Umræðan um þriðja orkupakkann heldur áfram. Síðustu daga hafa birst margskonar vísbendingar um hversu djúpt sú umræða ristir í íslensku samfélagi. Ályktunin sem hægt er að draga af þeim vísbendingum er að hún ristir ekki mjög djúpt. Líkast til er umræðan mest að eiga sér stað á milli háværra hópa á sitthvorum pólnum, þeirra sem eru mjög andsnúnir innleiðingu pakkans og þeirra sem leggja sig mjög fram við að koma á framfæri nytsemi og skaðleysi hans.
Á heimasíðu hópsins „Orkan Okkar“ er hægt að skrifa undir áskorun til þingmanna um að hafna þriðja Orkupakkanum. Síðast þegar af fréttist höfðu um ellefu þúsund manns skrifað undir þá áskorun, en hún var sett á laggirnar fyrir mánuði síðan, 7. apríl. Til samanburðar skrifuðu um 85 þúsund manns undir áskorun Kára Stefánssonar og fleiri um endurreisn heilbrigðiskerfisins, sem afhent var þáverandi forsætisráðherra árið 2016. Um 70 þúsund manns skrifuðu undir í áskorun árið 2013 sem snerist um að halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni og hét Hjartað í Vatnsmýrinni. Rúmlega 56 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til fyrrverandi forseta Íslands um að setja Icesave-samning númer tvö í þjóðaratkvæði árið 2010. Um 54 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka árið 2014. Tæplega 52 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til þáverandi forseta að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu þá fyrirliggjandi makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra og hverjum þeim lögum sem þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs á meðan ekki væri skýrt auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Í netkönnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið, og birt var í gær, kom í ljós að langstærsti hópur þeirra sem svöruðu sögðust annað hvort ekki hafa skoðun á málinu eða vera hlutlaus gagnvart því, eða 49,9 prósent. Alls sögðust 30,5 prósent vera andvíg samþykkt orkupakkans en 18,5 prósent hlynnt henni sem þýðir að þeir sem hafa ekki skoðun á málinu eða eru hlynntir innleiðingunni eru tæplega 70 prósent allra landsmanna.
Auk þess sýndi þessi könnun að því meira sem fólk kynnti sér þriðja orkupakkann, því líklegra var það að styðja innleiðingu hans.
Mál sem hefur fengið mikið pláss
Málið hefur verið kyrfilega á dagskrá síðastliðinn rúman mánuð, eða frá því að vetrarfundur Miðflokksins, sem leiðir pólitíska andstöðu gegn málinu, var haldinn þann 30. mars síðastliðinn og „Orkan okkar“ hóf opinbera baráttu sína gegn innleiðingunni af fullum krafti. Frá þeim tíma hafa birst vel á fjórða hundrað efni í íslenskum fjölmiðlum þar sem hann ber á góma, samkvæmt fjölmiðlavakt Creditinfo. Það er oftar en síðustu 15 mánuðina á undan samanlagt. Málið hefur því fengið feikilegt pláss.
Tveir stjórnmálaflokkar, sem fengu samtals 17,8 prósent fylgi í síðustu þingkosningum, eru á móti innleiðingu þriðja orkupakkans. Það eru áðurnefndur Miðflokkur og Flokkur fólksins. Báðir hafa sett málið í samhengi varðstöðu gegn afsali á fullveldi Íslendinga og yfirráðum yfir orkuauðlindum.
Mæling á árangur þessa málflutnings fékkst á síðustu dögum. Í könnun Gallup, sem birt var um helgina en framkvæmd yfir nánast allan apríl, sögðust 12,4 prósent ætla að kjósa þessa tvo flokka, sem er nánast sama fylgi og þeir mældust með mánuði áður. Alls hafa flokkarnir tveir tapað þriðjungi kjörfylgisins samkvæmt Gallup.
Í könnun MMR, sem birt var í gær og framkvæmd á nokkurra daga tímabili um síðastliðin mánaðamót, mælist sameiginlegt fylgi orkupakkaandstöðuflokkanna á þingi aðeins meira, eða 14,3 prósent. Þeir standa nánast í stað milli MMR-kannana og mælast þar einnig töluvert frá kjörfylgi.
Orkupakkamálið er því ekki að draga nýja kjósendur að þessum flokkum heldur standa þeir pikkfastir í stað með lægra sameiginlegt fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum.
Yfir 80 prósent fylgi og yfir 80 prósent þingmanna
Alls eru sex flokkar hlynntir innleiðingu þriðja orkupakkans. Það eru stjórnarflokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur auk þriggja andstöðuflokka: Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Samanlagt fylgi við þessa sex flokka mælist 83,2 prósent í könnun Gallup en 80,1 prósent í könnun MMR.
Mikið hefur borið á ætlaðri togstreitu innan allra stjórnarflokkanna þriggja vegna málsins. Enginn þingmaður úr röðum þeirra hefur hins vegar opinberlega sagt að hann muni kjósa gegn innleiðingunni, þótt Ásmundur Friðriksson sé sagður hafa tilkynnt einhverju samflokksfólki innan Sjálfstæðisflokks að hann muni kjósa gegn henni. Það þýðir að þingmenn sem eru staðfest á móti eru 11 eða 12 og því líklegt að rúmlega 80 prósent þingheims sé á bak við innleiðinguna.
Alþýðusamband Íslands skilaði hins vegar greinargerð það sem það sagði það vera „feigðarflan“ að samþykkja orkupakkann. Í umsögn sambandsins kemur einnig fram að það telji raforku vera grunnþjónusta sem ætti ekki að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða væri að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að „við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi.“ Andstaða Alþýðusambandsins er því aðallega við orkupakka eitt, sem gerði raforku að markaðsvöru, og við ákvörðun um skiptingu á arði af nýtingu auðlinda, sem liggur hjá íslenskum stjórnmálamönnum og tengist þriðja orkupakkanum ekkert.
Átök á röngum forsendum
Þriðji orkupakkinn hefur engin neikvæð áhrif hérlendis og með innleiðingu hans er ekkert vald yfir auðlindum framselt. Íslenskir stjórnmálamenn ráða áfram sem áður yfir því hvort að hingað verði lagður sæstrengur og fyrirkomulag á eignarhaldi stærstu orkuframleiðslufyrirtækja er áfram í þeirra höndum. Þróun raforkuverðs verður áfram á hendi orkufyrirtækjanna sjálfra, sem ríki og sveitarfélög eiga að mestu með húð og hári. Eina orkufyrirtækið sem er í einkaeigu er HS Orka, og það er nú að komast í ráðandi eigu íslenskra lífeyrissjóða, sem eru auðvitað í eigu almennings í landinu.
Ísland hefur þegar innleitt tvo orkupakka og hefur skilgreint orku sem markaðsvöru frá því að ný raforkulög tóku gildi eftir innleiðingu þess fyrri, árið 2003. Á meðal þess sem mælir með innleiðingu þriðja orkupakkans er áframhaldandi þátttaka okkar í EES-samstarfinu – mikilvægasta viðskiptasamstarfi Íslandssögunnar –, aukin neytendavernd, aukið raforkuöryggi fyrir almenning, aukið gagnsæi á raforkumarkaði og til að tryggja tækifæri gjaldeyrisskapandi tækni- og iðnaðarfyrirtækja á Íslandi til að selja vörur sínar á innri markaði Evrópu.
Það sem mælir á móti því er ekkert, ef viðurkennd er sú staðreynd að Ísland er ekki tengt evrópska raforkumarkaðnum og verður það ekki nema að íslenskir stjórnmálamenn taki ákvörðun um að leggja sæstreng. Ef menn bera fyrir sig valdaframsal sem rök þá ættu sömu rök að gilda fyrir mesta valdaframsal sem Ísland hefur samþykkt, við gerð EES-samningsins sem tók gildi árið 1994. Og umræðan þar af leiðandi að snúast um hvort Ísland eigi að vera aðili að honum eða ekki.
Þar eru mun meiri líkur á því að Ísland þurfi að takast á við raunveruleg álitamál um hvert við viljum fara í þróun á okkar orkumarkaði. Sá pakki er þó ekki einu sinni afgreiddur innan Evrópusambandsins, heldur enn í umsagnar- og umræðuferli þar. Við vitum því ekkert hvað hann mun þýða fyrir Ísland fyrr en hann er lagður fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Þá getum við beitt okkar hagsmunagæslu þar.
Almenningur veit best
Á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum var skrifað að við eigum að takast á um orkumál, hvernig eigi að reka opinber orkufyrirtæki, hvort að það eigi að vera á arðsemisdrifnum forsendum til að auka tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga eða hvort að nýta eigi þau í samfélagsleg verkefni, eins og að byggja upp atvinnu á kaldari svæðum landsins eða niðurgreiða raforkuverð til heimila og fyrirtækja.
Við eigum að klára að uppfæra úr sér gengna stjórnarskrá sem gagnast okkur ekki í nútímanum, með því að setja skýr ákvæði um hvernig valdaframsali við gerð alþjóðasamninga er háttað og með skýru ákvæðu um þjóðareign á auðlindum landsins. Helst ætti að uppfæra hana nær alla svo hún sé sanngjörn og réttlát, en það er önnur og breiðari umræða.
Áfram á að takast á um hvaða svæði eiga að vera ósnortin og hvaða svæði eigi að virkja. Það er eðlilegt að rætt sé um mikil uppkaup erlendra og innlendra fjárfesta á landi þar sem augljóslega er verið að horfa til smávirkjanagerðar til að framleiða raforku í ágóðaskyni.
Hættum að rífast um strámenn og reynum að eiga vitræna umræðu um það sem raunverulega máli skiptir. Þá gæti jafnvel enn komið eitthvað gott út úr þessari leiksýningu um þriðja orkupakkann.
Almenningur sér í gegnum upphrópanir og staðleysur í þessu máli. Mælingar, sem raktar voru hér að ofan, sýna það.
Það er gott að vita að svo sé.