Opinbert fjármagn er nú notað víða til að reyna að fleyta ýmsum geirum og einstaklingum í gegnum þær aðstæður sem eru tilkomnar vegna heimsfaraldurs. Tekist er á um hvort nóg sé að gert og hvort opinberir fjármunirnir, sem eru í eigu okkar allra, séu að nýtast á sem bestan hátt.
Minna er rætt um þann skaða sem rangar aðgerðir geta valdið vel reknum fyrirtækjum, eða samkeppnisheilbrigði, í þeim hluta atvinnulífsins sem þeim er beint til. Ein birtingarmynd þessa er í ætlaðri 15 milljarða króna ríkisábyrgð sem til stendur að veita Icelandair Group, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Þótt flestir tengi Icelandair Group við millilandaflug þá stundar félagið margháttaða ferðaþjónustustarfsemi, og rekur meðal annars ferðaskrifstofur. Samkeppnisaðilar þeirra hafa bent á, í umsögnum um ríkisábyrgðarfrumvarpið sem skilað hefur verið inn til fjárlaganefndar, að það sé með öllu óeðlilegt að risanum á markaði sé hjálpað umfram alla aðra með því að ríkisábyrgðin gildi fyrir alla samstæðuna, ekki einungis flugreksturinn. Sérstaklega þegar haft er í huga að aðrar kostnaðarsamar aðgerðir sem gripið hafi verið til, eins og hlutabótaleiðin, hafa líka verið nýttar af sama markaðsráðandi aðila.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um þessa stöðu fengust þau svör hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að hugað hefði verið sérstaklega að því að ríkisábyrgð á láni til Icelandair Group samrýmdist reglum um ríkisaðstoð, enda ættu ráðstafanir hins opinbera ekki að fela í sér ótilhlýðilega röskun á samkeppni.
Lengri saga en COVID-19
Í lok árs 2016 hófst sú vegferð að reyna að koma á almennu styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Í því átti að felast endurgreiðsla á hluta af framleiðslukostnaði á fréttum og fréttatengdu efni. Ástæðan var sú að rekstrarumhverfi þeirra var að molna, og samhliða geta þeirra til að sinna sínu mikilvæga lýðræðislega hlutverki. Það hefur orðið að meginreglu í íslensku fjölmiðlaumhverfi á undanförnum árum að fjársterkir aðilar, oft með mikla hagsmuni af því hvernig þjóðfélagsumræðan þróast, borgi brúsann.
Síðan þá hafa verið gerðar skýrslur, frumvarp lagt fram og málið á endanum svæft. Uppleggið í kerfinu sem átti að koma á laggirnar var að þeir fjölmiðlar sem uppfylltu sett skilyrði myndu fá 25 prósent af kostnaði við rekstur fréttaritstjórna endurgreiddan, svo lengi sem að skýr og sanngjörn skilyrði yrðu uppfyllt.
Þá skyldu styrkveitingar styðja við sterkar ritstjórnir með slagkraft til metnaðarfullra verkefna en ekki síður við fjölbreytta flóru smærri miðla. „Í því sambandi skuli bæði hafa í huga miðla sem ná til landsins alls og svæðisbundna miðla. Skilyrðin verði þannig til þess fallin að styrkja þá miðla sem beinlínis efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu.“
Það er mikilvægt að rifja þetta upp til að skapa það samhengi að styrkjakerfi fyrir fjölmiðla er ekki hugmynd sem fyrst vaknaði vegna heimsfaraldursins. Það er verkefni sem unnið hefur verið að árum saman innan stjórnsýslunnar. Gamaldags pólitísk hrossakaup og hagsmunapólitík gerðu það hins vegar að verkum að ákveðið var að breyta þessari faglegu vinnu í einsskiptisaðgerð vegna COVID-19 fyrr á þessu ári.
Réttmætar væntingar um sanngirni
Sú einskiptisaðgerð átti þó, samkvæmt yfirlýsingum, að byggja á þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með í frumvarpinu, en mennta- og menningarmálaráðherra fékk líka að mestu frjálsar hendur við að semja reglugerð um úthlutun á 400 milljónum króna til einkarekinna fjölmiðla.
Réttmætar væntingar voru til þess, vegna opinberra yfirlýsinga ráðherrans, að styrkjunum yrði að minnsta kosti að sama magni beint að smærri fyrirtækjum, til að tryggja fjölbreytta fjölmiðlaflóru og sköpun fleiri starfa í geiranum, í stað þess að meginþorri þeirra færi í að greiða niður mikinn taprekstur stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins. Fyrirtækja sem eiga það öll sameiginlegt að hafa ekki aðlagað ósjálfbæran rekstur sinn að veruleikanum.
Svo að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar yrði virt og að ótilhlýðileg röskun myndi ekki eiga sér stað á samkeppni.
Gegn umsögn eftirlitsaðila
Væntingarnar hvíldu líka á því að Samkeppniseftirlitið hafði lagt fram umsögn um styrkjakerfi fyrir fjölmiðla fyrr á þessu ári þar sem sagði að það teldi brýnt að stuðningur við fjölmiðla af almannafé hefði það að meginmarkmiði að styðja við fjölræði og fjölbreytni. „Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“
Samkeppniseftirlitið taldi að öll skilyrði fyrir stuðningi sem miðuðu að því að opinber stuðningur yrði fyrst og fremst stærri og öflugri fjölmiðlum til gagns, á kostnað smærri fjölmiðla, væri óheppileg.
Fjölmiðlanefnd gerði sambærilegar athugasemdir í umsögn sinni.
Tvöfaldir ríkisstyrkir til stærstu fjölmiðlanna
Þær væntingar urðu að engu þegar reglugerð ráðherrans var birt 8. júlí síðastliðinn. Hún var hvorki einföld né almenn heldur gaf þeim sem um véluðu nokkuð frjálsar hendur um að stýra fjármunum úr ríkissjóði til þeirra fjölmiðla sem væru sitjandi stjórnvöldum þóknanlegastir, nú rúmu ári fyrir þingkosningar. Þar var sú upphæð sem stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins gátu sótt í styrkjakerfið líka tvöfölduð, úr 50 í 100 milljónir króna.
Þann 9. júlí birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynningu um að hún hefði samþykkt ráðstöfun um sérstakan stuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi vegna COVID-19 faraldursins. Þar sagði meðal annars: „Íslenskir fjölmiðlar hafa haldið óbreyttum rekstri síðustu mánuði til að tryggja stöðugt upplýsingaflæði til almennings. Þetta hefur takmarkað möguleika þeirra til að nýta sér almennari stuðningsaðgerðir stjórnvalda eins og t.d. hlutabótaleiðina.“
Ljóst er að þessi rökstuðningur ESA fyrir ákvörðun sinni heldur ekki. Fjölmörg fjölmiðlafyrirtæki nýttu sér hlutabótaleiðina í vor. Á meðal þeirra eru bæði Árvakur og Sýn, þau tvö fjölmiðlafyrirtæki sem fengu samanlagt nær helming allra úthlutaðra styrkja til einkarekinna fjölmiðla. Auk þeirra fengu Birtingur útgáfufélag (sem gaf út Mannlíf), Myllusetur ehf. (útgefandi Viðskiptablaðsins) og þrír minni aðilar styrki þrátt fyrir að hafa nýtt sér hlutabótaleiðina.
Samtals námu styrkir til fjölmiðlafyrirtækja sem þegar höfðu nýtt sér hlutabótaleiðina 266.542.284 krónum. Það þýðir að tvær af hverjum þremur krónum sem úthlutað var fara til fyrirtækja sem þegar höfðu nýtt sér stuðningsaðgerðir sem ESA hafði verið talið í trú um að fjölmiðlar gætu ekki nýtt sér.
Allt bendir til þess að úthlutunin hafi því farið fram á grundvelli rangrar upplýsingagjafar til þeirrar eftirlitsstofnunar sem ber að fylgjast með því að Ísland fari eftir þeim skuldbindingum um veitta ríkisaðstoð sem ríkið hefur undirgengist með aðild að EES-samningnum.
Fjármunum beint til valinna miðla
Vegna ákvörðunar Lilju um að tvöfalda þakið á því hvað hver og einn fjölmiðill getur fengið hækka greiðslur til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs, um tæplega 106 milljónir króna. Og greiðslur til 20 smærri fjölmiðlafyrirtækja skerðast um sömu tölu.
Fjölmiðlafyrirtækið Árvakur hefur verið rekið í botnlausu tapi árum saman. Alls nemur það tap 2,5 milljörðum króna á tæpum áratug. Tapið hefur verið greitt að mestu af útgerðarfyrirtækjum eða eigendum þeirra. Árvakur velti 3,1 milljarði króna í fyrra, en tapaði samt 291 milljón króna. Á því ári einu saman lækkaði samstæðan launakostnað sinn um 561 milljón króna, meðal annars með því að segja upp blaðamönnum. Meðalfjöldi stöðugilda hjá Árvakri minnkaði um 22 á árinu 2019. Laun stjórnenda félagsins, sem eru væntanlega framkvæmdastjóri og ritstjórar þess, lækkuðu hins vegar einungis um tvær milljónir króna, en þau námu 135,4 milljónum króna í fyrra. Því má líta svo á að ríkisstyrkurinn til Árvakurs fari í að greiða um 74 prósent af launum stjórnenda félagsins, eða um þriðjung af tapi þess í fyrra.
Tekjur af fjölmiðlum Sýnar voru 551 milljón krónum lægri á fyrri hluta yfirstandandi árs en á sama tíma í fyrra. Ef miðað er við fyrri hluta ársins 2018 voru tekjurnar 637 milljónum krónum minni nú en þá. Í upphafi árs 2020 var viðskiptavild, sem var tilkomin vegna fjölmiðlanna sem voru keyptir, lækkuð um 2,5 milljarða króna. Uppsagnir hafa verið töluverðar.
Hópur undir forystu Helga Magnússonar keypti Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, í fyrra. Félagið tapaði 212 milljónum króna á því ári og miðað við að útgáfudögum fríblaðsins hefur þegar verið fækkað um einn á þessu ári má telja ljóst að reksturinn hafi verið áskorun áfram, sérstaklega þar sem Torg hefur tekið yfir tvö önnur fjölmiðlafyrirtæki sem hafa samanlagt tapað mörg hundruð milljónum króna á örfáum árum.
Þessir þrjú fjölmiðlafyrirtæki, sem reka ósjálfbæra fjölmiðlastarfsemi með tilheyrandi bjögun á samkeppnisumhverfi, voru verðlaunuð með því að 64 prósent af allri upphæðinni sem deilt var til einkarekinna fjölmiðla rann til þeirra.
Minni skertir, en sá stærsti ekki
Það skal tekið fram að heilt yfir þá er gott að það skref hafi verið stigið að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Þeir eru, stórir sem smáir, mikilvægir lýðræðinu og hafa sýnt það í verki undanfarin misseri hversu stóru hlutverki þeir þjóna í gangverki samfélagsins. Líka þeir sem nefndir voru hér að ofan, þar sem starfa margir frábærir blaðamenn.
Það er því af auðmýkt sem Kjarninn tekur við sínum hluta styrkjagreiðslna og við heitum því að nýta allt það fjármagn til að efla starfsemi okkar, almenningi til heilla.
Framhjá því verður hins vegar ekki litið að þegar horft er á úthlutun styrkjanna heildrænt þá vinnur hún fyrirtæki eins og okkar meiri skaða en gagn. Vegna ótilhlýðilegra röskunar á samkeppni.
Brugðið er fæti fyrir miðla í vexti og sjálfbærum rekstri með því að verðlauna óráðsíu samkeppnisaðila langt umfram allt efni, og í andstöðu við leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar.
Birtingarmynd þessarar óbilgirni er meðal annars sú að hámarksúthlutun til smærri miðla var skert um þriðjung. Í stað þess að viðkomandi miðlar myndu fá 25 prósent af ritstjórnarkostnaði endurgreiddan þá fengu þeir rúmlega 17 prósent, vegna þess að heildarumfang umsókna var umfram þær 400 milljónir króna sem voru til úthlutunar.
Árvakur, útgáfufélags Morgunblaðsins, skertist hins vegar ekkert. Félagið fékk 99,9 milljónir króna í úthlutun, sem var hámarksgreiðsla samkvæmt frumvarpinu. Sýn skertist lítið og fékk 91 milljón króna.
Valdabarátta
Það mátti auðvitað búast við þessari niðurstöðu, þótt að vonast hefði verið eftir meiri heilindum og minni tækifærismennsku á grundvelli valdabaráttu á kosningaári. Það var misráðin von og í ljósi þess að undirritaður hefur lengi barist fyrir því opinberlega að fjölmiðlaumhverfið yrði styrkt með almennu styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd þá verður að segjast að líklega hefði verið betur heima setið, því miður.
Nú er þetta hins vegar staðan. Stjórnmálastéttin hefur sýnt á spilin og áhugavert verður að fylgjast með framhaldinu þegar möguleg brot íslenskra stjórnvalda á reglum um ríkisaðstoð enda inni á borði ESA, og eftir atvikum íslenska Samkeppniseftirlitsins, að nýju, enda virðist sem samþykkt ESA á útgreiðslu styrkjanna byggi á rangri upplýsingagjöf úr hendi hins opinbera. Afleiðing styrkjagreiðslanna er augljóslega ótilhlýðileg röskun á samkeppni.
Á endanum ræður almenningur þó alltaf hvaða fjölmiðla hann fær. Hann er fullfær um að sjá þessar aðgerðir fyrir það sem þær eru, meta hvort vilji sé til að styðja við þá sem hafa raunverulega metnað til að veita aðhald, segja satt og rétt frá og standa alltaf með almannaheill gegn sérhagsmunum.
Og sjá í gegnum þá sem gera að uppistöðu hið gagnstæða.
Takk fyrir stuðninginn. Við höldum áfram.