Fordómar hafa ýmsar birtingarmyndir. Þeir geta lýst sér í ágengri hegðun gagnvart fólki, þeir geta lýst sér í útilokun einstaklingsins sem um ræðir og þeir geta komið fram í svokölluðu öráreiti.
Flestir skilja þegar talað er um augljósa fordóma; þá sem engum dylst að eigi sér stað – að manneskja með dökka húð eða „öðruvísi“ útlit verði fyrir aðkasti og áreiti einungis vegna þess.
Fordómar sem lýsa sér í útilokun má sjá hér á landi, til að mynda þegar fólk af erlendum uppruna hefur ekki sömu tækifæri og Íslendingur á vinnumarkaðnum. Rannsóknir sýna að konur af erlendum uppruna geta síður nýtt menntun sína í störfum á Íslandi en karlar af erlendum uppruna og innlendir einstaklingar. Rannsóknirnar hafa jafnframt sýnt að jafnvel þær konur sem eru í störfum þar sem þær geta nýtt sérþekkingu sína upplifa oft neikvæð viðhorf sem hafa meðal annars áhrif á framgang þeirra í starfi.
Fólk af erlendum uppruna hefur einnig greint frá því að það upplifi fordóma vegna þess að það talar ekki íslensku – eða talar bjagaða íslensku. Ástæður þess að fólk sem hingað kemur talar ekki íslensku geta verið margar – og hafa ýmsir sagt frá reynslu sinni varðandi þá fordóma sem þeir verða fyrir þegar þeir reyna að tjá sig á íslensku. Þarna verðum við að hafa rými fyrir „alls konar“ íslensku eða eins og Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur hefur orðað það: „Við þurfum að auðvelda útlendingum að læra íslensku og nota hana á öllum sviðum, og við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslenskunotkun, þótt framburður sé ekki fullkominn, beygingar vanti stundum og setningagerðin sé óhefðbundin. Íslenska er alls konar.“
Afskipti lögreglu – aftur og aftur
Fordæmalausir atburðir áttu sér stað í vikunni þegar lögreglan hafði afskipti af 16 ára dreng í tvígang, dag eftir dag, vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufangi sem slapp úr haldi lögreglunnar í vikunni. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu eins og umræddur strokufangi en hann var handtekinn í nótt.
Móðir drengsins segir í samtali við Kjarnann að hann hafi verið í algjöru áfalli eftir fyrra skiptið sem átti sér stað í strætó á þriðjudaginn. Hún hélt honum heima um kvöldið og um morguninn hringdi hún í vinnuveitanda hans og bað um frí fyrir hann því hann væri ekki í stakk búinn til að mæta í vinnuna eftir áfallið daginn áður.
Raunum þessa 16 ára drengs var ekki lokið. Lögreglan mætti aftur á svæðið, í annað sinn, þegar mæðgin gæddu sér á bakkelsi í bakaríi í Mjóddinni í gærmorgun.
Vill geta verið með vinum sínum úti án þess að löggan stöðvi hann
Í myndbandi sem Kjarninn hefur undir höndum má sjá viðbrögð lögreglunnar og móður drengsins en hún var í miklu uppnámi að reyna að útskýra fyrir lögreglunni hvaða áhrif þessi afskipti hefðu á hann. Hún spurði lögreglumennina sem mættu á svæðið hvað hann þyrfti að gera til að sleppa við slík afskipti og kallaði þau áreiti af völdum fordóma.
Af umræðum á netinu má sjá að margir fordæma þessi vinnubrögð lögreglunnar. Lýsa yfir vanþóknun sinni og óska eftir öðrum verklagsreglum. Ekki sé forsvaranlegt að lögreglan hafi afskipti að sama drengnum ítrekað, einungis vegna húðlitar hans og hárgreiðslu.
Drengurinn sjálfur vildi koma á framfæri skilaboðum í samtali við Kjarnann: „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“
Já, að geta gengið um göturnar án þess að eiga það á hættu að lögreglan stoppi mann er greinilega orðið að forréttindum.
Ríkislögreglustjóri hvatti til varkárni
Í yfirlýsingu sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sendi frá sér eftir fyrra atvikið í strætó kom fram að ríkislögreglustjóra þætti leitt að drengurinn hefði orðið hluti af þessum aðgerðum lögreglu en ábending hefði borist um að hann væri sá sem var lýst eftir, sjálfur hafði drengurinn ekkert unnið sér til saka.
Þá hvatti embættið til varkárni í samskiptum um þetta mál og önnur mál sem tengjast minnihlutahópum. „Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta við að samferðafólk þeirra tilkynni það til lögreglu án tilefnis,“ segir í tilkynningunni.
Þá kom fram hjá ríkislögreglustjóra að fordómafullar athugasemdir yrðu áfram fjarlægðar af miðlum lögreglunnar um málið og lokað yrði fyrir frekari athugasemdir. Ábendingar sem tengjast málinu skyldu þó eftir sem áður berast lögreglunni í síma 112.
Þessi yfirlýsing skilaði ekki tilætluðum árangri – augljóslega.
Móðirin sjálf sýnir því skilning að lögreglumennirnir sem komu á vettvang í bakaríinu séu að vinna vinnuna sína en segir að þetta sé þó ekki í lagi. Finna verði lausn á þessu svo að slíkar uppákomur eigi sér ekki stað ítrekað og svo að fólk með ákveðið útlit geti um frjálst höfuð strokið. Hún segir að sonur hennar sé fangi á eigin heimili.
Niðrandi orðalag viðhaft um varaþingmann
Þetta er ekki eina dæmið um íslenska fordóma sem komið hefur upp á undanförnum vikum. Ekki er lengra síðan en nú um páskana að Kjarninn þurfti að fjarlægja frétt af miðlinum vegna hatursfullrar orðræðu í garð viðmælanda.
Á föstudaginn langa birti Kjarninn viðtal við Lenyu Rún Taha Karim um það sem hún þurfti að ganga í gegnum sem varaþingmaður vegna uppruna síns. Nokkrum dögum síðar var frétt unnin upp úr viðtalinu og henni deilt á samfélagsmiðlum í kjölfarið. Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, sá sig knúinn til að bregðast við hatursfullum ummælum á samfélagsmiðlum við fréttina á páskadag.
„Þegar hluti af viðtalinu var tekinn úr stærra samhengi í frétt urðu til viðbrögð á samfélagsmiðlum sem ég, sem ábyrgðarmaður alls efnis sem birtist á Kjarnanum, sá ekki fyrir. Viðbrögð sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu. Ömurleg ummæli sem mig setti hreinlega hljóðan við að lesa.
Frétt úr viðtalinu var því farin að framkalla það sem viðtalið var að gagnrýna. Með því bjó ég til aðstæður gagnvart viðmælanda sem treysti okkur fyrir sögu sinni sem létu hana verða fyrir því sem hún var að gagnrýna. Það er ekki í lagi.
Við brugðumst við með því að eyða út ömurlegustu ummælunum sem birtust á okkar samfélagsmiðlasíðum og loka svo fyrir ný ummæli. Síðdegis í dag var ljóst að það dugði ekki til. Því tók ég þá ákvörðun að eyða út deilingum fréttarinnar og taka hana úr birtingu,“ segir í yfirlýsingu ritstjórans.
Lenya lýsir sjálf áhrifum þess að verða fyrir slíkri orðræðu í viðtalinu. „Þetta hrúgast inn alltaf þegar ég er í fréttum. Fyrst um sinn þá leiddi ég þetta hjá mér. Ég opnaði umræðuna og allt það en þetta skar mig ekki of djúpt. En svo varð þetta svo ótrúlega mikið. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tilfinningunni, ég fann sjálfa mig vera að leka niður, ég gat ekki meir.“
Þannig er kristaltært að hatursfull ummæli hafa áhrif á fólkið sem þau beinast að.
Ráðherra í vanda
Annað dæmi sem skók íslensk samfélag voru ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra þegar hann vísaði í framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, Vigdísi Häsler, sem þá „svörtu“ í gleðskap í tengslum við Búnaðarþing í byrjun apríl. Hann baðst síðar afsökunar á ummælum sínum og átti fund með Vigdísi þar sem þau, samkvæmt henni, gengu sátt frá borði.
Hann forðaðist þó að tala um málið við fjölmiðla og svaraði til að mynda aldrei fyrirspurnum Kjarnans um málið. Hann ræddi málið aldrei á Alþingi þrátt fyrir háværa kröfu þar um. Það urðu engar pólitískar afleiðingar fyrir Sigurð Inga sem gefur ákveðna vísbendingu um normalíseringu orða hans.
Þarna brugðust stjórnmálin fólki sem dökkt er á hörund og gaf vatn á myllu þeirra sem viðhafa slíka orðræðu og líta á hana sem eðlilegan hlut.
Ísland þarf að gera upp fortíðina
Öráreiti eða leyndir fordómar finnast nefnilega víða í íslensku samfélagi og slíkir fordómar eru ekki síður slæmir þrátt fyrir að sumum virðist þeir sakleysislegir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi og frambjóðandi Sósíalistaflokksins lýsir þessu vel í nýlegu viðtali á Hringbraut. Þar talaði hún um sína eigin reynslu og þörfina á uppgjöri við rasisma í íslensku samfélagi. Hún vísar í umræðu um þau ummæli sem Lenya Rún hefur mátt þola á samfélagsmiðlum.
„Það er náttúrulega rosalegt að sjá það sem Lenya hefur upplifað og þurft að ganga í gegnum og mikilvægt einmitt að samfélagið fjalli um rasisma í víðu samhengi. Það sem ég hef upplifað í gegnum tíðina, að þá hefur verið svona alls konar, verið að spyrja mig hvaðan ég sé og hvort ég sé ættleidd – og fólk að hrósa mér fyrir góða íslenskukunnáttu. Þetta svona stanslausa áreiti – svona öráreitni.“
Sanna segir að Ísland eigi eftir að gera upp heilmikla sögu varðandi rasisma.
„Það þarf að eiga sér stað þannig að við þurfum að tala miklu meira um rasismann sem er á Íslandi, ekki bara þegar hann á sér stað heldur líka að við séum sífellt að tala um þetta og gera þetta upp – ekki bara sem viðbragð heldur hvernig við getum einmitt búið til gott samfélag sem tekur á móti og gerir ráð fyrir því að við séum alls konar. Og líka að stjórnvöld séu að gera ráð fyrir fjölbreyttum hópum einstaklinga,“ segir hún.
Erlendir ríkisborgarar jaðarsettir
Það er ekki að ástæðulausu að mikilvægt sé að takast á við þessi vandamál. Íslenskt samfélag hefur á skömmum tíma breyst gríðarlega vegna fjölgunar erlendra ríkisborgara. Erlendir ríkisborgarar sem hér búa voru 55.982 um síðustu mánaðarmót, eða 14,8 prósent íbúa landsins. Í árslok 2009 voru þeir 21.660, eða 6,8 prósent landsmanna. Þeim hefur fjölgað um 34.322 á þessum tólf árum eða nánast um alla íbúa Hafnarfjarðar og Seltjarnarness samanlagt. Erlendir ríkisborgarar voru sömuleiðis ábyrgir fyrir rúmlega 57 prósent af allri fólksfjölgun sem varð á Íslandi á þessu tímabili.
Margir þeirra eru jaðarsettir bæði félagslega og efnahagslega. Í könnun sem gerð var af Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sem birt var fyrr á þessu ári kom fram að þrír af hverjum fjórum svarendum ættu erfitt með að ná endum saman í lok árs 2021. Mest hefur staðan versnað hjá innflytjendum en 46 prósent þeirra sögðust eiga erfitt með að ná endum saman við síðustu árslok. Sambærilegt hlutfall nam 35 prósentum í lok ársins 2020.
Það kom því mörgum á óvart þegar ný lífskjararannsókn Hagstofu Íslands var birt í síðasta mánuði, sem sýndi að þeim heimilum sem ættu erfitt með að ná endum saman hefði fækkað í fyrra og hefði hlutfallslega aldrei verið færri. Eftir umleitan Kjarnans kom þó í ljós að erlendir íbúar voru næstum helmingi ólíklegri til að svara spurningum en aðrir sem valdir voru í rannsóknina. Þegar leitað var upplýsinga um hvort lífskjör þeirra sem svöruðu könnuninni væri mismunandi eftir bakgrunni þeirra fékkst það svar að slíkt væri ekki rannsakað sérstaklega. Svör væru þó vigtuð til að reyna að endurspegla samsetningu aldurs, kynja, bakgrunns og heildarlauna í samfélaginu.
Af þessu má ráða að þeir sem hafa það einna verst í samfélaginu okkar, en tilheyra þeim þjóðfélagshópi sem er ábyrgur fyrir þorra þeirrar fjölgunar sem átt hefur sér stað innan þess á undanförnum árum, séu lang ólíklegastir til að svara könnunum. Þar af leiðandi kemur afstaða þeirra ekki fram. Af þessu má ráða að hér ríki innbyggð kerfisleg mismunun.
Breytingar verða að eiga sér stað núna!
Þannig að nú er kominn tími til að við sem búum í íslensku samfélagi tökumst á við okkar eigin fordóma – því við getum öll litið í eigin barm. Við erum flest, ef ekki öll, haldin fordómum af einhverju tagi þrátt fyrir að við gerum okkur ekki grein fyrir því. Það er komið að því að við gerum upp fortíð okkar sem er lituð af fordómum gagnvart fólki sem er með annað litarhaft en hinn „hefðbundni“ Íslendingur, með öðruvísi ættarnafn eða hreim, og það er komið að því að við breytum hegðun okkar.
En það á ekki einungis við um almenning – okkur fólkið í landinu. Íslenskt samfélag þarf í heild sinni að breyta um stefnu. Það er ekki síður mikilvægt að stjórnmálamenn hugsi sinn gagn varðandi þessa hluti. Stofnanir þjóðfélagsins á borð við lögreglu, skólakerfi, Útlendingastofnun, dómskerfið og atvinnulífið verða jafnframt að girða sig í brók og taka málin af meiri festu.
Því breytingar verða að eiga sér stað fyrir fólkið sem lifir við fordómana – ekki eftir fimm ár eða tíu ár heldur núna. Á meðan núverandi ástand er viðvarandi þá lifir fólk af erlendum uppruna, fólk með dökkan húðlit eða erlent ættarnafn við mismunum sem leiðir af sér vanlíðan sem er ekki sæmandi í lýðræðislegu opnu fjölmenningarsamfélagi. Þannig viljum við ekki vera – þannig viljum við ekki lifa.
Þetta verður að breytast núna svo allir geti lifað með sömu virðingu.