Júní 2010. Landsvirkjun og þáverandi eigendur álversins í Straumsvík gera með sér nýjan orkusölusamning. Hann gildir til ársins 2036 og um er að ræða fyrsta samninginn sem Landsvirkjun gerði við álframleiðanda hérlendis þar sem að tenging við álverð var afnumin. Með því færðist markaðsáhættan af þróun á álmarkaði frá seljandanum, Landsvirkjun sem er í eigu íslenskrar þjóðar, og yfir til kaupandans, alþjóðlegs stórfyrirtækis. Um er að ræða eitt mesta framfaraskref í orkusölusögu íslenskrar þjóðar. Í því fólst að nýting auðlindar sem við fórnum náttúru til að beisla orku úr skilar okkur sem þjóð meiri ábata, en ábati kaupandans, sem enn er mikill, dróst saman.
Ágúst 2015. Starfsmenn álversins í Straumsvík fá sent bréf frá forstjóra fyrirtækisins þar sem rekstrarerfiðleikum er lýst og afstaða þess í þá yfirstandandi kjaraviðræðum við starfsmenn sett í samhengi við þá stöðu. Í þeim viðræðum vildi ISAL, sem rekur álver Rio Tinto hérlendis, breyta hluta af störfum starfsmanna úr föstum störfum í verktöku og borið fyrir sig samkeppnissjónarmið. Í bréfinu stóð orðrétt: „Staða á mörkuðum er slæm og hefur versnað verulega frá áramótum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið og það á einnig við um markaðsuppbætur, sem eru hluti af verðinu sem við fáum fyrir álið. Eftirspurn er langt undir áætlunum. Samanlögð áhrif þessa á sölutekjur ISAL eru harkaleg. Og þar sem orkuverð ISAL er ekki lengur tengt við álverð þolum við lágt álverð miklu verr en áður.“
Samninganefnd starfsmanna aflýsti verkfallinu og bar fyrir sig að ekki væri raunverulegur samningsvilji fyrir hendi hjá Rio Tinto. Í yfirlýsingu frá verkalýðsfélaginu Hlíf sagði að ítrekað hefðu komið fram „hótanir þess efnis að álverinu verði lokað og sökinni þá skellt á starfsfólkið fyrir að sækja lögbundinn rétt sinn og kjarabætur[...]Það er því starfsfólkinu þungbært að upplifa sig sem leiksoppa í hagsmunatafli Rio Tinto gegn launafólki víðsvegar um heiminn.“
Apríl 2016. Nýr kjarasamningur undirritaður. Álverinu var ekki lokað.
Júlí 2019. Slökkt er á einum af þremur kerskálum álversins vegna þess að ljósbogi myndaðist.
Janúar 2020. Greint er frá því að álverið muni draga úr framleiðslu sinni um 15 prósent á árinu vegna erfiðrar stöðu á álmörkuðum erlendis. Þar hafa kínversk fyrirtæki tekið til sín sífellt stærri hlutdeild af markaðnum og álverð lækkaði um alls tíu prósent í fyrra.
12. febrúar 2020. Á forsíðu Morgunblaðsins birtist frétt um að forsvarsmenn Rio Tinto hafi fundað með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þess að þeir meti sem svo að raforkusamningurinn frá 2010 „þrengi svo að starfseminni að ekki verði við unað.“ Skömmu síðar birtist tilkynning á vef Rio Tinto á Íslandi að til greina komi að loka álverinu. Fréttir berast svo af því að móðurfélagið Rio Tinto í Sviss standi í vegi fyrir því að nýr kjarasamningur, sem búið sé að gera í sátt milli stjórnenda hérlendis og fulltrúa starfsmanna, verði undirritaður.
Þekktar leiðir til að færa hagnað
Raforkusamningurinn milli Landsvirkjunar og Rio Tinto er með ýmis konar ábyrgðum. Það þýðir að móðurfélagið, Rio Tinto, þyrfti alltaf að greiða fyrir rafmagnið út samningstímann jafnvel þótt álverinu yrði lokað. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins fyrir nokkrum árum kom fram að áætlað sé að raforkukaup álversins á samningstímanum gætu numið allt að 300 milljörðum króna. Taprekstur þess þyrfti því að vera meira en sem nemur þeirri upphæð svo það myndi borga sig að loka álverinu. Vandséð er að svo verði.
Þrátt fyrir að tap hafi verið á eiginlegum rekstri álversins í Straumsvík mörg ár í röð þá verður að hafa í huga að á hverju ári greiðir rekstrarfélagið á Íslandi móðurfélagi sínu í Sviss erlendis háar greiðslur fyrir tæknilega þekkingu og þjónustu, sameiginlega stýringu og stjórnun, vegna ábyrgðargjalds vegna tiltekinna skuldbindinga, vegna kaupa á súráli (aðalhráefnið sem álið er unnið úr) og kaup á rafskautum. Árlega nema þessar greiðslur milljörðum króna.
Þetta er í takti við það sem önnur alþjóðleg stórfyrirtæki í orkufrekum iðnaði, sem eru með starfsemi hérlendis, gera ítrekað. Þau eiga í miklum innbyrðis viðskiptum við móðurfélagið eða tengd félög og geta þar með bókfært greiðslur til móðurfélaganna sem kostnað. Slík fræði snúast um að lágmarka sýndan hagnað og þar með er hægt að komast hjá því að greiða skatta af starfseminni á Íslandi.
Þessi skattasniðganga er kölluð þunn eiginfjármögnun. Og er krabbamein í íslensku samfélagi sem færir réttmætar skattgreiðslur sem nýtast ættu í uppbyggingu íslensks samfélags og fyrir íbúana alla, í vasa hluthafa alþjóðlegra stórfyrirtækja.
Norðurál ræður sér staðgöngutalsmenn
Árið er 1997. Norðurál gerir samning við Landsvirkjun um orkukaup. Innihaldið er trúnaðarmál en nokkuð almenn vitneskja var um það á meðal þeirra sem kynntu sér málið að þar væri um að ræða lægstu greiðslur stórnotanda fyrir rafmagn til Landsvirkjunar. Sá samningur átti að renna út árið 2019.
Árið er 2015. Viðræður standa yfir um nýjan samning milli Norðuráls og Landsvirkjunar. Þegar líður á það ár fer að færast veruleg harka í þær viðræður. Norðurál fór að tefla fram íslenskum markaðsráðgjafa fyrir sig. Sá setti á fót vettvang á borð við „Auðlindirnar okkar“ á Facebook, og vefmiðilinn Veggurinn.is og hélt þar úti áróðri sem féll að markmiðum Norðuráls. Hann skrifar auk þess pistla á vef mbl.is, aðallega með hagsmunum stóriðju, en sjaldnast með þeim formerkjum. Í skrifum markaðsráðgjafans og annarra á þessum síðum var talað fyrir lægra orkuverði til stóriðju, lengri orkusölusamningum og gegn lagningu sæstrengs til Bretlands.
Hann var líka einn stofnenda vettvangsins „Orkan okkar“ sem barðist í fyrra, með nokkuð góðum árangri um tíma, gegn gegn innleiðingu þriðja orkupakkans.
Í desember 2015 greip Landsvirkjun til þess óvenjulega ráðs að halda blaðamannafund og tala opinskátt um það að stjórnendur ríkisfyrirtækisins teldu að eigendur Norðuráls, hrávörurisinn Glencore, væri á bak við þau meðul sem verið væri að beita í umræðum um nýjan orkusölusamning. Tilgangurinn væri að halda raforkuverði lágu. Forstjóri Landsvirkjunar benti þar á að raforkusamningar Landsvirkjunar væru á meðal stærstu samninga sem gerðir væru í íslensku viðskiptalífi og virði þeirra á tíu ára tímabili væru samanlagt um 500 til 600 milljarðar króna. Um gríðarlega hagsmuni íslenskrar þjóðar væri því að ræða.
Maí 2016. Landsvirkjun og Norðurál semja um nýjan raforkusölusamning sem er ekki lengur tengdur þróun álverðs. Áhættan af því færðist yfir á kaupandann af íslenskum skattgreiðendum. Og verðið hækkaði, íslensku samfélagi til hagsbóta. Endurnýjaður samningur tók gildi í október í fyrra og gildir til loka árs 2023.
Gerðardómur sem enginn var sáttur með
Árið er 1975. Norska fyrirtækið Elkem gerir samning um raforkukaup á Íslandi svo það geti byggt hér járnblendiverksmiðju. Innifalið í verðinu sem samið er um er kostnaður við flutning. Hann lendir á seljandanum Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu skattgreiðenda. Elkem er fjórði stærsti kaupandi af orku á Íslandi á eftir álverunum þremur. Samningurinn átti að gilda í 40 ár frá fyrsta afhendingardegi rafmagns, sem var í mars 1979. Hann rann því út í fyrra. Elkem hafði þá hagnast á honum umfram öll eðlileg viðskiptaviðmið í fjóra áratugi.
Samningaviðræður um nýjan samning hófust árið 2015 en skiluðu ekki niðurstöðu. Ákveðið var að virkja ákvæði sem gerði Elkem kleift að framlengja samninginn um tíu ár með því að skjóta málinu til gerðardóms.
Nú lætur verkalýðsforingi á Akranesi eins og að Landsvirkjun stjórnist af græðgi líkt og um sé að ræða fyrirtæki í eigu einkaaðila sem hefur það eitt að markmiði að fóðra vasa hluthafa sinna, vegna samninga þess við stóðiðju á áhrifasvæði hans.
Þannig vill þó til að Landsvirkjun er í eigu allra landsmanna og arði fyrirtækisins er skilað til þeirra í gegnum ríkissjóð. „Græðgi“ Landsvirkjunar er markmið um að skila fleiri krónum til íslensks almennings fyrir nýtingu náttúruauðlinda í hans eigu. Á árinu 2018 hagnaðist Landsvirkjun um 14 milljarða króna og arðgreiðslur fyrirtækisins hafa aldrei verið hærri en í fyrra. Í nánustu framtíð áætlar það að greiða 10 til 20 milljarða króna á ári í arð til eiganda síns. Til stendur að þessar arðgreiðslur myndi grunn fyrir Þjóðarsjóð sem í á að vera um 500 milljarðar króna eftir tæpa tvo áratugi. Ef ekki næst saman um Þjóðarsjóð þá fara þær einfaldlega í ríkissjóð.
Þessar arðgreiðslur vill verkalýðsforinginn skerða vegna þess að alþjóðleg stórfyrirtæki sem stjórnast sannarlega einvörðungu á græðgi og hafa það eitt að markmiði að fóðra vasa hluthafa sinna, hóta að loka verksmiðjum sem eru bundin í raforkusamningum til margra ára.
Vegferð Samtaka iðnaðarins
Á sömu nótum tala Samtök iðnaðarins. Undanfarið hafa þessi heildarsamtök iðnaðar á Íslandi, með yfir 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda innanborðs, tekið upp stefnu sem virðist mótuð af hagsmunum nokkurra alþjóðlegra stórfyrirtækja sem kaupa orku á Íslandi til að framleiða ál.
Þar er talað fyrir því að raforkuframleiðandi í eigu íslenskra skattgreiðenda tryggi þessum aðilum lægra verð, og þar af leiðandi dragi úr arðsemi sinni, og skili færri krónum í ríkissjóð. Krónum sem meðal annars ættu að nýtast til að ráðast í innviðafjárfestingar sem skapa atvinnu fyrir arkitekta, verkfræðinga, iðnaðarmenn og vinnuvélaeigendur, sem allir eiga aðild að Samtökum iðnaðarins.
Þeim krónum er líka hægt að beita í þágu hugverkageirans. Í nýsköpun, til að styðja við sprotastarfsemi eða til að draga úr álögum á öll fyrirtæki á Íslandi. Hefur Tannsmiðafélag Íslands hag af því að íslenskir skattgreiðendur afhendi alþjóðlegum stórfyrirtækjum græna orku undir markaðsvirði? Hefur Félag snyrtifræðinga slíkan hag? Samtök félaga í grænni tækni? Eða öll hin aðildarfélög Samtaka iðnaðarins?
Svarið er nei. Það eru heildarhagsmunir íslenskra stjórnvalda, íslensks atvinnulífs, íslenskra heimila, íslenskrar þjóðar að sem hæst verð fáist fyrir þá orku sem seld er til þeirra örfáu stóriðjufyrirtækja sem hér starfa og kaupa 80 prósent af allri orku sem við framleiðum.
Það að tefla raforkureikningi heimilanna, bakaranum eða gróðurhúsaeigandanum fyrir sig í orðræðu fyrir því að lækka allt raforkuverð er einfaldlega ekkert annað en ómerkilegur hræðsluáróður til að reyna að auka arðsemi hluthafa Rio Tinto, Alcoa, Glencore og Elkem. Þar lendir ávinningurinn.
Það var ekki miðað byssu á neinn
Samningar sem Landsvirkjun gerir við raforkukaupendur eru ekki gerðir með því að miða byssu á höfuð viðsemjenda og neyða þá til að skrifa undir. Þeir eru gerðir eftir að alþjóðleg stórfyrirtæki, með veltu sem er samanlagt margföld velta íslenska þjóðarbúsins árlega, taka kalda og yfirvegaða ákvörðun um að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir sig að gera nýjan raforkusamning við Landsvirkjun um kaup á raforku.
Það er þekkt aðferð stórfyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi að beita fyrir sig hótunum um lokanir. Að stilla upp málum þannig að ef ekki verði látið undan kröfum þeirra að hlutdeild þeirra í hagnaði verði meiri þá muni það bitna á hundruð starfsmanna. Þau hika ekki við að blanda sér í stjórnmál þeirra landa þar sem þeir starfa til að tryggja hagsmuni sína og virðast tilbúin að borga undir allskyns staðgengils-hópa sem vinna að því að styrkja stöðu þeirra, til dæmis með því að útiloka aðra stórkaupendur að orku. Lykilatriðið er að ásýnd andstöðunnar sé manneskjulegri og heimóttarlegri en raunverulegt markmið hennar, sem er ágóði alþjóðlegra stórfyrirtækja.
Þarna eru engar tilfinningar að baki, bara ískaldir hagsmunir, og það er hægt að skilja þessa aðferðarfræði út frá þeim sjónarhóli. En það eru aldrei, aldrei, aldrei hagsmunir íslenskrar þjóðar að gefa eftir gagnvart þeim.
Áratugum saman seldum við orku til stórnotenda langt undir eðlilegu verði. Þeir mokgræddu. Síðastliðinn áratug hefur verið endursamið við hluta þeirra og Ísland tekið sér stærri hlut í ágóða virðiskeðjunnar ásamt því að áhætta af sveiflum á markaði var flutt yfir á kaupandann, líkt og eðlilegt er.
Ástæða þess að álverin, og talsmenn þeirra, tala nú um óveðurský er ekki vegna þess að orkusala hérlendis sé svo dýr, heldur vegna þess að markaðir fyrir vöru þeirra hafa verið að gefa eftir. Þá vilja þeir að íslenskur almenningur taki á sig höggið, ekki hluthafar eigenda álveranna. Þar skiptir mestu máli að Kínverjar hafa stóraukið álframleiðslu á undanförnum árum og eru nú með um helming markaðarins. Varla er einhver dómsdagsspámannanna, sem vilja nota orku til að niðurgreiða verksmiðjustörf, í alvöru á þeirri skoðun að Ísland eigi að fara að keppa við Kína þegar kemur að verði á raforku eða launum starfsfólks? Ef svo er þá erum við að breyta eðli íslensks samfélags. Það má líka benda á að hagkvæmara yrði fyrir Landsvirkjun að taka alla starfsmenn allra stóriðjufyrirtækjanna sem hóta að hætta starfsemi hér á launaskrá og veita þeim ríflega launahækkun fyrir það að gera ekkert, frekar en að láta undan þrýstingi og gefa eftir arðsemi af þegar undirrituðum orkusölusamningum.
Nýlenda eða sjálfstæð þjóð?
Ef sú leið yrði farin að gefa eftir tekjur íslensks samfélags af nýtingu orkuauðlindarinnar til að skapa stóriðjustörf þá erum við nýlenda alþjóðlegra auðhringja, ekki sjálfstæð þjóð. Þau fá þá leyfi til að arðræna okkur. Hirða hagnaðinn af nýtingu auðlindar okkar, ekki ósvipað og við höfum heimilað nokkrum fjölskyldum að hirða obba hans vegna nýtingar á sjávarútvegsauðlindinni. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra að hámarka þann arð sem við fáum af auðlindanýtingu með langtímahagsmuni þjóðar að leiðarljósi.
Ágætur maður spurði mig nýverið hver ætti auðlindir? Hann svaraði eigin spurningu og sagði að það væru þeir sem stinga hagnaðinum af nýtingu þeirra í vasann í lok hvers dags. Ef það er Landsvirkjun þá er íslenska þjóðin eigandi þeirra. Ef það eru Rio Tinto, Alcoa, Glencore, Elkem eða hinir stórkaupendurnir þá eru eigendur íslenskra orkuauðlinda hluthafar þeirra stórfyrirtækja.
Það blasir við hvort er eftirsóknarverðara.