Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, starfandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, skrifaði grein í Morgunblaðið í gær sem er fyrst og síðast ætlað að vera skot á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins og núverandi formann Viðreisnar. Það sem truflar Áslaugu Örnu, og raunar ansi marga Sjálfstæðismenn, er sú tilhneiging klofningsflokksins að slá um sig með yfirlýsingum um frjálslyndi, vilja til kerfisbreytinga og að standa með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum.
Í greininni segir Áslaug Arna: „Þeir sem tala fyrir hærri sköttum, auknum umsvifum hins opinbera, auknum eftirlitsiðnaði og auknu regluverki geta ekki skreytt sig með frjálslyndisfjöðrum. Jafnvel þótt þeir detti öðru hvoru inn á eitt og eitt mál sem kalla mætti frelsismál, þá fellur það í skuggann af stjórnlyndinu sem þeir boða á hverjum degi. Frasinn um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum er ekki jafn innihaldsríkur og hann er langur. Eru það almannahagsmunir að hækka skatta á tilteknar atvinnugreinar ef ske kynni að þeim gengi vel? Eru það almennt almannahagsmunir að hækka skatta og halda að ríkið geti varið fjármagninu betur en þeir sem á hverjum degi vinna hörðum höndum að því að skapa verðmæti? Eru það almannahagsmunir að auka skriffinnsku, fjölga reglugerðum og auka afskipti ríkisins af daglegu lífi bæði almennings og atvinnulífsins? Með einföldum hætti mætti skipta stjórnmálaviðhorfum upp í tvennt; annars vegar þá sem vilja háa skatta og aukin umsvif hins opinbera og hins vegar þá sem vilja lækka skatta og minnka umsvif hins opinbera.“
Það má alveg segja að gagnrýnin eigi rétt á sér að hluta. Viðreisn sat enda í ríkisstjórn á síðasta ári sem skilaði ekki miklu auknu frjálslyndi né nokkrum stórum kerfisbreytingum fyrir almenning. En það að benda á aðra og segja að þeir séu naktir sveipar ósjálfrátt Áslaugu Örnu og flokk hennar ekki frjálslyndisskikkju né setur á hana almannahagsmunahatt.
Skattbyrði hefur aukist
Það er til dæmis áhugavert að máta skilgreiningu Áslaugar Örnu, um að þeir séu frjálslyndir sem vilji lækka skatta, draga úr umsvifum hins opinbera, auka eftirlit og auka regluverk, við verk Sjálfstæðisflokksins.
Skoðum fyrst skattbyrði. Í skýrslu hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem birt var í ágúst 2017 kom fram að skattbyrði hefði aukist í öllum tekjuhópum hérlendis frá árinu 1998 til loka árs 2016. Aukningin væri langmest hjá tekjulægstu hópunum, munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
Það liggur því fyrir að skattbyrði hefur aukist á umræddu tímabili. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat í fjármálaráðuneytinu allt þetta tímabil ef undanskilin eru árin 2009 til 2013.
Tekjur ríkissjóðs aukast
Sjálfstæðisflokkurinn situr nú sem oftast áður í ríkisstjórn. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, er fjármálaráðherra. Í fjárlögum ársins 2018 kemur fram að tekjuskattur sem einstaklingar greiða verði 14,1 milljörðum krónum hærri í ár en hann var í fyrra. Þá aukast skattgreiðslur sem fyrirtækin í landinu greiða í tekjuskatt um 7,4 milljarða króna. Bankar landsins greiða alls kyns viðbótarskatta sem fjármálafyrirtæki í öðrum löndum greiða ekki og fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 20 í 22 prósent um síðustu áramót.
Ýmiss konar háar álögur eru lagðar á bifreiðareigendur, húsnæðiskaupendur eru látnir greiða svokallað stimpilgjald, tóbaksnotendur greiða milljarða króna í skatta fyrir fíkn sína og þeir sem drekka áfengi munu skila 18,6 milljörðum krónum í áfengisgjöldum til ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þá er auðvitað ótalið að allir 16-70 ára þurfa að greiða útvarpsgjald til RÚV og sjávarútvegsfyrirtæki landsins greiða sérstök veiðigjöld í ríkissjóðs. Samtals verða tekjur ríkissjóðs 840 milljarðar króna í ár, samkvæmt fjárlögum. Það er 42 prósent fleiri krónur sem innheimtar verða í ríkiskassann en skiluðu sér þangað 2013.
Í morgun var síðan haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins að verið sé að skoða skattahækkanir. Þær gætu falið í sér hækkun á auðlindagjaldi, enn frekari hækkun á fjármagnstekjuskatti og sérstakan hátekjuskatt þótt að niðurstaða um útfærslu liggi ekki alveg fyrir.
Það er því fátt í raunveruleikanum sem bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur sem hafi það að leiðarljósi að lækka skatta.
Umsvif hins opinbera aldrei meiri
Áslaug Arna sagði líka að þeir sem séu frjálsyndir í raun og veru vilji draga úr umsvifum hins opinbera.
Og líklegast verða útgjöldin í ár enn hærri en fjárlög gera ráð fyrir, í ljósi nýlegrar yfirlýsingar samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra um að ríkisstjórnin ætli sér að nota aukið fjármagn frá bönkum til að byggja upp vegakerfið, og að sú stórsókn hefjist strax í ár.
Hvað eru þessir viðbótarpeningar, sem þenja út báknið, að fara í? Jú, þeir eru meðal annars að fara í að greiða fyrir tugprósenta launahækkanir sem kjararáð hefur ákveðið að æðsta lagið í opinberu stjórnsýslunni eigi að fá. Formaður kjararáðs er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Þær fara í að greiða aðstoðarmönnum, verkefnisstjórum og ráðgjöfum sem ríkisstjórnin hefur raðað á jötuna laun. Gera má ráð fyrir að kostnaðurinn við þennan hóp, sem hefur aldrei verið fjölmennari, að viðbættum launum ráðherra, verði hátt í 600 milljónir króna í ár.
Hluti tekna ríkissjóðs fer í að hækka framlög til stjórnmálaflokka um 127 prósent. Það er hækkun upp á 362 milljónir króna. Heildarframlögin verða 648 milljónir króna. Þetta var ákveðið á milli jóla og nýárs eftir að hluti flokkanna á þingi höfðu einfaldlega sannmælts sín á milli um að þetta væri góð hugmynd.
Þá vantar auðvitað inn í að sú pólitíska ákvörðun að færa ríkisfyrirtæki undan kjararáði, sem leiddi til þess að stjórnir þeirra tóku einhliða ákvarðanir um að hækka laun forstjóra og stjórnarmanna gríðarlega þrátt fyrir tilmæli um annað, mun draga úr tekjum ríkissjóðs vegna reksturs þeirra fyrirtækja.
Auk þess á íslenska ríkið tvo banka sem metnir eru á hundruð milljarða króna, Isavia, Landsvirkjun, RARIK, Íslandspóst, Landsnet og RÚV, sem öll eru risastór fyrirtæki á samkeppnismarkaði.
Samandregið þá eru umsvif ríkisins hérlendis miklu meiri en í samanburðarlöndum. Og þau aukast ár frá ári frekar en hitt.
Varðstaða um land
Þá komum við að sérhagsmunum og almannahagsmunum. Nú er það rétt að Viðreisn gaf það mikið eftir af yfirlýstum kosningaloforðum sínum þegar sá flokkur myndaði ríkisstjórn í byrjun árs 2017 að hann datt næstum út af þingi í kosningunum í fyrrahaust. Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar, og verkum hennar, var lítið um niðurnegldar aðgerðir sem túlka mætti sem framsækni eða frjálslyndi, því miður.
En það er varla hægt að flokka þá sem hafa það sem meginstef í stjórnmálum sínum að viðhalda landbúnaðarkerfi sem kostar skattgreiðendur rúmlega 13 milljarða króna á ári í niðurgreiðslur, tryggir þeim skert vöruframboð og neyðir neytendur til að kaupa fákeppnisvöru með rómantískum sveitarökum, sem almannahagsmunaöfl. Það kerfi viðheldur án nokkurs vafa sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna. Og Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um það kerfi.
Og varðstaða um sjó
Áslaug Arna segir í grein sinni að það séu ekki almannahagsmunir að „hækka skatta og halda að ríkið geti varið fjármagninu betur en þeir sem á hverjum degi vinna hörðum höndum að því að skapa verðmæti?“
Nú er það svo að eitt helsta baráttumál Sjálfstæðisflokksins hvað varðar lægri álögur hins opinbera snýr að því að lækka veiðigjöld á útgerðir, sem skapa vissulega verðmæti en úr náttúruauðlindum. Um þessar mundir er látið eins og að sá atvinnuvegur sé að hruni kominn vegna þess að spá segir að tekjur hans hafi dregist saman úr 249 milljörðum króna árið 2016, sem var metár, í 240 milljarða króna í fyrra, aðallega vegna þess að krónan styrkist.
Þennan viðsnúning hafa eigendur þeirra meðal annars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjárfestingu í geiranum. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja voru 319 milljarðar króna í lok árs 2016 og höfðu þá lækkað um 175 milljarða króna frá hruni. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum, sem eru til að mynda ný skip, var 22 milljarðar króna árið 2016.
Þessi gífurlega bætti hagur sjávarútvegarins lendir að mestu hjá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þannig hefur til að mynda Samherji, samstæða félaga sem starfa á sviði sjávarútvegs hérlendis og erlendis, hagnast um 86 milljarða króna á sex árum. Hagnaður Samherja fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2016 var 17 milljarðar króna.
Þegar allt þetta er skoðað, eru það almannahagsmunir að lækka gjöld fyrir nýtingu náttúruauðlindar í þjóðareigu á sjávarútvegsfyrirtæki? Eða eru það sérhagsmunir lítils en mjög áhrifamikils hóps sem þegar er svívirðilega ríkur, en vill verða enn ríkari?
Án innistæðu
Í niðurlagi greinar Áslaugar Örnu segir að þegar skoðað er hverjir vilji háa skatta og aukin umsvif hins opinbera komi „í ljós hverjir það eru sem eru frjálslyndir í raun og hverjir segjast bara vera frjálslyndir. Og þá kemur líka í ljós hverjir hafa talað í innantómum frösum án nokkurrar innistæðu.“
Ef ofangreint er allt tekið saman er ekki annað hægt en að vera sammála henni.