Bára Huld Beck Ragnar Þór Pétursson
Bára Huld Beck

Verðum að ganga í takt og „hætta þessu rugli“

Stórar spurningar vakna þegar fjallað er um skóla án aðgreiningar og vangavelturnar verða síðan enn stærri varðandi aðra kima samfélagsins. Formaður Kennarasambands Íslands segir að nú sé komið að því að við Íslendingar spyrjum okkur hvernig við viljum haga okkar málum. Viljum við vera aðgreinandi í eðli okkar eða gyrða okkur í brók og takast á við erfið málefni?

Þetta er miklu stærra mál en að þetta snerti bara skól­ann. Hvernig hefur kerfið til dæmis tekið á móti þeim börnum sem liðið hafa mest í íslensku sam­fé­lagi síð­ustu tíu árin – eða frá hruni – eftir að þau urðu 18 ára? Þessu hef ég miklar áhyggjur af.“

Þetta segir Ragnar Þór Pét­urs­son, for­maður Kenn­ara­sam­bands Íslands, þegar hann er spurður út í hug­takið skóli án aðgrein­ingar en Kjarn­inn ræddi við hann um hvernig það kom til að Íslend­ingar tóku upp þessa stefnu, hvaða áhrif hún hefur haft og hvað vanti upp á til að fram­fylgja henni.

Hann segir að aðgrein­ing­ar­hug­takið eigi við um fleiri þætti í íslensku sam­fé­lagi en ein­ungis í skól­un­um. Íslend­ingar aðgreini sig eftir póli­tískum og félags­legum brota­línum og sé sú aðgrein­ing að aukast ár hvert. „Við erum að aðgrein­ast í auknum mæli og ef við förum ekki að vinna á móti því þá stefnum við vænt­an­lega bara í nákvæm­lega sama far og nágranna­þjóðir okk­ar.“

Auglýsing

Ragnar Þór hefur verið kenn­ari í 25 ár og seg­ist hann sjaldan heyra frasa í sínu starfi oftar en: „Skóli án aðgrein­ingar er frá­bært hug­mynd en ...“ Svo bæt­ist við ýmiss konar útskýr­ingar af hverju hug­myndin gangi ekki upp í raun­veru­leik­an­um.

„Það er ein­hvern veg­inn lín­an. Það er hættu­legt að þessi orð­ræða fái að þríf­ast því skóli án aðgrein­ingar á að vera, og er, það mikið grund­vall­ar­at­riði að þetta er hluti af stóru spurn­ing­unni hvort sam­fé­lagið sé aðgreint eða ekki – hvort sam­fé­lagið eigi að vera í kvíum eða ekki. Vissu­lega sner­ist umræðan framan af um fötluð börn en þetta er miklu stærri spurn­ing en það. Þetta er einnig spurn­ing sem varðar börn af erlendum upp­runa og börn í mis­mun­andi félags­legum aðstæð­u­m.“

Höfum aldrei þurft að vera meira vak­andi

Hann rekur sög­una og segir að fyrir árið 1974, þegar skóli án aðgrein­ingar var bund­inn í lög, hafi Íslend­ingar með­vitað og vilj­andi haft aðgreint skóla­kerfi. Kerfi sem ann­ars vegar var ætlað þeim sem vildu í lang­skóla­nám og hins vegar gagn­fræða­nám.

„Gegn þessu var gerð upp­reisn á eft­ir­stríðs­ár­unum en þetta byrj­aði í Frakk­landi og kom svo hingað – og frá 1974 höfum við verið að brasa við hug­mynd­ina. Þetta hefur verið í lagi hjá okkur að því leyti að það hefur verið mjög áber­andi og greini­legt í lög­gjöf­inni en við höfum verið mjög brokk­geng í því að fram­kvæma þetta með réttum hætti. Fyrir því eru ýmsar ástæð­ur.“

Aðgreining á einum stað – sérstaklega í skólakerfinu sem er svo mikið grundvallarkerfi í samfélaginu – hefur tilhneigingu til að leiða í för með sér aðgreiningu á öðrum stað.
Ragnar Þór bendir á að Íslendingar hafi aðgreiningu í búsetu, atvinnulífinu, tómstundum og íþróttum.
KÍ/Anton Brink

Ragnar Þór segir að fyrir honum og vænt­an­lega fyrir mjög mörgum sé ekki í boði að segja: „Góð hug­mynd en ...“ Sam­fé­lagið eigi ekki að vera aðgreint. „Upp­runi þinn, lík­am­legt og and­legt atgervi á ekki að vera ráð­andi þáttur um það á hvaða hillu þú lendir í sam­fé­lag­inu. Það til­heyrir okkur öll­u­m.“

Hann segir að aðgrein­ing eigi sér stað á nokkrum svið­um. „Við höfum aðgrein­ingu í búsetu, í atvinnu­líf­inu, í tóm­stundum og íþróttum en aðgrein­ing á einum stað – sér­stak­lega í skóla­kerf­inu sem er svo mikið grund­vall­ar­kerfi í sam­fé­lag­inu – hefur til­hneig­ingu til að leiða í för með sér aðgrein­ingu á öðrum stað. Við höfum aldrei þurft að vera meira vak­andi en nún­a.“

Þarf ekki að fjöl­yrða um skað­ann ef sam­fé­lagið yrði kvíað niður

Ragnar Þór bendir á að íslenskt sam­fé­lag hafi verið gríð­ar­lega eins­leitt hér á árum áður.

„Við vorum miklu eins­leit­ari en önnur sam­fé­lög sem er kannski ástæðan fyrir því að á Íslandi snýst þessi umræða mikið um fatl­aða og ófatl­aða. En fatl­aðir og ófatl­aðir eru kannski ekki á end­anum þeir hópar sem eru í hvað mestri hættu á að aðgrein­ast í íslensku sam­fé­lagi. Þannig höfum við aldrei þurft að vera meira vak­andi en núna – þegar fjöl­breytnin er sann­ar­lega að aukast. Þetta er mann­rétt­inda­mál og spurn­ing um það hvort sam­fé­lagið sé fyrir okkur öll eða hvort aðgangur verði bann­aður fyrir sum­a.“

Hann segir að ekk­ert þurfi að fjöl­yrða um skað­ann sem það veldur sam­fé­lagi að vera kvíað nið­ur.

Þurfum að gyrða okkur í brók

Ragnar Þór heldur upp­rifj­un­inni áfram og bendir á að Ísland hafi farið frá því að vera með flest ein­kenni þró­un­ar­rík­is, upp úr árinu 1960, í það á um þrjá­tíu árum eða svo að vera eitt af rík­ustu sam­fé­lögum heims. Segir hann þetta vera eins­dæmi.

Það hvernig Íslend­ingar náðu að virkja mannauð­inn hafði hvað mest áhrif á þessa þróun sam­kvæmt hon­um. „Og það er nákvæm­lega sami mannauður í fötl­uðu fólki, í öldruð­um, í fólki af erlendum upp­runa og í fátækum börn­um. Og ef sam­fé­lagið ætlar ein­hvern veg­inn að segja að nú höfum við það svo frá­bært og við skulum ekki vera að rugga bátnum með því að taka neina sénsa og hafa hlut­ina eins og þeir eru og ekki vera að blanda hópum of mikið saman þá endar það í ein­hvers konar elít­isma. Það endar með ýmsum vanda­málum sem við værum þá sjálf að búa til. Það er eitt­hvað sem er ein­fald­lega ekki boð­legt og þá þurfum við núna að gyrða okkur í brók og standa vörð um skóla án aðgrein­ing­ar.“

Auglýsing

Ragnar Þór segir að þetta kalli vissu­lega á margar erf­iðar spurn­ingar um það hvernig við höfum hagað þessum málum fram að þessu. „Þar þurfum við að vera heið­ar­legri en við höfum leyft okkur að vera og fara að gera hluti í íslensku sam­fé­lagi með öðrum hætti en við erum vön. Því að það er mikið fúskað í íslensku sam­fé­lag­i.“

Hvað þurfum við að horfast í augu við og hvaða spurn­ingar þurfum við að spyrja okk­ur?

„Það eru nokkrir hlut­ir. Eitt af því sem ger­ist er það – og á eig­in­lega að vera okkur varn­að­ar­merki – að um það leyti sem við erum að festa í lög og taka afstöðu um það að hér skulum við fylgja Salamanca-­yf­ir­lýs­ing­unni, sem er hin aðþjóð­lega yfir­lýs­ing um að vera ekki með aðgreind sam­fé­lög, fluttum við grunn­skól­ann á einu bretti yfir til sveit­ar­fé­lag­anna. Þau í raun og veru voru alls ekki nógu sterkar stjórn­sýslu­ein­ingar til að taka við hlut­verki skól­anna eins og það var, hvað þá því hlut­verki sem síðar varð, því að skól­inn á þessum tíma var allt annað fyr­ir­bæri að mörgu leyt­i.“

Hann segir að þannig hafi víð­tækar kerf­is­breyt­ingar orðið á mjög við­kvæmum tíma án þess að tryggt væri að sveit­ar­fé­lögin væru í stakk búin til að standa undir hlut­verki sínu. Ennþá séu mörg þeirra að glíma við sömu vanda­mál.

„Á sama tíma verður þessi slagur um fjár­magn og pen­inga. Sveit­ar­fé­lögin fóru strax að tala um að ríkið hefði svelt skóla­kerfið í ein­hvern tíma áður en það skil­aði því yfir til að við­miðið yrði lægra,“ segir hann.

Stoð­grind­inni kippt í burtu

Ragnar Þór segir að Íslend­ingar virð­ist ekki finna póli­tíska lausn á þessu vanda­máli og að eina lausnin sem fólk hafi sé að sam­eina sveit­ar­fé­lög. „En við það er mjög póli­tísk and­staða og átök.“

Áður en ríkið skil­aði skóla­kerf­inu yfir á sveit­ar­fé­lögin var til staðar fag­legt stuðn­ings­net inni í mennta­mála­ráðu­neyt­inu sem hélt utan um skól­ana. „Við höfðum fag­svið sem voru í nánu og sterku sam­bandi, en því var öllu klippt í burtu. Þannig að ekki aðeins fóru skól­arnir til veik­ari stjórn­sýslu­ein­inga heldur var stoð­grind­inni kippt í burtu. Og þetta skýrir mögu­lega að ein­hverju leyti þá erf­ið­leika sem skóla­kerfið okkar hefur staðið frammi fyrir nán­ast frá því að sveit­ar­fé­lögin tóku við grunn­skól­un­um. Þetta er búið að vera mjög við­kvæmt mál.“

Öll haldreipi eru dýrmæt. Á meðan þú hefur ekkert annað betra þá er þó styrkur af því sem þú hefur og það er mjög erfitt að taka skrefið til skólakerfis án aðgreiningar ef það þýðir að maður þarf að fórna hækjunum sínum.
Bára Huld Beck

Ragnar Þór nefnir annað sem hefur verið ábóta­vant og það eru þær lausnir sem stungið hafi verið upp á í þessu sam­bandi. „Það hefur verið of mikið um kerf­is­lausnir, patent­lausnir, sem eru nán­ast eins og þær séu samdar á skrif­stofu af ein­hverjum hópi sem ætlar að leysa þetta með ein­hverju kerfi sem dugi til. Og mjög lengi og jafn­vel enn í dag ætl­uðum við að leysa skóla án aðgrein­ingar með því sem sem við köllum stundum stuðn­ings­full­trúa­kerf­i.“

Stuðn­ings­full­trúa­kerfið ákveðið hald­reipi – en það virkar ekki

Stuðn­ings­full­trúa­kerfið sner­ist um það að ef barn átti erfitt upp­dráttar þá fékk það full­orð­inn ein­stak­ling með sér inn í bekk til aðstoð­ar. „Þetta er í raun aðgrein­andi aðgerð í sjálfu sér. Að setja barn inn í bekk en barnið er ein­kennt af því að það er með varð­mann á sér alla daga sem situr jafn­vel við hlið­ina á því og er í mestum sam­skiptum við við­kom­and­i.“

Hann segir að þetta kerfi hafi ekki gengið upp. „Það eru svona tíu ár síðan við horfð­umst í augu við það að kerfið virk­aði ekki – hvorki til að ná þeim árangri sem þurfti né sem grund­vall­ar­hryggjar­stykki í skóla­kerfi án aðgrein­ing­ar.“

Ef stuðn­ings­full­trú­unum hefði verið kippt í burtu þá hefði hins vegar verið farið mjög illa með þessi börn. „Öll hald­reipi eru dýr­mæt. Á meðan þú hefur ekk­ert annað betra þá er þó styrkur af því sem þú hefur og það er mjög erfitt að taka skrefið til skóla­kerfis án aðgrein­ingar ef það þýðir að maður þarf að fórna hækj­unum sín­um.“

Grein­ing­ar­kerfið hefur valdið óskunda

Sam­hliða stuðn­ings­full­trúa­kerf­inu var not­ast við svo­kallað grein­ing­ar­kerfi. Ragnar Þór segir að ákveðin til­hneig­ing sé til þess að móta slík kerfi, þau séu gagnsæ og vitað sé hvaða mæli­kvarðar liggja til grund­vall­ar.

„En þetta kerfi hefur nátt­úru­lega valdið óskunda í skóla­sam­fé­lag­inu okkar þar sem þjón­usta hefur verið skil­yrt við ein­stak­linga sem upp­fylla ein­hver grein­ing­ar­við­mið – jafn­vel fjár­magn – þó verið sé að vinda ofan af því núna. Það hefur skap­ast hvati til þess að vera vanda­mál. Ef þú ert nógu stórt vanda­mál þá færðu lausn­ina. Á sama tíma er þetta ekki vald­efl­andi kerfi til að taka á vanda við­kom­andi utan þessa form­lega kerfis og þetta kerfi hefur mis­tek­ist. Við verðum bara að horfast í augu við það.“

Ragnar Þór segir að stuðn­ings­kerfið við börn sé á haus miðað við það hvernig það ætti að vera. „Fræðin segja að mesta pústið eigi að vera lagt í dag­legan veru­leika barns­ins, það er að segja mesti stuðn­ing­ur­inn á að vera á þessu fyrsta þrepi; í hinu dag­lega skóla­starfi. Það starf þarf að vera með þeim hætti að þar sé þörfum sem flestra mætt með mark­vissum hætti. Við höfum að ein­hverju leyti, til dæmis vegna grein­ing­ar­ferl­is­ins, verið með þetta þannig að um leið og upp kemur vandi, hvort sem það er lestr­ar­vandi eða þroska­höml­un, þá fer pústið í það að koma barni í gegnum kerfið og í Grein­ing­ar­stöð. Þar er eins, tveggja eða þriggja ára bið eftir að kom­ast inn.“

Auglýsing

Hvernig ætti dag­legt skóla­starf að vera til að sem flestir þrí­fist?

„Númer eitt tvö og þrjú á að vera hægt að manna kerfin okk­ar. Það má ekki vera und­ir­mönnun eða mann­ekla. Það má ekki vera mikil starfs­manna­velta þannig að í hvert skipti sem efna­hags­lífið tekur við sér þá streymir fólk út úr skóla­kerf­inu og svo kemur það til baka þegar það missir vinn­una í kreppu. Það verður að vera meiri stöð­ug­leiki í starfs­manna­veltu. Kenn­arar þurfa að vera hæfir og vel mennt­að­ir.“

Fólk flæðir inn í sam­fé­lagið sem auðgar það og bætir

Ragnar Þór byrj­aði að kenna árið 1996 og segir hann að á þeim tíma hafi allt annar félags­legur veru­leiki verið í skól­un­um.

„Sam­fé­lagið var allt öðru­vísi. Ég er búinn að horfa upp á það að þessi venju­legu íslensku börn – prests­dóttirin og for­stjóra­son­ur­inn – sem voru dæmi­gerð þá eru að miklu leyti flutt úr íslenskum mál­heimi mjög snemma og á sama tíma er skól­inn að remb­ast við að vera þessi mál­heim­ur. En það gengur ekki upp, þú til­einkar þér ekki tungu­mál inn í stofn­un, heldur í þínu dag­lega lífi. Þetta veldur ýmiss konar áskor­unum sem eldri kyn­slóðir hafa til­hneig­ingu til að sjá bara sem aft­ur­för. Þá sjá þær ekki það sem þessi börn hafa tekið inn í stað­inn, sem er heil heims­mynd og heill heimur – annað tungu­mál. Börn eru ekki and­lega fátæk­ari en þau voru, en þau eru ekki alveg í takt við sam­fé­lagið eins og við höldum að það eigi að vera. Það er auð­vitað slæmt að tapa þeim úr mál­heim­inum en sem betur fer erum við að ein­hverju leyti að ná þeim til bak­a.“

Ragnar Þór bendir á að sam­fé­lagið sé nú orðið mikið fjöl­breytt­ara en það var. „Hér fór að flæða inn fólk í íslenskt sam­fé­lag sem hefur ekk­ert annað gert en að auðga það og bæta.“

Þarna er um að ræða fjöl­skyldu­fólk sem er komið til að vera, að hans sögn. „Mæl­ingar og rann­sóknir sýna að þetta fólk hefur nákvæm­lega sama metnað fyrir hönd sinna barna eins og íslenskir for­eldr­ar. Það hefur nákvæm­lega sömu löngun og aðrir for­eldrar til að þessi börn aðlag­ist sam­fé­lag­inu og taki sér eitt­hvað hlut­verk í því.“

Börn geta ekki beðið á meðan kerfið tekur við sér

Varð­andi breyt­ing­arnar innan kerf­is­ins þá segir Ragnar Þór þær ger­ast allt of hægt. „Börnin geta ekki beðið á meðan kerfið tekur við sér. Það verður að mæta þeim og það sem veldur mér mestum áhyggjum er að á sama tíma og skól­inn er að reyna að átta sig á hlut­verki sínu um að vera aðgrein­ing­ar­laus þá er sam­fé­lagið sífellt að aðgreina sig meira.“

Þarna á hann ekki við áhrif sam­fé­lags­miðla, þar sem allir eru í sínum berg­máls­helli, heldur það að Reykja­vík er að breyt­ast úr mjög bland­aðri borg í aðgreinda. „Borgin er orðin þrí­skipt. Við erum komin með þrjú hverfi þar sem mjög ríkt fólk býr, þrjú hverfi þar sem býr fólk með mikið menn­ing­ar­legt auð­magn – hámenntað fólk og lista­menn – og svo erum við með þrjú hverfi með mæl­an­legum mun á báðum þessum mæli­kvörðum þar sem fátæk­asta fólkið í borg­inni býr.

Hús­næð­is­mark­að­ur­inn er grimmi­legur og hörmu­legur – og flestar lausnir sem hingað til hefur verið farið í hafa ekki verið hugs­aðar í nægi­lega stóru sam­hengi til að koma í veg fyrir að safnað sé á sömu svæðin fólki með sama félags­lega bak­grunn.“

Telur hann að einn af styrk­leikum Íslands hér áður fyrr hafi verið að sam­fé­lagið var það blandað – þrátt fyrir að alltaf hafi verið stétta­skipt­ing hér á landi – að allir hafi átt sam­eig­in­legra hags­muna að gæta.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að á sama tíma og skólinn er að reyna að átta sig á hlutverki sínu um að vera aðgreiningarlaus þá er samfélagið sífellt að aðgreina sig meira.
KÍ/Anton Brink

„Um leið og við hættum að hafa sam­eig­in­lega hags­muni, sama hver okkar félags­legi bak­grunnur er og hvaða póli­tíska styrk við höfum og teng­ing­ar, hvaða sam­fé­lags­lega vægi við höf­um, ef allt sam­fé­lagið hefur ekki hag af því að skól­arnir séu góðir þá lendum við í vanda­málum sem margar aðrar þjóðir hafa lent í sem mun auka mjög hratt á vand­ann. Þess vegna er það mjög við­kvæmt mál upp að hvaða marki við leysum núver­andi vanda­mál skól­anna til dæmis með því að auka hreyf­an­leika for­eldra og nem­enda milli skóla.“

Ragnar Þór seg­ist skilja áhyggjur for­eldra sem finnst að þörfum barn­anna þeirra sé ekki mætt í skól­unum og hugsi þá með sér að flytja barnið í „betri skóla“. „Þetta er mjög við­kvæmt póli­tísk við­fangs­efni sem við sem sam­fé­lag þurfum að ræða miklu meira. Vegna þess að versta leiðin til að taka þessar rök­ræður er í gegnum reynslu­sögur barna eða ein­staka for­eldra sem eru að reyna að gera sitt allra besta. Það er þessi heild­stæða mynd sem skiptir máli.“

Póli­tískar skylm­ingar skila engu

Ragnar Þór segir að Íslend­ingar séu einnig oft á móti of miklu skóla­vali og bendir á að tregðan sé til stað­ar. „Þetta hefur að ein­hverju leyti orðið bit­bein mennta­mála­ráð­herra með mis­mun­andi áhersl­ur. Þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var með ráðu­neytið þar­síð­ast þá var skóla­val aukið og þegar Katrín Jak­obs­dóttir varð ráð­herra þá gekk þetta að ein­hverju leyti til baka. Þetta var áber­andi í fram­halds­skól­unum þegar hún var að reyna að neyða þá til að verða aftur hverf­is­skólar í ein­hverjum mæli.

Þessar póli­tísku skylm­ingar skila engu ef menn ætla bara að sæta lagi þegar þeir kom­ast til valda að hnika eitt­hvað í átt­ina. Menn mega ekki vera svo sann­færðir um eigin póli­tísku sýn á þessi mál að þeir nenni ekki að fara í þessa grund­vall­ar­um­ræð­u.“

Hann segir að skuld­bind­ingin gagn­vart því að reka hér sam­fé­lag án aðgrein­ingar verði að vera sterk, og ótt­ast hann um afdrif skól­ans ef hún er það ekki.

„Þá verður maður hik­andi að taka stökkið vegna þess að þá ótt­ast maður að ekk­ert örygg­is­net verði til staðar sem grípur ef á þarf að halda. Þannig að þetta er risa póli­tískt mál sem við verðum sem sam­fé­lag að fara að horfast í augu við.“

Auglýsing

Hvernig er upp­lifun kenn­ara að vinna við þessar aðstæður eftir skóla­stig­um?

„Kenn­arar eru þannig upp til hópa að þeir eru nán­ast óbilandi hug­sjóna­fólk að vinna í aðstæðum sem eru rosa­lega krefj­andi. Sem veldur því að þeim fall­ast hendur og geta upp­lifað von­leysi. Þeir hafa hins vegar alltaf reynt að leggja sig fram um að spila eftir regl­unum eins og þær eru á hverjum tíma. Og þeir hafa til dæmis alveg fylgt eftir stuðn­ings­full­trúa­kerf­inu og grein­ing­ar­kerf­inu eins og þeir hafa get­að. En þeir eins og aðrir sjá alveg að þessi kerfi hafa ekki dugað til.“

Vanda­málin afhjúp­ast þegar börn fara í grunn­skóla

Ragnar Þór segir að það sé skelfi­legt fyrir kenn­ara að upp­lifa sig í aðstæðum þar sem hann leggur sig fram og áttar sig á að það dugar ekki til.

„Að mörgu leyti er gott að starfa á leik­skóla­stigi hvað þetta varðar vegna þess að þar er fyrst og fremst verið að styðja við eðli­legan og fjöl­breyttan þroska barna í sam­fé­lagi. Þannig fær leik­skól­inn að vera sá staður þar sem ákveðið umburð­ar­lyndi er gagn­vart fjöl­breyti­leika.

Til dæmis er stutt við frjálsan leik og lær­dóm – og það er ekk­ert sjálf­sagt við það. Við erum með eitt öfl­ug­asta leik­skóla­stig í heimi, óvíða er jafn metn­að­ar­fullt starf eins og hér og að mörgu leyti er það til fyr­ir­mynd­ar. Um leið og barnið fer í grunn­skóla er til­hneig­ingin aftur á móti sú að kröf­urnar fara að verða aðr­ar, erf­ið­ara verður að standa undir þeim og vanda­málin afhjúp­ast.“

Hann segir að það sé mjög stað- og ein­stak­lings­bundið hversu vel kenn­arar upp­lifa að þeir geti komið til móts við ein­stak­linga og þarfir þeirra.

„Ég þekki mörg dæmi þess að fötluð börn séu í sama skóla og ófötluð börn og það gengur bara frá­bær­lega. Stundum eru þetta lítil sam­fé­lög þar sem ekki einu sinni er spurt um til­vistar­rétt­inn – þau eru þarna eins og þau eru og allir eru eins og þeir eru. Það er hvort sem er eng­inn eins og þetta er frá­bært dæmi um það.“

Sumir kulna og gef­ast upp

Að hans mati er þetta það sárasta sem kenn­ari upp­lifir; bjarg­ar­leysi gagn­vart börn­un­um. „Sumir kulna og gef­ast upp – og hrein­lega geta ekki verið í þessum aðstæð­um. Aðrir setja undir sig höf­uðið og ætla að bjarga ástand­inu. Aðrir verða pirraðir á stoð­leys­inu og því að bíða með barn í alvar­legum vanda sem kemst ekki í þjón­ustu fyrr en eftir nokkur ár. Þetta er gríð­ar­lega krefj­and­i.“

Ragnar Þór segir að það sem virki vel, jafn­vel í krefj­andi aðstæðum sem þessum, sé þegar skól­inn og heim­ilin ná að vera sam­herjar í bar­átt­unni. Þegar traust sé á milli þess­ara aðila og allir viti og finni að þau séu að vinna að sam­eig­in­legu mark­miði og sam­eig­in­legur vilji sé til að standa við bak barns­ins.

„Um leið og þetta sam­band rofnar eða trosnar af ein­hverjum sökum þá getur ástandið orðið mjög erfitt. Bæði fyrir for­eldra, kenn­ara og börn­in. Við getum mátað sjálf okkur í inn í þessar aðstæður og ímyndað okkur hvernig það er.“

Um leið og barnið fer í grunnskóla er tilhneigingin aftur á móti sú að kröfurnar fara að verða aðrar, erfiðara verður að standa undir þeim og vandamálin afhjúpast.
Bára Huld Beck

Hvernig verður þessi vandi leyst­ur?

Hann segir að lausn­irnar verði aldrei samdar í „ein­hverju kerfi sem á að leysa vand­ann“. Vald­efla þurfi kenn­ara í eigin starfs­þróun en með því væri hægt að fjölga þeim upp­byggi­legu úrræðum sem kenn­arar hafa til að takast á við þessar aðstæð­ur.

„Við erum bara á frumskrefum í þessu til­tölu­lega valda­lausa sam­fé­lagi þar sem pirr­ingur er yfir því að kerfin taki ekki við og að ekki komi stuðn­ing­ur. Þá er fjöldi fólks í mjög von­lausum aðstæðum og von­lausar aðstæður kalla aldrei fram það besta í okkur til lengri tíma. Þannig að kenn­ar­arnir eru að mörgu leyti á sama stað og for­eldr­arn­ir. Þar sem ástandið er vont getur þetta verði virki­lega vont og öllu líður illa, kenn­ar­an­um, for­eldrum og barn­in­u.“

Prísa sig sæla að ná að manna skól­ana á hverju vori

Hann segir að á síð­ustu tveimur árum sé í fyrsta skipti á þess­ari öld sem Íslend­ingar séu að snúa við sam­felldum kenn­ara­skorti. „Það er krónískur kenn­ara­skortur í land­in­u.“ Þessi skortur eigi sér stað þrátt fyrir að háskóla­menntun sé að aukast hér á landi. Alltaf vanti kenn­ara á öllum skóla­stig­um, alls stað­ar.

„Spár sögðu að ef ekk­ert yrði að gert þá myndi vanta um helm­ing grunn­skóla­kenn­ara árið 2030. Fram­halds­skóla­kenn­arar eru líka orðnir ofboðs­lega gaml­ir. Þannig að við erum búin að stefna hægt og rólega í full­kom­inn atgervis­brest í skóla­kerf­inu. Og þess vegna prísa menn sig sæla að ná að manna skól­ana á hverju vori. Það er fjöldi fólks sem er að kenna sem hefur ekki endi­lega menntað sig til kennslu og ætlar ekki að vera kenn­arar áfram. Sumt af þessu fólki eru frá­bærir kenn­arar og efni­legir kenn­arar en eftir því sem við­fangs­efnin verða flókn­ari og erf­ið­ari og áskor­an­irnar meiri þá er alltaf ósann­gjarn­ara og ósann­gjarn­ara að ætl­ast til þess að þú getir með brjóst­vit­inu leyst öll þessi vanda­mál. Við þurfum vel mennt­aða kenn­ara.“

Bendir hann á að ef aðsókn að kenn­ara­menntun skili sér í kennslu þá muni Íslend­ingar að ein­hverju leyti ná að loka þessu gati – en þó sé langt í það enn­þá.

„Þarna skipta kjörin mestu máli og kerf­is­bundin lægri laun kvenna­stétta, við þurfum ekki að vera í neinum felu­leik með það. Það auð­vitað breytir mögu­leikum kerf­is­ins á að standa sig.“

Auglýsing

Sumir skólar vin­sælli en aðrir hjá kenn­urum

Ragnar Þór segir að eft­ir­spurn sé eftir því að kenna í ákveðnum skólum og einnig að kenna ekki í ákveðnum skól­um. „Svo eru sum sveit­ar­fé­lög alltaf vin­sælli en önn­ur. Þó er ekki skýrt hvar lín­urnar liggja og er það mjög per­sónu­bundið eftir kenn­ur­um.“

Enn fremur sé fyr­ir­komu­lagið að fær­ast úr því að vera einn kenn­ari með bekk, lok­aður af, yfir í það að þeir vinni miklu meira saman í teym­um. Góð og öflug teymi hafi gríð­ar­legt aðdrátt­ar­afl á aðra kenn­ara.

„Stóra spurn­ingin er sú hvort okkur tak­ist að fá þetta fólk sem hefur skráð sig í kenn­ara­nám til að skila sér í starfið þegar við erum í lægð og kreppu. Það er vitað að atvinnu­lífið mun taka mjög hratt við sér og hag­vöxtur aukast hratt á næst­unni. Ef sam­fé­lagið gleypir þetta útsæði í önnur betur launuð störf þá erum við á ofboðs­lega hættu­legum stað.“

Bendir hann á að sjálf­bærni kerf­is­ins sé í hættu en ef okkur tekst að halda þessum hópum inn í kerf­inu og rækta þá upp þá séu okkur allar leiðir fær­ar. „Þetta er mjög tví­sýnt mál því yfir­leitt hefur sóp­ast út úr mennta­kerf­inu inn í atvinnu­lífið á Íslandi en það hefur haft mik­inn sog­kraft út úr opin­berum kerf­um.“

Eldri kyn­slóðin ekki til­búin að deila völdum með þeim yngri

Ragnar Þór segir að það sama megi segja um aðdrátt­ar­afl atvinnu­lífs­ins á nem­end­ur, jafn­vel á grunn­skóla­aldri. „Það er nán­ast ætl­ast til þess að nem­endur séu einnig í vinnu. Þetta hefur auð­vitað skapað víta­hring sam­fé­lags þar sem að þegar aðstæður verða þannig að við til­heyrum allt í einu miklu hreyf­an­legri vinnu­mark­aði þar sem fólk kemur frá öðrum löndum þá geta þessir hópar lok­ast af.

Það er annað veru­legt áhyggju­efni fyrir okk­ur: að rétta keflið milli kyn­slóða í íslensku sam­fé­lagi. Það er í mik­illi tví­sýnu akkúrat núna. Öll völdin hafa legið hjá fólki sem er síð­mið­aldra og það er búið að koma sér fjandi vel fyrir – og ekki til­búið að deila því með kyn­slóð­inni þar fyrir neð­an.“

Ungt fólk með enga bak­hjarla, eða fjár­hags­lega vel stæða for­eldra, lendi í mjög krefj­andi aðstæðum í fram­hald­inu. „Það aðgreinir síðan sam­fé­lagið með þeim hætti sem er algjör­lega óverj­andi. Við sem sam­fé­lag þurfum að horfa í spegil og ræða þetta bet­ur,“ segir hann.

Við sem samfélag þurfum að horfa í spegil og ræða þetta betur.
Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, ávarpar börn og ungmenni sem báru sigur úr býtum í Smásagnasamkeppni KÍ árið 2019.
SÓS

Hvernig er hægt að gera vinnu­um­hverfi kenn­ara bæri­legra?

„Við erum það heppin að glöggt er gests aug­að. Það er til­tölu­lega stutt síðan Evr­ópu­mið­stöð kom hingað til lands og tók út skóla án aðgrein­ingar á Íslandi. Tekin voru við­töl við hag­að­ila og greint hvernig við stöndum okk­ur. Einnig var OECD nú nýlega að skoða mennta­stefnu til árs­ins 2030 sem mennta­mála­ráð­herra var að fá sam­þykkta inni á Alþingi. Báðir þessir aðilar hafa bent á að þrátt fyrir að það sé vissu­lega mik­il­vægt að búa við menn­ingu vonar þá þarf líka að vera menn­ing inn­leið­ing­ar.

Við verðum að læra að „þetta reddast“ ekki alltaf. Það þarf að fylgja mörgum hlutum eftir miklu betur en gert er og halda mikið betur utan um ákveðin mál­efna­svið,“ segir Ragnar Þór.

Það feli meðal ann­ars í sér að hætta að reyna að fram­kvæma hluti á allt of skömmum tíma og eyða allt of litlu fjár­magni í það. Aðrar þjóðir séu með mun raun­hæf­ari hug­myndir um hvað þurfi til að fylgja hlutum eft­ir.

Má ekki lenda á skák­borði hægri og vinstri

Í fyrsta lagi nefnir Ragnar Þór til­lögu að lausn sem gengur út á að „snúa stuðn­ings­píramíd­anum á haus“. Hann þurfi að vera þannig að mesta áherslan sé lögð á það að allir þrí­fist sem best í sínu nær­sam­fé­lagi. „Þar eigum við fyr­ir­myndir til dæmis í Kanada þar sem miklu stærri félags­leg vanda­mál eru til staðar en nokkurn tím­ann hér. Þeir eru búnir að finna ýmiss konar lausnir á þessu. Við getum horft til þess og lagað þetta.“

Í öðru lagi segir hann að ef skól­inn á að vera hjá sveit­ar­fé­lögum þá verði þau að vera nógu sterkar stjórn­sýslu­ein­ingar til þess að reka skóla. „Sveit­ar­fé­lögin verða að hafa það stoð­net sem þau þurfa. Það væri alveg hægt að taka mennta­mála­mála­stofnun og gera hana að þessu fyr­ir­bæri, það er alveg hægt. En þá má þetta ekki verða annað mál sem lendir á skák­borði hægri og vinstri í stjórn­málum þar sem hægri sinn­aðir stjórn­mála­menn ætla alltaf að láta einka­rekst­ur­inn að ein­hverju leyti fylla í tóma­rúmið og svo ætla vinstri sinn­aðir stjórn­mála­menn sem kom­ast að kjöt­kötl­unum að stíga í hina átt­ina. Þarna verðum við bara að ganga í takt. Og hætta þessu rugli.“

Í þriðja lagi verði að tryggja að til staðar sé starfs­fólk í skól­un­um. Það verði að vilja vera þar og ekki þurfa af efna­hags­legum ástæðum að flýja eitt­hvað ann­að. Í fjórða lagi þurfi að tryggja að starfs­fólkið sé aflgjafi breyt­inga í sam­starfi við háskóla­stigið og stjórn­völd.

Stjórn­mála­menn nýta sér ástandið til að slá póli­tískar keilur

Ragnar Þór bendir á að allir þessir boltar séu farnir að rúlla en þeir rúlli allt of hægt. „Við erum stödd á þeim stað að við erum aðeins farin að vakna en það er ekk­ert sem segir að þó að við vöknum að við berum gæfa til að laga þetta.“

Hann segir að eftir að Íslend­ingar ákváðu á átt­unda ára­tugnum að mennta­kerfið væri fyrir alla þá hafi stjórn­málin ekki ráðið við að fylgja stefn­unni eft­ir. „Það var hug­mynda­fræði­legur ágrein­ingur sem síðan breiddi úr sér þannig að það voru komin átök milli stjórn­mála­stétt­ar­innar og nán­ast allra opin­berra stétt­ar­fé­laga í land­inu.

Núna erum við dálítið á sama stað. Það er ekki til sá popúlista­flokkur á Íslandi sem ekki hamrar á þessu. Þú getur nán­ast raðað stjórn­mála­mönnum í röð eftir því hvar þeir standa í þessum málum og margir nýta sér ástandið til að slá póli­tískar keil­ur. Stjórn­málin á Íslandi verða gjöra svo vel að gyrða sig í brók og standa undir því verk­efni að ekki bara setja leik­regl­urnar á Íslandi heldur gera fólki kleift að fylgja þeim og ná þeim árangri sem á að ná. Það verða bara allir að róa í sömu átt.“

Hann telur að ef allt þetta smellur þá getum við náð fram­fara­skrefum en „þá þurfum við að haga okkur öðru­vísi en við höfum verið að gera hingað til“.

Ertu bjart­sýnn á að það ger­ist?

„Já, en þá verðum við að gera kenn­ara að drif­kraft­inum í þeirra starfs­þróun því þeir vita nákvæm­lega hvar skó­inn kreppir – þeir vita hvað þarf. Það er ekki ein­hver sem situr hér á skrif­stof­unni hjá Kenn­ara­sam­band­inu, mennta­mála­ráðu­neyt­inu eða mennta­mála­stofnun sem er með putt­ann best á púls­in­um, það eru kenn­ar­arnir sjálfir og þeir þurfa að fá að leiða þetta.“

Ragnar Þór seg­ist vera bjart­sýnn því hann hafi séð mörg dæmi þess að þetta hafi gengið vel.

„Þetta getur gengið vel en við þurfum alltaf að skoða þetta heild­rænt. Því jafn­vel þótt við getum stór­aukið far­sæld allra í íslensku skóla­kerfi – eins og mörgum líður fyrstu árin í leik­skól­anum – þá þarf sam­fé­lagið auð­vitað að vera til­búið að halda áfram að taka á móti þeim og ekki vera aðgrein­andi í eðli sín­u,“ segir hann að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal