Í morgun bárust þær gleðifréttir að Íslenska þjóðfylkingin, stjórnmálaafl sem elur á útlendingaandúð með því að beita fyrir sig röngum staðhæfingum, hefur ekki nægilega mikinn hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni til að bjóða fram án þess að falsa undirskriftir á meðmælendalistunum sínum. Það þýðir að þessi hreyfing sem nærist á tilbúinni hræðslu og órökstuddu mannhatri nýtur ekki nægjanlegs stuðnings til að eiga erindi upp á dekk.
Gleðin var hins vegar skammvinn því að næsta verk var að lesa aðsenda grein eftir Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu. Þar fjallar hann um meintan kostnað vegna hælisleitenda.
Áður en farið er yfir efnisatriði greinar Ásmundar er rétt að minnast þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann ratar í umræðuna fyrir að setja fram glórulausar staðhæfingar um útlendinga. Í byrjun árs 2015, í kjölfar árása á skrifstofu Charlie Hebdo í Frakklandi, skrifaði Ásmundur stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann velti því fyrir sér hvort bakgrunnur þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi hafi verið kannaður með það að leiðarljósi að komast að því hvort þeir hefðu „farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“ Ásmundur viðurkenndi síðar að hann þekkti samfélag múslima „nánast ekki neitt“.
Nokkru síðar birtist leiðari á Kjarnanum þar sem lagt var út frá skilgreiningu á hugtakinu rasismi samkvæmt íslenskri orðabók. Þar var sýnt fram á að ummæli Ásmundar um bakgrunnsskoðun allra múslima á Íslandi, þar sem trú viðkomandi er aðgreiningaratriðið sem aðskilur „okkur“ frá „hinum“, væri menningarlegur rasismi. Um það væri enginn vafi.
Ásmundur brást illa við og ásakaði mig um að vera „rasista umræðunnar“, fyrir að vega að málfrelsi sínu. Þingmaðurinn heldur því að í málfrelsi felist að mega segja rasíska hluti, sem byggja ekki á neinu raunverulegu, án þess að vera kallaður rasisti eða vera gagnrýndur fyrir.
Ásmundur beitir málfrelsi sínu
Í grein sinni í dag beitir Ásmundur aftur málfrelsi sínu. Það gerir Ásmundur undir þeim hatti að hann sé að „taka umræðu“ um eitthvað sem enginn þori að ræða.
Samandregið skrifar þessi þingmaður stærsta stjórnmálaflokks Íslands að hælisleitendur hérlendis geti orðið allt að tvö þúsund í ár. Hann segir að sú fjölgun komi „í kjölfar ákvörðunar Alþingis um að taka hagsmuni einstaklinga fram yfir hagsmuni heildarinnar.“ Ásmundur skrifar síðan að fram hafi verið settar sviðsmyndir sem sýni að hælisleitendur hérlendis gætu orðið tug þúsundir á næstu árum og að kostnaðurinn á hverju ári gæti orðið 220 milljarðar króna. Hann segir að kostnaður við móttöku hælisleitenda stefni í sex milljarða króna „Þrengingar eru á húsnæðismarkaði. Heimafólk er sett á götuna á meðan margar íbúðir, gistiheimili og gamlir skólar eru setin hælisleitendum. Nábýlið við suma þeirra er svo eldfimt að það dugar ekki minna en sérsveit lögreglunnar ef stilla þarf til friðar.“
„Að hælisleitendur fái í mörgu betri framfærslu en eldri borgarar og öryrkjar?
Að hælisleitendur fá frítt húsnæði þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða.
Að heimamenn búi á sama tíma í tjöldum vegna húsnæðiseklu?
Að hælisleitendur fái ókeypis sálfræði-, læknis- og tannlæknaþjónustu þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða?
Er réttlátt að verja sex þúsund milljónum til móttöku hælisleitenda þegar við neitum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og í Vestmannaeyjum og Ísafirði um öruggari fæðingarþjónustu í heimabyggð sem samtals kostar um einn milljarð á ári?“
Umræðan hefur sannarlega verið tekin
Til að byrja með er rétt að benda á að það er fullt af fólki að taka nákvæmlega þessa umræðu sem Ásmundur er að kalla eftir. Það fólk er hins vegar að gera það með staðreyndum. En það er sjálfsagt að taka umræðuna aftur við Ásmund út frá þeim atriðum sem hann nefnir í grein sinni.
Í fyrsta lagi höfðu 883 manns sótt um hæli hérlendis á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt opinberum tölum Útlendingastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hefur fjöldi umsókna í haust verið minni en búist var við og allt stefnir í að fjöldinn sem sækir um hæli í ár verði ekkert neitt rosalega mikið meiri en hann var í fyrra. Þá sóttu 1.130 manns um hæli hérlendis.
Í öðru lagi er Ásmundur að segja að einhverjar sviðsmyndir, sem hann getur hvorki sagt hver vann né í hvaða samhengi þær voru settar fram, sýni að árlegur kostnaður við móttöku hælisleitenda geti orðið 220 milljarðar króna. Miðað við útreikninga Ásmundar um hvað hver hælisleitandi kostar þá myndi þetta þýða að 57.895 hælisleitendur kæmu hingað á ári. Hann er að halda því fram að fjöldinn fari úr því að vera undir 1.500 í 57.895. Og notar það til að hræða fólk til að kjósa sig.
Í þriðja lagi þá er erfitt að sjá hvað Íslendingar eiga að gera til að takmarka fjölda þeirra sem sækja hér um hæli. Við höfum þegar hraðað málsmeðferð umtalsvert og þeim hælisleitendum sem eru í þjónustu sveitarfélaga eða Útlendingastofnunar hefur fækkað úr 820 í byrjun desember 2016 í 581 í byrjun þessa mánaðar. Það þýðir að færri og færri eru hér í því sem Ásmundur vill meina að sé frítt lúxusuppihald á kostnað skattborgara sem ræni eldri borgara og fatlaða heilbrigðisþjónustu og komi í veg fyrir fæðingaþjónustu í heimabyggð.
Hvað vill Ásmundur eiginlega gera? Vill hann ganga úr Schengen? Vill hann kannski bara ganga úr EES, líkt og Schengen útganga myndi raunar þýða? Vill hann hætta flugsamgöngum hingað? Vill Ásmundur byggja hér múr?
Hann lét reyndar aðeins í það skína hvar hugur hans liggur í þessum efnum í umræðum um ný útlendingalög, sem voru samþykkt í fyrra í þverpólitískri samstöðu á Alþingi án atkvæðis Ásmundar. Í ræðu sinni við það tilefni sagði Ásmundur að æskilegt væri að hælisleitendur færu „aldrei út af þeim stöðum sem það kemur til með flutningstæki til landsins, skipi eða flugvél. Þá er einnig æskilegt að yfirvöld hefðu þann mannafla og réðu yfir þeim úrræðum að geta vísað fólki sem sýnir ekki fram á fullnægjandi heimildir til réttmæti þess að fá að dveljast hér í landi út þegar í stað.“ Ásmundur virðist sem sagt vilja setja upp einhverskonar hælisleitenda-fangabúðir á flugvöllum landsins og við hafnir þess.
Það er að minnsta kosti erfitt að sjá hvert hann er að fara með vilja sínum til að takmarka fjölda hælisleitenda. Það er nefnilega þannig að flest af þessu fólki sem kemur hingað í leit að hæli er sent aftur í burtu. Í fyrra fengu heilir 110 hæli á Íslandi. Það sem af er þessu ári hafa 95 manns fengið slíkt. Það þýðir að við synjun níu af hverjum tíu sem sækja hér um hæli. Og sendum þá annað.
Um meint lúxuslíf hælisleitenda
Í fjórða lagi er rétt að ræða aðeins um meintan lúxus hælisleitenda og umframaðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, framfærslu og fríu húsnæði. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða Krossins á Íslandi, skrifaði grein á Kjarnann fyrir rúmum mánuði síðan þar sem öll þessi staðleysa er hrakin. Þar benti Brynhildur á þjónustuaðilar, þrjú sveitarfélög og Útlendingastofnun, útvegi hælisleitendum búsetuúrræði. Athugið að þau ganga undir nafninu búsetuúrræði en ekki húsnæði, enda nær húsnæði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru. Búsetuúrræðin eru t.d. þannig að um 100 manns búa saman, um 30 herbergi á gangi sem 2-3 deila eða jafnvel heil fjölskylda saman í herbergi, sem er hvorki stórt né íburðarmikið. Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd fær stöðu sem flóttamaður, sem fæstir þeir sem hingað koma fá, þarf hann að yfirgefa þau búsetuúrræði sem honum hefur verið séð fyrir.
Tannlæknaþjónustan sem hælisleitendur á Íslandi fá felst í tveimur valkostum. Annaðhvort taka verkjalyf við tannpínu eða láta draga úr sér tennurnar. Í undantekningartilvikum er gert við tennur í börnum þjáist þau af tannpínu.
Í fimmta lagi kom fram í uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins að hrein útgjöld vegna réttinda einstaklinga hafi verið 2,2 milljarðar króna sem var 1.251 milljónum meira en áætlað var. Þar sagði: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“ Það er erfitt, miðað við þessar tölur, að sjá hvaðan Ásmundur hefur það að kostnaður við hælisleitendur verði sex milljarðar króna á þessu ári.
Í sjötta lagi er framfærslueyrir hælisleitanda átta þúsund krónur fyrir einstakling á viku en 23 þúsund krónur hjá fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær hver fullorðinn hælisleitandi 2.700 krónur í vasapening á viku og foreldrar fá viðbótar þúsundkall fyrir hvert barn. Þetta er framfærslan sem hælisleitendur fá frá íslenska ríkinu og Ásmundur hefur svona miklar áhyggjur af.
Í sjöunda lagi er rétt að benda á að upplýst hefur verið um fréttamál, þar sem sagt var frá því að nábýli við hælisleitendur væri „svo eldfimt að það dugar ekki minna en sérsveit lögreglunnar ef stilla þarf til friðar“ var svokölluð falsfrétt. Og fréttirnar sem sagðar voru af því hafa verið leiðréttar af þeim miðlum sem sögðu þær. Hælisleitendur tengdust þeim aðstæðum sem þar voru til umfjöllunar ekkert.
Ásmundur býr til óvin úr örvæntingarfullu fólki
Hvað varðar spurningar Ásmundar – en í þeim stillir hann hælisleitendum upp sem ástæðu þess að ýmsir hópar á Íslandi séu sviptir lífsgæðum – er best að svara þeim öllum saman.
Það er rétt að benda á að flokkur Ásmundar, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið í ríkisstjórn í þrjú af hverjum fjórum árum síðan að Ísland fékk sjálfstæði. Heildartekjur íslenska ríkisins á næsta ári eru áætlaðar 833 milljarðar króna. Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust er áætlaður afgangur 44 milljarðar króna. Ef það er raunverulegur vilji til þess að veita eldri borgurum og fötluðum betri heilbrigðisþjónustu, hækka framfærslu þeirra, til að finna húsnæði fyrir þá sem búa í tjöldum og til að bæta fæðingaþjónustu úti á landi og forganga fjármunum öðruvísi þá hefur flokkurinn verið í kjörstöðu til þess að einfaldlega gera það. Það eru til peningar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft öll tækifæri sem hann vill til að forganga öðruvísi í ríkisrekstrinum. En hann gerir það ekki.
Og Ásmundur ákveður að velja eina breytu, sem snýst um lágmarksþjónustu við fólk sem á ekkert og er í örvæntingarfullri leit að einhverskonar lífi, sem hefur kostað 2,2 milljarða króna á hálfu ári, sem ástæðuna. Hann býr til strámann úr þeim. Óvin.
Hann ákveður ekki að horfa til dæmis á þá fimm milljarða króna á ári sem fara í að niðurgreiða framleiðslu á lambakjöti. Hann minnist ekki á kostnað ríkis og borgar við rekstur og afborganir á Hörpu, sem hefur kostað tíu milljarða króna frá 2011 eða bara alla hina málaflokkanna sem ríkið ætlar að greiða 789 milljarða króna í á næsta ári. Nei, það er ein ástæða fyrir ömurleika gamla og fatlaða fólksins samkvæmt Ásmundi: hælisleitendur.
Hver ber ábyrgð á Ásmundi?
Það er sannarlega verið að taka umræðu um þessi mál hérlendis. Og það er verið að gera það með málflutningi sem byggir á staðreyndum á borð við þær að á sama tíma og flóttamönnum, hælisleitendum og öðrum innflytjendum fjölgar hérlendis dregst kostnaður við félagslega framfærslu saman. Glæpum fækkar. Kostnaður vegna atvinnuleysisbóta hefur lækkað um marga milljarða króna. Mýtan um velferðartúristana er því tómt rugl, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Það stöðvar hins vegar ekki menn eins og Ásmund í að bera fram hlaðborð af útlendingaandúð og mannvonsku til að reyna að skapa sér pólitíska stöðu. Þetta er versta tegund af stjórnmálum sem er stunduð. Vegna þess að hún byggir á upplognum staðhæfingum og hefur þann eina tilgang að nærast á hræðslu sem er sprottin af fullkominni vanþekkingu á raunveruleikanum. Annað hvort er Ásmundur raunverulega svona illa upplýstur eða hann veit betur. Það er erfitt að sjá hvort sé verra.
En Ásmundur og hans pólitík hefur legið fyrir lengi. Hann er maður sem vílar ekki fyrir sér að bera fram rasíska orðræðu og útlendingaandúð. Flokkur Ásmundar hefur gagnrýnt hann harðlega fyrir það í fortíðinni. Það gerði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólöf Nordal heitin, þáverandi varaformaður hans, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, öll í upphafi árs 2015 þegar hann lét ummæli sín um skoðun á múslimum falla. Áslaug Arna sagði raunar að það væri átakanlegt að vera í sama flokki og Ásmundur. Öll þessi viðbrögð voru til fyrirmyndar og þeim ber að hrósa.
En þrátt fyrir yfirlýsta andúð flokksins á þessum sterku skoðunum Ásmundar, sem ofar öðru skilgreina hann sem stjórnmálamann, þá hefur hann tvívegis hlotið nýtt brautargengi til að vera á meðal efstu manna á lista Sjálfstæðisflokksins í hans sterkasta kjördæmi.
Og nú er spurning hvernig forystufólk, og raunar allir Sjálfstæðismenn, bregðast við grein Ásmundar sem birt var í morgun. Ætla þeir að fordæma hana, í ljósi þess að hún byggir ekki á neinu og er einungis til þess fallin að reyna að stilla örvæntingarfullu fólki upp sem ástæðu fyrir skertum lífsgæðum hluta landsmanna? Ætla þeir að stiga fram og segja hátt og skýrt að málflutningur Ásmundar eigi ekkert skylt við stefnu stærsta og áhrifamesta stjórnmálaflokks landsins? Eða ætla þeir að láta sem ekkert sé, virða „málfrelsi“ Ásmundar til að boða útlendingaandúð með innihaldslausum hræðsluáróðri og kanna hvort að Ásmundur nái að krækja í rasista-atkvæðin fyrir þau?
Yfir til ykkar. Nú er tíminn til að draga skýra línu í sandinn.