki upp, þú tileinkar þér ekki tungumál inn í stofnun, heldur í þínu daglega lífi. Þetta veldur ýmiss konar áskorunum sem eldri kynslóðir hafa tilhneigingu til að sjá bara sem afturför. Þá sjá þær ekki það sem þessi börn hafa tekið inn í staðinn, sem er heil heimsmynd og heill heimur – annað tungumál. Börn eru ekki andlega fátækari en þau voru, en þau eru ekki alveg í takt við samfélagið eins og við höldum að það eigi að vera. Það er auðvitað slæmt að tapa þeim úr málheiminum en sem betur fer erum við að einhverju leyti að ná þeim til baka.“
Ragnar Þór bendir á að samfélagið sé nú orðið mikið fjölbreyttara en það var. „Hér fór að flæða inn fólk í íslenskt samfélag sem hefur ekkert annað gert en að auðga það og bæta.“
Þarna er um að ræða fjölskyldufólk sem er komið til að vera, að hans sögn. „Mælingar og rannsóknir sýna að þetta fólk hefur nákvæmlega sama metnað fyrir hönd sinna barna eins og íslenskir foreldrar. Það hefur nákvæmlega sömu löngun og aðrir foreldrar til að þessi börn aðlagist samfélaginu og taki sér eitthvað hlutverk í því.“
Börn geta ekki beðið á meðan kerfið tekur við sér
Varðandi breytingarnar innan kerfisins þá segir Ragnar Þór þær gerast allt of hægt. „Börnin geta ekki beðið á meðan kerfið tekur við sér. Það verður að mæta þeim og það sem veldur mér mestum áhyggjum er að á sama tíma og skólinn er að reyna að átta sig á hlutverki sínu um að vera aðgreiningarlaus þá er samfélagið sífellt að aðgreina sig meira.“
Þarna á hann ekki við áhrif samfélagsmiðla, þar sem allir eru í sínum bergmálshelli, heldur það að Reykjavík er að breytast úr mjög blandaðri borg í aðgreinda. „Borgin er orðin þrískipt. Við erum komin með þrjú hverfi þar sem mjög ríkt fólk býr, þrjú hverfi þar sem býr fólk með mikið menningarlegt auðmagn – hámenntað fólk og listamenn – og svo erum við með þrjú hverfi með mælanlegum mun á báðum þessum mælikvörðum þar sem fátækasta fólkið í borginni býr.
Húsnæðismarkaðurinn er grimmilegur og hörmulegur – og flestar lausnir sem hingað til hefur verið farið í hafa ekki verið hugsaðar í nægilega stóru samhengi til að koma í veg fyrir að safnað sé á sömu svæðin fólki með sama félagslega bakgrunn.“
Telur hann að einn af styrkleikum Íslands hér áður fyrr hafi verið að samfélagið var það blandað – þrátt fyrir að alltaf hafi verið stéttaskipting hér á landi – að allir hafi átt sameiginlegra hagsmuna að gæta.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að á sama tíma og skólinn er að reyna að átta sig á hlutverki sínu um að vera aðgreiningarlaus þá er samfélagið sífellt að aðgreina sig meira.
„Um leið og við hættum að hafa sameiginlega hagsmuni, sama hver okkar félagslegi bakgrunnur er og hvaða pólitíska styrk við höfum og tengingar, hvaða samfélagslega vægi við höfum, ef allt samfélagið hefur ekki hag af því að skólarnir séu góðir þá lendum við í vandamálum sem margar aðrar þjóðir hafa lent í sem mun auka mjög hratt á vandann. Þess vegna er það mjög viðkvæmt mál upp að hvaða marki við leysum núverandi vandamál skólanna til dæmis með því að auka hreyfanleika foreldra og nemenda milli skóla.“
Ragnar Þór segist skilja áhyggjur foreldra sem finnst að þörfum barnanna þeirra sé ekki mætt í skólunum og hugsi þá með sér að flytja barnið í „betri skóla“. „Þetta er mjög viðkvæmt pólitísk viðfangsefni sem við sem samfélag þurfum að ræða miklu meira. Vegna þess að versta leiðin til að taka þessar rökræður er í gegnum reynslusögur barna eða einstaka foreldra sem eru að reyna að gera sitt allra besta. Það er þessi heildstæða mynd sem skiptir máli.“
Pólitískar skylmingar skila engu
Ragnar Þór segir að Íslendingar séu einnig oft á móti of miklu skólavali og bendir á að tregðan sé til staðar. „Þetta hefur að einhverju leyti orðið bitbein menntamálaráðherra með mismunandi áherslur. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með ráðuneytið þarsíðast þá var skólaval aukið og þegar Katrín Jakobsdóttir varð ráðherra þá gekk þetta að einhverju leyti til baka. Þetta var áberandi í framhaldsskólunum þegar hún var að reyna að neyða þá til að verða aftur hverfisskólar í einhverjum mæli.
Þessar pólitísku skylmingar skila engu ef menn ætla bara að sæta lagi þegar þeir komast til valda að hnika eitthvað í áttina. Menn mega ekki vera svo sannfærðir um eigin pólitísku sýn á þessi mál að þeir nenni ekki að fara í þessa grundvallarumræðu.“
Hann segir að skuldbindingin gagnvart því að reka hér samfélag án aðgreiningar verði að vera sterk, og óttast hann um afdrif skólans ef hún er það ekki.
„Þá verður maður hikandi að taka stökkið vegna þess að þá óttast maður að ekkert öryggisnet verði til staðar sem grípur ef á þarf að halda. Þannig að þetta er risa pólitískt mál sem við verðum sem samfélag að fara að horfast í augu við.“
Hvernig er upplifun kennara að vinna við þessar aðstæður eftir skólastigum?
„Kennarar eru þannig upp til hópa að þeir eru nánast óbilandi hugsjónafólk að vinna í aðstæðum sem eru rosalega krefjandi. Sem veldur því að þeim fallast hendur og geta upplifað vonleysi. Þeir hafa hins vegar alltaf reynt að leggja sig fram um að spila eftir reglunum eins og þær eru á hverjum tíma. Og þeir hafa til dæmis alveg fylgt eftir stuðningsfulltrúakerfinu og greiningarkerfinu eins og þeir hafa getað. En þeir eins og aðrir sjá alveg að þessi kerfi hafa ekki dugað til.“
Vandamálin afhjúpast þegar börn fara í grunnskóla
Ragnar Þór segir að það sé skelfilegt fyrir kennara að upplifa sig í aðstæðum þar sem hann leggur sig fram og áttar sig á að það dugar ekki til.
„Að mörgu leyti er gott að starfa á leikskólastigi hvað þetta varðar vegna þess að þar er fyrst og fremst verið að styðja við eðlilegan og fjölbreyttan þroska barna í samfélagi. Þannig fær leikskólinn að vera sá staður þar sem ákveðið umburðarlyndi er gagnvart fjölbreytileika.
Til dæmis er stutt við frjálsan leik og lærdóm – og það er ekkert sjálfsagt við það. Við erum með eitt öflugasta leikskólastig í heimi, óvíða er jafn metnaðarfullt starf eins og hér og að mörgu leyti er það til fyrirmyndar. Um leið og barnið fer í grunnskóla er tilhneigingin aftur á móti sú að kröfurnar fara að verða aðrar, erfiðara verður að standa undir þeim og vandamálin afhjúpast.“
Hann segir að það sé mjög stað- og einstaklingsbundið hversu vel kennarar upplifa að þeir geti komið til móts við einstaklinga og þarfir þeirra.
„Ég þekki mörg dæmi þess að fötluð börn séu í sama skóla og ófötluð börn og það gengur bara frábærlega. Stundum eru þetta lítil samfélög þar sem ekki einu sinni er spurt um tilvistarréttinn – þau eru þarna eins og þau eru og allir eru eins og þeir eru. Það er hvort sem er enginn eins og þetta er frábært dæmi um það.“
Sumir kulna og gefast upp
Að hans mati er þetta það sárasta sem kennari upplifir; bjargarleysi gagnvart börnunum. „Sumir kulna og gefast upp – og hreinlega geta ekki verið í þessum aðstæðum. Aðrir setja undir sig höfuðið og ætla að bjarga ástandinu. Aðrir verða pirraðir á stoðleysinu og því að bíða með barn í alvarlegum vanda sem kemst ekki í þjónustu fyrr en eftir nokkur ár. Þetta er gríðarlega krefjandi.“
Ragnar Þór segir að það sem virki vel, jafnvel í krefjandi aðstæðum sem þessum, sé þegar skólinn og heimilin ná að vera samherjar í baráttunni. Þegar traust sé á milli þessara aðila og allir viti og finni að þau séu að vinna að sameiginlegu markmiði og sameiginlegur vilji sé til að standa við bak barnsins.
„Um leið og þetta samband rofnar eða trosnar af einhverjum sökum þá getur ástandið orðið mjög erfitt. Bæði fyrir foreldra, kennara og börnin. Við getum mátað sjálf okkur í inn í þessar aðstæður og ímyndað okkur hvernig það er.“
Um leið og barnið fer í grunnskóla er tilhneigingin aftur á móti sú að kröfurnar fara að verða aðrar, erfiðara verður að standa undir þeim og vandamálin afhjúpast.
Hvernig verður þessi vandi leystur?
Hann segir að lausnirnar verði aldrei samdar í „einhverju kerfi sem á að leysa vandann“. Valdefla þurfi kennara í eigin starfsþróun en með því væri hægt að fjölga þeim uppbyggilegu úrræðum sem kennarar hafa til að takast á við þessar aðstæður.
„Við erum bara á frumskrefum í þessu tiltölulega valdalausa samfélagi þar sem pirringur er yfir því að kerfin taki ekki við og að ekki komi stuðningur. Þá er fjöldi fólks í mjög vonlausum aðstæðum og vonlausar aðstæður kalla aldrei fram það besta í okkur til lengri tíma. Þannig að kennararnir eru að mörgu leyti á sama stað og foreldrarnir. Þar sem ástandið er vont getur þetta verði virkilega vont og öllu líður illa, kennaranum, foreldrum og barninu.“
Prísa sig sæla að ná að manna skólana á hverju vori
Hann segir að á síðustu tveimur árum sé í fyrsta skipti á þessari öld sem Íslendingar séu að snúa við samfelldum kennaraskorti. „Það er krónískur kennaraskortur í landinu.“ Þessi skortur eigi sér stað þrátt fyrir að háskólamenntun sé að aukast hér á landi. Alltaf vanti kennara á öllum skólastigum, alls staðar.
„Spár sögðu að ef ekkert yrði að gert þá myndi vanta um helming grunnskólakennara árið 2030. Framhaldsskólakennarar eru líka orðnir ofboðslega gamlir. Þannig að við erum búin að stefna hægt og rólega í fullkominn atgervisbrest í skólakerfinu. Og þess vegna prísa menn sig sæla að ná að manna skólana á hverju vori. Það er fjöldi fólks sem er að kenna sem hefur ekki endilega menntað sig til kennslu og ætlar ekki að vera kennarar áfram. Sumt af þessu fólki eru frábærir kennarar og efnilegir kennarar en eftir því sem viðfangsefnin verða flóknari og erfiðari og áskoranirnar meiri þá er alltaf ósanngjarnara og ósanngjarnara að ætlast til þess að þú getir með brjóstvitinu leyst öll þessi vandamál. Við þurfum vel menntaða kennara.“
Bendir hann á að ef aðsókn að kennaramenntun skili sér í kennslu þá muni Íslendingar að einhverju leyti ná að loka þessu gati – en þó sé langt í það ennþá.
„Þarna skipta kjörin mestu máli og kerfisbundin lægri laun kvennastétta, við þurfum ekki að vera í neinum feluleik með það. Það auðvitað breytir möguleikum kerfisins á að standa sig.“
Sumir skólar vinsælli en aðrir hjá kennurum
Ragnar Þór segir að eftirspurn sé eftir því að kenna í ákveðnum skólum og einnig að kenna ekki í ákveðnum skólum. „Svo eru sum sveitarfélög alltaf vinsælli en önnur. Þó er ekki skýrt hvar línurnar liggja og er það mjög persónubundið eftir kennurum.“
Enn fremur sé fyrirkomulagið að færast úr því að vera einn kennari með bekk, lokaður af, yfir í það að þeir vinni miklu meira saman í teymum. Góð og öflug teymi hafi gríðarlegt aðdráttarafl á aðra kennara.
„Stóra spurningin er sú hvort okkur takist að fá þetta fólk sem hefur skráð sig í kennaranám til að skila sér í starfið þegar við erum í lægð og kreppu. Það er vitað að atvinnulífið mun taka mjög hratt við sér og hagvöxtur aukast hratt á næstunni. Ef samfélagið gleypir þetta útsæði í önnur betur launuð störf þá erum við á ofboðslega hættulegum stað.“
Bendir hann á að sjálfbærni kerfisins sé í hættu en ef okkur tekst að halda þessum hópum inn í kerfinu og rækta þá upp þá séu okkur allar leiðir færar. „Þetta er mjög tvísýnt mál því yfirleitt hefur sópast út úr menntakerfinu inn í atvinnulífið á Íslandi en það hefur haft mikinn sogkraft út úr opinberum kerfum.“
Eldri kynslóðin ekki tilbúin að deila völdum með þeim yngri
Ragnar Þór segir að það sama megi segja um aðdráttarafl atvinnulífsins á nemendur, jafnvel á grunnskólaaldri. „Það er nánast ætlast til þess að nemendur séu einnig í vinnu. Þetta hefur auðvitað skapað vítahring samfélags þar sem að þegar aðstæður verða þannig að við tilheyrum allt í einu miklu hreyfanlegri vinnumarkaði þar sem fólk kemur frá öðrum löndum þá geta þessir hópar lokast af.
Það er annað verulegt áhyggjuefni fyrir okkur: að rétta keflið milli kynslóða í íslensku samfélagi. Það er í mikilli tvísýnu akkúrat núna. Öll völdin hafa legið hjá fólki sem er síðmiðaldra og það er búið að koma sér fjandi vel fyrir – og ekki tilbúið að deila því með kynslóðinni þar fyrir neðan.“
Ungt fólk með enga bakhjarla, eða fjárhagslega vel stæða foreldra, lendi í mjög krefjandi aðstæðum í framhaldinu. „Það aðgreinir síðan samfélagið með þeim hætti sem er algjörlega óverjandi. Við sem samfélag þurfum að horfa í spegil og ræða þetta betur,“ segir hann.
Við sem samfélag þurfum að horfa í spegil og ræða þetta betur.
Hvernig er hægt að gera vinnuumhverfi kennara bærilegra?
„Við erum það heppin að glöggt er gests augað. Það er tiltölulega stutt síðan Evrópumiðstöð kom hingað til lands og tók út skóla án aðgreiningar á Íslandi. Tekin voru viðtöl við hagaðila og greint hvernig við stöndum okkur. Einnig var OECD nú nýlega að skoða menntastefnu til ársins 2030 sem menntamálaráðherra var að fá samþykkta inni á Alþingi. Báðir þessir aðilar hafa bent á að þrátt fyrir að það sé vissulega mikilvægt að búa við menningu vonar þá þarf líka að vera menning innleiðingar.
Við verðum að læra að „þetta reddast“ ekki alltaf. Það þarf að fylgja mörgum hlutum eftir miklu betur en gert er og halda mikið betur utan um ákveðin málefnasvið,“ segir Ragnar Þór.
Það feli meðal annars í sér að hætta að reyna að framkvæma hluti á allt of skömmum tíma og eyða allt of litlu fjármagni í það. Aðrar þjóðir séu með mun raunhæfari hugmyndir um hvað þurfi til að fylgja hlutum eftir.
Má ekki lenda á skákborði hægri og vinstri
Í fyrsta lagi nefnir Ragnar Þór tillögu að lausn sem gengur út á að „snúa stuðningspíramídanum á haus“. Hann þurfi að vera þannig að mesta áherslan sé lögð á það að allir þrífist sem best í sínu nærsamfélagi. „Þar eigum við fyrirmyndir til dæmis í Kanada þar sem miklu stærri félagsleg vandamál eru til staðar en nokkurn tímann hér. Þeir eru búnir að finna ýmiss konar lausnir á þessu. Við getum horft til þess og lagað þetta.“
Í öðru lagi segir hann að ef skólinn á að vera hjá sveitarfélögum þá verði þau að vera nógu sterkar stjórnsýslueiningar til þess að reka skóla. „Sveitarfélögin verða að hafa það stoðnet sem þau þurfa. Það væri alveg hægt að taka menntamálamálastofnun og gera hana að þessu fyrirbæri, það er alveg hægt. En þá má þetta ekki verða annað mál sem lendir á skákborði hægri og vinstri í stjórnmálum þar sem hægri sinnaðir stjórnmálamenn ætla alltaf að láta einkareksturinn að einhverju leyti fylla í tómarúmið og svo ætla vinstri sinnaðir stjórnmálamenn sem komast að kjötkötlunum að stíga í hina áttina. Þarna verðum við bara að ganga í takt. Og hætta þessu rugli.“
Í þriðja lagi verði að tryggja að til staðar sé starfsfólk í skólunum. Það verði að vilja vera þar og ekki þurfa af efnahagslegum ástæðum að flýja eitthvað annað. Í fjórða lagi þurfi að tryggja að starfsfólkið sé aflgjafi breytinga í samstarfi við háskólastigið og stjórnvöld.
Stjórnmálamenn nýta sér ástandið til að slá pólitískar keilur
Ragnar Þór bendir á að allir þessir boltar séu farnir að rúlla en þeir rúlli allt of hægt. „Við erum stödd á þeim stað að við erum aðeins farin að vakna en það er ekkert sem segir að þó að við vöknum að við berum gæfa til að laga þetta.“
Hann segir að eftir að Íslendingar ákváðu á áttunda áratugnum að menntakerfið væri fyrir alla þá hafi stjórnmálin ekki ráðið við að fylgja stefnunni eftir. „Það var hugmyndafræðilegur ágreiningur sem síðan breiddi úr sér þannig að það voru komin átök milli stjórnmálastéttarinnar og nánast allra opinberra stéttarfélaga í landinu.
Núna erum við dálítið á sama stað. Það er ekki til sá popúlistaflokkur á Íslandi sem ekki hamrar á þessu. Þú getur nánast raðað stjórnmálamönnum í röð eftir því hvar þeir standa í þessum málum og margir nýta sér ástandið til að slá pólitískar keilur. Stjórnmálin á Íslandi verða gjöra svo vel að gyrða sig í brók og standa undir því verkefni að ekki bara setja leikreglurnar á Íslandi heldur gera fólki kleift að fylgja þeim og ná þeim árangri sem á að ná. Það verða bara allir að róa í sömu átt.“
Hann telur að ef allt þetta smellur þá getum við náð framfaraskrefum en „þá þurfum við að haga okkur öðruvísi en við höfum verið að gera hingað til“.
Ertu bjartsýnn á að það gerist?
„Já, en þá verðum við að gera kennara að drifkraftinum í þeirra starfsþróun því þeir vita nákvæmlega hvar skóinn kreppir – þeir vita hvað þarf. Það er ekki einhver sem situr hér á skrifstofunni hjá Kennarasambandinu, menntamálaráðuneytinu eða menntamálastofnun sem er með puttann best á púlsinum, það eru kennararnir sjálfir og þeir þurfa að fá að leiða þetta.“
Ragnar Þór segist vera bjartsýnn því hann hafi séð mörg dæmi þess að þetta hafi gengið vel.
„Þetta getur gengið vel en við þurfum alltaf að skoða þetta heildrænt. Því jafnvel þótt við getum stóraukið farsæld allra í íslensku skólakerfi – eins og mörgum líður fyrstu árin í leikskólanum – þá þarf samfélagið auðvitað að vera tilbúið að halda áfram að taka á móti þeim og ekki vera aðgreinandi í eðli sínu,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
27. desember 2022Góð orð eru eitt – en aðgerðirnar telja
-
10. desember 2022Skólastarf verðskuldar virðingu í umfjöllun
-
24. október 2022Hvíta húsið, UNESCO og endurbætt rannsóknamat
-
28. september 2022Píratar vilja að Menntasjóður fái heimild til að fella niður námslánaskuldir
-
1. september 2022Hvar eru strákarnir?
-
5. júlí 2022Vilja netöryggiskennslu inn í námskrá grunnskólanna
-
8. júní 2022Halda ekki utan um tölur um kvartanir er varða kynþáttafordóma
-
2. maí 2022Afborganir námslána í aukinni dýrtíð: Hvar er stefna stjórnvalda?
-
7. apríl 2022Áskorun og tækifæri í hversdagsleikanum
-
6. apríl 2022Hugsað til framtíðar