Tveir þeirra stjórnmálaflokka sem valdir voru til að leiða þjóð í kórónuveirufaraldursþynnku í september í fyrra sjá fram á að sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag verði að hluta til nýttar til að refsa þeim. Ef horft er á fylgi stjórnarflokkanna þriggja; Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, í höfuðborginni þá mældist það samanlagt 34 prósent í nýjustu könnun Prósent fyrir Fréttablaðið. Til að setja það fylgi í samhengi þá fengu Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur samtals 49 prósent atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum í þingkosningunum síðasta haust þegar 34.657 borgarbúar kusu þá. Ef þátttakan í borgarstjórnarkosningunum um komandi helgi verður svipuð, og niðurstaðan í takt við könnunina, má ætla að stjórnarflokkarnir tapi yfir tíu þúsund atkvæðum.
Framsóknarflokkurinn er sá stjórnarflokkur sem kemur sterkastur út úr þessari stöðu, en hann mælist á mjög svipuðum slóðum og hann var í fyrrahaust. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru hins vegar í miklum vanda.
Sá fyrrnefndi hefur aldrei mælst með jafn lítið fylgi í stórri fylgiskönnun í Reykjavík, eða með 16,3 prósent. Í niðurbroti á könnun Prósents kemur fram að einungis 66 prósent þeirra sem kusu flokkinn síðast ætli að gera það aftur, fylgi hans í yngsta aldurshópnum (18-24 ára) mælist einungis sex prósent, hjá 25-34 ára mælist fylgið 14 prósent og hjá 35-44 ára mælist það tólf prósent.
Jafnvel þótt dræm kosningaþátttaka og viðbúin góð frammistaða kosningavélar Sjálfstæðisflokksins við að skila sínum eldri kjósendum á kjörstað muni sennilega tryggja meira fylgi en flokkurinn mælist með nú þá virðist samt sem áður borðleggjandi að hann á vart leið inn í borgarstjórn og fylgið verður það lægsta í sögunni. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti það að kalla á kyrfilega naflaskoðun.
Þjóð sem ætlar ekki að kyngja bankasölu
Það átta sig kannski ekki allir á því en sem stendur er Sjálfstæðisflokkurinn í feikilega sterkri stöðu á sveitarstjórnarstiginu. Hann er með 117 sveitarstjórnarfulltrúa af 405 þar sem á annað borð var kosið milli tveggja eða fleiri lista í kosningunum 2018 og með 39 prósent fulltrúa í þeim sveitarfélögum sem eru með yfir tvö þúsund íbúa.
Flokkurinn er í meirihluta í öllum sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Það má segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi sveitarstjórnarstigið að mestu utan Reykjavíkur og því kannski ekki furða að ráðamenn flokksins sú áhugalausir um bráðnauðsynlega sameiningu sveitarfélaga. Með henni glatar flokkurinn tökum á mörgum samfélagskjörnum í landinu.
Þessi sterka staða kann að breytast um komandi helgi. Könnun sem birt var í morgun sýnir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði er fallinn, þótt það standi tæpt. Ýmsar innanhúskannanir flokka benda til að staða flokksins sé fallvölt víða annarsstaðar. Hart er barist í Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ þar sem flokkurinn gæti tapað fylgi og vísbendingar eru um að fylgið í höfuðvíginu Garðabæ, heimabæ formannsins Bjarna Benediktssonar, gæti verið að dragast saman, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 62 prósent atkvæða þar árið 2018.
Alls sögðust 83 prósent aðspurðra í nýlegri könnun Prósent vera óánægð með söluna. Enginn marktækur munur var á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða menntun. Nýleg könnun Maskínu sýndi svo að 71 prósent landsmanna vantreysta nú formanni flokksins. Hann hefur aldrei mælst óvinsælli.
Í annari könnun Prósents sem birt var 27. apríl mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu 17,9 prósent og hefur aldrei mælst lægra í stórri könnun. Í niðurstöðum könnunar semGallup birti 3. maí var mældist fylgið undir 20 prósent í fyrsta sinn í könnun hjá því gamalgróna könnunarfyrirtæki. Fyrri versta niðurstaða hans var í miðjum stormi bankahrunsins 2008, þegar fylgið mældist 20,6 prósent.
Óeðlilegir viðskiptahættir
Stærsti stjórnmálaflokkur landsins er því í miklum mótbyr, svo vægt sé til orða tekið. Viðmótið sem forvígismenn og helstu raddir flokksins í þjóðmálaumræðunni sýna þessari andstöðu, sem er fullkomlega án auðmýktar og að hún byggist einfaldlega á takmörkuðum skilningi nær allra sem eru ekki á því að bankasalan hafi verið snilld, er ekki að hjálpa mikið til. Með þessu er flokkurinn að vonast til að niðurstaða stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á bankasölunni, sem er væntanleg í næsta mánuði, sýni fram á að engin lög hafi verið brotin og að hægt verði að byggja endurupprisu á þeirri niðurstöðu.
Kannanir benda þó ekki til þess að möguleg lögbrot séu ástæða óánægju þjóðarinnar. Hún telur þvert á móti að framkvæmdin hafi verið fúsk og að hún angi af spillingu. Í könnun sem Gallup gerði í lok síðasta mánaðar sögðu enda 87 prósent að illa hafi verið staðið að bankasölunni. Meira að segja 62 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins voru á þeirri skoðun. Í sömu könnun sögðust tæplega 74 prósent telja að það eigi að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir söluna en einungis rúmlega 26 prósent að úttekt Ríkisendurskoðun sé nægjanleg. Þar skáru kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig enn og aftur úr en 74 prósent þeirra vildu láta úttekt Ríkisendurskoðunar nægja.
Alls sögðust rúmlega 68 prósent landsmanna telja að lög hafi verið brotin og 88 prósent töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir.
En Sjálfstæðisflokkurinn gefur lítið fyrir kannanir. Viðbrögð forvígismanna hans við neikvæðum niðurstöðum eru að túlkanir á könnunum séu heimskulegar eða að tölfræðin sem niðurstöðurnar sýna séu ekki í takt við þeirra upplifun.
Vinstri græn í vanda
Vinstri græn eru fjarri því jafn sterk á sveitarstjórnarstiginu og bláu vinir þeirra. Flokkurinn er með níu af 405 sveitarstjórnarfulltrúum þar sem á annað borð var kosið milli tveggja eða fleiri lista í kosningunum 2018 og með rúmlega fjögur prósent fulltrúa í þeim sveitarfélögum sem eru með yfir tvö þúsund íbúa. Á höfuðborgarsvæðinu eru Vinstri græn í meirihluta með Sjálfstæðisflokki í Mosfellsbæ, þar sem þau hafa einn fulltrúa á móti fjórum hjá samstarfsflokknum, og í fjögurra flokka meirihluta í Reykjavík með þremur miðjuflokkum, þar sem Vinstri græn leggja til einn af tólf fulltrúum.
Flokkurinn er í þeirri stöðu nú að mælast með 5,4 prósent fylgi í Reykjavík fjórum dögum fyrir kosningar. Það er aðeins meira en í síðustu slíku kosningum en langt frá þeim 14,7 og 15,9 prósentum sem flokkurinn fékk í Reykjavíkurkjördæmunum í kosningunum haustið 2021. Staðan er enn flóknari þegar horft er til þess að annar vinstri flokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, er að mælast með 7,7 prósent fylgi og getur að óbreyttu með réttu áfram kallað sig stærsta vinstri flokkinn í Reykjavík.
Þegar við bætist að Vinstri græn eru að mælast með undir tíu prósent fylgi á landsvísu, að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur tapað fjórðungi þess traust sem hún mældist með skömmu fyrir jól á sama tíma og að fjöldi þeirra sem vantreysta henni hefur næstum tvöfaldast blasir við að flokkurinn er í kreppu. Sérstaklega þegar litið er til þess að hann fór í gegnum síðustu kosningar með þá einu kosningaáherslu að það skipti máli að Katrín stjórni Íslandi áfram.
Ofan á allt féll stuðningur við ríkisstjórnina um heil 14 prósentustig milli mánaða og mældist einungis 47,4 prósent. Hann hefur ekki mælst minni frá því í byrjun árs 2020.
Allt þetta sýnir að það er miklu auðveldara að tapa trausti hratt en að vinna það upp.
Fordæmi fyrir því að leiðtogar axli pólitíska ábyrgð
Nú má rifja upp sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Þegar þær fóru fram var Halldór Ásgrímsson heitinn formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann hafði setið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í ellefu ár. Í borgarstjórnarkosningunum það ár, sem fram fóru 26. maí, fékk Framsókn 6,1 prósent fylgi.
Aðrir flokkar hafa síðan beðið skipsbrot í kosningum. Samfylkingin tapaði miklu fylgi í kosningunum 2013 undir formennsku Árna Páls Árnasonar og eftir hörmulegt gengi í könnunum á árinu 2016 ákvað Árni Páll að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Í bréfi sem hann skrifaði til flokksmanna sagðist hann hafa efasemdir um að eining gæti skapast um hann sem formann og að staða flokksins samkvæmt könnunum væri óásættanleg. Oddný Harðardóttir tók við formennsku en stýrði Samfylkingunni í gegnum verstu kosningar hennar frá upphafi haustið 2016, þegar flokkurinn fékk einungis 5,7 prósent atkvæða, og aðeins þrjá þingmenn kjörna. Hún sagði af sér formennsku tveimur dögum eftir þær kosningar. Hún sagði að afgerandi niðurstöður kosninganna kölluðu á afgerandi viðbrögð.
Þá verður að rifja upp þegar Benedikt Jóhannesson sagði af sér sem formaður Viðreisnar 17 dögum fyrir kosningarnar 2017 þegar kannanir sýndu að staða flokksins var afar döpur, og núverandi formaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við.
Kostnaður þess að láta flokk hverfast um sig sjálfan
Sterkir stjórnmálaleiðtogar standa af sér erfiða tíma og umdeild mál. Bjarni Benediktsson, sem hefur nú verið formaður Sjálfstæðisflokksins í meira en 13 ár, er gott dæmi um slíkan stjórnmálamann. Hann hefur haft einstakt lag á því að standa af sér ótrúlegt magn heimatilbúinna vandræða sem hefðu mörg hver eitt og sér kostað stjórnmálamenn í flestum öðrum ríkjum í kringum okkur pólitíska framann. Þetta hefur Bjarni meðal annars gert með því að aðlaga flokkinn að sér síðasta tæpa áratuginn. Sjálfstæðisflokkurinn hverfist um Bjarna og hans áherslur, sem í felast aðallega valdafýsn og kerfisvarnir.
Þessi staða hefur þó ekki verið án kostnaðar. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur það afl í íslenskum stjórnmálum á landsvísu sem hann var. Helsta ástæðan er vantraust á Bjarna. Árangur Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum undir formennsku Bjarna hefur verið sá versti í sögu flokksins og hann er farinn að mælast nokkuð stöðugt með undir 20 prósent fylgi. Í jafn stórum og fjölmennum flokki mætti búast við að einhverjir sæju sér leik á borði og byðu upp á raunverulegan nýjan valkost við formann sem er orðinn slík byrði. Það hefur þó ekki gerst.
Það sem er að gerast er að sagan hans Bjarna er nú að elta hann uppi. Bankasalan, sem þorri almennings telur að hafi verið verulega vafasöm, orsakaði þáttaskil. Og þá hlaðast gömlu verkin upp að nýju til að auka enn á pólitíska þrýstinginn. Afhroð í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag gæti orðið síðasta hálmstráið hjá Bjarna.
Erfitt kjörtímabil framundan
En Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er líka í vanda. Flokkur hennar sem skilgreindi sig til vinstri, sem flokk umhverfis- og loftslagsmála, hernaðarandstæðing, umbótaflokk sem vildi leiða mikilvægar stjórnarskrárbreytingar, gegn spillingu og með litla manninum hefur á síðustu fimm árum gert flest þveröfugt við það sem hann segist standa fyrir.
Fjármunum hins opinbera hefur frekar verið beint í vasa velmegandi og ríkra Íslendinga en þeirra sem minna mega sín samhliða því að Vinstri græn hafa falið Bjarna Benediktssyni nær algert vald yfir mótun efnahagsstefnu ríkisstjórnar sem flokkurinn leiðir.
Hálendisþjóðgarður er fyrir bí. Ísland er órafjarri því að ná yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Formaður Vinstri grænna er nú tíður gestur á samkomum á vegum NATO, sem flokkurinn er í orði á móti aðild Íslands að, og formaður flokksins ætlar í fyrsta sinn í sögu Vinstri grænna að kjósa með stækkun hernaðarbandalagsins. Engar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskrá og ekkert sýnilegt er að gerast í þeim efnum. Vinstri græn hafa ekkert gert til að bregðast við skýrum þjóðarvilja um breytingar á sjávarútvegskerfi sem er að breyta Íslandi í fáveldi nokkurra fyrirferðamikilla fjölskyldna. Þess í stað hefur forsætisráðherra staðið með, og oftast varið, samstarfsráðherra sína úr öðrum flokkum þegar þeir verða uppvísir að lögbrotum, rasisma, elítisma, fúski, braski og frændhygli.
Fólk telur Katrínu ekki almennt vera óheiðarlega eða óréttláta en það telur hana hafa brugðist fullkomlega þegar kemur að því að taka á óheiðarleika og kerfislegu óréttlæti. Í því felast sár vonbrigði margra sem höfðu mikla trú á henni sem umbótaleiðtoga.
Sennilegast er að hvorki Bjarni né Katrín taki niðurstöðuna á laugardag, verði hún í takti við spár, til sín opinberlega. Bæði munu að öllum líkindum sitja sem fastast í sínum stólum og telja sér áfram trú um að einu nauðsynlegu skuldaskil stjórnmálamanna af þeirra stærðargráðu séu í kosningum á fjögurra ára fresti, sama hvað gengur á.
Það breytir því þó ekki að pólitískur jarðskjálfti gæti verið í uppsiglingu. Og það verða löng þrjú ár hjá ríkisstjórninni ef hún ætlar að lifa í rústum hans út kjörtímabilið.