Íslenska krónan hefur tapað allt að 20 prósent af verðgildi sínu gagnvart helstu gjaldmiðlum á þessu ári. Afleiðingar þess eru margskonar. Sú sýnilegasta fyrir heimili landsins er að laun heimilismanna eru nú allt að 20 prósent lægri í alþjóðlegum samanburði en þau voru um áramót. Önnur afleiðing sem flestir ættu að finna fyrir er sú að matarkarfan – samansett af innfluttum vörum eða vörum sem framleiddar eru hérlendis með innfluttu hráefni – hefur hækkað verulega. Það hafa húsgögn, raftæki, bílar og fatnaður líka gert. Samandregið þá hefur veiking krónunnar gert það að verkum að virði peninganna í vösum launafólks er minna en vörurnar sem það kaupir fyrir þær eru dýrari.
Veiking krónunnar hefur líka áhrif á almenning í víðara samhengi. Seðlabankinn reynir að draga úr henni með því að selja gjaldeyri úr tæplega eitt þúsund milljarða króna varaforða okkar á millibankamarkaði. Síðastliðinn mánuð hefur hann selt tæplega 60 prósent af öllum slíkum gjaldeyri sem bankar hafa keypt. Sömuleiðis hækka erlendar skuldir ríkissjóðs, og fyrirtækja í opinberri eigu, samhliða veikari krónu.
Krónan kemur í veg fyrir að ýmiskonar erlend þjónusta, til dæmis fjármálaþjónusta sem gæti aukið samkeppni hérlendis og bætt hag neytenda, hefji innreið á íslenskan markað. Þannig tryggir hún fákeppni og samþjöppun valds innan þeirra markaða sem almenningur þarf að versla við, og er í einhverjum tilvikum skikkaður til með lögum.
Fjárfestarnir sem við heillum
Þá er auðvitað ótalið að vaxtakostnaður er alltaf hærri í krónuhagkerfinu en á stærri gjaldmiðlasvæðum, jafnvel þótt vextir séu nú sögulega lágir. Það hefur áhrif á kostnað heimila við að taka lán og getu fyrirtækja til að ráðast í arðbærar fjárfestingar.
Fyrir utan að erlendir fjárfestar hafa flestir lítinn sem engan áhuga á að taka þá viðbótaráhættu sem fylgir því að færa peninganna sína inn í krónuhagkerfið til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Það segir ákveðna sögu að umfangsmesta erlenda fjárfestingin sem hefur komið inn í landið á undanförnum áratugum var frá áhættusæknum hrægammasjóðum sem margir hverjir margfölduðu ágóða sinn vegna gengis íslensku krónunnar.
Flestir íslenskir sprotar sem þó ná í fjárfestingu flytja sig á endanum annað, að minnsta kosti að hluta, þegar ákveðinni stærð er náð. Langt í burtu frá krónunni. Þeir allra eftirsóknarverðustu, með allra bestu hugmyndirnar, ná í fjárfestingu þrátt fyrir krónuna, aldrei vegna hennar. Þetta er saga sem nær allir alvöru þáttakendur í íslenskum hugvitsgeirum segja. Að ekkert eitt standi fastar í vegi fyrir því að hinum margumtöluðu eggjum í körfu íslensks efnahagslífs fjölgi og gjaldmiðillinn sem við notumst við. Samsetning fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands er vitnisburður um þetta. Þar er að uppistöðu um endurskipulögð þjónustufyrirtæki að ræða. Langstærsta hugvitsfyrirtækið á íslenska markaðinum er nú líka skráð í annarri kauphöll. Svo það geti fjármagnað áframhaldandi vöxt.
Að endingu má benda á að vilji stjórnvalda til að lokka hingað erlenda sérfræðinga til að starfa í fjarvinnu verður seint að veruleika á meðan að þessir sérfræðingar, eða aðrir sem hafa tekjur í öðrum gjaldmiðlum, geta ekki einu sinni tekið íslensk húsnæðislán vegna þess að þeir fá ekki borgað í íslenskum krónum.
Þetta er ekki tæmandi upptalning á þeim skaða sem krónan veldur.
Stóru fyrirtækin taka ekki þátt
Stærstu fyrirtæki landsins eru fyrir löngu búin að átta sig á þessu. Og spila á sveiflur krónunnar. Á þriðja hundrað íslensk fyrirtæki gera nefnilega upp í öðrum gjaldmiðlum en íslensk krónunni. Flest þeirra eru eignarhaldsfélög eða félög í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Langflest þeirra gera upp í evrum eða dölum. Þannig losa umrædd fyrirtæki sig við þá áhættu sem fylgir sveiflum íslensku krónunnar. Þau taka einfaldlega ekki þátt í henni á tekjuhliðinni.
Þessi staða var til umræðu á Alþingi í febrúar 2018, þegar þingmaður spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort honum þætti réttlætanlegt að „að íslenskur almenningur og þorri íslenskra fyrirtækja þurfi að búa við krónuna og fylgifiska hennar sem eru háir vextir og verðtrygging? Á meðan geta stórfyrirtæki og auðmenn kosið skjól annarra gjaldmiðla á sama tíma og þeir njóta góðs af háum vöxtum og verðtryggðu fjármagni. Telur fjármálaráðherra að nú séu aðstæður til að hefja á ný umræðu um framtíðartilhögun gjaldmiðilsmála með hugsanlegri upptöku stöðugri gjaldmiðils á borðinu í ljósi þess að núverandi stefna gengur ekki upp?“
Atvinnuleysið er komið
Í svörum Bjarna birtust helstu rökin sem sett eru fram fyrir íslensku krónunni. Að hún sé svo sveigjanleg. Á mannamáli þýðir það að hún gæti veikst hratt og mikið til að auka samkeppnishæfni útflutningsgreina þegar efnahagsástandið tekur dýfu. Vanalega fylgdi þessu aukin verðbólga. Það gerðist til dæmis eftir hrunið.
Í þeirri samkeppnishæfni felst að laun Íslendinga verða mun lægri í alþjóðlegum samanburði og þeir sem flytja út vörur eða þjónustu fá fleiri krónur fyrir þegar þeir skipta dollurum eða evrum hjá Seðlabanka Íslands. Helsti kosturinn við þetta er talinn vera sá að þá er hægt að taka út aðlögunina eftir gerð hagstjórnarmistök með því að velta kostnaðinum af henni á launafólk án þess að atvinnuleysi láti á sér kræla.
Þessi rök eiga augljóslega ekki við í dag. Nú er krónan að veikjast verulega en samt er atvinnuleysi í sögulegum hæðum. Á þriðja tug þúsund manns eru án atvinnu. Þar af hafa tæplega fjögur þúsund manns verið atvinnulaus í ár eða meira. Spár Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir því að atvinnuleysið aukist nokkuð í október og nóvember, fari úr 9,8 prósent í 11,3 prósent. Það er umtalsvert meira atvinnuleysi en mælist innan Evrópusambandsins, þar sem það var 7,4 prósent í lok ágúst, eða í Bandaríkjunum, þar sem það var 7,9 prósent í lok september.
Þetta ástand kemur verst niður á konum, ungu fólki og erlendum ríkisborgurum, en í síðastnefnda hópnum er atvinnuleysi yfir 20 prósent. Sérfræðingar hafa bent á að kreppan geti aukið ójöfnuð ef ekkert verði að gert, auk þess sem hætta er á félagslegri einangrun á meðal viðkvæmra hópa samfélagsins. Jaðarsetning er í kortunum. Og hún er langtímavandamál.
Krónan bjargar engu í þeim efnum, þótt hún muni mögulega, kannski, hjálpa til við að minnka atvinnuleysið hraðar þegar eftirspurn eykst að nýju. Hvenær sem það verður.
Eftir standa naktir sérhagsmunir
Það er ekki skynsamlegt fyrir 366 þúsund manna samfélag að halda úti eigin gjaldmiðli. Nærtækast væri að taka upp gjaldmiðilinn sem er notaður á okkar helsta viðskiptasvæði, um 500 milljóna manna markaði Evrópusambandsins, sem Ísland er þátttakandi á í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Þegar venjulegu rökin um að „sveigjanleiki krónunnar“ komi að minnsta kosti í veg fyrir atvinnuleysi halda ekki lengur þá standa einungis eftir naktir sérhagsmunir þeirra sem hagnast af þessu kerfi. Hópanna sem hafa betri aðgengi að upplýsingum, tækifærum og peningum annarra í gegnum nálægð sína við ríkjandi valdakerfi og hagnast á þeirri nálægð. Krónan er því valdatæki í sjálfu sér.
Ef einhverjir ætla að benda á uppsveiflu síðustu ára sem rök fyrir krónunni þá má benda þeim á að í grunninn var hún sköpuð með fjármagnshöftum, sem fáir geta sagt að sé heilbrigðismerki fyrir efnahagskerfi. Gjaldeyrir flæddi inn í landið, aðallega frá erlendum ferðamönnum sem hófu að koma hingað til lands í áður óþekktu magni, en lítið sem enginn gjaldeyrir fór út úr landinu á saman tíma vegna hafta. Lífeyrissjóðir landsmanna voru nýttir með valdi til að endurfjármagna atvinnulífið vegna þess að höftin gáfu þeim einfaldlega enga aðra fjárfestingakosti.
Óheilbrigði
Samhliða var ráðist í glórulaus útboð á vegum Seðlabanka Íslands þar sem nánast hver sem er gat fengið að skipta erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur með stórkostlegum afslætti, án þess að þurfa að gera almennilega grein fyrir því hvaðan peningarnir voru upprunnir, svo lengi sem viðkomandi hefði bara aðgengi að nægilega miklu fé. Rökstuddur grunur er uppi um að hluti þeirra fjármuna sem rötuðu inn í landið eftir þessari leið hafi verið „þvegið“ fé sem var ólöglega aflað, til að mynda með því að svíkja undan skatti á Íslandi eða með því að fela það í skattaskjólum fyrir réttmætum kröfuhöfum. Með því að eiga gjaldeyrisviðskipti við Seðlabanka Íslands fékkst heilbrigðisvottorð á þessa skítugu peninga.
Þegar þessi veisla stóð sem hæst, árið 2015, gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við helstu kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir myndu greiða svokallað stöðugleikaframlag gegn því að fá að klára gerð nauðasamninga og geta í kjölfarið greitt út þá peninga sem þeir áttu fasta í þrotabúum bankanna.
Í samkomulaginu fólst, í einföldu máli, að kröfuhafarnir skildu eftir nær allar krónueignir sínar gegn því að fá að fara með erlendar eignir þrotabúanna. Krónueignirnar, stöðugleikaframlögin, runnu til ríkisins. Báðir aðilar högnuðust vel á samkomulaginu. En það verður seint kallað eðlileg og góð hagstjórn að koma ríki í þá stöðu sem Ísland þurfti að leysa úr á þessum árum. Stöðu sem kallaði meðal annars á fjármagnshöft í rúmlega átta ár.
Þetta voru einstakir atburðir og afleiðing af óráðsíu fyrirhrunsáranna, sem knúði Ísland til að beita fordæmalausum neyðarrétti svo hægt yrði að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot.
Góðar hugmyndir en vond framkvæmd
Síðasta stóra barátta almennings fyrir umbótum á íslensku valdakerfi varð eftir bankahrun. Þjóðin kaus fyrstu hreinu tveggja flokka vinstristjórnina til að leiða hana á sama tíma og nær gjaldþrota ríkissjóður barðist við hyldjúpa efnahagslægð og endurskipulagningu á fjárhag heimila og fyrirtækja.
Sú ríkisstjórn var með margar réttu hugmyndirnar. En útfærði þær nær allar á rangan hátt og endaði sem draghölt minnihlutastjórn með lítið á framfara afrekaskránni, verulega löskuð af innanflokksátökum og stanslausu stríði við valdakerfin í samfélaginu sem hún ætlaði að breyta.
Í stuttu máli þá stóðu valdakerfin atlöguna af sér. Það tókst að koma í veg fyrir almennilegar breytingar á sjávarútvegskerfinu og það tókst að koma í veg fyrir stjórnarskrárbreytingar. Það tókst að koma í veg fyrir að viðræður við Evrópusambandið yrðu kláraðar svo að niðurstöður þeirra gætu verið lagðar í dóm almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar gömlu valdaflokkarnir, sem smíðuðu íslensku kerfin, tóku aftur við valdataumunum sem þeir hafa meira og minna haldið á í gegnum fullveldissögu Íslands, varð ofangreint allt saman „pólitískur ómöguleiki“.
Alla tíð síðan er eins og stjórnmálamenn sem styðja stórtækar kerfisbreytingar á borð við sanngjarna skiptingu á arðsemi þjóðarauðlinda, sem vilja nýjar grundvallarleikreglur í samfélaginu sem taki fyrst og síðast mið af hagsmunum heildarinnar og sem sjá það líkt og allir sem kunna að reikna að krónan er gjaldmiðill fámenns valdahóps en ekki almennings, hafi skort úthald og þor til að berjast af krafti fyrir þessum sjálfsögðu og skýru réttindum þorra fólksins í landinu.
Nýleg greinarskrif benda til þess að vonandi sé breyting þar á, og að meintir umbótasinnar, sem staðsettir eru víða í hinum stjórnmálalega litrófi, fari að hætta að skammast sín fyrir að vilja alvöru kerfisbreytingar.
Vonandi skilar það alvöru valkostum sem þjóðin fær að taka skýra afstöðu til. Þar má byrja á gjaldmiðlamálum.